Síldarmyndir í Sparisjóðnum
Síldarminjasafn Íslands stendur fyrir málverkasýningu í afgreiðslusal Sparisjóðs Siglufjarðar. Höfuðverk sýningarinnar er myndin Konur í síldarvinnu eftir Gunnlaug Blöndal sem hann mun hafa málað á Siglufirði 1934.
Um þessar mundir eru 60 ár liðin síðan verkið var sett upp í nýbyggingu Útvegsbankans á Siglufirði. Þegar Glitnir lauk
starfsemi sinni á Siglufirði 2006 hvarf verkið sjónum Siglfirðinga sem sáu mjög eftir því. Það er nýlega komið alla leið
frá New York og hefur Nýi Glitnir banki góðfúslega lánað verkið aftur á heimaslóðir.
Önnur verk á sýningunni eru eftir Arnar Herbertsson, Ragnar Pál Einarsson og Sigurjón Jóhannsson, en allir ólust þeir upp á Siglufirði
og efalaust undir áhrifum síldarstúlkna Gunnlaugs og hinnar sérstæðu altaristöflu í Siglufjarðarkirkju sem einnig er máluð af
listamanninum. Verkin eftir Arnar, Ragnar Pál og Sigurjón eru öll í eigu einstaklinga og stofnana á Siglufirði.
Sýningin verður opnuð formlega kl. 10 árdegis á Þorláksmessu og stendur fram á haust 2009.
-ök
Athugasemdir