Spjallað við burtfluttan Siglfirðing – Jóhann Vilbergsson

Spjallað við burtfluttan Siglfirðing – Jóhann Vilbergsson  Við Siglfirðingar erum og verðum alltaf stoltir af því hvað bærinn okkar hefur fóstrað marga

Fréttir

Spjallað við burtfluttan Siglfirðing – Jóhann Vilbergsson

Jóhann Vilbergsson. Ljósmyndari; Birgir Ingimarsson
Jóhann Vilbergsson. Ljósmyndari; Birgir Ingimarsson

 Við Siglfirðingar erum og verðum alltaf stoltir af því hvað bærinn okkar hefur fóstrað marga af fræknustu skíðamönnum landsins, marga þá sem voru frumkvöðlar á sínum tíma og náðu oft ótrúlegum árangri þrátt fyrir frumstæðan búnað og litla aðstöðu.

 


Skíðafélag Siglufjarðar sem stofnað var árið 1920, var um langt skeið langöflugasta skíðafélag landsins og stóð fyrir fyrsta skíðamótinu á Siglufirði í mars það sama ár. Þá var keppt í greinum eins og í skíðakapphlaupi, brekkurennsli með loftstökki og skíðaskrið af Hvanneyrardalsbrún á jöfnu, ýmist með hindrun eða hindrunarlaust. Seinna var svo keppt í krókahlaupi sem síðar nefndist svig, en einhverjir verðlaunagripir munu vera til merktir hinu eldra nafni greinarinnar.

Áhuginn dofnaði á síðari hluta þriðja áratugs síðustu aldar, en um 1930 varð mikil og almenn vakning sem vel má kalla blómaskeið sem stóð fram undir 1970 eða í hartnær fjóra áratugi. Á þeim tíma komu fram miklir skíðakappar sem áttu eftir að setja mark sitt á sögu skíðaiðkunarinnar. Einn þeirra er Jóhann Vilbergsson, mikill skíðasnillingur og átrúnaðargoð margra samtíðarmanna sinna, svo og ekki síður þeirra sem yngri voru.


Hann er fæddur árið 1935 á Siglufirði en flutti síðar til Reykjavíkur þar sem hann hefur síðan starfað sem leigubílstjóri. Á síðasta ári hitti ég Jonna á Siglufirði og minnist á það við hann að við þyrftum endilega að setjast niður stundarkorn og eiga svolítið spjall. Hann tók strax vel í það, en nokkrir mánuðir liðu og ekkert gerðist. Það var svo nokkrum vikum fyrir síðustu jól að ég sló loksins á þráðinn og bar upp erindið, en að þessu sinni voru svörin í dræmara lagi. Jú, Jonni var alveg til, “þú getur komið ef þú vilt, en ég er að vísu staddur í Florida akkúrat núna” sagði hann að lokum. Ég þakkaði gott boð en sagðist þá koma síðar. Það var svo í fyrstu viku febrúarmánaðar sem við áttum ágætt spjall sem hér fer á eftir.

 

Þegar ég var þrettán ára varð ég fyrir því óláni að slasa mig illa á fæti. Goðafoss sem þá var splunkunýtt og þótti afar glæsilegt skip, hafði komið til Siglufjarðar og ég fór um borð ásamt fjölmörgum sveitungum mínum til að skoða það. Um borð ætlaði ég að stökkva yfir vír sem var u.þ.b. í hnéhæð og átti að vera lítið mál, en rann þá til á dekkinu. Ég var svo óheppinn að krækja öðrum hælnum undir karminn á lestarlúgunni og sigldi beint á höfuðið ofan á dekkið. Hnéð fór þarna mjög illa, en Jón Hjaltalín læknir taldi að aðeins væri um að ræða bólgur og tognun. Eftir einhverjar vikur var ég orðinn verri og hann sagði þá að þetta væri greinilega mjög slæm tognun. Þegar lengra leið og mér batnaði ekkert, orðaði hann það svo að þetta hafi verið alveg meiri háttar tognun. Sex árum seinna fékk ég svo að vita að hnéð hefði brotnað. Þá fékk ég í bakið og fór til læknis út af því, en doksi byrjaði á því að senda mig í myndatöku. Hann sagði mér í framhaldinu að bakeymslin væru til komin vegna brotsins, en ég þrætti fyrir að það gæti verið og sagðist aldrei hafa brotnað. Hann svaraði því þá til að annað segðu nú myndirnar. Fóturinn hætti því sem næst að vaxa þarna um fermingarleytið og er fjórum og hálfum sentimetri styttri en hinn.

 

  

Jonni Vilbergs og Svenni Sveins að leggja af stað upp á Hestskarðshnjúk.


Jonni Vilbergs og Skarphéðinn Guðmunds.  


Hjálmar Stefáns á Skarðsmóti 1959.

 

Það var þó ekki fyrr en eftir slysið að ég fer að æfa skíðaíþróttina af einhverri verulegri alvöru. Þegar ég var lítill eignaðist ég fljótlega skíði sem voru gjarnan kölluð eða skilgreind sem “brekkuskíði”. Ég var þó fljótlega kominn á önnur heldur skárri sem mér fannst þá vera alvöruskíði þó þau þættu ekki merkileg í dag. Þau voru af tegundinni Hikkory, voru nú ekkert sérlega meðfærileg og stálkantalaus. Seinna sagaði ég af köntunum á þeim með dyggri aðstoð föður míns, þau voru mjókkuð og breytt í gönguskíði. Meðan ég var í skóla var Steingrímur Guðmundsson með mér í bekk. Við lögðum báðir mikið kapp á að bekkurinn ynni göngukeppnirnar sem svo oft voru haldnar og árgangarnir kepptu sín á milli. Við fengum marga jafnaldra okkar til að mæta til æfinga og það hefur vonandi orðið til þess að fleiri hafa farið að stunda skíði í framhaldinu en ella hefði orðið.


Við Skíðaskála SS. Hreinn Júll, Sillín Gísladóttir, Sigríður Stefánsdóttir, Sigga Sig og Sigga Tóta Eggerts.


Jón Þorsteins, Hreinn Júll og Jonni við Skíðaskálann á Saurbæjarási.


Birgir Guðlaugsson og Bogi Nilsson á Skarðsmóti 1959.

 

Fyrir slysið hafði ég aðallega æft göngu og stökk, en þurfti að skipta yfir í brun, svig og stórsvig. Ég keppti þó tvisvar sinnum í göngu á Landsmóti mörgum árum síðar og komst meira að segja á verðlaunapall í bæði skiptin. Þá hafði ég lítið eða ekkert æft frá því um fermingu. Annað skiptið var árið 1957 og ég var þá orðinn 22 ára gamall. Ég tók svolítið vel á því til að byrja með og var með þriðja besta tímann eftir fyrri hringinn. Þegar svo leið á þann seinni, fór ég að hugsa til þess að ég þyrfti að eiga einhverja orku eftir til að keppa í öðrum greinum. Ég fór því að slaka svolítið á, en náði engu að síður á verðlaunapall. Það var gríðalegur fjöldi sem keppti, átta eða níu efstu komust á pall og mig minnir að ég hafi endað í áttunda sæti. Keppendur frá númer fjögur til átta komu allir í mark á sömu mínútunni og ég var því einn af þeim. En eftir á að hyggja þá held ég að ég hefði bara átt að láta mig hafa það, því þá hefði ég líklega náð þriðja sætinu. En þarna voru miklir kappar á ferð, Jón Kristjánsson Þingeyingur og Ólympíufari var nú eiginlega langbestur en Ísfirðingurinn Árni Höskuldsson var líka rosagóður.


