Fyrir 2000 árum

Fyrir 2000 árum Fyrir 2000 árum gerðist nokkuð í Betlehem í Júdeu. Venjulegt, en þó ekki. Kona fæddi barn. Í gripahúsi. Það var drengur.Áhorfendur voru

Fréttir

Fyrir 2000 árum

Fyrir 2000 árum gerðist nokkuð í Betlehem í Júdeu. Venjulegt, en þó ekki. Kona fæddi barn. Í gripahúsi. Það var drengur.
Áhorfendur voru ekki merkilegir, nokkur húsdýr. Aðstoð hverfandi - maður konunnar, trésmiður að mennt. Enginn læknir.
Drengurinn var lagður í kalda jötu. Annað bauðst ekki.


En það var engill sendur til að bera út fréttirnar, sjálfur Gabríel. Ekki dugði minna. Hann fór ekki í konungshöllina, musteri Heródesar. Ekki til prestanna, eða annarra tiginna manna. Nei, hann fór út á Betlehemsvelli, þar sem hirðar vöktu yfir kindum sínum. Fjárhirðar. Einskis metnir í samfélaginu. Lögmálið og erfikenningin bönnuðu að tekið yrði mark á vitnisburði slíkra manna fyrir dómi. En Guð leit framhjá slíku hjómi, strikaði yfir það öllu heldur, og engillinn sagði þessum mönnum frá barninu nýfædda. Fleiri englar þyrptust að. Hersveitir. Og sungu af gleði.
Hirðarnir fóru inn í þorpið og leituðu, og fundu þar um síðir manninn, konuna og barnið. Svo héldu þeir á braut og sögðu öllum þeim, sem á vegi þeirra urðu, frá því, sem gerst hafði og fyrir þá borið.

En fjárhirðarnir voru ekki þeir einu sem komu í gripahúsið í Betlehem. Kaspar, Melkíor og Baltasar voru komnir langt að, frá Austurlöndum. Þeir voru hálærðir menn, stjörnufræðingar. Höfðu séð Betlehemsstjörnuna og vissu jafnskjótt hvað var að gerast, að spádómur var að rætast. Mörgum ferðamanninum höfðu þeir mætt á leið sinni, er fór annarra erinda en öldungarnir þrír og brosti að einfeldningshætti þeirra, sem lögðu í slíka reisu til að leita að nýfæddu barni. En hinir vísu menn héldu ferðinni áfram, ótrauðir, uns þeir komu að smábæ í Gyðingalandi. Þar fundu þeir loks barnið, sem í jötu lá, og bar í sér örlög hins ókomna, framtíð milljónanna. Og þeir færðu litla drengnum gull, sem var táknrænt fyrir leiðtogahlutverk og myndugleika, reykelsi, tákn guðdóms, og myrru, græðandi áburð, tákn fyrir læknisgáfu.

En í þessum gjöfum var ef til vill annað fólgið og meira. Töframenn notuðu þessi efni á þeim tíma við að fremja seið og kannski voru þessir slíkir. Með því að láta téð efni af hendi við konunginn nýfædda gefa þeir í skyn að þeir séu hættir fyrri iðju sinni, hafi kvatt svið myrkursins en gefið sig þess í stað á vald nýs konungs, hafið störf í nýjum heimi, undir nýju merki.
Hvort sem þetta er nú reyndin eða ekki fór veldi skuggaaflanna hrakandi í þessari veröld frá og með atburðinum í fyrndinni, þegar drengurinn litli kom fram á sjónarsviðið í Palestínu. Svo óx hann og varð að manni. Þó lifði hann ekki nema rúm 30 ár. Þá var hann tekinn og deyddur. Festur á kross, eins og glæpamaður.
 
En það voru ekki lok sögunnar um hann. Þetta var einungis fyrsti kaflinn. Guð reisti nefnilega hinn dána upp, og gaf honum þannig vald yfir hvoru tveggja, lífi og dauða.
Þetta er fagnaðarboðskapur jólanna, þessi saga öll. Ekki bara fæðingin; hún er upphafið, fyrsti geislinn, fyrsti neistinn. Hitt verður að fá að koma líka, allt sólskinið, allt bálið.
Sigurbjörn Einarsson, biskup, hefur allra manna best fært merkingu þessarar ljósahátíðar í búning orða, þennan mikla og óendanlega dýrmæta boðskap, sem í jólunum felst. Ég vil að endingu gefa honum orðið, leyfa honum að útskýra hvað um er að ræða. Hann segir:

„Guð kom í Jesú Kristi. Orð hans, hugur hans, hugarfar hans varð hold, varð maður, og þar var lífið, ljós mannanna. Þetta segja jólin. Þau eru vitnisburður um þann Guð, sem leitar þín, af því að hann elskar þig og vill frelsa þig. Guð allra heima og himna vildi í eitt skipti fyrir öll segja þetta: Ég er hjá þér, barnið mitt, og ég ætla alltaf að vera hjá þér. Ég týni þér ekki, þó að þú týnir mér. Ég ætla að vera hjá þér, ekki sem gestur, heldur sem faðir og móðir, og bróðir. Og ég ætla að bjarga þér, hvað sem í skerst, og hversu oft sem þú kannt að úthýsa mér. Hversu oft, sem jörðin mín, blóðsek, dimm og döpur, kann að hafna mér, vista mig í skúmaskoti eða festa mig á kross, þá fer ég ekki, sný ekki baki við þér, loka ekki himninum mínum eða hjarta mínu. Ég hef í eitt skipti fyrir öll tileinkað þér dýrð himins míns, elsku hjarta míns. Vittu þetta, treystu þessu, þiggðu þetta. Þetta er orðið hans, holdi klætt í barninu í Betlehem, í manninum krossfesta, í hetjunni upprisnu, Jesú. Þetta er boðskapur fagnaðarins, kristin trú.“

Eftir þessi jól mun grár hversdagsleikinn taka við. Mundu þá eftir barninu litla, sem þú ætlar að fagna nú um jólin. Barninu, sem varð að kúra í fóðurtrogi húsdýra í byrjun ævi sinnar hér á jörð, en var þó kunngjört mönnum af Gabríel erkiengli. Barninu, sem dró að sér jafnt lága sem háa. Barninu, sem var af þessum heimi, en samt annars heims líka. Barninu litla, Guði og manni. Það hverfur ekki á þrettándanum, eins og jólasveinarnir. Það er í byggð árið um kring. Því máttu treysta. Og boðskapur þess er hinn sami nú og fyrr: líf, gleði, frelsi, ljós, kærleikur, friður. Aðalsmerki Jesú Krists.
 
Gleðileg jól!

Sigurður Ægisson


Athugasemdir

12.mars 2025

Sk Sigló ehf.

580 Siglufjörður
Netfang: sksiglo(hjá)sksiglo.is
Fylgið okkur á Facebook eða Twitter

Póstlisti

Skráðu netfangið þitt á póstlistan okkur.

Ábendingar

Ertu með ábendingu fyrir síðuna eða góða frétt? Sendu okkur þá póst og við könnum málið.

Sendu póst