Gísli Jóhann Sigurðsson og eldspítustokka miðarnir
sksiglo.is | Afþreying | 26.01.2014 | 13:00 | Jón Hrólfur Baldursson | Lestrar 627 | Athugasemdir ( )
Gísli Jóhann Sigurðsson er burtfluttur Siglfirðingur og er sonur hjónanna Sigurðar Gíslasonar og Ernu Magnúsdóttur.
Gísli byrjaði ungur að safna
eldspítustokkum og gerir enn. Það er greinilegt að eldspítustokkar eru ekki bara eldspítustokkar heldur hafa þeir að geyma heilmiklar upplýsingar
um söguna. Gísli sendi mér nokkrar línur og útskýringar á hans safni sem gaman er að lesa og ég tel það best að það
komi óbreytt hérna fyrir neðan.
Frá Gísla.
Sennilega hef ég byrjað að safna stokkum sumarið 1963. Pabbi hafði gert það líka þegar hann var strákur á Króknum,
þannig að þegar hann sá hvað ég var að gera þá kom hann með í þetta.
Á sumrin þegar hann var á síld, þá hafði hann lítinn tíma í þetta, en á veturna þegar hann var að vinna
í Tunnuverksmiðjunni þá gafst honum betri tími, og svo seinna þegar hann var alkomin í land. Hann rakst fljótlega á grein í einni af
Hvem Hvad Hvor (Danskar bækur um ýmisleg aðskilin efni). Held að hann hafi verið að leita að myndum af dönskum frökturum til að hafa sem
fyrirmyndir af skipum í flöskur. Hvað um það í einni af þessum bókum var grein eftir danska konu sem var eldspýtna stokka miða
safnari. Hann skrifaði henni og hún gaf honum addressuna á BML&BS (British Matchbox Labels and Booklet Sociaty) sem við gerðumst báðir
meðlimir í. Hann gerðist reyndar líka félagi í öðrum klúbb í Belgíu sem lognaðist útaf nokkrum árum
síðar.
Ég aftur á móti var um tíma í frönskum safnara klúbbi. Þá var ekkert internet eða Skype eða mögulegt að skanna neitt
svo maður varð bara að handskrifa bréf og teikna myndir til stuðnings skrifuðum lýsingum ef maður var að leita eftir einhverju sérstöku,
því þá gat maður ekki skannað neitt eins og núna. Eftir að ég fór að heiman árið 1971 þá fylgdist ég bara
með úr fjarlægð og var í enska klúbbnum áfram.
Stundum ef ég sá eitthvað sem mér leist vel á auglýst til sölu keypti ég það og lét senda honum. Ég man svo ekki
hvenær það var sem hann hringdi í mig og sagði að nú væri hann farinn að sjá svo illa að ég yrði að koma og sækja
safnið, en hann vildi hafa það eins og ég hefði haft það og geta fylgst með af hliðarlínunni og gert það sem honum dytti í hug,
ég yrði bara að taka við því sem hann fengi. Eftir þetta var hann í sambandi við safnara í Finlandi, Svíþjóð,
Danmörku, Litháen og Englandi. Reyndar er ég ennþá í sambandi við einn sem ég var í sambandi við fyrir 1970. Nú
takmarka ég skrifin við myndirnar. Þetta verður kannski svolítið snubbótt.
Myndir af norðurljósum , voru gerðar fyrir Kaupfélaf Þingeyinga
á Húsavík. Prentað í Finlandi. Katalog númer 8818 dags. 26.06. 1926. (Ekki viss um að ég nenni að fletta upp í Katalogunum til
að gá að framleiðslu árunum.) Síðan kemur einn frá kaupmanni á suðurlandi og tveir frá öðrum á
Seyðisfirði. Þetta var nokkuð algengt á þessum tíma að kaupmenn létu prenta miða á stokka fyrir sig. Það er t.d. einn
á safninu á Hnjóti, (Verzlið við Konsul P. A. Ólafsson) og annar í Glaumbæ frá Popps verslun á Króknum. (Þeir tveir eru
reyndar þeir einu sem ég veit um og á ekki, held að ég eigi flest annað „Íslenskt „ sem ég veit um, nema í eldspýtna
bréfum, hætti fljótt að safna þeim því þau taka svo mikið pláss. Safna þó eldspýtnabréfum sem voru
hjá USA Navy). Þessar Heklu eldspýtur voru gerðar fyrir Kaupfélag Reykvíkinga. Hinar Heklu eldspýturnar sem flestir/ margir muna eftir komu
mikið síðar og voru framleiddar í Tékkóslóvakíu, reyndar þeim hluta sem núna er Slóvakía.
