Allur bærinn umturnast

Allur bærinn umturnast Þessi keppni náði að stimpla sig rækilega inn í skólanum, krakkarnir sáu að það fólust skemmtilegir möguleikar í keppninni og það

Fréttir

Allur bærinn umturnast

Jóhanna skólastjóri í fanginu á Guðrúnu Ósk, Sigríði Dönu, Hilmari og Hannibal. Ljósmynd. Sigurður Ægisson.
Jóhanna skólastjóri í fanginu á Guðrúnu Ósk, Sigríði Dönu, Hilmari og Hannibal. Ljósmynd. Sigurður Ægisson.

Þessi keppni náði að stimpla sig rækilega inn í skólanum, krakkarnir sáu að það fólust skemmtilegir möguleikar í keppninni og það skapaðist góð stemning um að stefna að sem bestum árangri,“ segir Jónína Magnúsdóttir, skólastjóri Grunnskóla Siglufjarðar, en lið skólans hefur náð eftirtektarverðum árangri í Skólahreysti og lentu fulltrúar þessa 170 nemenda skóla til dæmis í 3. sæti í úrslitakeppninni 2008 og 4. sæti á síðasta ári.



Allir vilja taka þátt

Mikil spenna skapast í skólanum í kringum Skólahreysti. „Allir unglingarnir taka þátt og stóra málið er að vera með. Við setjum upp braut fyrir nemendur og allir fá að spreyta sig á eigin forsendum og vinna persónulega sigra,“ segir Jónína. „Mikið er lagt upp úr því að líta á þann árangur sem næst í jákvæðu ljósi. Það er auðvitað alltaf gaman að sigra, en mestu skiptir að bæta eigin frammistöðu. Frá upphafi brýnum við fyrir krökkunum að það sé sama hvaða íþrótt er stunduð: við getum ekki endilega verið best þótt við séum góð, en að aðalmálið sé að taka þátt og taka framförum. Markmiðið með íþróttaiðkun er að öðlast bætta heilsu og líðan.“

Að sögn Jónínu taka þeir nemendur sem keppa í Skólahreysti fyrir hönd skólans keppnina mjög alvarlega. „Þau eru alla daga að stefna að því að verða betri íþróttamenn og stunda líkamsrækt af miklu kappi. Þau njóta góðs af dyggum stuðningi áhugasamra þjálfara, foreldra og kennara,“ segir hún. „Það er gaman að sjá hvernig þetta jákvæða viðhorf og keppnisandi unglinganna smitast út til annarra barna og veitir þeim bæði innblástur og er þeim góð fyrirmynd.“

Að sögn Jónínu er klárt mál að íþróttaiðkun barnanna á Siglufirði skilar sér í náminu. „Rannsóknir hafa löngum sýnt það og það er bara raunin að krakkar sem stunda íþróttir kunna að skipuleggja sig betur og nýta tímann sem skilar sér í bættum námsárangri. Íþróttir eru bæði andleg og líkamleg næring sem gagnast öllum, sama hvaða störf þeir taka sér fyrir hendur, hvort heldur á skólabekk eða annars staðar.“

 

Íþróttir bæta samfélagið

Jónína segir líka íþróttastarfið í bæjarfélaginu hjálpa til við að byggja betra samfélag. „Frá árinu 2002 höfum við notað Olweusaráætlun í starfi skólans til að vinna gegn einelti. Foreldrum eru kynnt markmið áætlunarinnar og allir leggjast á eitt,“ segir hún en virkni barnanna á Siglufirði hjálpar líka til við að brjóta ísinn og þjappa hópnum saman. „Badmintonfélagið í bænum gefur til dæmis öllum börnum í 5. bekk badmintonspaða og fyrir vikið prófar þessi aldurshópur að æfa badminton og blandast betur saman. Í 7. bekk fá unglingarnir aðgang að sal í frímínútum í skólanum til að spila borðtennis, billjard og fleiri skemmtilega leiki, sem aftur verður til að hrista hópinn saman.“
Geta valið líkamsrækt sem valgrein
Síðastliðin ár hefur skólinn boðið upp á líkamsrækt sem valgrein fyrir nemendur í 9. og 10. bekk Siglufjarðarskóla. Kennslan hefur meðal annars farið fram í tækjasal íþróttahússins eða Ræktinni eins og hann er kallaður.

„Nemendur læra að skilja líkamsstarfsemina og hvernig líkaminn bregst við álagi og þjálfun. Mikil áhersla er á þjálfun líkamans, til dæmis með æfingum í Ræktinni,“ segir Jónína. „Hægt að gera þjálfunarprógramm fyrir hvern og einn og horft er til þátttöku í Skólahreysti.“

Síðastliðið haust bættist við valgrein sem skiptist í líkamsrækt og matargerð og gengur undir nafninu Hreysti og hollt mataræði. „Í matargerðinni fræðast nemendur um hollt mataræði og læra að útbúa hollan mat. Báðar þessar valgreinar hafa mælst vel fyrir og styðja áhuga nemenda á Skólahreysti.“

 

Allir virkir í einhverju

Þrátt fyrir að vera ekki nema um það bil 1.200 manna byggðarlag er mjög virkt og fjölbreytt íþróttalíf á Siglufirði. „Nánast öll börnin í bænum eru mjög virk á einhverju sviði, hvort sem þau stunda íþróttir eða taka þátt í starfi félagsmiðstöðvarinnar,“ segir Jónína. Hún segir flesta spreyta sig í mörgum íþróttagreinum, hvort sem það er badminton, fótbolti, skíðaíþróttir, golf, frjálsar íþróttir eða sund.

Þarna segir Jónína andann í bænum hafa mikið að segja og að íþróttaiðkun njóti góðs meðbyrs í samfélaginu. Fyrirtækin í bænum styðja til dæmis íþróttastarfið dyggilega með fjárframlögum. „Það má kannski líka segja að smæð bæjarfélagsins haldi börnunum við efnið. Það er ekki auðvelt að ætla til dæmis að skrópa á æfingu því eftir því er tekið.“


Athugasemdir

12.mars 2025

Sk Sigló ehf.

580 Siglufjörður
Netfang: sksiglo(hjá)sksiglo.is
Fylgið okkur á Facebook eða Twitter

Póstlisti

Skráðu netfangið þitt á póstlistan okkur.

Ábendingar

Ertu með ábendingu fyrir síðuna eða góða frétt? Sendu okkur þá póst og við könnum málið.

Sendu póst