Spjallað við burtfluttan Siglfirðing – Helgi Svavar Helgason

Spjallað við burtfluttan Siglfirðing – Helgi Svavar Helgason Vestur á Granda er lágreist iðnaðarhúsnæði sem lætur ekki mikið yfir sér utan frá séð, en

Fréttir

Spjallað við burtfluttan Siglfirðing – Helgi Svavar Helgason

Helgi Svavar. Ljósmyndari; BI
Helgi Svavar. Ljósmyndari; BI

Vestur á Granda er lágreist iðnaðarhúsnæði sem lætur ekki mikið yfir sér utan frá séð, en þegar inn er komið er fyrsta tilfinning líkust því að upplifa eitt af þessum ævintýrum þar sem einhver sögupersónan opnar dyr, gengur inn og er þá allt í einu stödd í öðrum og framandi heimi.

 

 

Það er komið inn í risastórann sal sem er fullur af hljóðfærum, tölvum og alls konar tilheyrandi dóti. Mér datt fyrst í hug að þarna æfðu a.m.k. 10 meðalstór rokkbönd og allir með sitt sett tilbúið, klárt og uppstillt og heilan helling til vara, en þetta er æfinga og vinnuaðstaða Helga, félaga hans í jazztríóinu Flís og Sigtryggs Bogomil Baldurssonar Sykurmola.

Horft inn í eitt hornið í æfingarhúsnæðinu


Hljómborðsdeildin skartar fjölmörgum fágætum eðalborðum


Sneriltrommuhillan


Slagverk af ýmsu tagi í húsnæðinu á Grandanum

Helgi Svavar Helgason er fæddur á Siglufirði árið 1978 og ólst þar upp. Eftir grunnskólann hélt hann til náms á Krókinn, en síðan í Garðabæinn, Hafnarfjörð, Reykjavík, til Danmerkur og svo aftur heim. Hann tók snemma þá ákvörðun að hann vildi verða tónlistarmaður þegar fram í sækti og stóð fastar og betur við hana en margur hefur getað gert. Hann er líklega sá sonur Siglufjarðar sem náð hefur hvað mestum árangri á tónlistarsviðinu og við sveitungar hans erum auðvitað stolt af okkar manni. Helgi er giftur Elsu Kristínu Sigurðardóttur og eiga þau saman tvær dætur, Ólafíu Kristínu fimm ára og Áslaugu Svövu sem verður þriggja ára í febrúar n.k. Við settumst niður á dögunum, tókum spjall saman og hann sagði mér í hæfilega stuttu máli hvað hefði á daga sína drifið.

 

Fyrstu slögin tekin á settið hjá Magga bróðir

Ég held ég hafi verið þriggja eða fjögurra ára gamall þegar ég var fyrst staðinn að því að fikta við trommusett sem Maggi bróðir hafði keypt af Dúa Ben. Mig grunar að hann hafi keypt það í von um að verða poppari, vitandi að slíkir hafa stundum meiri möguleika þegar kemur að kvenhylli en margir aðrir. Hann lærði í einhverja mánuði hjá Rabba Erlends en svo fjaraði áhuginn út. Fyrsta minningin sem tengist trommum er líklega síðan ég var sex ára, en þá var ég eitthvað að baksa við að fá þetta dót til að virka.


Á Hafnartúninu með Magga stóra bróðir

Tíu eða ellefu ára gamall er ég hins vegar farinn að æfa með headphone og kassettutæki. Ég vildi þá fara að læra á trommur í tónskólanum en það var ekki alveg að ganga því það var engan kennara að hafa. Ég fór nú samt að læra en varð að sætta mig við blokkflautu í byrjun, en skipti síðar yfir í píanó og svo rafmagnsgítar. Um það leyti var skólinn að tæknivæðast, kominn með tölvu, Cubase upptökuforrit, DAT-tæki og ég fékk svolítið frjálsar hendur með að fikta mig áfram í þessu. Ég er alveg viss um að þetta hefur reynst mér góð undirstaða fyrir það sem á eftir kom og ekkert síður það sem ég er að gera í dag.

 


Töffari á skólabalanum

En svo fékk ég að spila á trommur í Léttsveit Tónskólans sem fór m.a. í heilmikla ferð til Danmerkur og fljótlega líka með Harmonikkusveitinni. Um svipað leyti gat ég byrjað að læra eitthvað á trommur því það hafði fengist kennari sem veitti ágæta tilsögn á það hljóðfæri. Hann hét Helgi og var, ef ég man rétt, frá Ólafsfirði. Hans naut því miður ekki lengi við, því hann lést af slysförum á sviplegan hátt fáum mánuðum eftir að kennslan hófst. Þá tóku þeir við, Sveinn Hjartar, Steini Sveins og Aggi Sveins.

 

Ég var á þessum árum í hljómsveit heima sem hét Concrete, en við urðum það frægir að taka þátt í músiktilraunum. Síðan lá leiðin á Krókinn og það má segja að litlu böndin frá Sigló hafi bráðnað svolítið saman þar. Þar spilaði ég með Jónsa hans Svenna í Bás, Víði Vernharðs og nokkrum strákum af Króknum. Upp úr þessari spilamennsku verður til einhver grunnur sem hljómsveitin Daysleeper er eiginlega grundvölluð á.

