Er Miklavatn í Fljótum að hverfa?

Er Miklavatn í Fljótum að hverfa? Er Miklavatn að breytast í Miklafjörð voru þær hugsanir sem flugu í gegnum huga minn er ég heimsótti æskuslóðirnar um

Fréttir

Er Miklavatn í Fljótum að hverfa?

Miklavatn í Fljótum
Miklavatn í Fljótum

Er Miklavatn að breytast í Miklafjörð voru þær hugsanir sem flugu í gegnum huga minn er ég heimsótti æskuslóðirnar um daginn.

Fór ég að vitja sumarbústaðarins þar sem ég sleit barnsskónum og er staðsettur vestan við Miklavatn beint á móti Hrunum í Fljótum. Sá ég þá þær gríðarlegu breytingar sem átt hafa sér stað undanfarin ár. Ósinn sem ávalt var austan megin við Stakkgarðshólma hafði breytt sér fyrir nokkrum og fært sig að landi Víkur, var þá ekkert hægt að ganga fram á malarkambinn þar sem við krakkarnir höfðum sem leiksvæði á uppvaxtarárunum. Síðan var ósnum breytt af mannavöldum fyrir um tveimur árum síðan og er staðsettur núna vestanmegin við Stakkgarðshólma.

Svona lítur Miklavatn út í dag og sandflákar langt út í vatn. Fremst á myndinni má sjá stein sem ég stóð á við að veiða og vatnið náði þá alveg upp að bökkunum

Þvílíkar breytingar sem hafa átt sér stað fyrir vatnið við þessar breytingar. Þar sem áður var vatn er nú sandauðn langt út í vatnið, þar sem áður voru gjöful veiðisvæði til að veiða silung, urriða og sjóbirting á stöng eða í net eru núna sandflákar. Malarkamburinn er horfinn og er núna sandur þar sem sjórinn á greiðan aðgang í gegn við stórbrim. Mikið landrof hefur einnig orðið við Grafarbakkana sjávarmegin á Borginni og hefur mikið land horfið fyrir ágangi sjávar þessa áratugi sem liðin eru frá barnæsku minni.

Minningarnar streymdu að er ég heimsótti þennan fallega stað enda voru það mikil forréttindi að fá að dveljast öll sumur við Miklavatn í Fljótum frá átta ára aldri. Það áttu foreldrar mínir þau Ásdís Gunnlaugsdóttir og Sigurjón Jóhannsson landsspildu úti á Borgarnesi í landi Víkur í Haganesvík þar sem Sigurjón ólst upp.  Landið er núna í eigu Ásdísar ekkju Sigurjóns.

Miklavatn um 1980

Byggðu þau þar sumarhús árið 1965 og var það klárt til dvalar sumarið 1966. Þar sem faðir minn var oft langdvölum við sjómennsku sá móðir mín aðallega um búferlaflutningana á vorin. Voru þá helstu nauðþurftir pakkaðar niður og farið með Siglufjarðarleið inn í Haganesvík. Var oftast dvalið þar óslitið til hausts. 

Man ég að í eitt sinn er við höfðum dvalið innfrá sumarlangt að móðir mín hafði tekið saman allt dótið er við notuðum um sumarið. Komum við því niður í Haganesvík og biðum þar eftir rútunni, við börnin þrjú og mamma. Þegar rútan kom steig bílstjórinn út og leit yfir allt dótið og spurði, er þetta allur farangurinn? Farangurinn samanstóð raunar ekki aðeins af okkar hafurtaski heldur einnig kartöfluuppskeru hastsins og skal tekið fram að mamma var afar dugleg að rækta garðinn sinn.

Sigurjón Jóhannsson skipstjóri ásamt börnum sínum Jóhanni og Herdísi að vitja neta á Miklavatni um 1967

Svona lítur vatnið út á sömu slóðum í dag og báturinn búinn að syngja sitt síðasta. Malarkamburinn er alveg horfinn og aðeins sandur sem skilur á milli sjávar og vatns

Nefndi ég hér að ofan að það voru forréttindi að dvelja í Fljótum, ekki aðeins var það vegna frelsisins og nálægðar við náttúruna heldur að fá að kynnast þessum sterku persónum sem þarna bjuggu og voru oftar en ekki fæddir á nítjándu öld. Oft kom hann Hermann Jónsson bóndi í Vík við hjá okkur er hann var að vitja neta sinna við Miklavatn og bar aflann í gömlum fóðurpokum. Við krakkarnir fylgdumst spennt með hvað kom mikið í pokann hjá Hermanni og oft þurfti hann að bera ansi þungar byrðar með spriklandi nýjum silung. Hermann var gull að manni og hafði á sínum tíma keypt Vík af Herdísi þorsteinsdóttur og Jóhanni P. Jónssyni föðurömmu minni og afa. Var þeim pabba vel til vina eins og Steindóri Hermannssyni sem einnig bjó í Vík.

Þeim fannst einnig gaman að fá sér svona allavega í aðra tánna og var þá ansi glatt á hjalla í litla sumarhúsinu. Var þá spilað á spil, sagðar sögur sem við krakkarnir hlustuðu á með mikill athygli og auðvitað var sungið hástöfum. Man ég þá einna helst eftir þeim Hermanni og Steindóri í Vík og æskuvini pabba, sómamanninum Eyríki Ásmundssyni sem bjó þá í Samtúni og var kaupfélagsstjóri í Haganesvík.

Þeir félagar, Hermann Jónsson og Sigurjón Jóhannsson við sumarbústaðinn ásamt Gunnlaugi afa í baksýn. Þarna hefur Hermann komið við ásamt Trygg áður en hann vitjaði neta sinna. Man ekki eftir honum með tóman poka eftir vitjun

Einnig er ein af mínum bestu minningum frá dvölinni þarna er ég var ráðin í mína fyrstu sumarvinnu 14 ára að aldri. Réði Eiríkur Ásmundsson kaupfélagsstjóri mig við að sjá um bensínstöðina. Var gott að fá leiðsögn hjá honum og voru launin handsöluð eftir samningarviðræður upp á 5% að almennri sölu fyrir utan bensín. Ekki slæm kjör þar fyrir unglinginn.

Fjaran sem var og ævintýraheimur okkar barnanna. þarna er Sigurjón ásamt Herdísi dóttur sinni við sel sem veiddur var til matar. Skinnið af þessum sel prýðir enn í dag gólfið í Borgarseli en það er sumarbústaðurinn nefndur

Eftir þessa vitjun í gamla sælureitinn okkar keyrði ég í burtu með blendnar tilfinningar.  Eitt er víst að ég get ekki tekið með mér litla veiðiglaða ömmustráka til að veiða spriklandi silung við Miklavatn í Fljótum né nýtt mér þau réttindi landspildunnar, að leggja eitt net fyrir neðan sumarbústaðinn vegna þess að vatnið er einfaldalega horfið.

Texti: Kristín Sigurjónsdóttir
Myndir: Kristín Sigurjónsdóttir og úr einkasafni 


Athugasemdir

21.desember 2024

Sk Sigló ehf.

580 Siglufjörður
Netfang: sksiglo(hjá)sksiglo.is
Fylgið okkur á Facebook eða Twitter

Póstlisti

Skráðu netfangið þitt á póstlistan okkur.

Ábendingar

Ertu með ábendingu fyrir síðuna eða góða frétt? Sendu okkur þá póst og við könnum málið.

Sendu póst