Held áfram með eitthvað íslenskt. (Ath .Leiftur er í tveim lengdum).
Dreka framl. Pólandi. Ég er ekki viss um hvort ég á framhliðina á prentun frá 1962 og bakhliðinni frá 1964, svo ég hef
ekkert þar. Dreka stokkar voru líka til stórir (eldhússtokkar). Ég er ekki viss um að fólk hafi gert sér grein fyrir að þeir voru
ekki allir jafn stórir.
Síðan kemur það seinast sem var prentað af Grýtu,
hér komin á pappa stokka (skillets) ásamt einni misprentun. Prentað í Tékkóslóvakíu. 3 stjörnur eru 16 í allt
og auðvitað líka til sænsk útgáfa.
Ég hef lengi haft gaman af öðruvísi miðum og
miðum sem eiga sögu. Sá fyrsti er frá USA, þegar stríðið í Júgóslavíu stóð sem hæst (myndin er
ljót). Kaninn er stundum ennþá eins og í gömlu vestrunum þegar þeir settu auglýsingu með mynd á vegg, „Wanted dead or
alive“. Og þeir næstu eru í þeim stíl. Auglýst eftir stríðsglæpamönnum í Júgoslavíu og Osama Bin Laden og
félögum á einum 5 tungumálum. Urdi og ég man ekki lengur hvað þau heita þessi mál sem eru á þessum bréfum. Við
hliðina á þeim er það sem stendur innan í þessum eldspýtna bréfum.
Næsta er grein úr blaði og af því að það voru mydir af
stokkum í greininni þá hirti ég hana og setti þá sem ég átti yfir myndirnar af þeim. Í restina seti ég síðan
svar sem ég fékk frá USA þegar ég var að leita að „I shall return“ en þeir voru framleiddir á stríðsárunum með
eiginhandaráskrif (prentaðri) MacArthur herforinga og fleygt út úr flugvélum yfir Filippseyjar til að stappa stálinu í andspyrnufólk.
Síðan koma tveir, fram og bakhlið frá dönsku andspyrnuhreyfingunni.
Bréf með (á Dönsku, en auðskiljanlegt).
Síðan einn frá Finlandi á
stríðsárunum. Textinn er eitthvað svona: Þú ert í heimavarnarliðinu. Kæfðu slúður og óhróður.
Síðan er einn frá DDR. (Austur Þýskalandi) á tímum Vietnam stríðsins.
Svo einn íslenskur, reyndar framleiddur í USA. Í dag er alltaf
aðvörun á eldspýtum um að hafa þær ekki nálægt börnum, en þessar voru notaðar sem boðskort á barnaskemmtanir eða
barnaskemmtun. Maðurinn á myndinni hét Höskuldur Skagfjörð og var leikari. Einhverjir á Siglufirði muna sennilega eftir Guðjóni
Sigurðssyni bakara á Sauðárkróki, en þeir voru bræður.
Síðan koma nokkrir gamlir frá Noregi og þar á eftir seríur frá Danmörk og síðan sería frá USSR (Rússlandi),
sú sería er númer 110 í katalógnum, en á myndina vantar pakkamiðana, en þeir eru 2 mis stórir. Þessar seríur voru
þekktar meðal safnara undir heitinu 16+1+1. (Það er ef miðarnir eru 16 og pakka miðarnir +1 stór og + annar stærri). Þessar seríur voru
bara seldar í svokölluðum dollarabúðum í USSR (það var bara hægt að kaupa þær fyrir erlendan gjaldeyri,dollara).
Síðast er svo einn gamall frá Þýskalandi. Þegar ég
fékk hann fyrir nokkrum árum þá sá ég strax að skipið væri sennilega byggt fyrir heimstyrjöldina síðari svo ég
ákvað að athuga hvort ég gæti googlað útgerðina og viti menn ég fann hana. Svo ég sendi þeim e-mail með mynd og fyrirspurn um
miðann. Svarið er fyrir neðan miðann. (Í dag eru stórar aðvaranir, og öll notkun eldspýtna bönnuð um borð í
olíuskipum).
Gísli hætti að telja eintökin þegar safnið fór yfir 100.000 eintök fyrir mörgum árum.
Safnið, möppurnar eru eitthvað um 9 metrar mælt á kjölinn. Breti sem Gísli kannast við á 2,7 milljónir miða og kemur líklega
í heimsmetabókinni næstu. Það gæti orðið tafsamt að finna eitt ákveðið eintak í því safni segir Gísli.
Glæsilegt safn hjá Gísla og við þökkum honum kærlega fyrir að senda okkur upplýsingar um safnið.
Athugasemdir