Listsýning í Svörtu kríunni - Brot
Innsend frétt.
Þýskættaða listakonan Petra Bringedal sem búsett er í Noregi verður með sýningu á verkum sínum í Svörtu kríunni að Eyrargötu 2, mánudaginn 15. og þriðjudaginn 16. júlí frá fjögur til sex báða dagana.
Petra stundaði nám við Frie Kunstakademiet í Stavanger og Kunstskolen í Rogalandi. Sýninguna nefnir hún Brot og þar sýnir hún akrýlmálverk og verk á renningum eða strimlum þar sem hún beitir blandaðri tækni.
Petra er stödd hér á Íslandi í fyrsta sinn en segist hafa verið á leiðinni hingað alla sína ævi eins og svo margir Þjóðverjar. Hún er að sjálfsögðu heilluð af landi og þjóð og þá sérstaklega Siglufirði eða Sigló.
Hún er því snarlega orðin ein af okkar erlendu íslandsvinum og einn af fjölmörgum nýju Siglóvinum. Hún tengist Siglufirði fjölskylduböndum því systir hennar Birgit er gift einum af sonum Siglufjarðar, Stefáni Ásgrímssyni.
Léttar veitingar verða á boðstólum og einnig mun Petra fjalla um verk sín og spjalla við gesti.
Athugasemdir