Ólafur Nilsson
á Skarðsmóti 1959


Þórir Lárusson ásamt Jóa Jóns tímaverði
á Skarðsmóti 1959


 

 

Bogi Nílsson á Skarðsmóti 1959


Grímur í Leyningi hvatti mig mikið til þess að koma og æfa með þeim strákunum á Jónstúninu sem var sunnan við húsvegginn þar sem ég átti heima. Það var því óhætt að segja að hæg hafi verið heimatökin. Jónstúnið var mjög bratt ofan til, en mun sléttara þegar neðar dró og þess vegna kjörlendi fyrir stráka eins og okkur og þá sérstaklega til að æfa þarna stökk. Það má segja að það hafi verið í laginu eins og stökkbraut nema það vantaði auðvitað stökkpallinn. Það var hins vegar lítið vandamál því við hlóðum hann úr snjó, en af því byggingarefni var alla jafna meira en nóg til af.

 

Einu sinni sem oftar voru þeir Halli Páls, Grímur í Leyningi og fleiri karlar að æfa á túninu og ég og einhver sem var með mér þarna vildum sýna hvað við gætum. Við röltum upp brekkuna og renndum okkur niður, en þá kom berlega í ljós hvað okkur skorti upp á búnaðinn. Við vorum á stálkantalausum skíðum og sópuðum burtu hálfri brautinni, en strákarnir sem voru þarna fyrir urðu auðvitað alveg bandbrjálaðir og ráku okkur heim. Ég sá að það var lítil framtíð í þessu svo ég fór til pabba og bað hann um skíði með stálköntum. Þá átti Viddi Magg Splitken skíði sem hann notaði aldrei, hann var alveg til í að selja þau og það má alveg segja að með þeim hafi ballið byrjað fyrir alvöru.

 

  

Jonni Vilbergs á Skarðsmótinu 1959.


Gunnar Þórðarson  á Skarðsmótinu 1959.


Sverrir Sveins á Skarðsmótinu 1959.

 

Stálkantarnir gátu líka á sinn hátt verið visst vandamál, en þeir voru skrúfaðir á með litlum undirsinkuðum skrúfum. Það var með þetta eins og fleira hér áður fyrr, það var alveg ómögulegt að fá þessa hluti ef einhver áföll urðu og litlu skrúfurnar voru því sem næst þyngdar sinnar virði í gulli.

 

Jóhann Ólafsson átti heima í Bjarnaskúrnum, en hann var mjög góður stökkvari og sótti mikið í Jónstúnið. Hann átti Splitkein skíði eins og ég og er einu sinni sem oftar á ferðinni þarna á Jónstúninu. Líklega hefur færðin verið eitthvað í slakari kantinum þennan daginn og honum fundist afrek okkar ekki vera upp á marga fiska. Hann spyr í hálfkæringi hvers vegna við stökkvum ekki almennilega niður á bunguna, en við svörum því til að hann skuli bara reyna að gera betur sjálfur. Hann fer þá langt upp fyrir túnið, eiginlega upp í fjallsræturnar og rennir sér af stað niður af miklum krafti. Það skipti engum togum að hann stekkur yfir bunguna og lendir ekki fyrr en á sléttunni fyrir neðan. Hann neglist þar niður og fer einhverja hringi í loftinu, en verður til allrar hamingju ekket meint af því. Hann stendur upp og ætlar þá að halda áfram, en þá renna skíðin ekki neitt því að stálkantarnir eru horfnir og auðvitað allar skrúfurnar líka. Við nánari athugun kom í ljós að þeir höfðu sprottið frá skíðunum við þessa hörðu lendingu og lágu eftir eins og silfurlitaðar rákir í snjónum. Þetta þýddi auðvitað að við eyddum allir sem þarna vorum, hálfum deginum í leit og björgunaraðgerðir því ekki mátti týna einni einustu skrúfu.

Jonni Vilbergs kemur í mark.


Svenni Sveins kemur í mark.


Biggi Lauga kemur í mark.


Ég held að áhugi á skíðaíþróttinni hafi verið mun almennari á Siglufirði en annars staðar. Á góðum dögum mátti sjá hundruð manna á ferðinni inni í firði og á Saurbæjarásnum. Þar var gott gönguland en það var líka æft svig upp í hlíðum Hólshyrnu. Svo var líka miklu skemmtilegra að keppa heima en annars staðar, því það mátti alveg búast við að hálfur bærinn kæmi til að fylgjast með. Þetta var alveg sérstaklega áberandi á Skarðsmótunum, því þá var allt fullt af fólki þar upp frá. Það klikkaði aldrei snjór í Skarðdalnum, því ef það hafði verið snjóléttara en gekk og gerðist, var bara farið hærra upp.

 

Oft var keppt í þvergilinu við efstu beygjuna á veginum og þá klifruðu menn upp snarbratta hlíðina og alveg upp á topp á Hákömbunum. Þetta var mjög löng braut og það tók einn til tvo tíma að ganga alla leið þarna upp. Ég man eftir Svanberg Þórðarsyni sem lenti einu sinni í því að tímatakan klikkaði. Ég er nú hræddur um að ég hefði þá látið gott heita þann daginn, en hann lét sig hafa það að ganga alla leið upp aftur. Steingrímur Kristinsson fór með honum og hélt á skíðunum. Þetta tók langan tíma og þegar hann fór seinni ferðina var farið að líða á daginn, það var farið að frysta og færið þess vegna orðið miklu betra. Hann varð annar á eftir mér, en mér fannst að hann hefði eiginlega átt skilið að vinna keppnina fyrir það hvað hann stóð sig vel og lagði mikið á sig. Á þessum árum fór tímatakan fram í gegn um síma og var þá maður á sitt hvorum enda línunnar sem lá frá rásmarki og að markinu.

 


Lillý Sigurðardóttir, Eirný Sæmundsdóttir, Kristín Þorgeirsdóttir og Hjördís Sigurðardóttir á Skarðsmóti 1959

 

Hannes Bald var duglegur að taka skíðamyndir af okkur keppendunum, hann tók m.a. mikið af myndum á Skarðsmótinu 1959 og við strákarnir keyptum eitthvað af honum. Hann náði oft flottum skotum og var fínn ljósmyndari. Ólafur Ragnars var annar sem oft var á staðnum og sérstaklega meðan hann var blaðamaður á Alþýðublaðinu og Vísi. Það er m.a. mönnum eins og þeim að öllum öðrum ólöstuðum mikið að þakka hvað er til af heimildum frá þeim tíma þegar skíðaíþróttin var í hvað mestum hávegum höfð á Siglufirði.


Birgir Guðlaugsson á Skarðsmóti 1959


Sigurður Konnráðsson á Skarðsmóti 1959

 

Ég held að á svæðinu í hlíðinni neðan við Gimbraklettana og fyrir ofan Gryfjurnar og Seljaland, hafi verið sett upp fyrsta eiginlega skíðalyftan á Siglufirði sem gat almennilega staðið undir því nafni. Svæðið var líka upplýst og oftast kallað Ljósabrautin, en lýsingin var reyndar komin á undan lyftunni svo undarlegt sem það kann að virðast. Margir vilja meina að þetta sé fyrsta upplýsta skíðasvæðið á Siglufirði eða jafnvel á landinu, en líklega er það ekki svo. Tæplega tveimur áratugum áður munu vaskir Skíðaborgarmenn hafa lagt rafmagn frá Hlíðarhúsum og suður að skálanum sem stóð fyrir ofan Steinaflatir. Þar hefur líklega fyrsta upplýsta skíðasvæði landsins verið. En brautin fyrir ofan bæinn var gríðarlega vinsæl og fjallshlíðin var oft alveg full af fólki eftir að skyggja tók.

