Metnaðarfull kynning hjá Golfklúbbi Siglufjarðar
sksiglo.is | Norðlenskar fréttir | 27.03.2010 | 07:00 | | Lestrar 1045 | Athugasemdir ( )
Golfklúbbur Siglufjarðar kynnti metnaðafull áform um nýjan golfvöll í Hólsdal sem byggir meðal annars á því að ganga frá malarnámu með gerð golfvallar. Kynningin hófst með tölu frá formanni GKS og síðan tók við Ólafur Kárason sem er í undirbúningsnefnd vegna nýja vallarins. Halldór Jónsson hjá Teikn á lofti sem vinnur meðal annars að aðalskipulagi Fjallabyggðar náði að sýna tengsl á milli byggingu nýs golfvallar og olíuvinnslu á Drekasvæðinu þar sem höfn á Siglufirði er vænlegur kostur. Hönnuðurinn Edwin Roald tók síðan við og kynnti nýja völlinn og svaraði spurningum fjölmargra gesta á kynningunni.
Hönnuðurinn Edwin Roald.
Óhætt er að segja að spurningar hafi verið fjölbreyttar og flestum þeirra var svarað um hæl enda hefur Edwin hannað marga velli. Ef byrjað væri strax í vor væri góður möguleiki að hefja golf á nýja vellinum 2014 og gæti völlurinn kostað 50 milljónir ef samið væri um alla þætti strax en hönnuðurinn telur ef það eigi að byggja á lengri tíma muni kostnaðurinn jafnvel hækka verulega. Báðir Halldór og Edwin voru sammála um að svæðið undir völlinn væri draumasvæði þar sem skógur og á biði uppá sérstöðu meðal gólfvalla á Norðurlandi.
Jóhanna Þorleifsdóttir formaður GKS.
Ljóst er að Fjallabyggð verður að koma að þessum málum með einum eða öðrum hætti og til gamans má geta að Frístundanefnd hefur lengi talað um uppbyggingu golfvalla í Fjallabyggð því það má sjá golfsett í flestum bílum ferðamanna er koma hér á sumrin. Rétt er að taka það fram að þetta var aðeins kynning á hugmyndum þeirra í GKS um nýjan golfvöll og það er þeirra vilji að þetta sé unnið í sátt við alla sem að málinu koma.
Frumkvæði þeirra golfara er svo sannarlega frábært innlegg í ferðamálaumræðuna í Fjallabyggð.
Ólafur Kárason úr undirbúningsnefnd.
Halldór Jónsson frá Teikn á lofti.
Sigurður Hafliðason frá Skógræktarfélag Siglufjarðar.
Athugasemdir