FYLKISPARIÐ SIGRAÐI MEÐ NAUMINDUM
Föstudaginn langa fór fram paramót Rauðku í blaki í íþróttahúsinu á Siglufirði. Mótið er styrktarmót fyrir strandblaksvöllinn og er Rauðka helsti styrktaraðili mótsins.
Tuttugu og eitt par (eða 42 blakarar) mættu til leiks á öllum aldri og með mismikla blakreynslu. Mótið er skemmtilegt í sniðum en fyrir hverja hrinu er dregið í lið og spila þrjú pör saman. Þannig spilar hvert par með mismunandi pörum í hverri hrinu. Hvert par þurfti að spila átta hrinur og var hver hrina upp í fimmtán stig. Stigahæsta parið eftir átta hrinur sigraði svo mótið.
Það var gríðarlega hörð barátta um sigurinn og fyrir síðustu hrinuna gátu fimm pör sigrað. Að lokum var það Árni og Ásta sem kennd eru við Fylki sem sigruðu mótið með 116 stig. Þau hlutu að launum glæsilega þríréttaða máltíð frá Rauðku. Það voru síðan þrjú heimapör sem enduðu með 115 stig og það má því segja að spennan hafi verið magnþrungin í lokahrinunni.
Á milli hrina var dregið í happdrætti þar sem heppin pör unnu sér inn stórglæsileg páskaegg frá Nóa Siríus. Þetta var þriðja árið í röð sem paramótið fer fram og alltaf hefur það verið haldið föstudaginn langa. Nú er um að gera að taka daginn frá því eftir tæpt ár fer mótið fram í fjórða skipti.
Myndir og texti: Óskar Þórðarson
Athugasemdir