 

Ég og nokkrir fleiri vildum upphaflega fá að koma fyrir lyftu þarna og það gekk eftir. Eldjárn Magnússon sem þá var formaður skíðafélagsins sagði okkur að við fengjum fjárveitingu upp á tíuþúsundkall, en allt umfram það yrðum við að borga sjálfir. Það voru auðvitað öll ráð notuð við að halda kostnaðinum niðri, allt var unnið í sjálfboðavinnu og við fórum betlandi um bæinn. Það var steyptur þarna grunnur undir lítinn skúr sem var aðallega hugsaður utan um mótorinn, Kiddjón útvegaði rafmagnsmótor úr ríkinu og Sigurður Jónsson lét okkur hafa vír. Við steyptum niður festingar undir vírahjólin uppi undir Gimbraklettunum, en þar var endastöðin. Allt gekk upp samkvæmt fjárhagsáætluninni, lyftan kostaði innan við tíuþúsunkall í útlögðu fé og margir áttu eftir að eiga þarna frábærar stundir á skíðum eftir að skyggja tók, vel upplýstir og flottir. Þarna var fín svigbraut og þetta var frábær aðstaða ef það var snjór, en stóð því miður allt of stutt. Síminn lagði veg að endurvarpstöðinni uppi í Hvanneyrarskál, skáhallt yfir skíðasvæðið og þar með var draumurinn búinn.

 


Jón Þorsteins, Sveinn Sveins og Jonni við Skíðaskálann á Saurbæjarási.

 

Það var mest stokkið á Litla-bola og Stóra-bola meðan snjór hélst í byggð, en það gekk svo auðvitað ekki þegar fór að vora og svo komu líka nokkrir snjóleysisvetur upp úr 1960. Þá var eitt sinn brugðið á það ráð að fara með traktor upp í Hvanneyrarskál, þar alveg inn í botn og sett upp kaðallyfta. Ég held að ég fari rétt með að það hafi verið veturinn 1963-64. Ég man vel eftir þessu því ég keyrði traktorinn upp eftir, svo innpakkaður í allan kaðalinn að ég sá varla veginn. Þá var ekkert til sem hét öryggisbúnaður af neinu tagi og einu sinni festi Björn Olsen peysuna í tóginu og var næstum því kominn inn í blökkina þegar einhverjir nærstaddir náðu að stoppa þessa frumstæðu lyftu. Við Pétur Guðmundsson vorum aðal splæsararnir því kaðallinn var alltaf að slitna. Þarna var æft svig öðrum meginn við lyftuna, en stórsvig hinum megin. Svo var líka stökkbakki á þessu sama svæði sem var á sínum tíma sá stærsti á Siglufirði og þar stökk Jónas Ásgeirs einu sinni heila 58 metra sem hefur þá líklega verið lengsta stökk á Siglufirði. Það þótti mörgum of langt að fara alla leið þarna upp eftir og mér fannst áhuginn fyrir skíðaíþróttinni fara minnkandi. Það gæti verið vegna aðstöðuleysis svona yfirleitt, snjóleysis í nokkur ár og svo því kröfurnar fóru vaxandi á þessum árum.

 


Í Hvanneyrarskálinni 1964. Gísli Kjartans, Ási Ingólfs, Bjarni Þorgeirs, Jón Þorsteins, Jonni Vilbergs, Hreinn Júll og Reynir Sigurðsson.

 

Einhverju sinni var Pétur á kaðlinum spölkorn fyrir ofan mig þegar hann slitnaði. Eitthvað var hann meira en lítið óviðbúinn og ég sé hvar hann hreinlega tekst á loft og ég rétt næ að skjóta mér undan. Hann fer á fljúgandi ferð niður á bakinu, með alla kaðaldræsuna á eftir sér og endar svo neðst í brekkurótunum á kafi í allri hönkinni. Svona gerðist æði oft, en þá var fátt annað hægt að gera en að splæsa og halda svo áfram þar sem frá var horfið. Við reyndum að fá þá sem æfðu stökk til að koma upp eftir, því stökkbakkinn var þarna til staðar og svo hefði mátt byggja hann upp og gera hann enn betri. Það hefði auðvitað verið upplagt að nýta lyftuna betur, en þeim fannst mörgum hverjum allt of langt að labba þarna upp eftir og svæðið náði aldrei að verða verulega vinsælt vegna staðsetningarinnar.

Mig minnir að þetta hafi líka verið bara einn vetur sem við vorum þarna inni í botninum á skálinni, en það var líka æft bæði svig og stórsvig í gilinu innan við Gróuhnjúk.

 


Jón Þorsteins fær sér pilsner til að fagna því að hér eru hann og Svenni Sveins komnir upp á einhvern fjallatoppinn við Siglufjörð.

 

Það var líka oft labbað alla leið upp á Hvanneyrarhyrnu með skíðin á bakinu ef vel viðraði, jafnvel dag eftir dag. Þar uppi var varða og í henni var krukka með gestabók. Það var svo regla að ef margir voru samferða á leið upp eftir, skrifaði alltaf sá fyrstur í hana sem fyrstur kom en síðan koll af kolli. Virðingarstaða hvers og eins var svo auðvitað þar með skráð í hlutfalli við röðina á listanum. Vegna þessa mátti því oft sjá Siglfirska skíðakappa taka á gríðarlegan sprett síðustu hundruð metrana á toppinn.

 


Stína Þorgeirs.

 

Það var mikið reynt að fá fleiri stelpur til að stunda skíði, en gekk því miður ekkert allt of vel. Stína Þorgeirs var alveg rosalega góð en henni þótti gott að sofa á morgnana. Einhverju sinni vorum við nokkrir saman búnir að ákveða að fara snemma á skíði upp í Skarð og hún var búin að lofa að koma með. Þegar við ætluðum að leggja af stað mætti Stína ekki, en þá leigði hún á Suðurgötunni hjá Jóni Sveins. Það var auðvitað í leiðinni svo við litum bara við hjá henni, komum henni á fætur, drifum hana í föt og gallann og allt saman. Við gáfum henni engin grið, en svo komst hún auðvitað í gang þegar hún var almennilega vöknuð og sýndi sína meistaratakta eins og hennar var von og vísa. Hún var skíðakappi frá náttúrunnar hendi, þurfti ekkert mikið að æfa en vann yfirleitt öll mót sem hún keppti í. Dísurnar tvær, þær Dísa Þórðar og Dísa Júll komu svo í kjölfarið og gerðu alveg frábæra hluti.

 


Siglfirskir kappar. Skarphéðin Guðmundsson, Ófeigur Eiríksson, Geiri Sigurjóns, Hreinn Júll og Arnar Herbertsson.

 

Skíðavörur voru miklu dýrari um og fyrir 1960 en í dag þó flestum þyki samt nóg um. Sé farið lengra aftur í tímann voru þær auk þess beinlínis illfáanlegar svo ekki sé meira sagt. Ég keypti mér einu sinni Kessler skíði í verslun í Austurstræti í Reykjavík sem kostuðu 4.500 krónur, en sú upphæð var nálægt því að vera heilt mánaðarkaup í þá daga. Það var landlægur skortur á skíðavörum að ég tali nú ekki um úrvalið á Siglufirði. Gestur Fanndal var þó með svolítið og Sófus Árna með eitthvað líka, a.m.k. annað slagið, en mest varð að kaupa úr Reykjavík þegar og ef menn áttu leið suður.

 


Óli Nils á leiðinni upp í skarð.