 


Sennilega eftir tónleika með Léttsveitinni á skólabalanum

Ég flutti mig þó fyrr en upphaflega stóð til suður í Fjölbraut í Garðabæ og skráðist þar á nýmáladeild, en komst þó fljótlega að því að það nám hentaði mér alls ekki. Það sem hélt hins vegar í mér lífinu þarna var að það var hægt að ná í hálfgerða svindlpunkta með því að vera í einhverju algjöru aukafagi eins og kór eða annarri tónlist. Ég fór í klassík og djasskúrs og það gerði gæfumuninn.

 


Helgi á ferðalagi með foreldrum sínum á þekktum slóðum í Washington

Kennarinn minn þar hét Gerard Cinotti, franskur karl sem var orðinn íslenskur ríkisborgari og kominn með íslenskt nafn sem varð hans einkabrandari til frambúðar. Hann hét Geirharður Hróðgeirsson upp á ylhýra, en gat sjálfur ekki með nokkru móti borið nafnið sitt fram. Öll þessi grjóthörðu err og maðurinn franskur skrollari að upplagi komu algjörlega í veg fyrir það.

 

Þegar ég byrjaði í þessum kúrsum vorum við nýnemarnir látnir draga upp úr potti nafn á tveimur djassplötum sem við áttum að verða okkur úti um og skrifa síðan ritgerð um þær. Ég gat ekki lent á meiri “fríjazz” plötum en ég gerði þarna, því þær voru argasta kakófónía út í gegn og manni datt helst í hug að næsta númer við væri að reyna að spila á flygil með lúffum. Þetta voru þeir Don Pullen og Max Roach, en hjá þeim var hvorki lögð mikil áhersla á rytma eða melódíu, heldur endalausan spuna eða eitthvað allt annað en maður hafði heyrt áður.

 

Þarna held ég að hafi verið tekið eins risastórt tónlistarstökk og mögulegt er að taka án atrennu. Eða alla leið frá því að spila í harmonikkuhljómsveit Siglufjarðar og vera bara venjulegur unglingur sem hlustaði á venjulegt rokk og ról, til þess sem var fyrir mér á þessum tíma það sem vel mætti kalla ófundna tónlistarlandið.

 

Þarna kynnist ég Ómari Guðjónssyni gítarleikara sem ég hafði séð í þættinum “popp og kók” nokkrum árum áður, fannst hann alveg þrælgóður og hugsaði mér þá að ég væri meira en til í að spila einhvern tíma með þessum gaur.

 


Frá rafgítartímabilinu á Sigló

Eftir Garðabæinn lá leiðin í Iðnskólann í Hafnarfirði og ég varð svo pípari í framhaldinu af þeirri skólagöngu. Ég er ekki frá því að þar með hafi ég skorað ansi mörg prik hjá pabba, (Helga pípara) því nú voru ekki öll eggin lengur í sömu körfunni. Ef ég yrði ekki sá tónlistarmaður sem ég ætlaði mér, hefði ég alla vega gilda pappíra upp á að pípa. Meðan ég var í Iðnskólanum tók ég ákvörðun um að klára það sem ég var að læra, en ákvað jafnframt að ég vildi gera eitthvað allt annað í lífinu.

 

Áðurnefndur Ómar Guðjóns hafði sagt við mig að það væri einn skóli í landinu sem væri áberandi langbestur og hann væri hreinlega málið. Þar átti hann við FÍH og ég sótti um inngöngu en komst ekki inn sem voru mér auðvitað mikil vonbrigði. Ég fór þá að vinna á verkstæðinu hjá Magga bróður og eftir einn mánuð eða tvo í starfi var hringt í mig. Einhverjar umsóknir höfðu verið dregnar til baka eða dottið upp fyrir af einhverjum ástæðum og ég var kominn inn í FÍH. Ég hætti þá hjá Magga í einum hvelli og mætti í skólann næstum því enn þá skítugur á höndunum og með sorgarrendur undir nöglunum.

 

Um það leyti sem ég tók inntökuprófið í FÍH rakst ég inn í Japis og bað afgreiðslumann að benda mér á eitthvað rosalega gott stöff. Hann sýnir mér “A love supreme” með “John Coltrane” sem varð hreinlega eins og opinberun fyrir mér. Ég hlusta á diskinn og heyri þá í trommuleikaranum Elvin Jones sem ég var svo heppinn að fá að sjá á sviði áður en hann dó. Eftir þetta vissi ég nákvæmlega hvað ég vildi gera og verða í framtíðinni og ég ímynda mér að mér hafi liðið eins og þeim sem sjá ljósið og frelsast.

 


Við æfingar heima í stofu

Ég var orðinn átján ára þegar þarna var komið sögu og fyrstu annirnar í skólanum voru eiginlega kvöldskóli. Ég fór því að vinna í pípulögnum með náminu, en komst fljótlega að því að það var ekki alveg að gera sig. Það þurfti að æfa sig hálfan eða jafnvel allan daginn ef átti að skila því sem ætlast var til af manni og til að ná stigaprófum o.þ.h. Svo bættist það við strax í upphafi að mér var tilkynnt að ég ætti að vera í bigbandinu. Ég hafði þá aldrei lesið trommunótur sem neinu nam, en flestir sem koma þarna inn í dag eru búnir með grunn og jafnvel miðstig eins og það heitir nú orðið. Ég fór þá í einhvern áfanga þar sem ég lærði að lesa trommunótur á viku og spilaði svo í bigbandi FÍH næstu tvö árin.

