Kilimanjaro … hakuna matata (ekkert mál)!

Kilimanjaro … hakuna matata (ekkert mál)! Hér kemur ferðasaga Elínar Þorsteinsdóttur á Kilimanjaro nánar tiltekið Uhuru Peak, hæsta tind Afríku sem er í

Fréttir

Kilimanjaro … hakuna matata (ekkert mál)!

Toppinum náð. Magnus, Kristbjörg, Rósa, Ella, Finna & Washington leiðsögumaðurinn okkar. Hinn leiðsögumaðurinn Roby tók myndina.
Toppinum náð. Magnus, Kristbjörg, Rósa, Ella, Finna & Washington leiðsögumaðurinn okkar. Hinn leiðsögumaðurinn Roby tók myndina.

Hér kemur ferðasaga Elínar Þorsteinsdóttur á Kilimanjaro nánar tiltekið Uhuru Peak, hæsta tind Afríku sem er í 5.895 metra hæð yfir sjávarmáli. Siglo.is vill þakka Elínu kærlega fyrir að leyfa okkur að birta söguna og allar myndirnar sem eru að finna HÉR:

Við vinkonurnar fengum þá snilldar hugmynd  síðasta sumar, þegar við sátum í laut við Hornbjargsvita, að Kilimanjaro væri fjall, sem við yrðum  að klífa.  Stefnan var sett á febrúar 2010 og málið var dautt.
Nú var komið að bólusetningunum, sem áttu að vera fjórar samtals en af einhverjum óskiljanlegum ástæðum urðu þær ellefu. Eftir allar stungurnar,  smá sprikl í ræktinni og umtalsverð fjárútlát í helstu útivistarbúðum landsins var ég klár í slaginn.


Ég og Rósa Guðmundsdóttir, viðskiptastjóri hjá fyrirtækjasviði Íslandsbanka, lögðum af stað frá Íslandi 7. febrúar til Tansaníu. Við millilentum fyrst í London og síðan Naíróbí, þar sem við hittum Guðfinnu Magneyju Sævarsdóttur, forstjóra Global Fuel. Saman flugum við til Kilimanjaro þar sem ævintýri lífsins hófst.
Kristbjörg Sigurðardóttir bæklunarskurðlæknir og Karl Magnus Johanson rafmagnsverkfræðingur flugu frá Namibíu, þar sem þau eru búsett, og hittu okkur seint um kvöld á hótelinu, þar sem við gistum nóttina fyrir gönguna miklu. Eftir að læknirinn hafði útdeilt „dópinu“ Diamox (töflum til að minnka líkur á háfjallaveiki) var gengið til náða.

Íslendingar og Bretar saman - eða ekki

Hinn 9. febrúar hófst gangan mikla. Við gengum eftir stígum í fallegum skógi í sól og blíðu, í þvílíkum hita og raka. Mér var hugsað til svefnpokans sem ég hafði fjárfest í og átti að þola -30 gráður! Gangan hófst í 1.950 metra hæð þar sem við skildum við okkur allt nema dagpokann. Burðarmenn sáu um að bera fyrir okkur mestan farangurinn, allt að 15 kg. Í hópnum okkar vorum við fimm vinirnir, auk fimm Breta. Fljótlega skiptist hópurinn upp í Íslendingana (Magnús er að vísu sænskur) og Bretana … Icesave deilan? Ástæðan fyrir þessu var ljós frá fyrsta degi.
Við vorum ákveðin í að komast upp þetta heljarinnar fjall, sem virtist úr fjarlægð vera eins og lítill hóll, en annað kom á daginn. Og til að komast upp vorum við sannfærð um að við yrðum að ganga hægt, polle, polle (hægt, hægt eða bara löturhægt!), og það gerðum við. Tíð pissustopp sökum aukaverkana af Diamox urðu ekki til að auka á hraðann. Algeng aukaverkun af lyfinu er einnig nokkurskonar náladofi. Við vorum ýmist með dofna fingur, tær eða varir og einu sinni fékk ég á tilfinninguna að mér væri að vaxa skegg!

