30 ár á sama vinnustað
sksiglo.is | Fréttir á landsvísu | 28.01.2010 | 07:00 | | Lestrar 914 | Athugasemdir ( )
Brynhildur Baldursdóttir hefur unnið í 30 ár á bæjarskrifstofunum og er því með þeim sem hvað lengstan starfsaldur hafa sem unnið hafa hjá bænum. Biddý eins og hún er jafnan kölluð er dóttir Kristínar Rögnvaldsdóttur og Baldurs Ólafssonar. Eiginmaður hennar er Jóhann Ottesen.
Biddý hóf störf hjá bænum milli jóla og nýárs árið 1979 þá 19 ára gömul en hún hafði unnið áður í frystihúsinu eins og gekk með unglinga þá. Eitt árið tók hún sér þó frí frá bæjarskrifstofunum og fór að vinna í frystihúsinu í nokkra mánuði. Stundum hefur það komið fyrir á þessum 30 árum að einhver önnur störf hafa heillað en svo líður það bara hjá sagði Biddý en hún segist líta á sitt starf sem tengilið bæjarbúa við bæjarskrifstofuna.
Erfitt er að taka einhvern einn samstarfsmann út sem eftirminnalegastan því ég hef unnið með fullt af frábæru fólki en kannski kemur Abbý fyrst uppí huga mér. 7 bæjarstjórar og 6 skrifstofustjórar hafa verið við störf með Biddý á þessum 30 árum.
Biddý hefur búið á Siglufirði mest alla ævi fyrir utan eitt og hálft ár í Reykjavík og hefur ekki fengið mikla löngun til að flytja burt enda mjög sátt hér á Siglufirði. Hreyfing, útivist og kórsöngur eru hennar áhugamál, sund æfði hún af miklu kappi fram á unglingsárin en hefur gaman af gönguferðum á fjöll hin síðari ár. Kórsöngur er hennar hjartans mál enda finnst henni það mjög gaman.
Biddý man það vel hvenær fyrsta Síldarævintýrið varð til. 3 júlí 1991voru bara þrír í vinnu á skrifstofunni vegna sumarleyfa. Björn Valdimarsson, Baldvin Valtýrsson og Biddý voru á kaffistofunni og var hún að segja þeim sögur sem mamma hennar hafði oft sagt henni af stemmingunni hér á síldarárunum um kaffihúsin og ballstaðina. Þá fæðist sú hugmynd hjá Birni að það væri gaman að slá upp bryggjuballi eða búa eitthvað til í kringum þetta og þannig rúllaði bara boltinn af stað út frá þessum kaffitíma.
Biddý segist vera mjög sátt við lífið í dag og hafa það mjög gott hér á Siglufirði. Kristín móðir hennar býr nú á Heilbrigðisstofnuninni og finnst Biddý gott að líta til með henni og hugsa um hana eins og hægt er. Það var þeim hjónum mikið gleðiefni þegar Ólafur sonur Biddýar eignaðist dóttir og er hún mikil ömmu og afa stelpa. Lífið snýst bara um líðandi stund og vera sáttur með það sem maður hefur og ég get ekki sagt annað en ég sé það sagði Brynhildur að lokum.
Athugasemdir