 

Ég keppti í fyrsta sinn á landsmótinu sem var haldið á Akureyri 1952 en fékk þá bara að keppa í flokkasvigi vegna ungs aldurs. Þá gerðist það eins og svo oft að mér gekk mjög vel í annari ferðinni, en flaug á hausinn í hinni. Að þessu sinni var ég með mjög góðan tíma í seinni ferðinni, en bæði datt og datt þó ekki í eiginlegri merkingu í þeirri fyrri. Á einhvern óskiljanlegan hátt krossaði ég skíðin og keyrði þannig á fullri ferð á stöng. Skíðin læstust eða flæktust einhvern vegin utan um hana, ég hreinlega smurðist utan á bambusinn og varð líka eitthvað undarlegur til höfuðsins í svolitla stund við áreksturinn. Alla vega tók það sinn tíma að losna frá stönginni og koma sér af stað aftur.

 

Ég keppti aftur á landsmótinu 1957 sem var líka haldið á Akureyri, en það var ansi ævintýraleg keppni. Ég man hvað það var skítkalt þarna og við Siglfirðingarnir vorum síðbrókarlausir og alveg að frjósa í hel. Við vorum ekki vanir svona leiðinda næðing sem magnaði upp kuldann svona gríðarlega mikið. En þarna háði ég harða keppni við snillingana Eystein Þórðarson og Toni Spiess sem sýndi mikil tilþrif í brautinni. Ég var ákveðinn í að standa í þessum snillingum, keyrði eins og ég gat og stóð niður brautina. Ég var með langbesta tímann og var vel fagnað þegar niður kom.

 

Eitthvað fór það fyrir brjóstið á félögum mínum og í annarri ferð bættu þeir báðir sína tíma. Það fauk meira að segja hressilega í Spiess sem við kölluðum alltaf Spíssinn og hann varð eiginlega alveg sjóðandi vitlaus. Ég varð þá auðvitað að reyna að bæta mig líka og keyrði nú alveg eins og vitleysingur. Neðarlega í brautinni missti ég annað skíðið og fór bara á öðru í gegn um fimm hlið, flaug þá á hausinn og rann á maganum í gegn um tvö síðustu. Ég spratt þá upp, hljóp til baka og renndi mér í mark og varð annar þrátt fyrir allt. Ég gat ekki verið annað en sáttur við útkomuna miðað við þessa skrautlegu atburðarrás og hef sjaldan verið jafn ánægður með nokkra medalíu.

 

Laugardaginn 27. apríl 1957 birtist frásögn um mótið í Morgunblaðinu undir og hluti hennar fjallaði um svigkeppnina.

 

“Á páskadag brást veðrið algerlega. Þó voru þann dag háðar mjög skemmtilegar keppnir. Svigi karla var beðið með nokkurri eftirvæntingu, en þó munu flestir hafa gert ráð fyrir að Reykvíkingarnir mundu verða þar í fyrstu sætum, ef miðað var við bæði stórsvig og brun. Í vonskuhríðinni uppi í Fossgili lagði Toni Spiess mjög skemmtilega svigbraut. Var hún eins og

flokkasvigbrautin mjög flókin og með gildrum. Hann skaut aukaportum upp að hárnálum svo menn héldu að þar væri komin einhver óskapleg portaflækja, sem þó reyndist ekki annað en einföld hárnál. Ruglaði þetta suma og tafði fyrir þeim. Brautin var sem sagt mjög skemmtileg og vel lögð. Hófst nú keppnin og var Austurríkismaðurinn meðal keppenda. Hann fékk betri

brautartíma en Eysteinn Þórðarson 64.9 sek. Eysteinn hafði 66,6. Var nú fyrsta „grúppa" frá, en í henni eru 13 beztu svigmenn landsins. Mega þeir velja um 13 fyrstu rásnúmerin til þess að hafa kost á brautinni áður en hún er teljandi skemmd orðin. En nr. 22 kom unglingur einn frá Siglufirði, aðeins annarar „grúppu" maður. Hann gerði sér hægt um hönd og fékk langbezta brautartíma íslendinganna í fyrri ferð og meira að segja ögn betri tíma en Austurríkismaðurinn. Jóhann hlaut 64,8 sek. Setti nú margan keppandann hljóðan en áhorfendur sendu frá sér mikið gleðihróp utan úr hríðinni. Allir sáu nú að Eysteini var hætt með meistaratitilinn. Eysteinn átti því öllu að tapa, en Jóhann allt að vinna. Eysteinn varð líka að hugsa um Alpa-þríkeppnina. Hann átti mikla möguleika á sigri þar. Og Eysteinn tók þann kostinn að keyra örugglega, hætta sér ekki um of. Jóhann tók hinn kostinn að keyra eins og vitlaus maður, enda var það hans eina von. Hann var kominn svo til neðst í brautina á mettíma og benti allt til þess að hann ætlaði að fá mun betri tíma í seinni ferðinni. Austurríkismaðurinn hafði þó skotið sér niður í 63,4 sek. En þá skeði slysið hja Jóhanni. Hann þoldi ekki hraðann og fipaðist. Menn héldu augnablik að hann ætlaði að bjarga sér en þá datt hann. Hófst nú æðisgengið rass- og handahlaup gegnum nokkur hlið og endirinn varð sá að Jóhann hafði sig á lappir aftur án þess að stórtjón hlytist af, en þetta kostaði hann sigurinn.

Úrslit urðu eftirfarandi:

1. Eysteinn Þórðarson R 66,6 63,9 130,1

2. Jóhann Vilbergsson S 64.8 67,5 132,3

3. Kristinn Benediktsson Í 68.9 66,6 135,S

4. Hjálmar Stefánsson A 71.0 65,3 136^

5. Ásgeir Eyjólfsson R 69,3 67,1 136,4

6. Stefán Kristjánsson R 70.1 67,0 137,1

13 luku ekki keppni og sjá menn á því að brautin hefir ekki verið neitt lamb að leika sér við.”

 


Skarphéðin Guðmundsson kaupfélagsstjóri og skíðakappi ásamt Sigurði Sigurðssyni hinum ógleymanlega íþróttafréttamanni Ríkisútvarpsins á Skíðamóti 1959.


Ég fór mína fyrstu skíðaferð erlendis árið 1957 og þá var byrjað á að fara til Åre sem í norður-Svíþóð. Þar var hópur af Íslendingum í æfingabúðum og auðvitað var þar líka fullt af Svíum. Við lentum í heilmiklum ævintýrum þarna og vorum meðal annars settir í eins konar stofufangelsi alveg blásaklausir. Þannig háttaði til að í skálanum var glymskratti sem var auðvitað alveg geysivinsælt apparat, einhverjir landar okkar áttuðu sig á því að íslenski fimmkallinn smellpassaði í hann og hann var því alveg óspart notaður.

 

Þarna voru þrettán eða fjórtán Ísfirðingar og KR-ingar, en við vorum bara fjórir eða fimm sem vorum á vegum Skíðasambandsins. Eitt það sem við skíðasambandsstrákarnir áttum sameiginlegt var að við vorum allir alveg staurblankir. En þegar tækið er tæmt og gert upp rétt áður en við áttum að fara kom glæpurinn í ljós og uppi varð fótur og fit hjá Svíunum. Íslensku fimmkallarnir voru snarlega umreiknaðir í sænskar krónur og við rukkaðir um stórfé. Einhverra hluta vegna var kröfunni eingöngu beint að okkur, en mig grunar nú að pjakkarnir í KR eða Ísfirðingarnir hafi átt heiðurinn eða skömmina af framtakinu. Kannski hafa Svíarnir haldið að við værum betri greiðendur en þeir af því að Skíðasambandið stóð fyrir veru okkar þarna, eða talið okkur ábyrga fyrir öllum hópnum af sömu ástæðu.

