Söguleg höfnun á lögum Alþingis
frettir@ruv.is | Fréttir á landsvísu | 07.03.2010 | 10:29 | | Lestrar 337 | Athugasemdir ( )
Landsmenn höfnuðu í gær lögum sem Alþingi samþykki í árslok um heimild fjármálaráðherra fyrir hönd ríkissjóðs til þess að ábyrgjast lán Tryggingasjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.
Lánið átti að koma frá hollenska og breska ríkinu til að standa straum af greiðslum til innstæðueigenda hjá Landsbanka Íslands. Þegar búið er að nær öll atkvæði segja rúm 93% nei, innan við 2% já og tæp 5% atkvæða eru auð. Kjörsókn var víðast hvar um 60%.
Viðræður halda áfram
Í tilkynningu frá forsætisráðuneytinu í gærkvöld segir að fyrstu tölur bendi ótvírætt til þess að Icesave lögin falli úr gildi. Eftir standi þá lög sem voru samþykkt frá Alþingi í lok ágúst 2009. Þau lög staðfesti forseti. Bretar og Hollendingar féllust hins vegar ekki skilyrði þeirra laga og geti því lánasamningar frá 5. júní ekki öðlast gildi á grundvelli þeirra. Ríkisstjórnin hafi þó fulla trú á að viðunandi lausn fyrir alla deiluaðila geti náðst. Allir stjórnmálaflokkar á Alþingi hafi lýst yfir stuðningi við lausn málsins sem feli í sér að íslensk stjórnvöld tryggi greiðslu innstæðna upp að lágmarki samkvæmt Evrópureglum. Íslensk stjórnvöld muni næstu daga áfram kappkosta að ná farsælli lausn í Icesave-málinu.
Tölur eftir kjördæmum
Í Reykjavík suður sögðu 92% nei, kjörsókn var 62%. Kjörsókn í Reykjavík norður var 58,6% og þar sögðu 91,3% nei. Í Suðvesturkjördæmi sögðu 94,6% nei og kjörsókn var 65,7%. Í Suðurkjördæmi var kjörsókn 66,2% og þar sögðu 95,2% nei. Lokatölur úr Norðvesturkjördæmi liggja ekki fyrir þar vantar endanlegar tölur frá Ísafirði. Í Norðausturkjördæmi var talningu frestað undir morgun því ekki hefur verið hægt að flytja atkvæði Grímseyinga til lands.
92% greiddu atkvæði gegn lögunum í Reykjavík suður en 2,2% greiddu með. 5,3% skiluðu auðu og ógild atkvæði voru 0,4%. Í Reykjavík norður greiddu voru 91,3% á móti en 2,2% sögðu já. 6,0% skiluðu auðu og ógild atkvæði voru 0,5%. Í Suðvesturkjördæmi sögðu næstum 95% nei. Samkvæmt fyrstu tölum úr öðrum kjördæmum verður niðurstaðan svipuð þar.
Viðbrögð stjórnarinnar
Þegar fyrstu tölur lágu fyrir í gærkvöld, sagði Steingrímur J Sigfússon, fjármálaráðherra, að úrslitin kæmu ekki á óvart. Enginn málflutningur hefði verið hafður frammi fyrir annarri niðurstöðu. Mál hefðu þróast þannig, að verið væri að ná nýjum samningi og þar af leiðandi þjónaði það litlum tilgangi að mæla með því að lögin yrðu samþykkt. Það væri frekar merkilegt hversu margir hefðu sagt já við þessar aðstæður.
Jóhanna Sigurðardóttir Forsætisráðherra sagðist ekki sjá eftir því að hafa gefið út yfirlýsingar þess efnis að hún ætlaði ekki greiða atkvæði. Jóhanna og Steingrímur sögðu enga hættu á stjórnarslitum, pólitísk óvissa myndi ekki bæta ástandið. Steingrímur benti á að það væru fáir sem vildu taka að sér að vera fjármálaráðherra á Íslandi á þessum tímum. Nú þyrfti að endurreisa landið og klára Icesave málið því fyrr kæmi fjármagn ekki inn í landið. Jóhanna sagði þessa töf á málinu vera dýra og tilefni væri til að rannsaka hversu mikið hún hefði kostað.
Viðbrögð stjórnarandstöðu
Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, sagði að ríkisstjórnin geti ekki látið eins og hér hafi ekkert gerst. Næsta verkefni væri að taka málið upp á þingi og láta ríkisstjórnina gera grein fyrir hvernig hún meti niðurstöðuna og hvað hún hyggist gera í áframhaldandi viðræðum.
Birgitta Jónsdóttir, þingflokksformaður Hreyfingarinnar, segir þetta stóran dag fyrir lýðræðisumbætur í landinu. Hún er ánægð með að niðurstaðan sé afgerandi og segir að það muni gagnast í samningaviðræðum við Breta og Hollendinga. Birgitta er sammála því að ræða þurfi málið í þinginu.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins, segir að nú sé brýnt að ríkisstjórnin snúi sér að öðrum efnahagsmálum og þeirri uppbyggingu sem hafi beðið á öllum sviðum. Enn sé vilji til að leysa Icesave-deiluna með Bretum og Hollendingum en þeir verði þá að vera sanngjarnir
Athugasemdir