Selaveisla 2011

Selaveisla 2011 Næstkomandi laugardag eða þ. 12. nóv.,  verður haldin hin árlega Selaveisla í Haukahúsinu og má fastlega búast við að 250-300 manns

Fréttir

Selaveisla 2011

Yfirkokkurinn setur samkomuna og fer yfir matseðilinn.
Yfirkokkurinn setur samkomuna og fer yfir matseðilinn.

Næstkomandi laugardag eða þ. 12. nóv.,  verður haldin hin árlega Selaveisla í Haukahúsinu og má fastlega búast við að 250-300 manns mæti á þann merka mannfagnað ef af líkum lætur. 

Þar mun dúóið Vanir menn sjá um tónlistina, eins og verið hefur mörg undanfarin ár.

Selaveislan á sér nokkuð lengri sögu en þau ár sem undirritaður hefur tengst henni, því eitthvað á þriðja áratug mun vera liðið síðan nokkrir eyjabændur (bændur úr Breiðafjarðareyjum) sem svo eru yfirleitt nefndir, ákváðu að hittast í beitningarskúr vestur á Granda og halda sjálfum sér veislu upp á gamla mátann.

Eingöngu skyldi hafa það á borðum sem ættað væri af þeirra heimaslóðum og þeir hefðu alla jafna haft til matar í æsku. Sagan segir að þegar umræðan um hina væntanlegu mataruppákomu var komin nokkuð á veg, hafi aðstandendum verið gert það fyllilega ljóst að ekki kæmi til greina að selur yrði eldaður inni á á heimili neins þeirra sem að málinu komu.

Munu eiginkonurnar hafa tekið þá ákvörðun hver fyrir sig og án nokkurs samráðs hver við aðra, því þær munu hafa verið búnar að fá einhvern nasaþef af slíku fóðri og það í fyllstu merkingu þess orðs. En karlarnir björguðu sér eins og áður segir í hæfilegri fjarlægð frá fraukum sínum, en komu að sagt er bæði seint heim og afar illa lyktandi.

 


Hvalur, hákarl, siginn fiskur og selkópur…

Eitthvað mun þetta hafa spurst út og árið eftir varð mætingin betri og ennþá betri þriðja árið. Síðan fjölgaði hratt í hópnum ár frá ári, en mesta breytingin varð líklega þegar Gummi kokkur gerðist eins konar hirðmatreiðslumaður þeira eyjabænda. Gummi sem heitir reyndar Guðmundur Ragnarsson, er fyrrverandi landsliðskokkur og sonur Ragnars Guðmundssonar eiganda veitingastaðarins Lauga-ás. Hann er breiðfirðingur, ættaður frá Vesturbúðum í Flatey og þetta mun vera 19. árið sem hann hefur aðkomu að þessari veislu. Eftir að hún var komin út úr skúrunum á tíunda tug síðustu aldar, var hún fyrst haldin í Fáksheimilinu í Víðidal, síðan í Ými sem var félagsheimili Karlakórs Reykjavíkur, en frá 2004 hefur ekki dugað minni salur en veislusalurinn í Haukahúsinu.

Guðmundur segir að selaveislan sé haldin í minningu forfeðranna og vill huga sérstaklega að því að leggja rækt við hinar gömlu og þjóðlegu matarvenjur Íslendinga.


Selspik, rengi, lambakjöt og skreið…

Mikil breyting hefur orðið á veisluföngunum í áranna rás, kynslóðin sem kom þessu öllu af stað verður sífellt fámennari, en afkomendurnir fylla skörðin og draga að fleiri og fleiri forvitna gesti og matgæðinga að krásunum. Á síðasta ári leit matseðillinn út á eftirfarandi hátt:

Villijurtagrafinn lax með grískri sólberjajógúrtsósu.
Maltsoðinn lundi á fersku salati.
Hrátt hvalkjöts-Sushi með engifer og soya.
Grillað hvalkjöt að hætti Kristjáns Loftssonar.
Grilluð útsels mjólkurkópssteik með beikoni og portobelló sveppum.
Eldreykt útsels mjólkurkópssteik að hætti Eiríks á Stað.
Súrt hvalrengi að hætti Kristjáns Loftssonar.
Súrsuð útsels mjólkurkóps-sviðasulta.
Léttsöltuð útsels mjólkurkópssteik með jarðeplamauki.
Saltað 3 ára útsels mjólkurkóps-spik.
Léttsöltuð uxabringa með hvítkálsjafningi.
Glóðasteikt lambalæri með madeira kremsósu.
Trönusiginn þorskur með hnoðmör.

