Skilur bæjarstjórn alvarleika fyrirhugaðs niðurskurðar á HSF?
Síðastliðinn fimmtudag funduðu forsvarsmenn nokkurra fyrirtækja ásamt fulltrúum frá heilbrigðisstofnunni. Málefnið var áhrif fyrirhugaðs niðurskurðar á Fjallabyggð og hvaða aðgerða er sé hægt að grípa til við að sporna gegn niðurskurðinum.
Ekki er víst að fólk geri sér almennt grein fyrir alvarleika málsins og því hvaða afleiðingar það getur haft í för með sér í Fjallabyggð og hefur fréttamaður Sigló.is dregið saman helstu atriði sem fram koma í bréfi HSF.
- Uppsagnir starfsfólks, um 20-25manns eiga á hættu að missa vinnuna.
- Fækkun bæjarbúa þar sem ekki verður næga aðra vinnu að sækja. 20-25 manns getur þýtt allt að 100 manns í fækkun bæjarbúa séu fjölskyldur taldar með, það eru um 5% bæjarbúa Fjallabyggðar.
- Fækkun legurýma fyrir aldraða sem leiðir til langra biðlista eftir innlögnum.
- Hvíldarinnlagnir leggjast hugsanlega af.
- Öldrunargangur lagður af og aðstaða til að sinna öldruðum íbúum Fjallabyggðar verður ekki í takt við kröfur samtímans.
- Fækkun rýma á sjúkrasviði þar sem flestir þeir sem veikjast verða sendir á Akureyri. Sökum fjarlægða við heimili sitt þurfa sjúklingar líklega að dveljast þar lengur en ef sjúkrarými hefði verið í Fjallabyggð.
- Minni tekjur fyrirtækja og sveitafélags vegna fækkandi íbúa sem dregur úr bæði úr skatttekjum sveitafélagsins og einkaneyslu þeirra fjölskyldna þar sem einstaklingar missa vinnu.
- Fólk sem hug hefur á að flytja í Fjallabyggð hugsar sig tvisvar um vegna ófullnægjandi heilbrigðisþjónustu.
Eins og sjá má eru áhrif fyrirhugaðs niðurskurðar fjölþætt en hér hefur ekki verið farið djúpt í margfeldisáhrifin sem eru einnig gríðarleg. Hagsmunir Fjallabyggðar eru því gríðarlegir í þessu máli en athygli er vakin á að enginn bæjarfulltrúi eða aðilar úr bæjarstjórn hafa látið málið sig varða. Enginn fulltrúi þeirra mætti á fundinn þrátt fyrir að þeir hafi fengið persónulega heimsókn frá starfsmönnum HSF þar sem þeir afhentu fundarboð.
Tekið er ofan fyrir starfsfólki HSF fyrir að ríða á skarið og kalla til fundarins sem undirstrikar alvarleika málsins.
Athugasemdir