Falleg saga, svona í aðdraganda jóla
Það sem tíðindaritari ætlar nú að deila með ykkur, ágætu lesendur, er nú kannski ekki beint frétt en þetta er alveg sönn saga og hreyfði við mér þannig að ég ákvað að setja hana hér inn og fæ svo mögulega að heyra hvað ykkur finnst. Sjálfri finnst mér þetta alveg dásamlegt og finnst að með sanni megi segja þetta vera fallega litla nútíma jólasögu.
Tíðindaritari hafði samband við viðkomandi sem þetta fallega henti. Stúlkan vildi ekki koma fram undir nafni en var til í að deila með okkur sögu sinni.
Köllum við þessa ágætu mær bara „Stúlku“ í pistlinum. Það er rétt að geta þess hér Stúlka er tvítug mær og kemur frá litlu sjávarþorpi hér á Íslandi. Hún er það sem heitir „lög-blind“, og er alveg blind á öðru auganu og hefur undir 12% sjón á hinu. Hún sér þó þannig að hún bjargar sér sjálf, býr ein í Reykjavík um þessar mundir þar sem hún stundar nám við Háskóla Íslands.
Tíðindaritari bað stúlku að segja sér frá því sem átti sér stað:
„Það var nú bara þannig, að ég var að fara út með ruslið þar sem ég bý og sá þá glitta í eitthvað á stéttinni fyrir utan hurðina. Ég tók það upp og fór með það inn til að sjá betur hvað þetta væri. Þegar ég svo opnaði það var hér kominn súkkulaðijólasveinn, vafinn inn í jólapappír og slaufa utanum allt saman.
Utan á blaðinu stóð: Til „Stúlku“, opnist strax! Ég fór því með hann inn, lokaði hurðinni og gerði eins og fyrir mig var lagt, opnaði strax. Fram kom lítið bréf sem í stóð eftirfarandi:
„Ég sat lengi hér heima að reyna finna einhvern sem gæti haft not fyrir þennan miða. Ég get það ekki sjálfur vegna persónulegra aðstæðna. Varð að finna einhvern með hjarta úr gulli sem átti þetta skilið. Mig langaði að gleðja einhvern í anda jólanna.
Þú þekkir mig lítið sem ekkert en ég veit að þú átt þetta skilið. Þannig að: Gleðileg jól! Ég ætla að halda áfram að finna gott fólk – kveðja Strákur“
Þegar hingað var komið sögu, var ég ekki ennþá búin að sjá gjafabréfið sem fylgdi. Þegar ég var búin að lesa bréfið var ég í smá spennufalli og kíkti þá á þetta blað sem ég hélt í fyrstu að væri autt. Þegar ég opnaði það stóð: "Þetta er WOW gjafabréfið þitt" - og ég fékk smá áfall þegar ég hélt áfram að lesa. Þetta var gjafabréf uppá flug fyrir 1 fram og til baka, með sköttum, með WOW til eins af heilsársáfangastöðum þeirra.
Ég byrjaði á að hringja í panikk í mömmu og segja henni frá þessu, ég trúði þessu ekki! Hringdi svo í WOW –air, af því að ég hélt að það væri að gera at í mér en fékk það staðfest, þetta var i alvöru. Sem er bara alveg ótrúlega magnað -“
Við þökkum stúlku kærlega fyrir að deila þessari fallegu sögu með okkur. Það er gott að vita að þarna úti er fólk sem í svartasta skammdeginu hugsar fallega til náungans, svona í anda jólanna!
Athugasemdir