Lúxus í miðri Afríku

 Dagurinn var stuttur og leiðin greiðfær eftir stíg um fallegt skóglendi. Fyrsti náttstaðurinn var í 2.600 metra hæð og þegar þangað var komið biðu okkar grautfúlir Bretar. Við áttum víst að fara í létta gönguferð  upp frá náttstaðnum til að aðlögunar á þynnra lofti, en þar sem við fórum í fótabað á leiðinni og vorum ekkert að flýta okkur þá þurftu þeir að bíða eftir okkur. Þegar við sögðumst ekki sjá tilgang í að hækka okkur um nokkra metra og þar að auki færum við einmitt þessa leið á morgun lifnaði nú ekki yfir þeim.  Meðan Bretarnir voru í þessari gagnslausu ferð nutum við lífsins í sólinni og sötruðum rauðvín. 
„Te eða kaffi?“ Er mig að dreyma? Ég ligg í tjaldi  í miðri Afríku og er vakin með þessum orðum. Það kom á daginn að þetta var algjör lúxusferð. Alla morgna vorum við vakin upp klukkan sjö þegar okkur var fært kaffi í „rúmið“. Klukkan 7.30 voru okkur færðar þvottaskálar með heitu vatni og klukkan átta var morgunmatur. Áður en morgunmaturinn hófst vorum við búin að pakka farangrinum þannig að burðarmennirnir gátu haldið af stað upp fjallið. Strax eftir staðgóðan morgunmat var lagt af stað.  Starfsliðið sem sá um okkar hóp voru 20 burðarmenn, kokkur, aðstoðarkokkur og fimm leiðsögumenn. Þeir báru allan eldunarbúnað, tjöld, salerni og fleira okkur tengt á milli náttstaða.
Önnur dagleið var mjög falleg í lágum gróðri, og eftir því sem við fórum hærra þá lækkaði gróðurinn þannig að á hverjum degi jókst útsýnið og Kilimanjaro virtist í seilingafjarlægð. Stöðugt jókst spennan. Kemst ég upp eða ekki? Við gengum á átt að Mawenzi-tindi, sem er einn af þremur tindum Kilimanjaro. Tindurinn okkar heitir Uhuru-tindur og var í allt annari átt. Mér flaug í huga að segja „stopp, við erum að fara á vitlausan tind“, en ákvað að treysta innfæddum. Í lok dags vorum við komin í 3.600 metra hæð og öllum leið vel og engin einkenni um háfjallaveiki. Langþráð fótabað var vel þegið sem og popp og te, en við fengum alltaf snakk þegar við komum á áningastað. Já, þetta er sannkölluð lúxusferð. Kvöldmaturinn var vanalega klukkan sjö og undantekningarlaust mjög góður, sem er ótrúlegt miðað við að eldhúsið var í tjaldi. Þegar  kvöldverðinum lauk var um að gera að koma sér í bólið, enda flestir þreyttir eftir erfiði dagsins. Sem betur fer voru tjöldin með endurskinsmerkum, enda svarta myrkur og engin leið að finna tjaldið nema með vasaljós (höfuðljós) að vopni. Meðan við vorum að borða varð allt í einu svartamyrkur, þannig að við þurftum alltaf að taka með okkur höfuðljós að matborðinu. Það var um að gera að vera við öllu búin. 