 

En hvort tveggja var víðs fjarri sannleikanum, en við vorum í jafn slæmum málum fyrir það. Það var úr að við hringdum heim, bárum okkur illa og sögðum farir okkar ekki sléttar. Það var auðvitað brugðist við, skrapað saman pening í hvelli og hann síðan sendur út, við gátum greitt fyrir tjónið og máttum þar með fara. Það var eins gott því næsti áfangastaður var Holmenkollen þar sem nokkrir Íslendingar kepptu þetta árið með svona þokkalegum árangri. Það var fyrsta stóra erlenda mótið sem ég tók þátt í, en ég fór svo þangað aftur árið eftir.

 


Jonni Vilbergs árið 1958

 

Árið 1958 var ég í landsliðinu sem keppti á Heimsmeistaramótinu í Badgastein í Austurríki, en einnig á nokkrum punktamótum þar ytra. Aðdragandinn var með þeim hætti að ég fór vegna þess að Akureyringurinn Magnús Guðmundsson hætti við og lét reyndar ekki vita fyrr en á síðustu stundu, en ég var fyrsti varamaður. Aðrir sem fóru út voru Úlfar Skæringsson, Eysteinn Þórðarson og Kristinn Benediktsson. Það var því allt komið í tímaþröng, heilmikið uppnám og eiginlega miklu meira en það, því aðrir keppendur voru þegar lagðir af stað þegar haft var samband við mig. Þá var ég að beitningamaður á Hring SI-34 og það var auðvitað um fátt annað að ræða en að gera sig kláran í einum hvelli. Ég þurfti að komast sjóleiðina til Akureyrar morguninn eftir en þaðan flugleiðis til Reykjavíkur. Í Reykjavík var svo gist rétt yfir blánóttina áður en var flogið áfram til London.

 

Þetta gerðist allt svo hratt að það vannst ekki einu sinni tími til að komast í banka og verða sér úti um svolítinn gjaldeyri. Ég fékk heila 20 dollara í farareyri frá Skíðasambandinu og var sagt að þegar ég kæmi til Wengen í Sviss, myndi ég hitta hina keppendurna og þeir hefðu undir höndum fé sem ætlað væri öllum hópnum. Ég varð því bara að treysta á guð og lukkuna og halda á vit ævintýranna með heldur léttan mal. Mér er minnisstætt að þegar ég kom til Heathrow, var þar samankominn á brautarstöðinni fjölmennur hópur fríðra kvenna og aðgangsharðra fréttamanna. Ég fór auðvitað að forvitnast um hvað þarna gengi á og sá þá að þarna var sjálfur Mario Lanza á ferð. En atgangurinn í kring um hann var svo mikill að hann kom engu frá sér að neinu viti. Fréttasnáparnir gjömmuðu allir í einu og svo vildu líka greinilega fleiri en þeir fanga athygli hans. Hann réði ekkert ekki við ástandið og ýmist brosti breitt eða setti upp hálfgerða skeifu. Stórsöngvarinn hafði fram að þessu verið í miklu uppáhaldi hjá mér, en fékk þarna nokkur mínusprik og hefur eftir þetta aldrei náð fyrri reisn ef þannig mætti að orði komast.

 

En áður en lengra er komið sögu verður að geta þess að ég hafði verið beðinn fyrir hangikjötslæti til Friðleifs vinar míns, en hann var þá að læra tannlækningar í Munchen. Vegna þess hve óheppilegt var að það hlaut að teljast að ferðast með þann pakka í ferðatöskunni með fötunum mínum og öðrum slíkum farangri, var ég eignlega með lærið í fanginu frá Siglufirði til Akureyrar, þaðan til Reykjavíkur og svo áfram til London. Frá London var flogið til Zürich í Sviss og alltaf var hangikjötslærið innan seilingar. Þegar þangað var komið var ég í heldur verri málum því þarna töluðu allir bara frönsku eða þýsku og þar með var ég orðinn mállaus. Ég settist á bekk við járnbrautarstöð einhvers staðar ekki langt frá flugvellinum og auðvitað við hliðina á hinu rammíslenska hangikjötslæri sem var eiginlega orðið eins konar ferðafélagi minn. Mér hafði tekist að kaupa miða með járnbrautarlestinni til Wengen þrátt fyrir tungumálaerfiðleikana, en var samt ansi mikið utan gátta þarna. Ég sá þá mann sem virtist vera starfsmaður þarna á stöðinni, sýndi honum miðann minn og fór að reyna að segja honum hvert ég vildi komast. Hann leit á miðann, stökk af stað með dótið mitt og benti mér að fylgja sér. Ég elti hann að lest sem var greinilega rétt í þann veginn að leggja af stað, stökk um borð með allt mitt hafurtask en hann stóð eftir og fylgdist með.

 

Þegar lestin rann af stað stóð hann ennþá í sömu sporum, en ég veifaði honum þá vinalega út um gluggann, auðvitað afar þakklátur fyrir hjálpina. Mér til mikillar undrunar tók hann kveðju minni hreint ekki vel, heldur steytti hnefann í áttina að lestinni. Þetta var áður en ég vissi jafn mikið um “tips” eða þjórfé eins og það heitir upp á íslensku, og ég veit í dag.

En áður en lestin var komin á fullt skrið áttaði ég mig á að nú var ég fyrst algjörlega aleinn á ferð í fjarlægu landi þar sem ég skildi ekki nokkurn mann og enginn skildi mig. Hangikjötslærið sem mér hafði verið treyst fyrir, hafði nefnilega orðið eftir á bekknum sem ég tyllti mér á svolitla stund á brautarstöðinni í Zürich.

 


Á Tre Tre mót á Ítalíu 1958 í Madonna Mana De Campiglio

 

Frá Zürich lá leiðin til Wengen, en þar stóð til að keppa á punktamóti. Það var hreinlega mikilfenglegt að fara þangað með lestinni, því leiðin lá inn í jarðgöng sem hækkuðu sig smátt og smátt inni í fjallinu og svo var komið út í töluverðri hæð og beint inn í algjöra skíðaparadís. Þetta var ótrúlega flott, en það sem á eftir fylgdi var ekki síður ótrúlegt þó með öðrum hætti væri. Ég fann út hvar mótsstaðurinn væri, en þegar þangað kom varð mér svolítið bilt við. Á töflu uppi á vegg mátti sjá árangur félaga minna frá litla Íslandi og það sem meira var, vika var liðin frá því að mótið hafði farið fram. Mér fannst þá stundina ekki mikið koma til þekkingar og áreiðanleika Skíðasambandsins Íslenska og að þeir mættu gjarnan læra betur á dagatal. Nú voru góð ráð dýr, ég komst ekki lengra þennan daginn og varð auk þess að hvílast yfir nóttina því ég var orðinn mjög þreyttur. Ég fékk herbergi á ódýru gistiheimili og nú var ekki mikið eftir af 20 dollurunum. Um morguninn var ég alveg banhungraður og átti þá nákvæmlega fyrir einum banana en ekki eyri umfram það.

 

 

Næst lá fyrir að koma mér á næsta stað sem var Kitzbühel í Austurríki, en þar átti líka að keppa á punktamóti. Mér fannst ekki ólíklegt að þar væru landar mínir og það mót væri ekki að baki. Ég hafði hins vegar ekki hugmynd um hvernig ég gæti komist þangað, því ég var orðinn alveg staurblankur. Mér datt þó í hug að reyna fyrir mér í betli og byrjaði á brautarstöðinni.

 

Ég sýndi einhverjum mönnum þar miðann minn og reyndi að segja þeim að ég þyrfti að komast áfram, ég ætti að keppa á heimsmeistaramótinu fyrir Ísland en ætti ekki fyrir miðanum með lestinni. Auðvitað skildu þeir ekki orð af því sem ég sagði, en böðuðu út öllum öngum og virtust hafa heilmikið um vandamál mitt að segja. Ég skildi heldur ekkert í babblinu hjá þeim, því þetta fólk talaði hvorki ensku né nokkurt norðurlandamálanna sem mér fannst eiginlega alveg ótækt. Þó fór það svo að lokum að mér var með einhverju móti komið í skilning um að ég hefði borgað fyrir miða bæði til og frá Wengen og skildi því endilega drífa mig um borð í rétta lest.

