Tugþúsundir treysta á stuðning

Tugþúsundir treysta á stuðning Um stefnu stjórnvalda í málefnum íþróttahreyfingarinnarInnanríkisráðherra, Ögmundur Jónasson, hefur gefið það út að hann

Fréttir

Tugþúsundir treysta á stuðning

Þórir Hákonarson
Þórir Hákonarson

Um stefnu stjórnvalda í málefnum íþróttahreyfingarinnar

Innanríkisráðherra, Ögmundur Jónasson, hefur gefið það út að hann vilji láta kanna möguleika á því að menning og listir fái hlut af þeim tekjum sem Íslensk Getspá hefur af Lottó.  Lottótekjurnar skiptast nú á milli Öryrkjabandalags Íslands annars vegar og ÍSÍ og UMFÍ hins vegar.  Með þessu virðast núverandi stjórnvöld leitast eftir því að skerða hlut æskulýðs- og íþróttastarfs í landinu. Er það opinber stefna ríkisstjórnar að minnka verulega framlög til þessa mikilvæga málaflokks?


Knattspyrnuhreyfingin líkt og öll íþróttahreyfingin hefur orðið verulega vör við breytingu á stefnu stjórnvalda á undanförnum misserum. Ríkisvaldið hefur skorið niður framlög í slysasjóð ÍSÍ sem settur var á fót til trygginga á íþróttamönnum og er nú svo komið að alger óvissa er ríkjandi um frekari greiðslur úr þeim sjóði sem þó var settur á með lagasetningu. Ítrekað hefur stjórnvöldum verið send erindi vegna þessa og óskað skýringa en engin svör hafa borist.  KSÍ setti á fót mannvirkjasjóð þar sem sambandið lagði til að lágmarki 25 milljónir króna á ári á móti framlagi ríkisvaldsins til þess að styrkja uppbyggingu íþróttamannvirkja um land allt.  Í fjárlögum fyrir árið 2011 eru framlög ríkisins í þennan sjóð, sem sveitarfélög hafa fyrst og fremst notið góðs af, algerlega felld niður þannig að ekkert framlag kemur í mannvirkjasjóðinn frá ríkinu á þessu ári.  Ríkið hefur lækkað framlög til ÍSÍ og gert þessum heildarsamtökum íþróttahreyfingarinnar á Íslandi nær ómögulegt að styðja við bakið á afreksfólki okkar svo sómi sé af.  Fjölmörg dæmi eru um það með hvaða hætti ríkisvaldið hefur skert framlög til íþróttahreyfingarinnar.

Því miður þá virðist þróunin vera sú að enn frekar eigi að skerða þá fjármuni sem íþróttahreyfingin hefur til sinna verkefna og mun það einfaldlega hafa í för með sér að erfiðara verður um vik að sinna mikilvægu starfi, hvort sem er fyrir hefðbundið barna- og unglingastarf eða afreksfólk í íþróttum.  Ýmis tækifæri hafa verið notuð af ýmsum aðilum til þess að gera starf íþróttahreyfingarinnar tortryggilegt og ráðherrar sem fara með málefni æskulýðs- og íþróttastarfs hafa í engu varið íþróttahreyfinguna hafi verið að henni sótt t.d. með afar ósannfærandi og röngum samanburði á framlögum til íþrótta annars vegar og menningar og lista hins vegar, íþróttum í vil, sem er auðvitað algjör fjarstæða.

Málið snýst ekki um það hvort fjármunir eigi frekar að fara í menningu og listir heldur en íþróttastarfsemi þó svo að menningar- og listageirinn virðist ávallt setja íþróttastarfsemi fram sem sinn höfuðóvin, af óskiljanlegum ástæðum.  Málið snýst um vilja stjórnvalda til þess að tryggja þessum mikilvægu þáttum samfélagsins nægjanlega fjármuni til þess að dafna en vilji stjórnvalda nú virðist vera að standa vörð um menningu og listir, sem er af hinu góða, en skerða með öllum mögulegum ráðum framlög til íþróttahreyfingarinnar.

Í íþróttahreyfingunni starfa þúsundir sjálfboðaliða um land allt, iðkendur skipta tugþúsundum,  fyrirtæki og einstaklingar sýna starfseminni mikinn velvilja og styðja við bakið á íþróttastarfsemi með eftirtektarverðum hætti.  Hvers vegna stjórnvöld kjósa að virða þessa starfsemi að vettugi og sýna í verki minnkandi stuðning við þetta mikilvæga starf er óskiljanlegt.

Þórir Hákonarson, framkvæmdastjóri KSÍ


Athugasemdir

15.janúar 2025

Sk Sigló ehf.

580 Siglufjörður
Netfang: sksiglo(hjá)sksiglo.is
Fylgið okkur á Facebook eða Twitter

Póstlisti

Skráðu netfangið þitt á póstlistan okkur.

Ábendingar

Ertu með ábendingu fyrir síðuna eða góða frétt? Sendu okkur þá póst og við könnum málið.

Sendu póst