Myndlistarneminn sem smíðar legsteina
Atli Tómasson er ungur listamaður frá Fjallabyggð sem mun opna sýningu á verkum sínum í Gallerý Rauðku (Bláa húsinu). Sýningin opnar föstudaginn 1. ágúst og mun standa til mánudagsins 4. ágúst. "Sjá Myndlistasýning"
Atli er 22 ára gamall Ólafsfirðingur sem varð á vegi listagyðjunnar á óvæntan hátt. Er hann hóf nám í framhaldskóla var hann algjörlega áhugalaus um námið og prufaði sig áfram á hinum ýmsu námsbrautum. Fór í VMA á náttúrufræðibraut, svaf hana af sér, prufaði síðan almenna braut og ekki skánaði áhuginn við það. Datt hann ofan í tölvufíkn, vakti allar nætur og svaf síðan í skólanum með tilheyrandi árangri.
Hóf hann síðan nám í MTR Ólafsfirði á félagsfræðibraut árið 2011 og lagðist bara þar fyrir í mjúkum sófunum og hélt áfram uppteknum hætti.
Þannig gengu málin fyrir sig þangað til að Lára Stefánsdóttir Skólameistari dró þennan áhugalausa pilt upp úr sófanum og dröslaði honum inn í tónlistastofuna þar sem Atli kunni að glamra á gítar. Þar sem tónlistanámið tilheyrir listabraut varð hann að taka áfanga í listmálun samfara öðru námi. Atli er Láru mjög þakklátur fyrir að hafa fundið inn á þessa hæfileika og að gefast ekki upp á honum.
Atli við eitt listaverka sinna sem prýðir vegg MTR utanhúss.
Verkið er 420 x 140 cm að stærð.
Þannig vildi það til að hann gekk inn á vinnustofuna í listmálun þar sem Bergþór Morthens kenndi. Ekki var aftur snúið út úr þeirri stofu og má segja að Atli hafi nánast búið þar þangað til að hann útskrifaðist sem stúdent frá MTR árið 2013.
Atli stundaði listgreinar af miklum áhuga, ekki aðeins listmálun og tónlist heldur bætti hann við listljósmyndun og hefur náð mikilli færni í þeirri list.
Atli notar hin ýmsu efni til að mála á og nýtir allt frá málmum upp í gömul
færibönd sem á að henda.
Eftir útskrift frá MTR sótti hann um í Myndlistaskóla Akureyrar og lauk fornámi þar í vor. Er hann síðan að hefja þriggja ára nám í fagurlistum í haust, fullur af áhuga og eldmóði. Sýningin er sölusýning og er ætlað að standa straum af frekara myndlistarnámi Atla.
Í sumar sem og oftar hefur Atli unnið hjá föður sínum Tómasi Atla Einarssyni eiganda Skiltagerðarinnar í Ólafsfirði. þar starfar hann við ýmis verkefni og ekki síst steinsmíði við að smíða hina fegurstu legsteina. Þar falla til margvísleg efni sem Atli notar til að mála á og virðist ekkert vera til sem hann sér ekki notagildi í til að skapa úr listaverk.
Atli notar hamar og meitil til að forma út legsteina
Atli er trúlofaður Siglfirðingnum Helgu Guðrúnu Sigurgeirsdóttur sem útskrifaðist sem stúdent í vor frá MTR og er að hefja nám í hjúkrunarfræði við Háskólann á Akureyri í haust. Þau eru eitt gott dæmi um vel heppnaða sameiningu Ólafsfjarðar og Siglufjarðar!
Feðgarnir Tómas Atli Einarsson og Atli Tómasson starfa saman í Skiltagerðinni.
Þar hefur Atli vinnuaðstöðu til að mála.
Atli hafur mikið að gera á öllum vígstöðvum, ólíkt því er hann fékkst ekki frá leikjatölvunni.
Hér er hann að taka mál í filmuísetningar fyrir Skiltagerðina í Aðalbakaríi Siglufirði ásamt
Balda Lóu (Kárasyni).
Myndir og texti: Kristín Sigujónsdóttir
Athugasemdir