Hannes Boy Café opnar í dag klukkan 17:00
Hannes Boy Café opnar formlega fyrir matargesti í dag klukkan 17:00 en Sigurður Frosti, yfirkokkur, og Benni, yfirþjónn, hafa í vikunni, ásamt örðum starfsmönnum og verktökum Rauðku, unnið að fínpússun staðarins.
Á virkum dögum og sunnudögum verður opið á Hannes Boy Café frá klukkan 11:30 – 23:00 en á föstudögum og laugardögum verður opið til klukkan 01:00, og jafnvel lengur. Næstkomandi sunnudag verður Hannes Boy Café þó lokað fyrir matargesti en frá og með mánudeginum 31.maí verður veitingastaðurinn opinn alla daga vikunnar þar til í haust.
Hannes Boy Café, sem Siglfirðingar hafa nú beðið eftir með mikilli eftirvæntingu, hefur mikla sérstöðu meðal veitingastaða á Íslandi, ekki síst hvað varðar staðsetningu hans við smábátahöfnina. Í gluggasætum við suðurenda veitingastaðarins horfa gestir beint út á smábátahöfnina og geta jafnvel fylgst með sjómönnum landa fisk sem mögulega ratar síðar á disk svangra gesta Hannes Boy Café.
Á efri hæð veitingastaðarins er koníaksstofa þar sem matargestir geta notið fordrykks áður en þeir setjast að borði og gæða sér á þeim ljúffenga mat sem þjónar staðarins færa þeim.
Lagður hefur verið mikill metnaður í að setja saman matar og vínseðil Hannes Boy Café sem báðir eru fjölbreyttir. Er þannig boðið uppá hádegismatseðil fyrri hluta dags en kvöldverðarmatseðillinn tekur við honum síðari hluta dags. Þá er mikið úrval er af léttvíni á seðlinum og fjöldi kokteila er í boði ásamt því þjónar staðarins geta boðið uppá úrvals cappuccino og espresso.
Rauðka vill koma á framfæri þökkum til allra bæjarbúa, en með jákvæðu viðhorfi sínu eiga Siglfirðingar allir stóran þátt í framkvæmdum Rauðku.
Athugasemdir