Fréttatilkynning frá stjórn Afl - sparisjóðs
Vegna umræðna um málefni Afls – sparisjóðs í fjölmiðlum að undanförnu vill stjórn sjóðsins koma eftirfarandi á framfæri. Svona hefst fréttatilkynning frá stjórn Afl - sparisjóðs þar sem fram kemur að rekstur sjóðsins gangi ágætlega, lesa má fréttatilkynninguna í heild sinni hér að neðan.
„Afl - sparisjóður uppfyllir kröfur fjármálaeftirlits um eigið fé og rekstur hans gekk ágætlega á síðasta ári. Eigi að síður er mikil óvissa enn varðandi lögmæti erlendra lána, en stjórn telur að búið sé að leggja nægjanlega mikið í afskriftarreikning til að mæta líklegustu niðurstöðu.
Meiri óvissa ríkir hins vegar um lögmæti þeirra erlendu lána sem sjóðurinn tók og þar hefur sjóðurinn aflað álits lögmanna sem hafa komist að þeirri niðurstöðu að telja megi meiri líkur en minni á að leiðrétta þurfi þau lán.
Hefur stjórn ákveðið að fela lögmönnum að gæta hagsmuna sjóðsins og verður stefna gegn lánardrottnum sjóðsins þingfest í lok mánaðarins. Stjórn telur einnig að sú eftirgjöf skulda sem sjóðurinn hefur fengið sé óafturkræf og er það í samræmi við niðurstöðu óháðs lögfræðiálits.
Gunnar Karl Guðmundsson, stjórnarformaður.“
Athugasemdir