Vel mætt á opinn fund í boði Rauðku
Rauðka ehf. bauð bæjarbúum upp á opin fund eins og liðin ár á afmælisdegi Siglufjarðar, 20. maí.
Vel var mætt á fundinn og fundargestir áhugasamir um þau erindi sem voru á dagskrá.
Á dagskrá voru eftirfarandi erindi.
- Ferðaþjónustan blómstrar: Arnheiður Jóhannsdóttir., Markaðsstofu Norðurlands.
Arnheiður kynnti vöxt ferðaþjónustunnar og sérstaklega á Siglufirði, við Eyjafjörð og á Tröllaskaga. Ljóst er að framundan er mikil aukning ferðamanna og spennandi tímar í vændum.
- Ljósmyndasafn Siglufjarðar: Aníta Elefsen, Síldarminjasafni Íslands.
Aníta tilkynnti fundargestum að SKSigló hefði fært Síldarminjasafni Íslands, ljósmyndasafn sitt til varveislu. Kom hún einnig inn á önnur áhugaverð mál eins og varveislu minja. Aníta þakkaði eigendum SKSigló fyrir þessa glæsilegu gjöf og einnig Steingrími Kristinssyni fyrir hans aðkomu í varðveislu ljósmyndasafnsins.
- Genís hf.: Dr. Jón Garðar Steingrímsson, Genís hf.
Jón Garðar upplýsi Bæjarbúa um hvað framundan er hjá Genís. Sagði frá næstu skrefum fyrirtækisins varðandi framleiðslu og iðnaðaruppbyggingar. Áhugavert var að fá upplýsingar um mannauðssjónarmið Genís, þann þátt sem gott starfsfólk hefur á fyrirtækið og samfélagið í heild.
- Fiskur og Ferðamenn: Guðrún Hauksdóttir, Fismarkaði Siglufjarðar.
Guðrún rakti í erindi sínu málefni hafnarsvæðisins og ásókn ferðamanna þangað. Lagði hún ríka áherslu á að auka þyrfti öryggi bæði starfsmanna og gesta á svæðinu.
- Bær í breytingum: Steinunn Sveinsdóttir, formaður bæjarráðs.
Steinunn fór yfir mörg áhugaverð málefni bæjarins og má þar helst telja fyrirhugaðar gatnaframkvæmdir og uppbyggingu á Leirutanga.
- Lífsgæði- að mæla árangur: Guðjón M. Ólafsson Msc. Stofnanahagfræði
Guðjón fór yfir helstu hugtök á bakvið lífsgæði og benti á marga skemmtilega punkta sem þarf til að gera bæjarfélag að góðu samfélagi. Einnig var áhugavert að huga að því hvers vegna svona mikil mismunun er á hitaveitukostnaði Siglufjarðar miðað við nágrannabyggðarlög.
- Næstu skref: Róbert Guðfinnsson.
Róbert kynnti næstu skref sín og fór yfir víðan völl með sýna framtíðarsýn á Siglufjörð. Sagði hann frá því að fyrirhugað er að opna golfvöllinn næsta vor, fór yfir málefni skíðasvæðisins og margt annað. Einnig tilkynnti hann stofnun á nýju flugfélagi á Akureyri, Circle Air sem verður með útsýnisflug hér á Tröllaskaga og víðar. Mun Sigló Hótel vera í samvinnu við flugfélagið fyrir gesti sína. Fór hann einnig yfir ástand flugvallarins og hversu nauðsynlegt það sé fyrir áframhaldandi vöxt í ferðaþjónustu að koma honum í viðunandi horf.
Framtíðarsýn Róberts í ferðaþjónustu á Siglufirði
Texti: Kristín Sigurjónsdóttir
Myndir: Kristín Sigurjónsdóttir
Athugasemdir