Sigló.is bárust nokkrar ábendingar og fyrirspurnir varðandi framkvæmd sjómannadagsins.
Sigló.is bárust nokkrar ábendingar og fyrirspurnir varðandi framkvæmd sjómannadagsins í Fjallabyggð og leitaði til Karítasar, fræðslu og menningarfulltrúa, til fróðleiks og svara.
Fólk virðist mikið velta fyrir sér framkvæmdinni og af hverju ekki hafi verið almenningssamgöngur milli bæjarkjarnanna en dæmi eru þess að foreldrar hafi keyrt allt frá tveimur og upp í sex ferðir milli bæjarkjarnanna. Þeir sem ekki höfðu bíl komust jafnvel ekki á milli og misstu þar af leiðandi af skemmtidagskránni sem auglýst var.
Á sjómannadaginn var einnig stór athöfn á Siglufirði sem margir vildu vera viðstaddir en það var minningarathöfn týndra og drukknaðra sjómanna við minnisvarðann. Fór sú athöfn fram klukkan 14 en skemmtidagskráin á Ólafsfirði hófst klukkan 13:30, þeir sem vildu upplifa bæði náðu því innan við 30 mínútum af skemmtidagskránni.
Að sögn Karítasar er hátíðin reyndar ekki haldin af Fjallabyggð heldur sjá sjómennirnir í Ólafsfirði sjálfir um framkvæmd hennar. Hafnarvörðurinn á Siglufirði sér hinsvegar um minningarathöfnina. Sveitarfélagið hefur aðeins verið með rútuferðir á 17.júní vegna hátíðarhalda en það er sjálfsagt mál að setja þær líka á varðandi sjómannadaginn. Við skoðum þetta og komum ábendingum á framfæri til viðeigandi aðila segir Karítas.
Við þökkum Karítas fyrir skjót svör og vonum að allir geti notið að ári liðnu.
Athugasemdir