Vatnsbólið drullupollur
Dagur fjögur var erfið ganga upp brattar hlíðar og útsýnið var hreint út sagt stórkostlegt yfir sléttur Kenýa. Nú var bara „urð og grjót, upp í mót ...“ Það fyrsta sem mætti okkur þegar við komum í tjaldbúðirnar, eða það mætti kalla þetta flóttamannabúðir, var  drullupollur, sem var vatnsbólið okkar. Enda kom á daginn að vatnið var með megnu klórbragði eftir meðhöndlun kokkanna og þurfti að bæta ansi mikið af „leppin“-dufti út í til að gera það drykkjarhæft.  Eftir snakk og te fórum við í stutta göngu upp Mawenzi-fjall til að aðlaga okkur að minni loftþrýstingi og minni súrefnisstyrk. Nú vorum við til í smá aukagöngu, enda komin í 4.330 metra hæð yfir sjó, og ástæða til að taka málin föstum tökum.
Loksins var gengið í rétta átt, og vorum við vakin upp þennan næstsíðasta dag klukkan sex. Nú var komið að því, 6-7 tíma ganga upp í Kibo-grunnbúðirnar í 4.700 m hæð, sem við sáum glitta í eftir klukkutíma göngu. Við héldum að við næðum búðunum á klukkutíma eða í mesta lagi tveimur tímum, þar sem þetta var nú eiginlega bara flatlendi. En þrátt fyrir góðan vilja þá tók gangan fimm klukkutíma. Gangan var frekar létt til að byrja með og við gengum um hálfgerða eyðimörk, varla stingandi strá á leiðinni. Þegar við nálguðumst náttstað vorum við Íslendingarnir eins og heimakærar beljur, og tókum stímið á búðirnar. Á leiðinni voru burðarmennirnir að hrynja niður sökum þreytu og hita. Nú fann maður vel fyrir minnkandi súrefnisstyrk, og höfuðverkurinn, sem er fyrsta einkenni háfjallaveikinnar, var farinn að láta á sér kræla. Það var ekki laust við að maður fengi smá kvíðatilfinningu.

Kuldi, svartamyrkur og hausverkur
Klukkan tvö var snemmbúinn hádegismatur og klukkan fimm síðbúinn kvöldmatur. Enginn þvottur var í búðunum, því þarna var vatnið af skornum skammti. Við vorum komin í háttinn klukkan sjö, eftir að hafa klætt okkur í fimm lög af fötum, auk dúnúlpu, dúnsokka og húfu, og nú kom svefnpokinn fyrir -30 gráður loks að notum. Myndavélin, höfuðljósið, ipodinn og aukabatteríin fengu að vera með mér í svefnpokann þessa nokkru tíma, sem við fengum að sofa, áður en við vorum ræst í „morgunmat“ klukkan ellefu um kvöldið. Algengt er að myndavélar og önnur rafhlaðin tæki virki ekki í svona miklum kulda,-15-20 gráðum, þannig að það var um að gera að halda hita á tækjunum. Gangan hófst svo klukkan 12.00 á miðnætti.
Úff! Ekki svo mikill lúxus. Klukkan er tólf á miðnætti, ég er stödd í 4.750 metra hæð yfir sjávarmáli , að drepast úr kulda, í svartamyrkri, með dúndrandi hausverk, 30 km eftir, 1.200 metra hækkun, 15-16 klst. ganga og útlitið svart í orðsins fyllstu merkingu.
Þrír tímar eru nú liðnir, 12-13 klst. eftir, ennþá hausverkur, fólk með háfjallaveiki á hraðleið niður beggja vegna stígsins, æla á hægri hönd, guð hjálpi mér.


Eins og að vera í miðri fæðingu


Gangan upp var mjög „polle, polle“. Við fimmmenningarnir gengum í halarófu og ákváðum strax í byrjun að halda hópinn og komast öll saman á toppinn. Við létum því þann sem vildi fara hægast stjórna hraðanum. Eina lýsingin sem við höfðum var birtan frá stjörnunum og höfuðljósunum. Það var stjörnubjartur himinn og útlitið lofaði góðu varðandi skyggnið frá toppnum þegar upp væri komið.
Ferðinni miðaði vægast sagt mjög hægt, við minnstu áreynslu ruku hjartslátturinn og öndunin upp úr öllu valdi og hausverkurinn var nú ekki til að hjálpa. En ipodinn létti gönguna.Það var frábært að geta hlustað á uppörvandi tónlist þar sem ég gekk þarna í myrkrinu og hafði í raun ekki  tök á að tala vegna mæði. Mér fannst eins ég væri í miðri fæðingu, svo hröð var öndunin á köflum. En áfram siluðumst við upp að tindinum langþráða, og það kom aldrei upp í hugann að gefast upp. Toppnum skildi ég ná.
Við náðum loks upp á Gilmans Point  í 5.685 metra hæð við sólarupprás. Ég horfði ofan á skýin og útsýnið var stórfenglegt. Það var ekki laust við að laglínan „I‘m on the top of the world, looking down at creation“ skyti upp í kollinum. Nú voru bara 2-3 tímar eftir upp á sjálfan tindinn, Uhuru Peak,  hæsta tind Afríku sem er í 5.895 metra hæð yfir sjávarmáli.

