Rammi stefnir ríkinu
Hafrannsóknastofnun lagði til að heildarafli í úthafsrækju á þessu fiskveiðiári yrði 7.000 tonn. Jón Bjarnason sjávarútvegsráðherra ákvað hins vegar með reglugerð um miðjan júlí að úthafsrækjuveiðar yrðu gefnar frjálsar á yfirstandandi fiskveiðiári.
Landssamband íslenskra útvegsmanna og einstaka fyrirtæki innan þess mótmæltu þessari ákvörðun ráðherra harðlega og nú hefur Rammi hf. stefnt íslenska ríkinu vegna málsins. Rammi telur lögvarða hagsmuni fyrirtækisins ríka, enda hafi það aukið umtalsvert heimildir sínar í úthafsrækju á undanförnum árum. Rammi telur meðal annars að ákvörðun Jóns Bjarnasonar um að gefa ekki út kvóta í úthafsrækju brjóti í bága við meginreglur stjórnsýsluréttar og brjóti jafnframt gegn eignarréttarákvæði sjötugustu og annarrar greinar stjórnarskrárinnar.
Karl Axelsson er lögmaður Ramma í málinu og hann fagnar því að
fengist hafi flýtimeðferð á málinu, enda sé brýnt að fá sem fyrst
niðurstöðu í það. Karl segir að á meðan þetta ástand vari séu þær
heimildir sem fyrirtækið hafi fjárfest í afar lítils virði. Þegar ofan á
það bætist óvissa bæði um þetta fiskveiðiár og hugsanlega í framtíðinni
sé þetta óþolandi ástand.
Frétt af vef Ramma hf.
Athugasemdir