 


Flís í gamla Allanum á Sigló

En þegar ég var u.þ.b. að byrja í skólanum missti ég mig algjörlega í plötubúðunum og keypti heilu söfnin og reyndar allt sem ég náði í með nokkrum völdum jazzsnillingum svo sem John Coltrane, Miles Davis o.fl. Mig minnir að ég hafi keypt eitthvað í kring um 40 diska fyrsta daginn sem ósköpin dundu yfir. Ég eyddi nánast öllum þeim launum sem ég vann mér inn með skólanum í geisladiska og kannski smá bús með. Áður en langt um leið var ég kominn með safn sem var á bilinu tvö til þrjú þúsund jazzdiskar.

 

Fljótlega eftir að ég byrja í FÍH sé ég líka jazztrommusett sem var svipað og þau sem ég hafði séð á myndböndum og coverum á plötum og ég vissi strax að þarna var eitthvað gott á ferðinni. Það var hringt norður í hvelli og sagt “pabbi, þú verður að lána mér hundraðþúsundkall í hvelli.” Auðvitað gekk það eftir og ég er enn að nota þetta sett.

 


Davíð Þór, Helgi, og Róbert gítarleikari sáu um undirleik á útgáfutónleikum Írisar í Bátahúsinu á Síldarævintýrinu 2005

Í skólanum kynnist ég frábærum eðaldrengjum sem voru líka frábærir spilarar og eru búnir að vera stórvinir mínir síðan. Þar má nefna þá Davíð Þór, Ómar gítaleikara, Valda bassaleikara, Eirík Orra trompetleikara, Róbert gítarleikara og auðvitað marga fleiri. Við spiluðum stundum saman og stundum sitt í hvoru lagi og þannig er það reyndar enn. 

 

Svo má alls ekki gleyma kynnum mínum af honum Samma sem var eitt af því mikilvægasta sem gerðist á þessum árum. Þegar ég var u.þ.b. að komast inn í skólann kom ég oft við á bensínstöð á leiðinni heim og keypti mér kaffi, mjólk, kók og prins. Það vildi þá svo skemmtilega til að hann var ótrúlega oft á ferðinni á sama tíma og ég. Ég kannaðist við hann, hafði séð hann spila í sjónvarpinu og hann kannaðist greinilega líka við mig því hann heilsaði mér alltaf. Málin þróast og við spjölluðum mikið saman þarna á bensínstöðinni, en með tímanum gat þetta spjall stundum teygst upp á marga klukkutíma. Þá var ég kominn í Funkmaster 2000 og hljómsveitin hans Jagúar var líka að verða til. Við urðum gríðarlega miklir vinir og erum það enn þann dag í dag. Hann hálfpartinn ýtti mér áfram í þennan bransa og kynnti mig fyrir stórum hópi fólks sem kom sér síðan mjög vel að þekkja.

 

Einhverju sinni sem oftar hittumst við þarna á bensínstöðinni og hann spurði mig hvort ég væri nokkuð að fara að sofa alveg strax. Auðvitað var ég ekkert að fara að sofa ef eitthvað annað var í boði og ég fór með honum niður í Sýrland, en þá hafði ég aldrei komið inn í hljóðver. Þegar þangað kom rétti hann mér hristu eða eitthvað svoleiðis, sagði mér að spila og þar með var ég kominn í alvöru upptöku í fyrsta skipti á æfinni. Þarna kynnist ég Páli Óskari og öllu liðinu í kring um hann svo og Hjörleifi trommuleikara sem er núna skólastjóri á Akureyri. Hann var að klára trommudeildina í FÍH, en kúventi síðar yfir í klassíkina og hefur verið einn af mínum bestu vinum allar götur síðan þarna um árið. Við héngum mikið saman, ég, Hjölli og Sammi, spiluðum saman í Casino, Funkmaster og stundum í Jagúar og svona einhvern vegin veltust hlutirnir áfram.

 

Það má líka alveg segja að Sammi hafi átt stóran þátt í að markaðsetja mig og í leiðinni verið sjálfskipaður umboðsmaður. Hann var að vinna við svo margt svo víða, gera strengja og brassútsetningar og allt mögulegt. Svo þegar vantaði trommara í upptökur sem oft gerðist og stundum fyrirvaralítið, þá vísaði hann á mig. Hann hringdi líka stundum og sagði að það væri útgáfupartý eða eitthvað einhvers staðar og ég ætti að koma með. Þá var gjörsamlega allur bransinn mættur á staðinn og það hjálpaði mér auðvitað alveg heilan helling. Ég var ótrúlega heppinn að hitta Samma á þessum tíma sem virtist þekkja alla, því ég var ekkert góður í að selja sjálfan mig. Ég fékk því eins mikið óskastart og hugsast getur í svona atvinnulegu tilliti.

