Gleðin við völd í skógræktinni

Gleðin við völd í skógræktinni Skóræktarfélag Siglufjarðar bauð íbúum Fjallabyggðar að fella sín eigin tré síðastliðinn laugardag. Þetta frábæra framtak

Fréttir

Gleðin við völd í skógræktinni

Ljósmynd: Elín Þorsteinsdóttir
Ljósmynd: Elín Þorsteinsdóttir
Skóræktarfélag Siglufjarðar bauð íbúum Fjallabyggðar að fella sín eigin tré síðastliðinn laugardag. Þetta frábæra framtak mæltist vel fyrir hjá bæjarbúum og lögðu fjölmargir leið sína í skógræktina.
Það er sérlega  jólalegt að arka í gegnum snævi þakinn skóg, með sög í hönd í leit að rétta jólatrénu á aðventunni. Enda hefur Það náð sívaxandi vinsældum hér á landi að koma í skóginn og velja hið fullkomna jólatré. Í skóginum fær fólk hressandi útivist og ánægju. Börnin eru sérstaklega ánægð með slíkar ferðir og þær eru þeim oft ógleymanlegar.


Það var skemmtileg sjón sem blasti við gestum skógræktarinnar þegar þeir röltu upp að litla skógræktarhúsinu, en félagar í Skóræktarfélaginu voru búnir að skreyta jólatré með rauðum dúskum. Inni í kofanum var ekki síður jólalegt, en þar var búið að kveikja á kertum og skreyta skóræktarhúsið hátt og lágt.


Á víð og dreif um húsið voru vísur sem Jóhann Þorvaldsson samdi. Einnig fengu gestir vísu eftir Jóhann að gjöf með hverju jólatré. 


Það var sannkölluð jólastemming við völd í kofanum og gestir gæddu sér á heitu súkkulaði, heitum epladjús, piparkökum, kleinum og öðru góðgæti.

Hvert jólatré kostaði 5000 kr. og seldust um 30 tré þennan daginn. Það eru sannkölluð forréttinda að fá að velja sitt eigið jólatré og fella það sjálfur. Búið var að merkja þau tré, sem fella mátti og voru þau hverju öðru fallegra.



Sigurður Hafliðason og Sveinn Sveinsson leiðbeindu fólki um hvaða tré mátti fella og veittu góð ráð varðandi meðferð á trjánum. Dagurinn var vel heppnaður og Kristrún Halldórsdóttir vill að þetta verði að árlegum viðburði. Við vonum svo sannarlega að það gangi eftir. Fleiri myndir HÉR
 
Smá ráðlegging varðandi meðferð á jólatrénu. Þegar jólatréð kemur inn í stofuna, er gott að saga örlítið neðan af stofninum. Trén verða óskaplega þyrst þegar þau koma inn í hita og til að þau geti dregið vatn upp í stofninn, þarf að gera nýtt sár með því að saga neðan af trénu. Endanum er síðan dýft í sjóðandi heitt vatn. Skálar á jólatrésfæti er yfirleitt mjög litlar, og þess vegna þarf að gæta þess vel, að bæta vatni í skálina reglulega.

Við bendum einnig fólki á að geyma tréð þannig að kettir komist ekki í það. Það er ekki gaman þegar húsið angar af kattarhlandslykt á aðfangadag. Sjá viðtal við Eddu Björgvins sem lenti einmitt í því eitt árið. Viðtalið HÉR.



Athugasemdir

28.nóvember 2024

Sk Sigló ehf.

580 Siglufjörður
Netfang: sksiglo(hjá)sksiglo.is
Fylgið okkur á Facebook eða Twitter

Póstlisti

Skráðu netfangið þitt á póstlistan okkur.

Ábendingar

Ertu með ábendingu fyrir síðuna eða góða frétt? Sendu okkur þá póst og við könnum málið.

Sendu póst