Til umhugsunar fyrir íbúa Fjallabyggðar!
Starfsmenn HSF hafa gert mjög góða samantekt á því hvaða þjónusta skerðist á heilbrigðisstofnuninni og hvað það þíðir fyrir íbúa Fjallabyggðar. Samantektina má lesa hér að neðan og ættu allir að láta málið sig varða.
Hvað þýðir fyrirhugaður niðurskurður á Heilbrigðisstofnuninni fyrir íbúa?
Eftir niðurskurð verður stofnunin ekki sjúkrahús heldur hjúkrunarheimili!
Ef einhver veikist og þarf að leggjast inn á sjúkrahús verður viðkomandi lagður inn á Sjúkrahúsið á Akureyri eða á Landspítalann.
Sjúklingar sem fara í aðgerð á SA eða LSH, þurfa að dvelja alla sjúkraleguna þar, en geta ekki komið heim í endurhæfingu eins og verið hefur.
Fólk með alvarlega lífshótandi sjúkdóma eins og krabbamein getur ekki eytt síðustu ævidögunum í heimabyggð.
Kostnaður sjúklinga og aðstandenda þeirra vegna vinnutaps, ferðalaga og dvalar fjarri heimabyggð getur orðið mikill.
Öryggi sjúklinga minnkar vegna þess að það tekur lengri tíma að komast á sjúkrahús í meðferð. Hættan eykst á því að seinna verði gripið inn í þannig að sjúkdómurinn getur verið kominn á alvarlegra stig sem aftur getur lengt bataferlið.
Hvíldarinnlagnir aldraðra verða væntanlega lagðar af, en þessar innlagnir hafa lengt þann tíma sem þeir hafa getað dvalið heima.
Búast má við því að vegna fækkunar rúma á stofnuninni myndist biðlistar eftir hjúkrunarrými þannig að álagið á aðstandendur aldraðra kemur til með að aukast á meðan þeir bíða eftir plássi.
Sængurkonur geta ekki lengur fengið að liggja á stofnuninni fyrstu dagana eftir fæðingu eins þær hafa átt kost á fram að þessu.
Ekki verður lengur boðið upp á maga-, ristil- eða blöðruspeglanir eða aðrar smáaðgerðir á HSF heldur þarf fólk að fara til Akureyri eða suður.
Athugasemdir