 


Helgi á ylströndinni í Hvanneyrarkróknum heima á Sigló

Ég kláraði 6. stig í FÍH og alla áfanga nema útsetningar, en átti eftir 7. stigið og lokatónleikana þegar ég sótti um í Den Rythmiske Musik Conservatorium í Danmörku sem er alveg sjúklega vinsæll skóli. Það voru um 700 manns sem sóttu um sem nokkurs konar skiptinemar árið 2001, en aðeins einn á hvert hljóðfæri plús ein söngkona eða söngvari er tekinn inn úr allri Evrópu. Ég sendi demó með umsókninni og fór í framhaldinu út í inntökupróf. Ég fæ síðan bréf þar sem mér er tilkynnt að ég hafi komist inn og við það gjörbreytast allar mínar áætlanir. Ég fæ mikinn stuðning frá FÍH mönnum og allir eru rosalega ánægðir fyrir mina hönd. Þegar ég kem út er ég settur á fyrsta ár því þessi skóli er á háskólastigi en ekki FÍH skólinn sem er mjög skrýtið því hann er alveg sambærilegur við slíka skóla.

 

Ég var rosalega heppinn með kennara, en sá hét Ed Thigpen og spilaði lengi með Oscar Peterson tríóinu. Hann er líka merkilegur fyrir að hafa verið frumkvöðull í að nota bursta við spilamennsku. Þegar ég kem út er mér sagt að þessi sami Ed hafi valið mig sem einn af einhverjum 10 eða 20 nemendum sem hann vildi kenna. Þetta var auðvitað miklu meira en allt sem er ótrúlegt, en Ed reyndist mér vel og sömuleiðis hinn aðalkennarinn sem var trommari í danska Radiobandinu. Eftir mánuð í skólanum er ég kallaður inn til skólastjóra sem segir mér að það hafi verið ákveðið að færa mig upp á annað ár.

 

Eftir tvær vikur til viðbótar er ég fluttur aftur og nú er ég með þriðja árs nemendum sem er síðasta árið við skólann ef frá er talið mastersnám. Í þeim bekk er ég með Hauki Gröndal klarinettuleikara sem er hinn Íslendingurinn í skólanum. Við spiluðum mikið saman í skólabandi sem hét Rodent og var á freejazzlínunni. Við túruðum um allt, fórum um öll Norðurlöndin og Eystrasaltslöndin og spiluðum m.a. á Siglufirði einu sinni eða tvisvar. Með okkur var svo finnskur trompetleikari og norskur bassaleikari svo þetta var þó nokkuð samnorrænt.

 


Klezmerbandið Schpilkas

Við stofnuðum líka hljómsveitina Schpilkas sem spilaði klezmertónlist sem er polkaskotin þjóðlagatónlist, oftast er kennd við Balkanlöndin eða austur-evrópsk gyðingasamfélög. Við spiluðum alveg heilmikið í brúðkaupum og svoleiðis hjá gyðingum í Danmörku. Við tókum líka upp eina plötu sem fékk nafnið “Sey mir gesunt” og fengum tilnefningar til bæði dönsku og íslensku tónlistarverðlaunanna fyrir bestu plötuna í flokknum heimstónlist.

 

Upphaflega var stofnað til Schpilkas sem eins konar æfingaverkefnis, en þessi tónlist er hreint ótrúlega flókin en líka alveg svakalega skrýtin og skemmtileg. Í henni er að finna undarlegar takttegundir og hún verður manni eitthvað svo mikill innblástur. Við sem vorum allir á kafi í jazzinum, vorum þarna að gera eitthvað allt annað en við vorum vanir eða höfðum gert áður. Ég er alveg viss um að þetta hefur haft verulega góð og þroskandi áhrif á okkur alla og líka heilmikið um það að segja hvernig við spiluðum síðan bæði jazz og aðra tónlist.

 


Listagjörningur í Listasafni Reykjavíkur, myndlistamaðurinn Ragnar Kjartansson er hér í forgrunni. Helgi var einn þeirra sem tók þátt í sköpun verksins

Þegar ég kem heim frá Danmörku fæ ég skrýtið símtal þar sem ég er spurður að því hvort ég hafi áhuga að koma í Listaháskóla Íslands sem þá var nýbúið að setja á laggirnar. Ég get alveg viðurkennt að ég hafði svolitla fordóma gagnvart þessum skóla vegna þess að mér fannst ekki rétt staðið að stofnun hans. Upphaflega skildist mér að FÍH, Tónó, Hand & mynd og einhverjir fleiri skólar ættu að renna saman og verða Listaháskólinn, en það gerðist ekki því miður. Í stað þess virtist mér sem einhverjir snobbaðir hagsmunapotarar og smákóngar hafi komið þessari stofnun á laggirnar og byggt algjörlega á sandi í upphafi. Margra áratuga löng reynsla hinna skólanna var sniðgengin og lokuð úti í kuldanum sem gerði þetta nýja batterí að miklu verri kosti fyrir væntanlega nemendur.