 Og það verða að teljast harla litlar líkur á að hann breytist mikið á milli ára.


Gummi yfirkokkur í eldhúsinu.

Um Guðmund er það að segja að hann er yfirburðamaður á sínu sviði. Hefur um árabil rekið eldhúsið í myndveri Latabæjar, auk þess að fylgja Sagafilm í allar veigameiri kvikmyndatökur sem það fyrirtæki hefur haft aðkomu að hérlendis undanfarin ár. Hann hefur m.a. eldað fyrir James Bond við Jökulsárlón og Löru Croft upp á Vatnajökli, eða ekki ómerkara fólk en Pierce Brosnan, Angeline Jolie, Kenneth Branagh og marga aðra Íslandsvini meðan þeir hafa staldrað við á skerinu.

Eins og sjá má á meðfylgjandi myndum hér að ofan, á það sem boðið er upp á lítið skylt við hinn einfalda og þjóðlega rétt “selspik og siginn fiskur”, sem þeir sem eru komnir til vits og ára hafa margir hverjir kynnst í æsku. Það er hreint ótrúlegt hvernig selurinn, signi fiskurinn, fuglinn, hvalurinn, hákarlinn og allt hitt getur breyst í ómótstæðilega veislurétti eftir að Gummi hefur farið um þá höndum. Forsala á þennan einstæða viðburð hefur undanfarin ár verið á veitingastaðnum Lauga-ás Laugarásvegi 1, og ég veit ekki betur en svo sé einnig að þessu sinni.


Veislugestir mættir og bíða þess í ofvæni að gengið verði að hlaðborði..

Meðspilari minn Axel hefur komið víða við og á sér bæði langan og skrautlegan feril að baki í poppinu. Hljómsveitin Icecross (1973) markaði líklega fyrstu íslensku poppútrásina, en með honum í þeirri sveit voru þeir Ómar Óskarsson (Pops) og Ásgeir Óskarsson (Stuðmenn). Þeir æfðu sitt prógram sem innihélt eingöngu frumsamið þungt rokk, sigldu út með Gullfossi og gerðust hústökumenn í fríríkinu Kristjaníu. Þeir spiluðu talsvert á hinum merka tónleika og veitingastað Revolution og m.a. á móti danska stórrokkbandinu Gasoline, en í því var aðalmaðurinn sjálfur Kim Larsen.

Algengt var að erlendar hljómsveitir kæmu á þennan stað eftir tónleika til að kynna sér hina "dönsku" rokkmenningu. Axel sagði mér m.a. frá því að eitt sinn þegar hann leit upp eftir langt inproviserað gítarsóló, sat hljómsveitin "The Who" eins og hún lagði við borð næst sviðinu og fylgdist grannt með þessu íslenska bandi. Einhverju síðar eftir annað sóló sátu aðrir fjórir félagar við þetta sama borð og sperrtu eyrun. Það voru þeir Crosby, Stills, Nash og Young.

Icecross starfaði í u.þ.b. 8 mánuði og lifði því bæði hratt og stutt eins og algengt var í rokkinu á þessum tíma, en leystist síðan upp og þeir félagar komu aftur heim með Gullfossi. Þegar þeir fóru út, höfðu þeir keypt sér Dodge Carole Commando sendibíl, model 1941 með sleggjumótor.

Við heimkomuna lagði tollurinn hald á bifreiðina og mun hið verulega rokklega útlit þeirra félaga eflaust hafa átt einhvern þátt í að embættismennirnir tóku sér þrjá daga til að skrúfa bílinn í sundur stykki fyrir stykki. En þeir urðu einskis “ills” varir og urðu því að skrúfa hann saman afur.

Eftir Icecross ævintýrið fór Axel til BNA og túraði þar m.a. um nokkurra mánaða skeið með hinni einu sönnu Shady Owens eftir að hún hætti í Trúbrot.


Axel á Icecrossárunum.