 

Þetta þóttu mér vægast sagt góðar fréttir á þessari stundu og ég fór að litast um eftir einhverri lest sem gæti mögulega verið sú rétta. Ég gekk lengi meðfram næstum óendanlega langri röð vagna og eimreiða. Loksins taldi ég mig hafa fundið réttu lestina, valdi mér vagn sem mér leist vel á og kom mér þar fyrir. Þetta var flottasta lest sem ég hafði stigið upp í, en mér fannst samt eins og eitthvað væri bogið við þetta allt saman. Ég fór því aftur út, hitti fyrir annan starfsmann og sýndi honum miðann. Sá fórnaði höndum og sagði “no, no, no, Italiano” og teymdi mig til baka sömu leið og ég hafði komið.

 

Að lokum benti hann á miðann og síðan á lest sem var sennilega ein sú ljótasta sem ég hafði nokkru sinni séð. Ég var nú samt feginn, því ég var engan vegin í stuði til að gerast strandaglópur einhvers staðar suður á Ítalíu eftir öll ósköpin sem á undan voru gengin. Ég settist inn og velti fyrir mér hvaða örlög biðu mín handan við næsta horn. Þegar lestin renndi inn á brautarstöðina í Kitzbühel var ég með andlitið klesst út við rúðuna í vagninum og horfði rannsakandi á þá sem þarna voru. Allt í einu sá ég kunnuglegt andlit í mannfjöldanum, ég opnaði gluggann, hrópaði og veifaði af öllum mætti. Það bar árangur og Úlfar Skæringsson sem þarna var, sá mig og þar með var ég hólpinn. Ég varð svo yfir mig glaður að ég held að ég hefði næstum því getað hugsað mér að kyssa hann á bossann. Þarna voru líka hinir keppendurnir og það sem gladdi mig einna mest, þeir höfðu komið einhvers staðar við og keypt fullt af alls konar ávöxtum til að nasla á um kvöldið. Ég réðist á birgðirnar eins og villidýr, hætti ekki fyrr en ekkert var eftir og þeir fengu ekki eina einustu ögn af veisluföngunum.

 


Á Tre Tre mót á Ítalíu 1958 í Madonna Mana De Campiglio

 

Ég átti þarna Kneissel skíði, en var búinn að missa undan þeim eitthvað af skrúfunum sem héldu stálköntunum. Það var þá ekki um annað að ræða en að nota skrúfur með kúptum haus og sverfa hann síðan eins mikið af og maður þorði. Ég fór með skíðin út með mér en sóttist eftir því að fá ný skíði til að keppa á. Karlarnir þarna voru alveg furðu lostnir þegar þeir sáu útganginn á köntunum og spurðu hvort ég hefði virkilega keppt á þessum skíðum. Ég svaraði því þá til að þau væru fín og þetta væri bara nýja bremsukerfið sem virkaði alveg ágætlega. Mér var að sjálfsögðu útveguð ný skíði.

 

En raunir mínar voru ekki á enda því það kom í ljós að það hafði gleymst að skrá mig til leiks þarna í Kitzbühel. Það varð því ekkert úr því að ég keppti þar, en ég var engu að síður alveg óskaplega glaður yfir því að vera kominn í samband við íslenska hópinn. Annað sem gerðist var að Kristinn hóf sig til flugs úr Hanichan brunbrautinni og sat allt í einu á grein uppi í einu hæsta trénu í skóginum. Eftir að búið var að ná honum niður og koma honum á sjúkrahús, kom í ljós að hann var í það minnsta handleggsbrotinn auk þess að vera talsvert marinn og bólginn hér og þar. Við heimsóttum hann daginn eftir þar sem hann lá reyfaður upp úr og niður úr eins og múmía. Þessi innpakkaði einstaklingur hefði auðvitað getað verið hver sem er, en af því að það var töluð íslenska inni í öllum umbúðunum vissum við að þetta væri hann Kristinn. En þarna var hann sem sagt úr sögunni svona rétt fyrir sjálfa aðalkeppnina sem allt hafði snúist um.

 


Jóhann Vilbergsson í brautinni á Heimsmeistaramótinu í Bagdastein 1958. Á kortinu hér að neðan sem Ragnar Páll teiknaði fyrir Skíðafélagið og var gefið út af SSS, er skíðamaðurinn í brautinni númer 74 sem virðist vera sótt í þessa mynd.

 

Á heimsmeistarakeppninni í Badgastein náði ég 10. besta millitímanum í stórsvigsbrautinni og komst upp í aðra grúppu sem skipti ekki svo litlu máli. Ég var þó svo “heppinn” að steinrotast í brunkeppni næst síðasta daginn og losnaði því við að klára hana. Ég hefði líklega aldrei komist lifandi niður því ég hefði auðvitað látið mig vaða eins og venjulega. Neðsti hluti brautarinnar var mjög öldóttur og þegar komið var þangað á mikilli ferð hafði maður ekki nokkra hugmynd um hvar maður var eiginlega staddur. Ég kom upp úr einni öldunni eins og loftfar, endaði á staur og vissi ekkert af mér í einhvern tíma. Svo þegar ég rankaði við mér fann ég ekkert fyrir fætinum neðanverðum og var alveg viss um að ég væri brotinn. Ég fór þá að reyna að hreyfa tærnar og þreifaði á löppinni á mér og gat ekki fundið neitt brot. Ég stóð þá bara upp og hélt mína leið. Daginn eftir var svo verið að æfa svig þegar fóturinn blés út eins og blaðra. Þá kom í ljós að ég hafði líklega slegið stálkantinum á öðru skíðinu í legginn á mér og laskað beinið eitthvað. Það var samt haldið áfram og keppt á ýmsum minni mótum hingað og þangað og alls tók ferðin tæpa tvo mánuði.

 


Hér að ofan má sjá ljósmyndina sem Ólafur Ragnarsson tók og er fyrirmyndin af jólakortinu sem myndlistarmaðurinn Ragnar Páll gerði. Hann sótti þó Rásnúmerið í aðra átt, því Jonni var númer 74 á Heimsmeistaramótinu 1958. Jólakortaserían sem skíðafélagið gaf út varð geysivinsæl.

 

Það er hins vegar af hangikjötslærinu að segja að ég hitti Friðleif hálfum mánuði síðar þegar hópurinn kom til Munchen og fór þá að afsaka að hafa ekki komið því til skila. Hann rak í rogastans, sagðist hafa fengið það með góðum skilum og það væri ekki arða eftir af því. Að vísu hefði það verið aðeins byrjað að brjóta sig, en engu að síður bragðast alveg ágætlega. Þetta fannst mér skrýtið en þegar ég hafði spurt betur út í það, náði ég að raða endapúslinu saman. Þegar ég hafði staðið upp af bekknum í Zürich og skilið það eftir þar, leið ekki langur tími þar til íslenskur flugmaður átti leið þar fram hjá. Lærið var merkt viðtakanda og hann tók strax eftir því að þarna mátti lesa eitthvað sem kom honum í meira lagi kunnuglega fyrir sjónir. Svo vel vildi til að umræddur flugmaður og Friðleifur þekktust vel, þannig að sá fyrrnefndi tók lærið sér til handargagns og kom því til tannlæknanemans.