 

Ég jánkaði þessu þó því ég hafði mikinn áhuga á tölvum, hljóðvinnslu, videótökum, klippivinnu og allt svoleiðis, en þarna var að fara af stað deild sem tileinkuð var raftónsmíðum og það sem kallað var Nýmiðlun. Þar var m.a. kennt að blanda saman tónlist og myndefni á hinn furðulegasta hátt. Dansarar klæddir midibúningum voru tengdir við forrit sem bjó til tónlist, sem svo aftur bjó jafnvel til myndefni og margt mjög skrýtið. Mikið var um langsótt og flókin ferli sem kölluðu á forrit sem þurfti jafnvel að búa til. Þetta var rosalega skemmtilegt fyrir tölvunörd eins og mig. Kannski var ég ekki þarna á alveg réttum forsendum, því ég leit á þetta nám sem skemmtilega og kærkomna viðbót við það sem ég hafði þegar lagt að baki.

 

Ég var þegar þarna var komið sögu, orðinn atvinnutónlistarmaður fyrir löngu síðan og hafði meira en nóg að gera. Það fór svo að ég var kallaður inn á teppið hjá stjórnendum skólans og gert ljóst að það væri illa séð að nemendur væru að spila opinberlega fyrr en þeir hefðu lokið námi. Ég sagði þeim þá að þetta væri eitt það heimskulegasta sem ég hefði heyrt, þ.e að banna músíkant að spila opinberlega, en við slíkar aðstæður öðlaðist hann ómetanlega reynslu og þroskaðist mest og best. Ég sagði þeim því að hoppa eitthvað “út í loftið eða þannig” og yfirgaf skólann.

 


Flottur

Það er þó nokkuð um fordóma í tónlist eins og eflaust er bæði alls staðar og í öllu öðru. Ég hef orðið var við að sumum FÍH nemendum finnast þeir koma úr betri skóla en ýmsir aðrir og eru lítið að fela það. Ég mundi nú vilja flokka það frekar sem einhvern skólaríg, því eflaust er líka eitthvað um að þessu sé alveg öfugt farið.

 


Trommað við altarið í Siglufjarðarkirkju

Eftir að Funkmaster tímabilinu lauk fór ég að spila út um allt, m.a. með KK. og Ellen,
Borgardætrum, fullt af jazzgiggum út um allt, talsvert með Jóel Páls, Tríói Ómars Guðjónssonar, ég leysti af í Svörtum fötum og Flís verður til. Ég spilaði líka mikið með Bogomil Font og Orkuveitunni, en þar vorum við allir þrælofvirkir og þetta var áður en ég fór til Danmerkur. Ég fékk nokkra vini mína til að koma með mér heim á Sigló og við spiluðum þar yfirleitt launalaust eða launalítið. En það var bara gaman, við gistum þá hjá mömmu og pabba og gerðum bara eitthvað skemmtilegt í leiðinni. Fyrstu ferðirnar voru yfirleitt farnar um svipað leyti sumars og Þjóðlagahátíðin er núna haldin, en þetta var fyrir hennar tíma. Fyrst mættu bara örfáir en aðeins fleiri næst og pínulítið fleiri þar næst o.s.frv.

 


Flís og Egill Ólafs í Siglufjarðarkirkju

Eftir að Þjóðlagahátíðin var svo kominn til að vera sem er rosalega gott mál, spiluðum við auðvitað á henni í ýmsum myndum en kjarninn var alltaf svipaður. Ég man eftir einum slíkum tónleikum sem við héldum í kirkjunni heima þar sem Egill Ólafsson söng með okkur lög Jóns Múla. Við Flísararnir fórum saman yfir lagalistann og formuðum prógrammið í freejazz-stíl. Við vildum ekki æfa með Agli svo þetta yrði ekki of mótað svona fyrirfram, hann átti bara að mæta beint á tónleikana og syngja. Hann gerði það og varð meira að segja næstum því of seinn norður, en þetta var flott útkoma og ótrúlega lifandi flutningur. Það má eiginlega segja að við höfum hrint honum ofan í djúpu laugina, en þar sem karlinn er afburða vel syntur tónlistarlega meint og mikill proffi héldu margir viðstaddra að hvert smáatriði væri þrælæft.

 


Gramsið

Eftir heimkomuna frá Danmörku gerum við ég, Davíð og Valdi í Flís plötu með Ingibjörgu Þorbergs, við höldum áfram að vinna með Bogomil, við vinnum mikið með Ragnari Kjartanssyni myndlistarmanni og gerum lika okkar eigin plötu. Ég vann líka talsvert með Trabant, lék inn á hljóðsmala fyrir Gus Gus, en svoleiðis græju köllum við auðvitað sampler upp á útlensku. Svo má ekki gleyma Gramsinu með Jóel Páls og Davíð Þór, en við fórum m.a. til Noregs og spiluðum á jazzhátíð í Oslo og víðar þarlendis. Ég spilaði svo inn á eina plötu með Daysleeper og fylgdi henni eftir með þeim og eftir það Paradísarplötuna með K.K. Þegar ég tek saman alla hljóðversspilamennskuna, telst mér til að ég hafa spilað inn á eitthvað örlítið á annað hundrað plötur. Við gerðum líka með náunga sem kallar sig Bob Justman en hann heitir reyndar Kristinn Gunnar Blöndal. Sú plata er reyndar að koma út erlendis um þessar mundir undir merki “One little Indian.”

