Arion og Afl

Arion og Afl Ef Afl sparisjóður væri hundur þá væri meðhöndlun Arion banka á skepnunni til rannsóknar vegna brota á dýraverndarlögum. Því er nú verr og

Fréttir

Arion og Afl

Grein Róberts úr Morgunblaðinu
Grein Róberts úr Morgunblaðinu

Ef Afl sparisjóður væri hundur þá væri meðhöndlun Arion banka á skepnunni til rannsóknar vegna brota á dýraverndarlögum. Því er nú verr og miður þá nýtur Afl sparisjóður ekki slíkrar verndar því hann er sjálfseignastofnum sem auðvelt er að níðast á. Hefst þannig grein eftir Róbert Guðfinnsson í Morgunblaðinu í dag.

Arion banki eigandi mikils meirihluta stofnfjár sjóðsins hefur síðustu árinn svelt sparisjóðinn og sparkað í hann liggjandi. Sem ráðandi afl í sjóðnum hefur bankinn neitað að veita ábyrgðir eða lána honum laust fé gegn tryggum veðum. Allt í þeim tilgangi að veikja innviði sjóðsins til að bankinn gæti tekið hann yfir. Í fimm ár tókst stjórnendum sparisjóðsins að skilmast fimlega við hið óvinveitta afl sem vildi sjóðinn dauðann. Með stuðningi hliðhollra aðila tókst að halda lausafjárstöðu sparisjóðsins innan marka og verjast endurteknum atlögum stærsta stofnjáreigandans. Vegna þessara vinnubragða Arion banka hefur Afl sparisjóður skaðast og veikst verulega.

Þegar stjórnarmenn vildu ekki vinna í anda ofurvaldsins voru þeir fjarlægðir miskunnarlaust. Þannig sátu þrjár stjórnir í sjálfseignastofnunni Afl sparisjóði síðasta eitt og hálfa árið. Til að fullkomna verkið setti Arion banki starfsmenn sína í stjórn sparisjóðsins undir forystu Stefáns Péturssonar fjármálastjóra bankans. Þessi aftökusveit tók við á stofnfjáreigandafundi þann 17. mars sl. Á fundinum lá frammi endurskoðað uppgjör sparisjóðsins fyrir árið 2014 frá Ernst & Young þar sem eigið fé sjóðsins var metið 780 milj kr. eftir að búið var að afskrifa og setja í varasjóð 460 milj. kr. Stuttu síðar var tilkynnt að Afl sparjóður yrði settur í söluferil. Ný stjórn ræður KPMG endurskoðendur, til að menn héldu að gera ætti seljenda úttekt á sparisjóðnum, til að undirbúa söluferilinn. Niðurstaða seljenda úttektarinnar var að taka ætti niður lánasafn sparisjóðsins um 991 millj. til viðbótar við þær 460 milj. sem afskrifaðar voru í nýendurskoðuðum reikningum sparisjóðsins. Þetta eru sennilega ný fræði hjá Arion banka að seljendur rakki niður eignir sínar í söluferli.

Ernst & Young skrifuðu bréf til stjórnar Afl sparisjóðs með athugasemdum við seljanda úttekt KPMG og frekari niðurfærslu á lánasafni sjóðsins en af einhverjum einkennilegum ástæðum dró Ernst & Young bréfið til baka.

Aftökusveitin mætti síðan með seljenda úttektina frá KPMG til Samkeppnis og Fjármálaeftirlits og fékk heimild til að taka sjóðinn yfir á sama degi og væntanlegir kaupendur áttu að fá aðgang að bókum sparisjóðsins.

Allar þessar aðgerðir Arion banka hafa haft þann tilgang að ekki komi í ljós hvort að fólkið í Fjallabyggð og Skagafirði fái hugsanlega til sín hundruð milljóna í samfélagssjóði ef málaferli vegna erlendra lána sem Afl sparisjóður er í við Arion banka vinnast.

Það er ljóst að stolt stjórn og stjórnendur Arion banka ætla að sýna eigendum sínum vogunarsjóðunum að þeir notuðu öll brögð til að ávaxta peningana þeirra. Að ganga á rétt fólks í litlum og veikburða byggðarlögum norður undir heimskautsbaug gerir þetta fólk sennilega meira og merkilegra í augum einhverra. Verði þeim að góðu.

Höfundur er athafnamaður
Róbert Guðfinnsson


Athugasemdir

21.desember 2024

Sk Sigló ehf.

580 Siglufjörður
Netfang: sksiglo(hjá)sksiglo.is
Fylgið okkur á Facebook eða Twitter

Póstlisti

Skráðu netfangið þitt á póstlistan okkur.

Ábendingar

Ertu með ábendingu fyrir síðuna eða góða frétt? Sendu okkur þá póst og við könnum málið.

Sendu póst