Axel stofnaði hljómsveitina Tilveru (1969-1971) ásamt Engilbert Jensen sem kom úr Hljómum, Rúnari Gunnarssyni úr Dátum, Jóhanni Kristjánssyni bassaleikara úr Flowers og Ólafi Garðarssyni sem hafði m.a. verið í Óðmönnum. Ýmsir fleiri höfðu einnig viðdvöl í Tilveru s.s. Gunnar Hermannsson bassaleikari og Herbert Guðmundsson söngvari.

Axel gerðist nokkru síðar umoðsmaður Eikarinnar sem siglfirðingurinn Gestur Guðna spilaði með um tíma, en út úr henni varð til gleðibandið Deildarbungubræður. Saga þeirrar hljómsveitar er líklega talsvert öðruvísi en flestra annrra og tilkoma hennar var í upphafi bæði sérstök og afar óvænt. Hugmyndin varð til á Jökuldalnum á leið í Valaskjálf á Egilstöðum þar sem Eikin átti að spila um kvöldið. Þegar á áfangastað var komið voru menn nokkurn veginn tilbúnir með u.þ.b. 20 óæfð lög sem þeir höfðu talað sig saman um á leiðinni, en uppistaða lagalistans var laufléttir rokkslagarar settir fram af miklu af kæruleysi og glensi.

Þetta var léttflippað grin sem var hrundið í framkvæmd í bríaríi og gekk út á að allur hópurinn væri nýttur til verksins, en þeir Eikarmenn skyldu þó spila á önnur hljóðfæri en þeir gerðu alla jafna. Til dæmis settist gítarhetjan Steini Magg við trommusettið, umoðsmaðurinn Axel tók til við gítarinn og bílstjórinn lék á bassann. Eins og þeir sem þekktu til Eikarinnar vita, hefur þessi tónlistagjörningur verið eins langt frá metnaðarfullum stíl hennar hugsast getur, en grínið svínvirkaði. Um nafngiftina er það að segja, að á leiðinni austur var ekið fram hjá sveitarbæ sem heitir Deildartunga.

Meðlimirnir tóku einhverju undarlegu ástfóstri við það, en breyttu nafninu þó lítillega til að aðgreina sig frá bræðrunum sem þar bjuggu. Hið sveitalega "bomsufíl" sem hugmyndin um Deildarbungubræðraþemað gekk út á, komst þó ekkert síður til skila eftir þá breytingu. Það er skemmst frá því að segja að bandið sló gjörsamlega í gegn þegar það kom fram í pásunni. Það kom svo aftur fram þegar nokkuð var liðið á ballið, en gæðasveitin Eik komst þá ekkert meira að það sem eftir lifði dansleiksins. Eftir þetta varð ekki aftur snúið og þróaðist sveitin á sínum eigin forsendum til frægðar og frama.


Dúóið Vanir Menn árið 2008.

Axel er ágætur lagahöfundur og hans þekktasta lag er án efa hið stórgóða "Hjálpum þeim", sem hann gerði við texta Jóhanns G. Jóhannssonar úr Óðmönnum. Hann var um nokkurra ára skeið annar tveggja spilaranna í dúóinu “Vönum Mönnum” en flutti til Svíaríkis fyrir tveimur árum. Nú gerir hann sér ferð upp á klakann, m.a. til að spila í hinni árlegu Selaveislu. Hljómsveitin Vanir Menn var stofnuð árið 1988 og er ein af siglfirskari hljómsveitum sem hefur starfað utan heimabæjarins. Þar hafa ýmsir sveitungar haft viðdvöl um lengri eða skemmri tíma auk þess sem þetta ritar, svo sem Hallvarður Óskarsson, Magnús Guðbrandsson og Birgir Ingimarsson.


Og svo er dansað inn í nóttina, bæði nýju og gömlu dansana.

Texti: Leó R. Ólason

Ljósmyndir: Leó R. Ólason, nema  “Axel á Icxecrossárunum” ljósmyndari ókunnur og “Vanir menn 2008” Margrét Jónsdóttir.




Athugasemdir

22.janúar 2025

Sk Sigló ehf.

580 Siglufjörður
Netfang: sksiglo(hjá)sksiglo.is
Fylgið okkur á Facebook eða Twitter

Póstlisti

Skráðu netfangið þitt á póstlistan okkur.

Ábendingar

Ertu með ábendingu fyrir síðuna eða góða frétt? Sendu okkur þá póst og við könnum málið.

Sendu póst