 


Flís, Bogomil og fleiri félagar í góðum fíling og í verulega náttúrulegu umhverfi

Mér hlotnaðist sá heiður að hinn eini sanni Geirmundur hringdi í mig og og bauð mér starf í sveiflubandinu sínu. Ég man að það stóð heldur illa á hjá mér því ég var í miðri upptöku og var líklega heldur stuttur í spuna. Ég gaf mér þó tíma til að afþakka gott boð og segja honum að ég hefði bæði mikið að gera og þar fyrir utan væri áhuginn ekki til staðar. Ég kvaddi, sleit síðan samtalinu og hélt áfram að vinna í hljóðverinu. Hann hringdi svo aftur til að skamma mig fyrir að vera dónalegur í síma og í þetta skiptið var hann á undan að leggja á. Hann hringdi svo í þriðja skiptið til að ítreka boðið og benda mér á hve miklar tekjur ég gæti haft og hverju ég væri að missa af, en ég sagði honum að ég vildi frekar gera það sem mér þætti skemmtilegt og það verður að segjast að við höfum ekki verið í mjög miklu sambandi síðan.

 


Stuðmannahópurinn í Pétursborg

Við Davíð Þór fórum með Stuðmönnum til Pétursborgar í Rússlandi árið 2004. Þar var þessi hljómsveit allra landsmanna að láta skjóta síðustu skotunum á sig fyrir myndina “Í takt við tímann” sem óþarfi er að taka sérstaklega til umfjöllunnar hér og nú, en í leiðinni var auðvitað blásið til mikilla tónleika. Auk okkar voru þarna tvær dansmeyjar, heilmikið tæknilið og í það heila var þetta 15 manna hópur.

 

Prógrammið var mjög jazzskotið á köflum og ferðin var m.a. gerleg vegna milligöngu íslenska ræðismannsins ytra sem þá var Björgólfur Thor Björgólfsson. Ekki man ég nákvæmlega hvað það var, en það varðaði þó eitthvað framkvæmd tónleikanna þarna austur frá og tengdist Björgólfi Thor með einhverjum hætti. Alla vega sá Jakob Frímann ástæðu til að mæla á sinn einstaklega yfirvegaða hátt: “Við skulum ekki styggja Gullkálfinn sem fóðrar okkur svo digurlega.” Þetta var auðvitað orðið gullkorn um leið og það fæddist og skipti þá samhengið ekkert endilega öllu máli. Það er nefnilega enginn eins og Jakob Frímann hvað svo sem menn hafa annars um hann að segja. Hann er eina eintak sinnar tegundar, alveg frábær persóna og góður drengur þar að auki, fyrir utan að vera sá prímusmótor sem er ódrepandi í öllu því sem hann tekur sér fyrir hendur.

 


Helgi átti þátt í að semja tónlistina og spilaði á trommur í Brúðgumanum og Sumarlandinu með félögum sínum í Hjálmum                   

En það hefur fleira verið gert en að spila og taka upp tónlist í hljóðveri á þann hefðbundna hátt sem algengastur er. Við gerðum tónlist við áramótaskaupið 2006, tónlist við söngleikinn Leg sem Hugleikur Dagsson skrifaði og Baðstofuna sem sýndir voru í Þjóðleikhúsinu, Skýfall hjá Nemendaleikhúsinu, Héra Hérason og Where Do We Go From This, sem sýnt var í Borgarleikhúsinu. Tónlistin við Héra og Baðstofuna fékk tilnefningar til Grímunnar, en við Flísarar fengum hins vegar þau verðlaun fyrir Legið. Svo er búið að semja og flytja tónlist við nokkrar kvikmyndir, heilan helling af auglýsingum auk annarra sjónvarpsverkefna. En það sem ég hef samið og er oftast spilað, er stefið við morgunleikfimina á Gufunni. Það er gert tvisvar á dag alla virka daga allt árið um kring og ég verð alltaf jafn rosalega kátur þegar ég heyri það.

 


Feðgarnir Helgi og pabbinn Helgi pípari, - bakhjarlinn sem aldrei klikkar

Fáeinum árum áður en stóra bólan sprakk og Björgólfur átti ennþá teinóttu fötin, vorum við Flísarar aðilar að listasmiðjunni Klink og Bank í Þverholtinu. Landsbankinn hafði keypt Hampiðjuhúsið og til stóða að rífa það og byggja eitthvað ógeðslega flott og rándýrt á lóðinni. En eftir að svona eignir eru keyptar tekur við heilmikið og oft mjög tímafrekt ferli meðan verið er að skipuleggja, teikna og koma öllu því í gegn um kerfið sem þarf að fara þar í gegn. Það átti svo sannarlega við í þessu tilfelli og þetta risahús varð fljótlega aðsetur hústökufólks, spreyara og það drabbaðist mjög hratt niður. Þá kom upp sú hugmynd að nýta það í millibilsástandinu, vel á annað hundrað ungir listamenn fengu þar inni og við vorum meðal þeirra útvöldu.

 

Við greiddum sanngjarna leigu sem var eitthvað upp í fasteignagjöld, hita og rafmagn en Landsbankinn tók líka verulegan þátt í rekstrarkosnaðinum. Þetta tímabil stóð í u.þ.b. tvö ár og þarna gerðust margir ágætir hlutir. Ég gifti mig t.d. þarna í verulega skemmtilega skreyttum salnum og svo fórum við Elsa til Jamaika í framhaldinu og vorum þar í tæpar þrjár vikur og aðrar tvær í NY. Eftir að Hampiðjuhúsið var rýmt snemma árs 2006 fórum við auðvitað að leita okkur að samastað og fundum hann í kjarri vöxnum vesturhlíðum Úlfarsfells. Þar innréttuðum við hljóðver í samvinnu við upptökumanninn Finn Hákonarson og vorum þar einhver misseri.

