Vöfflur í hesthúsum
sksiglo.is | Rebel | 24.01.2014 | 06:00 | Jón Hrólfur Baldursson | Lestrar 750 | Athugasemdir ( )
Eftir þrælgóða skíðaferð hjá Agli Skarðsprins þar
sem ég er að láta hana Ólöfu mína kenna eldri dóttur okkar á skíði var ákveðið að renna framhjá
hesthúsunum til þess að tékka á því hvort ungu dömurnar gætu ekki fengið að sjá einhver ho-ho.
Þegar við keyrum framhjá segir Ólöf við mig "ummm finnurðu hvað
hestalyktin er góð". Ég verð að viðurkenna það að ég er líklega með eitthvað snarbrenglað lyktarskyn því ég
finn nánast enga lykt nema að hún tengist mat á einhvurn hátt.
Ég stoppa bílinn, stekk út og þefa út í loftið eins og hundur
að leita að tík á lóðaríi og vafalaust hefur þetta verið sérstök sjón. En ég fann bara vöfflulykt. Ég
hugsaði með mér að nú hlyti ég bara alveg að vera að verða miklu ruglaðri en ég hef áður talist og sagði Ólöfu
að ég findi bara akkúrat enga lykt til að fela matargeðveiluna í mér fyrir henni ögn lengur. Það er eiginlega ekki á það
bætandi að í hvert skipti sem ég opna munninn er það annað hvort til að borða eða tala um mat og stundum hef ég það á
tilfinningunni að Ólöf hafi ekki sama áhugamál og ég. En ég læt það nú ekkert trufla sambandið hjá okkur og leiði
það bara hjá mér ef hún er að tala um eitthvað annað eins og virkilega góðum unnusta sæmir.
Þar sem ég stend og þefa út í loftið heyri ég kallað
"vilji þið ekki koma og fá ykkur vöfflur??" Í óljósri minningunni þegar ég hleyp upp að hesthúsum þá hugsaði
ég með mér að Ólöf og stelpurnar væru ennþá í bílnum og svo var ég eitthvað að velta því fyrir
mér hvort það myndi ekki örugglega vera rjómi með þessum vöfflum. En ég lét það nú ekkert stoppa mig og hélt
áfram, ég vissi að Ólöf kæmi með stúlkurnar í vöfflur og hesthúsin.
Þegar ég kem inn í hesthúsið með vöfflunum þá að
sjálfsögðu bauð ég ekki góðan daginn, ruddist að vöfflunum og fékk mér þrjú stk. með sultu, rjóma og kaffi
með. Og svo var auðvitað 7ven-up í dós og allskonar kex og kökur sem var alveg ljómandi gott og eiginlega dásamlegt að fá eftir
skíðaferðina og öll hlaupin frá bílnum upp að hesthúsunum sem stóð ennþá á miðjum veginum með dömunum
í.
Þegar ég var loksins búin að torga þessum 3 vöfflum þá
heilsaði ég nú fólkinu, þakkaði þeim fyrir og spurði hvort ég mætti gefa dömunum mínum líka smá vöfflur.
Það var að sjálfsögðu í boði. En Fríða tók það víst fram að hún hafi verið að bjóða okkur
öllum í vöfflur, ekki bara mér. Ég hef bara ekki heyrt það á öllum vöfflusæluvímuhlaupunum frá bílnum þannig
að ég kallaði á dömurnar og skipaði þeim að koma.
Unnar dáðist að því hvað ég væri duglegur að borða og
hrósaði mér í hvívetna og klappaði meira að segja fyrir mér þegar ég tróð 4 vöfflunni í andlitið á
mér. Hrikalega voru þetta góðar vöffur.
Það er alls ekki slæmt að koma í heimsókn til þeirra
Fríðu og Unnars í hesthúsin. Þarna var líka Haukur Orri sem segist vera sérstakur hestahvíslari. Ég sá það reyndar
alveg því hann hvíslaði að einum hestinum þarna " komdu nú inn í hús" og hesturinn hljóp í burtu. Þá sagði hann
mér að hann notaðist aðalega við svokallaða "öfugsálfræði" í hestahvíslinu.
Mikael Már var þarna líka og það er held ég varla hægt að
finna duglegri dreng í hestamennskunni. Líklega eru þeir vandfundnir sem eru duglegri en Mikael en hann var bókstaflega að allan tímann sem við
fjölskyldan stoppuðum hjá þeim (þegar allir voru komnir úr bílnum). Mikael var að gefa, ná í hey, klappa hestunum, tala við
þá og ég veit ekki hvað. Halli Matt var þarna líka og sýndi mér hestinn Flugdreka sem er með flugdreka á trýninu.
Ég fékk að hitta hestana Ragnar, Blakk, Flugdreka, Lýsing, Kargó, Ofsa,
Bróðir og Pólstjörnu sem voru þarna og ég hreinlega bara man ekki nöfnin á þeim öllum. Konan og börnin voru
hæstánægð með að sjá hestana og ég hæstánægður með vöfflurnar og að sjálfsögðu hestana
líka.
Það var meiriháttar að fá að kíkja á hestana og klappa
þeim aðeins og að sjálfsögðu voru vöfflurnar alveg til að toppa þetta.
Fríða og Unnar með vöfflurnar góðu.
Haukur Orri og Ragnar hestur.
Halli Matt var hress og var á leið í stuttan útreiðartúr.
Hér er Unnar að sópa og þrífa á meðan Fríða sá um vöfflugerðina.
Mikael Már sá um að gefa hestunum.
Blakkur vel fléttaður. Það er örlítill víkingafílingur yfir honum svona.
Ég skildi þennan alveg ógurlega vel þar sem hann hnusaði af vöfflunum og kíkkaði inn um dyragættina.
Þessi mynd er tekin þar sem ég stóð við vöffluborðið. Hér eru Fríða til vinstri Ólöf sem heldur á
Ellen í miðjunni, Emma stendur hjá henni og svo Haukur Orri.
Haukur Orri, Fríða og Mikael Már við vöffluborðið.
Vöfflurnar góðu.
Unnar. Mikael í baksýn.
Þessi var frekar forvitinn.
Nýgreiddur og fínn.
Síður toppur
Þessi er með stutt að framan og sítt að aftan.
Athugasemdir