Ææi þetta stingur mann í augun. MYNDIR

Ææi þetta stingur mann í augun. MYNDIR Bæjarbúar hafa verið ákaflega duglegir við að hafa samband við Sigló.is og segja sínar skoðanir á hinum ýmsu

Fréttir

Ææi þetta stingur mann í augun. MYNDIR

Aðalgata 6, tímaspursmál hvenær framhlið hrinur
Aðalgata 6, tímaspursmál hvenær framhlið hrinur

Bæjarbúar hafa verið ákaflega duglegir við að hafa samband við Sigló.is og segja sínar skoðanir á hinum ýmsu málum.

Eitt af því sem margir hafa nefnt er útlit vissra húsa í bænum og frágangur og útlit við Öldubrjót meðal annars stórt spýtnabraksfjall, ryðrauðra olíutanka og bílahræ sem standa hingað og þangað um bæinn.

Spýtnabraksfjallið stóra við Öldubrjót.

Einnig eru margir undrandi á efnistöku sem unnið er að í fjörunni í Hvanneyrarkróknum þessa dagana og finnst mörgum að fjörunni hafi verið illilega misþyrmt. 

Það er í dag orðið þannig í okkar fagra firði að sumt stingur mann meira í augun núna en áður, vegna þess hversu mikið hefur verið unnið að snyrtingu húsa, garða og gatna út um allan bæ. 

Fréttaritari fór smá túr með myndavélina og hafði síðan samband við Ármann Viðar Sigurðsson deildarstjóra tæknideildar Fjallabyggðar.

"Gott að þú hringir akkúrat núna til að spyrja um þessi mál" segir Ármann, "við vorum einmitt með fund í skipulags- og umhverfisnefnd Fjallabyggðar um þessi málefni í vikunni."

Efnistaka í fjöru Hvanneyrarkróks, ljótir ryðgaðir olíutankar og spýtnabraksfjall í baksýn.

2. 1507015 - Óásjáleg hús og lóðir
Niðurstaða fundar:
Umræða var tekin um ástand húsa og lóða fyrirtækja og einstaklinga í Fjallabyggð. Nefndin felur tæknideild að senda eigendum umræddra fasteigna og lóða athugasemdir vegna umhirðu og hvetja til úrbóta.

Einnig var sérstaklega rætt um húseignina Aðalgata 6 þar sem ekkert hefur verið gert til að laga útlit eða hindra áframhaldandi hrun frá múrhúð hússins sem byrjaði seint um haustið 2013.

Einnig er eigandi hús sem stendur á horni Hverfisgötu og Heiðarvegs áminntur um umbætur og það sama gildir um útlit (Póst og Síma) hússins á horni Aðalgötu og Grundargötu.

Einhverjir hafa reynt að setja stoðgrind til að styðja við múrpússningu hússins en það gekk illa þar sem enga festu var að fá í fúnum veggnum.

15. 1408047 - Ástand húss við Aðalgötu 6
Niðurstaða fundar:
Eiganda húss við Aðalgötu 6 Siglufirði var sent bréf dagsett 21.maí 2015 þar sem áréttuð var sú krafa að viðkomandi gerði úrbætur á útliti og frágangi fasteignarinnar. Gefinn var upp fjögurra vikna frestur til úrbóta eða tímasetta áætlun sem gerir ráð fyrir úrbótum við fyrsta tækifæri. Að öðrum kosti yrði málið tekið upp að nýju og lagðar á dagsektir.

Ekki hefur borist tímasett áætlun um úrbætur á eigninni. Því samþykkir nefndin að leggja á dagsektir að upphæð 20.000 kr. sem byrjar að telja frá og með mánudeginum 20.júlí 2015.

Ármann segir að Fjallabyggð hafi verið nærri að eignast húsið vegna vanrækslu fyrri eiganda en allt í einu var kominn nýr eigandi og nú verður bæjarfélagið að byrja upp á nýtt með áminningum og dagsektum.

Ein af mörgum sprungum hússins sem snúa að Aðalgötunni, stórhættuleg slysagildra fyrir gangandi vegfarendur.

Aðspurður um efnistökuna í Hvanneyrarkrók sagði Ármann:

 "Þetta er ekkert sem verður hefð fyrir í framtíðinni. Þannig er það að hafið hefur kastað miklu grjótefni í vesturkrók fjörunnar og heilmiklu af sandi í austurkrókinn.

Þetta gerir að öldur brotna ekki eins og skyldi við grjótvarnarvegginn.

Það passaði því vel að verktakafyrirtækið Bás fengi að taka þarna efni sem síðan er notað í endurbætur í Lækjargötu. 

Þeir munu síða laga þetta allt aftur að verki loknu og síðan sér hafið um afganginn.

Austurhorn Hvanneyrarkróks, sandur til efnistöku vegna endurbóta á Lækjargötu.

Hvanneyrarkrókur að vestan, efnistaka.

 Spýtnabraksfjallið á einnig að hverfa fljótlega og það er rétt þetta er ekki æskilegur staður fyrir geymslu á þessum úrgangi, bæði vega brunahættu og nálægðar við olíutankana sem þarna eru og einnig vegna sjónmengunar sem af þessu stafar.

Lóðinni hefur þar fyrir utan verið úthlutað til nýrra eigenda.

Spýtnabrakið teygir sig langt út á Öldubrjótsbryggjuna.

Olís mun fá bréf varðandi útlit tankana og ástand girðingar þar er ekki heldur gott."

Girðingin sem á að hindra börn og aðra óviðkomandi frá að komast inn á eldsneytistankasvæði Olís er hruninn og búið að moka spýtnabraki yfir. Ryðgaður tankur í baksýn er ekkert augnayndi heldur.

Síðan bætir Ármann við:

Síðan fengu 10 bílhræ hér í bæ og 4 á Ólafsfirði miða með áminningu frá Heilbrigðisstofnun Norðurlands til eigenda að fjarlæga þá og ef það er ekki gert munu bæjaryfirvöld safna þessum hræjum saman til geymslu í 45 daga. Síðan verða þessir bílar seldir í brotajárn.

En þetta er kostnaðarsamt og mikil leiðinda vinna fyrir bæjarfélagið.

Áminning um að fjarlæga bílhræ.

Að lokum, þetta er það fyrsta sem gestir bæjarins sjá þegar þeir keyra inn í bæinn úr norðurátt.

Takk fyrir spjallið og greinargóð svör Ármann.

Myndir og Texti:
Jón Ólafur Björgvinsson
Fréttasími: 842-0089  


Athugasemdir

23.nóvember 2024

Sk Sigló ehf.

580 Siglufjörður
Netfang: sksiglo(hjá)sksiglo.is
Fylgið okkur á Facebook eða Twitter

Póstlisti

Skráðu netfangið þitt á póstlistan okkur.

Ábendingar

Ertu með ábendingu fyrir síðuna eða góða frétt? Sendu okkur þá póst og við könnum málið.

Sendu póst