 


Flísin uppstrílaðir í Japan, með blásið hár og permanent

Flís, Benni Hemm Hemm og fleiri hljómsveitir fóru í rosalega skemmtilegan túr um Japan fyrir fáeinum árum. Við Flísararnir dressuðum okkur upp í fáránleg föt fyrir myndatöku, en hún átti auðvitað að verða notuð í auglýsingar postera o.þ.h. Við Davíð fórum líka í permanent, Valdi lét blása á sér hárið og við skemmtum okkur mikið yfir lúkkinu á okkur. Okkur fannst þetta yfirþyrmandi fyndið en Japaninn var alveg að kaupa þetta og fannst þetta bara flott.

 


Á tónleikaferð um Þýskaland með Agli Sveinbjörnssyni

Ég er á samning hjá Sonor og þeir leggja mér alltaf til trommusett hvar sem ég er. Þegar ég var að spila einu sinni á útitónleikum í Berlin með Agli Sveinbjörnssyni hringdi ég bara í þá og þeir sendu bara sett heim til hans. Egill er annars aðallega þekktur sem myndlistarmaður, en hann hann er þess utan alveg gríðarlega góður músíkant. Hann semur eitt lag á dag með texta og öllu saman, útsetur það og tekur upp. Hann er alveg ótrúlegur og við höfum átt í talsverðu samstarfi.



Unnið að Hjámaplötu á risastórt Sonor sett

Ég hef spilað heilmikið með Benna Hemm Hemm og konan mín hefur reyndar gert það líka, en hún er kornettleikari. En fyrir þá sem ekki vita, þá er kornett náskylt trompet. Ég túraði með Benna víða um Evrópu en einnig um Bandaríkin alveg stranda á milli, eða öllu heldur allan hringinn. Þar lentum við í allt að 49 stiga hita, en til allrar hamingju var rútan sem við notuðum með svakalega öflugu kælikerfi. Að aka svona um BNA var eins og að upplifa alveg splunkunýtt land á hverjum einasta degi. Bílstjórinn Ed var svo alveg sérstakur kapítuli út af fyrir sig, en alveg hrikalega flottur karl. Fyrir utan að vera eins amerískur og hægt er að vera og það alveg í gegn, var hann hljómsveitarrútuatvinnudræver gersamlega alla leið, hafði m.a. túrað með ZZ Top og Willie Nelson og var algjört Harley Davidson fan. Hann var með Harley Davidson sólgleraugu, í Harley Davidson dressi, með Harley Davidson tattoo og meira að segja líka í Harley Davidson sokkum og svo voru Harley Davidson mottur í rútunni. Það er vissulega margt verulega undarlegt í henni ameríku svo ekki sé meira sagt.

 


Rútan og trommuleikarinn í Ameríkutúrnum

 


Bílstjórinn Ed hinn óviðjafnanlegi

Þegar ég var í Ameríkutúrnum með Benna urðum við einu sinni vitni að því þegar  hópur af svörtu fólki sem virtist vera mjög trúrækið, var að fylgja ástvini sínum síðasta spölinn og það toppaði alveg það sem maður sér í bíómyndunum. Það ríkti greinilega mikil gleði í hópnum en mun minna bar á sorginni því kistan var tolleruð með miklum tilþrifum á leiðinni til grafar. Henni var hent hátt upp í loftið, en síðan gripin aftur rétt áður en hún skall í jörðina. Mikil hlátrasköll fylgdu í kjölfarið, kistuberunum virtist mjög skemmt og allir voru hinir kátustu.

 


Hjálmarnir fá viðurkenningu fyrir enn eina metsöluna

Memphis Mafían er svo alveg sér kafli út af fyrir sig. Það er hægt að rekja upphafið að því ævintýri heil tíu ár aftur í tímann þegar ég var í matarklúbbi með strákum sem síðar fóru af stað með það sem þeir kölluðu Baggalút. Þeim datt svo eitt sinn í hug að gera jólalag, þeir hóuðu í einhverja vini sína til að spila undir hjá sér og ég var einn af þeim. Þá vill Kiddi sem var um svipað leyti að taka upp fyrstu Hjálmaplötuna í Geimsteini, gera heila plötu með Baggalút og ég er kallaður aftur í hljóðver. Þá varð platan “Pabbi þarf að vinna í nótt” til og það allt saman, en hún gekk eins og við vitum alveg þrælvel.