Bónorð á hæsta tindi Afríku

Toppnum var loksins náð og myndum var smellt af okkur og skiltinu, sönnun þess að við stæðum á hæsta tindi Afríku. Við skáluðum náttúrulega í dýrindis kampavíni, sem Magnús hafði borið alla leið upp. Já, engir burðarmenn í þetta skiptið, þeir hvíldu sig niðri þessar elskur, enda vel að hvíldinni komnir. Stemmningin var frábær, við föðmuðumst og kysstumst og hamingjuóskum rigndi yfir okkur. Jæja, „been there, done that“. Við drifum okkur niður. En Magnús hafði eitthvað annað í huga. Hann leiddi Kristbjörgu afsíðis og fór á skeljarnar þarna á hæsta tindi Afríku og bar upp bónorðið. Við grenjuðum náttúrulega úr okkur augun þjakaðar af súrefnisskorti. Brúðurin sagði að sjálfsögðu já,  sömuleiðis þjökuð af súrefnisskorti. Þeir kunna þetta Svíarnir, en hún fékk að vísu viku til að skipta um skoðun.
Eftir frábæran tíma á toppnum var bara að flýta sér niður, því höfuðverkurinn var ekkert að lagast. Við nánast hlupum niður fjallið (tók bara þrjá tíma) og þegar niður var komið var farið í það að pakka, borða og rölta á næsta náttstað í aðeins 10 km fjarlægð. Sem betur fer hvarf höfuðverkurinn um leið og ég  kom niður. Gangan var skemmtileg og allir voru þreyttir en að vonum ánægðir.

Gleðin ólýsanleg

Við gistum í tjöldum í Horombo (3.720 m). Strax eftir matinn og langþráðan þvott lögðumst við Finna til hvílu í tjaldinu okkar. Ég ætlaði rétt að hita pokann áður en ég færi á tjaldsalernið, en vaknaði um nóttina með eyrnatappana í höndunum þar sem ég hafi sofnað vegna þreytu. Þá var ekkert annað í stöðunni en að stinga eyrnatöppunum í eyrun. Já, það voru háværar hrotur úr næstu tjöldum (helv... Bretarnir).
Síðasta dagleiðin var yndisleg. Við gengum um Kilimanjaro-þjóðgarðinn eftir breiðum stíg. Þvílík fegurð. Allir voru ánægðir og það var mikið spjallað, planað og hlegið. Línurnar fyrir framtíðina voru lagðar og næstu ferðir ræddar.
Þegar ég kom á hótelið fann ég vel fyrir þreytunni og stirðleikanum í líkamanum, en það vék fljótt fyrir gleðinni að hafa sigrast á þessu fjalli og um leið að hafa sigrast á sjálfri mér, og gleðinni að hafa fengið að upplifa þetta með vinum mínum. Ekki síst gleði yfir að hafa fengið að upplifa þessa gífurlegu náttúrufegurð, sem er ekki hægt að lýsa með orðum. Þá tilfinningu verður hver og einn að upplifa sjálfur. Nú er lag.


Athugasemdir

11.mars 2025

Sk Sigló ehf.

580 Siglufjörður
Netfang: sksiglo(hjá)sksiglo.is
Fylgið okkur á Facebook eða Twitter

Póstlisti

Skráðu netfangið þitt á póstlistan okkur.

Ábendingar

Ertu með ábendingu fyrir síðuna eða góða frétt? Sendu okkur þá póst og við könnum málið.

Sendu póst