 


Á Tre Tre mót á Ítalíu 1958 í Madonna Mana De Campiglio

 

Þannig er að skíðaframleiðendur leggja mikið kapp á að fá keppendur til að keppa á sínum skíðum og gefa þá skíði til að nota á mótunum. Kessler bauð þeim þrenn pör sem vildu keppa á skíðum frá þeim og langflestir voru á Kessler því það var eitt aðalmerkið. Það hafði auðvitað mikið auglýsingagildi fyrir þessi fyrirtæki að geta flaggað því að þeirra skíði væru notuð á stórmótum. En þarna kom nýr aðili til sögunnar sem fram að þessu hafði ekki blandað sér í slaginn um athyglina á mótum af þessari stærðargráðu. Það var Atomic og þeir reyndu mikið að koma sér á framfæri þarna. Ég var alveg til í að nota Atomic og það gerði líka ein stelpa frá Austurríki. Þau reyndust ekkert síður en önnur skíði, en þeir voru greinilega mjög kátir með að geta sett Badgestein stimpilinn á skíðin sín og létu mig hafa 14 pör. Það bjargaði alveg ferðinni svona fjárhagslega, því ég seldi svo auðvitað skíðin þegar heim var komið. Ég man að Valtýr Sigurðsson fékk ein pör úr þessari ferð, en þau voru hvorki meira né minna en 2.20 á lengd. Það hentaði honum reyndar ágætlega því hann var algjör járnkarl.

 


Það var alltaf gerð flott kynningarmynd fyrir Ólympíuleikana. Á þessari eru Þórir Jónsson í Ford, Stefán Kristjánsson, Steinunn Sæmundsdóttir, Ásgeir Eyjólfsson, Jonni, Valdimar Örólfsson.

 

Svo var líka fullt af fyrirtækjum sem létu okkur hafa alls konar fatnað til að keppa í og voru þar með yfirleitt komin með fína auglýsingu. Það var auðvitað skíðafatnaður af öllu tagi og mér fannst t.d. mikill fengur að ná í góðar teygjubuxur. Þetta var löngu fyrir tíma heilgallanna og allar alvöru skíðabuxur voru úr stretchefni. Ég man að einu sinni áskotnuðust mér nokkrar bláar stretchbuxur með hvítri rönd sem var alveg nýtt og auðvitað langflottast. Gústi Stebba fékk einar slíkar hjá mér og lengi á eftir var Gústi helst alltaf í bláu buxunum með hvítu röndinni og auðvitað rosalega töff.

 

Það var reynt að versla eins mikið og hægt var í þau skipti sem farið var út því það munaði ekkert lítið á verði á skíðavörum þar og hér. Einu sinni ætlaði ég að vera hagsýnn og pantaði Atomic skíði beint frá verksmiðjunni. En þegar þau voru komin alla leið heim voru þau auðvitað tollafgreidd eins og lög gera ráð fyrir og það ekki ofsagt að hann Hjörleifur Magnússon var nákvæmur maður og samviskusamur í vinnunni. Þegar hann hafði farið höndum um pappírana og flokkað gripina m.a. í vöruflokk sem átti samkvæmt regluverkinu að bera lúxustoll, voru skíðin orðin dýrari en út úr búð í Reykjavík.


Á Tre Tre mót á Ítalíu 1958 í Madonna Mana De Campiglio

 

Frá Austurríki fórum við svo beint til Ítalíu og kepptum á Tre Tre mótinu í Madonna Mana Di Campiglio. Ég var slasaður en maður varð að vera með og komast einhvern vegin niður, því allir sem luku keppni fengu verðlaun. En ég rotaðist nú líka þar í bruninu því ég fór yfir einhvern hól, snérist við í loftinu og kem niður beint á hausinn. Ég reyndi að standa upp en það var ekki nokkur einasta leið. Þá kemur þarna vörður sem reynir að drösla mér á fætur en það gengur ekkert. Hann gerir sig þá líklegan til að strika mig út úr keppninni, en það fannst mér náttúrulega alveg út úr korti þó ég væri ekki í neinu standi til að halda áfram. Ég dröslaðist því einhvern vegin á lappirnar, þeyttist af stað og komst í mark.

 

Það var stórt atriði að ná því að ljúka keppni þó menn enduðu ekki alltaf í toppsætunum, því það gat þýtt nokkur pör af skíðum, stafi, peysur, skíðabuxur og alls konar dót sem menn hlutu í viðurkenningarskyni og höfðu með sér heim. Á öllum þessum útbúnaði var mikill skortur á Siglufirði og þetta kom sér mjög vel fyrir marga í skíðabænum.

 


Egon Zimmermann og Jonni Vilbergs árið 1959

 

Landsmótinu sem átti að vera á Siglufirði 1959 var frestað vegna flensufaraldurs. Egon Zimmermann mun aðallega hafa komið til Siglufjarðar vegna mótsins sem átti að vera en varð ekki af. Hann staldraði þó við og þjálfaði okkur skíðastrákana, en hann var þá talinn vera einn af fimm bestu í heimi í Alpagreinum. Hann var afburða góður þjálfari og tilkoma hans breytti heilmiklu fyrir mig og eflaust flesta aðra nemendur hans. Hann byrjaði samt á því að senda okkur í plóginn eins og það er kallað á skíðamannamáli og nokkrum félögum mínum fannst það hálfgerð niðurlæging. En hann gerði mjög góða hluti og innrætti okkur tækni sem við nutum góðs af alla tíð. Við fórum og kepptum á Páskamóti á Akureyri, þaðan til Ísafjarðar og svo til Reykjavíkur. Ég man ekki hvort við enduðum á Skarðsmótinu, en ég keppti alla vega þar eins og venjulega.


Landsmót 1960 á Siglufirði. Mótið sem átti að vera 1959 en var frestað var haldið árið eftir í Skútudal. Þá urðu  þau tímamót að þar fór fram síðasta brunkeppni hérlendis.

 

Síðasta keppni í bruni hérlendis var haldin í hlíðinni fyrir neðan klettana sem eru sunnan við Skollaskál en norðan við Hestskarðsskál. Þetta var árið 1960 og ég var að sjálfsögðu einn af keppendunum. Þarna var farið alveg gríðarlega hratt yfir og það voru heilir 300 metrar á milli hliða fyrir ofan gilið uppi á sléttunni. Brunskíðin voru hvorki meira né minna en 2.20 á lengdina, enda dugar ekkert minna í þeirri grein. Markið var svo niður undir Skútuánni svolítið norðan við þann stað þar sem munni Héðinsfjarðarganga er núna. Þegar ég kom fram á brúnina þar sem brekkan byrjaði fyrir alvöru, var ég kominn á mikinn hraða. Ég skrallaði þá niður fyrir eina stöngina og þurfti að stoppa og labba upp fyrir hana. Þessi uppákoma varð auðvitað til þess að hraðinn minnkaði og fyrir vikið hef ég kannski staðið alla leið niður. Ég náði nú samt 2. sæti á eftir Eysteini og þóttist bara góður með það.

 


Ólympíuleikarnir Squaw Valley California 1960. Hér eru Jonni og Kristinn Ben að kanna svigbrautina fyrir keppni.

 

Ég keppti á Ólympíuleikunum í Squaw Valley í Californiu árið 1960. Á leiðinni þangað var þó staldrað við u.þ.b. mánuð í Aspen til æfinga. Það voru mistök að mínu mati, því þar var mikið snjóleysi og skynsamlegra hefði verið að fara t.d. til Austurríkis. Þetta var í fyrsta sinn sem ég kom til Aspen, en hef síðan komið tvisvar þangað og síðast þegar ég var sjötugur. Auk mín kepptu þarna þeir Eysteinn Þórðarson, Kristinn Benediktsson og Skarphéðinn Guðmundsson. Upphaflega stóð til að senda aðeins mig, Eystein og Kristinn, því ekki var til fjármagn nema til að kosta þrjá menn á leikana, en Siglfirðingar efndu þá til söfnunar til að Skarphéðinn gæti líka farið og það varð úr. Eysteinn varð svo eftir í Squaw Valley og bjó þar allt þar til hann lést á síðasta ári. Hann var jarðsettur á Ólafsfirði.