 

Þarna kynntist ég Kidda í Hjálmum og síðan leiðir einhvern veginn eitt af öðru og á endanum verður úr samstarf sem vex og dafnar með tíð og tíma. Hann er á þessum tíma farinn að hugsa sér til hreyfings úr Geimsteini og stefnir á að flytja til Reykjavíkur. Hann kemur í stúdíóið okkar við Úlfarsfellið og tekur þar upp síðustu lögin með Hjálmunum og svíunum sem spiluðu með þeim. Þar heyrir hann líka eitthvað af þessu reggiedóti sem við höfðum þá verið að gera í Flís, en við höfðum þá tekið upp svolítið mikið unna plötu sem er reyndar ekki komin út ennþá. Skömmu síðar hringir svo Kiddi og segir okkkur að samstarfið við svíana sé eitthvað að gliðna og hvort Flístríóið vilji ekki bara ganga inn í Hjálma í stað þeirra. Þessir svíar sem um ræðir spiluðu þá á bassa, trommur og hljómborð, sem var akkúrat sama hljóðfæraskipan og í tríóinu okkar. Við erum til í þetta og Flís rann þarna inn í Hjálmana með manni og mús.

 

Þetta gengur allt saman ágætlega um tíma, en Davíð sem hafði tekið að sér nokkur önnur verkefni, kemst ekki alveg yfir að sinna öllum pakkanum og dregur sig út úr bandinu skömmu síðar. Við förum fljótlega út til Jamaica og tökum þar upp plötu sem gengur alveg frábærlega vel. Í framhaldinu tekur Kiddi við A-stúdíóinu í Hljóðrita í Hafnarfirði og það má eiginlega segja að við setjumst þar að. Þessi nafngift Memhis Mafia byrjaði sem grín hjá Björgvin Halldórs sem hefur sína vinnuaðstöðu í B-stúdeóinu í Hljóðrita, en það þróaðist einhvern vegin upp í að verða samheiti eða kannski stórt mengi utan um hóp manna og þá starfsemi sem þeir stóðu fyrir.

 


Hjálmarnir komu til Siglufjarðar í okt. 2009 og spiluðu þar á vel heppnuðum tónleikum. Daginn eftir lá leiðin á Græna hattinn á Akureyri en í Sléttuhlíðinni er lævís vindsveipur grunaður um að hafa svift hljóðfærabílnum út í móa. Enginn slasaðist og ekkert skemmdist, en menn fengu samt svolítinn hnút í magann

Útgáfufyrirtækið Borgin varð svo til í framhaldinu og við félagarnir áttum það saman. Það gaf auðvitað út Hjálmana, en auk þess Megas og Senuþjófana, Baggalút, Memphis Mafíuna, Sigurð Guðmundsson, “Oft spurði ég mömmu” plötuna, Hjaltalín, Retro Stefson, Siggu Toll & Heiðurspiltana, Gilligill og eflaust eitthvað fleira sem ég man ekki eftir í augnablikinu. En Kiddi sem rak allt batteríið, hugsaði fyrir öllu og heldur utan um það, á litla möguleika á að komast yfir þetta allt saman nema að fórna spilamennskunni eða eitthvað svoleiðis og við seljum útgáfufyrirtækið til Senu. Hann er fyrst og fremst tónlistarmaður og upptökumaður og það eiga einhverjir aðrir að standa í fyrirtækjarekstri, að færa bókhald, hringja út um allt til að selja og rukka, standa í endalausum reddingum o.s.frv. Það var að vísu alveg blússandi gangur í þessu en Kiddi var bara að brenna yfir á að reka bæði Stúdeóið, útgáfuna og spila svo líka á fullu.

 


Örlítið sýnishorn af diskum sem Helgi hefur spilað inn á

Fyrir síðustu jól var mikið að gera því ég spilaði inn á sjö plötur sem mér skilst að hafi selst í eitthvað nálægt 40.000 eintökum og svo er auðvitað heilmikið framundan á nýju ári. Hjálmar verða væntanlega mikið á ferðinni á næstunni og það eru m.a. fyrirhugaðir stórtónleikar í Hofi á Akureyri sem verða teknir upp og hugsanlega gefnir út. Svo er rétt að benda á að Hofið er ekki lengur nema þrjú korter að heiman, þökk sé Héðinsfarðargöngunum. Eitthvað verður líka farið um Evrópu og spilað og svo er auðvitað alltaf þetta ófyrirséða sem stundum er stærsti pakkinn framundan án þess að maður viti neitt af honum fyrr en nær dregur. Ég samdi líka alla tónlist í kvikmynd sem verður væntanlega frumsýnd í mars og heitir “Okkar eigin Osló.”

 

   

Innrammaðar gull og platínuplötur skreyta veggina í þessu “litla herbergi” á Grandanum. Ef húmorin er í lagi þá verður lífið skemmtilegra

Við höfðum setið drjúga stund yfir kaffi sem nú var búið og kexi sem sáralítið var eftir af. Það hefði eflaust verið hægt að sitja áfram daginn á enda og hafa nóg til að tala um, en við vorum sammála um að þetta væri hæfilegur skammtur að sinni og kvöddum Helga ofurtrommara með meiru.


Stolltur Siglfirðingur


Texti: Leó R. Ólason.

Myndvinnsla: Birgir Ingimarsson.




Athugasemdir

22.janúar 2025

Sk Sigló ehf.

580 Siglufjörður
Netfang: sksiglo(hjá)sksiglo.is
Fylgið okkur á Facebook eða Twitter

Póstlisti

Skráðu netfangið þitt á póstlistan okkur.

Ábendingar

Ertu með ábendingu fyrir síðuna eða góða frétt? Sendu okkur þá póst og við könnum málið.

Sendu póst