Horfin hús
Á flakki mínu um Ljósmyndasafn Siglufjarðar rekst maður annað slagið á íbúðarhús og gamlar byggingar sem eru
horfnar.
Stundum þekkir maður húsin og man eftir þeim en svo önnur ekki.
Þessu húsi man ég eftir. Lækjargata 4 var þetta líklega og stóð beint á móti Blöndals húsinu ef ég er ekki að
rugla eitthvað.
Þegar ég var gutti þá man maður eftir því að það var töluvert reykt þarna á bak við þetta hús,
bæði sígarettur sem einhver stal frá móður sinni, föður eða hugsanlega úr einhverri sjoppunni sem voru þarna allt í kring og
njóla og sinu sem var týnt upp af jörðinni þarna skammt frá og var bara ágætt að reykja í hallæri (sögðu þeir sem
prufuðu það).
Það er bezt að ég taki það sérstaklega vel fram að aðal ástæðan fyrir því að ég var stundum þarna á
bak við var nú sú að ég var að passa upp á að drengirnir og stundum stúlkurnar færu sér ekki að voða. Svo var ég
líka oft á tíðum að segja þeim að láta af þessum ósóma sem þau voru að fikta við. Ég las meira að segja upp
úr sálmabókinni eins og góðum dreng sæmdi á þessum árum fyrir þau en allt kom fyrir ekki.
Stundum duttu hlerarnir sem var búið að setja fyrir gluggana úr. Það var reyndar alveg óskiljanlegt hvað þeir duttu reglulega úr og þá oft á tíðum gerðist það þegar einhverjir ungir menn og stúlkur voru að sniglast þarna á bak við. Þá var læðst cirka 1 til 2 metra inn í húsið í myrkrinu og hlaupið til baka eins og fætur toguðu vegna þess að þetta var örlítið draugalegt fyrir ung og óþroskuð augu og ímyndunaraflið var í hámarki. Ég stóð hins vegar alltaf fyrir utan og sagði krökkunum að það væri ekkert að óttast.
Ég hins vegar man ekki eftir því að búið hafi verið í þessu húsi. Kannski og líklega vitið þið meira um þetta
hús og hvort það hafi verið búið í húsinu eða hvort það hafi verið notað í eitthvað annað en
íbúðarhús.
Ég verð að játa það að ég sakna þessa húss stundum þegar Ólöf lætur mig ganga fram og til baka Lækjargötuna
í heilsubótaskyni.
Ljósmyndina tók Steingrímur Kristinsson
Athugasemdir