Vel lukkað fjallaskíðamót
Fyrsta fjallaskíðamóti landsins, sem Skíðafélag Siglufjarðar stóð fyrir um helgina, tókst með afbrigðum vel. Fyrir það fyrsta gat veður og skíðafæri vart verið betra. Það eitt nægir þó ekki til að gera atburðinn ógleymanlegan en það virtist vera samdóma álit þátttakenda sem og annarra mótsgesta að öll skipulagning og utanumhald hafi verið til fyrirmyndar.
Mótið var sett í Rauðku kl. 9 keppnisdaginn en til mótsins hafði gömlum Íslandsmeisturum í skíðaíþróttinni verið boðið. Það eitt var virðingarvert framtak. Þetta voru hetjur og fyrirmyndir ungdómsins á sínum tíma og kempurnar áttu það svo sannarlega skilið að kastljósinu væri að þeim beint og afrek þeirra rifjuð upp á þessum vettvangi. Eftir að Brynja Hafsteinsdóttir, Róbert Guðfinnsson og Orri Vigfússon höfðu haldið tölur og menn gætt sér á veitingum var keppendum ekið að Heljartröð þar sem keppnin hófst kl. 12:00.
Leiðarvalið upp í Siglufjarðarskarð var frjálst og kom fljótt í ljós misjöfn reynsla manna. Eftir að komist var í gegnum skarðið renndu keppendur sér niður að Bungulyftu þar sem önnur ganga hófst upp brekkuna og áfram upp undir brún. Sú leið reyndi mikið á flesta keppendur. Eftir það lá leiðin meðfram hlíðum Illveðrahnjúks og þá eftir ákveðinni braut niður að skíðaskála. Keppnisleiðin var því mjög fjölbreytileg og falleg.
Að sjálfsögðu skiluðu menn sér misfljótt í mark en hvað svo því leið þá voru allir keppendur í sjöunda himni yfir að hafa tekið þátt í þessu fyrsta íslenska fjallaskíðamóti sem jafnframt var alþjóðlegt. Ekki var síður hátíðleg athöfnin í Bátahúsinu í lok keppninnar þar minningu Jóns Þorsteinssonar skíðakappa var haldið á lofti af syni hans Jónasi. Þarna voru veitingar einnig hinar veglegustu svo ekki sé minnst á verðlaunin. Hinum fjölmörgu styrktaraðilum mótsins má þakka það ekki síst Orra Vigfússyni.
Það hefur ekki farið fram hjá neinum að á síðust árum hefur eitthvað nýtt verið að gerast í skíðaíþróttinni. Sjá má skíðamenn ganga upp brekkurnar á sérstökum skíðum með skinn undir sólanum sem síðan eru fjarlægð áður en haldið er niður. Það virðist vera hálfgerð sprenging í iðkun íþróttarinnar. Þá eru fjöllin á Tröllaskaga sundurskorin af skíðaförum eftir slíka skíðamenn sem og þá sem fara upp á þyrlum.
Með þessum fátæklegu línum vildi ég koma á framfæri þakklæti mínu, og skíðafélaga minna, fyrir þetta glæsilega framtak Skíðafélags Siglufjarðar. Ég held að best fari á í lokin að vísa til fréttatilkynningar skíðafélagsins þar sem segir„Super Troll Ski Race er greinilega komið til að vera og munum við fara á fullt markaðssetja mótið bæði innanlands og erlendis fyrir næsta ár, enda fjallaskíðamennska heldur betur að slá í gegn.“
Til hamingju stjórn Skíðafélags Siglufjarðar fyrir framtakið.
Texti: Valtýr Sigurðsson
Ljósmyndir: Jón Steinar Ragnarsson
Athugasemdir