Á æfngu fyrir Ólympíuleikana í Aspen 1960. á myndinni eru Hermann Stefánsson fararstjóri, Eysteinn Þórðarson, Jonni Vilbergs og Leifur Gíslason.

 

Nokkru síðar settist Úlfar að í Aspen og kenndi á skíðum á veturna, en stundaði garðyrkju á sumrin. Úlfar býr þar enn og ég er búinn að heimsækja hann þangað tvisvar sinnum. Að öðrum ólöstuðum voru þeir Eysteinn og Úlfar mínir bestu vinir og félagar meðan þeir bjuggu hérna, hvort sem það var í skíðabrekkunum eða utan þeirra.


Landsmót Ísafirði 1961. Jóhann er á fullri ferð og ljósmyndarar
fréttablaðanna fylgjast með. Í marsmánuði árið 1978 birtist stutt spjall við hann í Morgunblaðinu, en þá var hann að keppa á sínu 25. landsmóti. Hann var spurður hve lengi hann ætlaði að halda áfram að keppa og hann svaraði að bragði: „Já, já. Ég er alltaf að hætta, það bara gengur ekkert."

 

Ég keppti svo aftur á Olympíuleikunum í Innsbruck í Austurríki árið 1964. Af fimm íslensku keppendunum voru þrír frá Siglufirði, þ.e. ég, Birgir Guðlaugsson og Þórhallur Sveinsson. Aðrir voru Árni Sigurðsson frá Ísafirði og Kristinn Benediktsson úr Hnífsdal en Valdimar Örnólfsson var þjálfarinn okkar. Ég átti þess líka kost að keppa í Grenoble í Frakklandi 1968, en þá voru aðstæður mikið breyttar frá því síðast og ég átti ekki eins vel heimangengt og áður. Fjölskyldan hafði stækkað og ég gat ekki farið að heiman í einhverjar vikur og verið launalaus á meðan auk þess sem fjórða barnið var þá á leiðinni.


Ýmis konar viðurkenningar, silfur og auðvitað fullt af gulli.

 


Jonni sagði mér sögu bikaranna, fyrir hvað og síðan hvenær þeir væru.

 

Á sínum velmektarárum stóðust fáir Siglfirðinga snúning á mótum og yfirburðir þeirra voru afgerandi. Á landsmóti á Akureyri árið 1962 komum við til dæmis heim með öll gullin fyrir þær greinar sem við kepptum í nema tvö. Þegar við komum heim eftir mótið var tekið á móti okkur eins og kóngurinn sjálfur væri að koma í bæinn. En ég átti reyndar einhverja sök á því að við kæmum ekki með enn fleiri gull og það var auðvitað hnéð og aðferðarfræðin hjá mér sem átti þar hlut að máli. Ég gaf nefnilega alltaf allt í botn þegar ég keppti og sleppti öllum bremsum og allri varúð. Ég bara keyrði allt í botn og ferðin niður brekkurnar var eins og að spila í happdrætti. Annað hvort stóð ég og vann þá yfirleitt, eða hnéð gaf sig og ég flaug á hausinn. Árið eftir var svo mótið á Siglufirði og þá unnum við öll gullin.


Flugleiðir buðu upp á skíðaferðir í Alpana og báðu mig að sitja fyrir vegna auglýsingar sem þeir ætluðu að gera. Þetta er líklega mín eina reynsla af fyrirsætustörfum sagði Jonni.

 

Ég reyndi auðvitað að segja þeim sem yngri voru eins mikið til og ég gat, fyrst á Siglufirði en síðar á Dalvík og í Skálafelli. Það var auðvitað bara sjálfsagt og eðlilegt allt saman, en í Skálafelli vildu þeir fara að borga mér laun fyrir að þjálfa. Mér fannst það ekkert sérlega góð hugmynd vegna þess að ég var að þessu fyrst og fremst ánægjunnar vegna. En það varð nú samt úr og þá minnkuðu líka skemmtilegheitin til muna. Það var farið að gera alls konar kröfur og þjálfarinn átti að gera alla skapaða hluti. Ég hafði látið krakkana vinna og hafa fyrir hlutunum, því ég held að þau læri mest á því að gera sem allra mest sjálf. Þar á ég við alla undirbúningsvinnu fyrir æfingar eins og að leggja brautir o.fl. Veturinn eftir var svo þjálfarastaðan auglýst og ég var spurður að því hvort ég ætlaði ekki að sækja um. Ég svaraði því til að ég væri alveg til í að segja fólki til en ekki gegn gjaldi.

 


Við æfingar í Skálafelli 1959. Eysteinn Jónsson, Egon Zimmermann, Jonni Vilbergs, Valdimar Örnólfsson og Úlfar Skæringsson.

 

Ég þjálfaði á Seyðisfirði í heila sex vetur. Það var alltaf haft samband við mig þaðan og sagt að nú þyrftum við að fara að vinna “Noddarana” sem voru Norðfirðingarnir. Þar var auðvitað rígur á milli þessara bæja eins og gengur og svo vildi til að Seyðfirðingar unnu öll árin sem ég var þar.

 


Skíðaferð til Aspen 2004. Auður Elísabet jóhanns, Bogi Nilsson, Óli Nilsson, Jonni, Birna Kristín Eiríksdóttir og Anna Kristín Jóhannsdóttir.

 

Það má alveg segja að það sé eitthvað um skíðagen í fjölskyldunni. Hún Dísa Þórðar er frænka mín, móðurafar okkar voru bræður og við erum ættuð úr Svarfaðardalnum. Kristinn bróðir minn keppti á Páskamóti árið 1956 á Ólafsfirði og þeir Heiðar Árnason frá Dalvík voru hnífjafnir og deildu með sér fyrsta sætinu, en við Heiðar erum líka þremenningar.


Jonni sjötugur í Aspen og stíllinn alltaf jafn flottur.

 

Ég sagði Snorra Hallgrímssyni lækni að ég væri alveg heilmikið að djöflast alltaf hreint á skíðum, en hann er beinasérfræðingur og Dalvíkingur í ofanálag. Honum leist vel á það og sagði mér að halda því áfram alveg eins lengi og hægt væri, því ef ég stoppaði væri eins víst að allt færi á verri veg. Ég tók hann á orðinu og hef ekki hætt síðan þó ég sé orðinn 75 ára. Nú hætti ég að keyra leigubíl eftir fáeinar vikur og þá gefast væntanlega fleiri tækifæri til að skreppa á heimaslóðir og skella sér í Skarðið.


Það er heilmikið safn skíða og alls kyns búnaðar sem þekur heilan vegg og gott betur úti í bílskúr. Samt er búið að grisja alveg heilan helling í gegn um tíðina.

 

 

Texti: Leó R. Ólason.

Myndvinnsla og allar nýjar myndir: Birgir Ingimarsson.

Allar myndir teknar á Skarðsmóti 1959: Hannes Bald.

Fyrirmyndin af jólakorti Ragnars Páls: Ólafur Ragnarsson.

Aðrar myndir eru úr einkasafni Jóhanns Vilberssonar.

 

 


Athugasemdir

22.janúar 2025

Sk Sigló ehf.

580 Siglufjörður
Netfang: sksiglo(hjá)sksiglo.is
Fylgið okkur á Facebook eða Twitter

Póstlisti

Skráðu netfangið þitt á póstlistan okkur.

Ábendingar

Ertu með ábendingu fyrir síðuna eða góða frétt? Sendu okkur þá póst og við könnum málið.

Sendu póst