Ævintýralegt brúðkaup í Pakistan

Ævintýralegt brúðkaup í Pakistan Það var árið 2010 að ung stúlka frá Siglufirði Karen Birgisdóttir hélt til Spánar sem skiptinemi. Þar kynntist hún ungum

Fréttir

Ævintýralegt brúðkaup í Pakistan

Karen og Kashif
Karen og Kashif

Það var árið 2010 að ung stúlka frá Siglufirði Karen Birgisdóttir hélt til Spánar sem au pair. Þar kynntist hún ungum manni að nafni Kashif Mehmood frá Pakistan og felldu þau hugi saman. Þegar Karen kemur aftur heim hófst fjarbúð á milli þeirra og kom hann tvisvar til Íslands í heimsókn og hún til hans. Það var síðan  í ágúst 2013 að hann kom alfarið til Íslands og giftu þau Karen sig við fallega athöfn heima á Laugarvegi 16 þann 17 ágúst 2013.

Þar sem langt er á milli heimalanda þeirra og ekkert af hans heimafólki var viðstatt giftinguna ákváðu þau að gifta sig einnig í heimabæ Kashif í Pakistan. 

Þann 6. mars hófst ferðalagið og héldu þau Karen og Kashif til Pakistans ásamt Birgi Ingimarssyni og Pálínu Kristinsdóttur foreldrum Karenar og systur hennar Birgittu. Flugu þau fyrst til Osló og þaðan áfram til Dubai og loks til Islamabad í Pakistan. Lokaáfanginn var tveggja og hálfs tíma keyrsla til heimabæjar Kashif, Sadiq Abad.


Karen og Kashif á brúðkaupsdaginn 17 ágúst 2013 hér á Siglufirði

Þar sem Karen er enn ásamt eiginmanni sínum í Pakistan fékk ég litskrúðuga ferðasöguna frá foreldrum hennar og systur.

Bróðir og frændi Kashif tóku á mótin hópnum með virktum á flugvellinum í Islamabad. Sögðu Íslendingarnir að það hafi verið mikil lífsreynsla að fara út í umferðina í Islamabad, óskiljanlegar umferðarreglur, engin notar bílbelti og nægir það að bílstjórinn sé í belti ef lögreglan stoppar bifreiðina. Ekki bætti vinstri umferðin líðan þeirra. Varð þeim um og ó við að sjá 5 manns á einu mótorhjóli. Birgir sagði að ekki þyrfti bílpróf til að keyra, það dygði að kaupa sér bíl og keyra af stað, enda slysa og dánartíðnin í umferðinni mjög há eins og hann átti eftir að kynnast síðar í ferðinni.


Hús fjölskyldunnar glæsilega skreytt í tilefni brúðkaupsins

Þegar heim til Sadiq Abad var komið tók fjölskyldan á móti þeim og fengu þau höfðinglegar móttökur. Búa foreldrar Kashif þau Noor og Razzaq þar í stóru þriggja hæða húsi ásamt tveimur tengdadætrum og barnabörnum. Systir hans býr í öðru húsi á lóðinni ásamt móðursystur þeirra sem kölluð er Litla mamma. Bræður hans tveir búa á Spáni, mágur hans í Noregi og systir í Bandaríkjunum.


Kashif ásamt bræðrum sínum og frænda

Umhverfið í Sadiq Abad er ansi ólíkt því sem fjölskyldan á að venjast hér heima. Þröngar götur án slitlags með opin ræsi, allt að því tveggja og hálfs metra háar girðingar umhverfis alla húsagarða og rimlar fyrir gluggum. Við hús foreldra Kashifs er stór garður þar sem þau rækta hveiti, krydd og ávexti fyrir heimilið. Í garðinum eru einnig hænur, hávær hani sem galar stanslaust, hundur og api. Fannst þeim umhverfishljóðin ansi ólík því sem þau eiga að venjast hér á Siglufirði


Birgir með Milo, gæludýr heimilisins


Birgitta, Kashif, Karen, Pálína og Birgir á leið í veisluna á laugardeginum

Vakti hin vestræna siglfirska fjölskylda gífurlega athygli og sögðu að ekki hefði verið horft meira á þau þó þau hefðu verið grænar geimverur. Allstaðar var fylgst með þeim og þegar þau fóru upp á húsþak þar sem algengt er að fjölskyldan dvelji var fylgst með hverju spori af húsaþökum nágrannanna.


Veislan á fimmtudagskvöldinu þar sem konurnar komu saman og sungu

Mikill gestagangur var á heimilinu og sögðu þau að þrátt fyrir þennan mikla áhuga hafi allir verið vingjarnlegir. Fjölskyldutengsl eru sterk, vinir og vandamenn fjölskyldunnar eru fleiri en íbúar Siglufjarðar.


Brúðhjónin ásamt systrum sínum, mágkonum Kashif og frænkum

Brúðkaupið sjálft tók fjóra daga og hófst óformlega miðvikudaginn 11 mars þar sem konurnar hittust og sungu og trommuðu saman. Karlarnir komu saman á öðrum stað en kynjaskipting er mikil þegar um svona viðburði er að ræða.


Sjálf brúðkaupathöfnin tók aðeins um fimm mínútur 

Á föstudeginum var sjálf giftingin og tók hún aðeins um fimm mínútur. Karen játaði heitin á arabísku þar sem kóraninn er ritaður á því máli. Tók þá við 150 manna veisla þar sem var eldað í húsagarðinum ljúffengur kjúklingaréttur með nan brauði og fleira góðgæti. Kokkurinn er einnig rakarinn í bænum og klippti hann Birgi.


Kokkurinn fjölhæfi sem klippti einnig Birgir eldar hér ljúffengan kjúklingarétt í húsagarði fjölskyldunnar


Karen var listilega skreytt með henna tattoo

Karlarnir dönsuðu dátt um húsastrætin með hljómsveit sem óx ásmegin þegar peningaseðlunum var kastað til þeirra. Konurnar dvöldu í kjallara hússins þar sem verið skreyta brúðina og Birgittu með henna tattoo og dönsuðu þær og trölluðu dátt.


Hljómsveitin að hefja gleðskapinn

Þessi gleðskapur tók nokkra tíma og ríkir mikil gleði meðal gestanna, bæði hjá karlmönnum sem dönsuð dátt á strætunum úti og konunum sem sátu heima. Tóku Pálína og Birgir það fram að aldrei í þessum veislum var boðið upp á vín og ekki í menningu Pakistana að drekka áfengi.


Hér dansar Birgir á strætum úti ásamt öðrum karlmönnum í fjölskyldunni

Aðal veislan fór síðan fram á laugardeginum í Skyways, glæsilegu veitingarhúsi. Þar komu um 360 manns til að fagna með brúðhjónunum.

 Skyway, glæsilegur staður þar sem aðal brúðkaupsveislan fór fram með um 360 gestum


Fagurlega skreyttur bíll brúðhjónanna

Salnum var skipt í tvennt og voru karlar öðru megin og konur hinum megin. Enn og aftur vakti hin vestræna fjölskylda gríðarlega athygli og fengu þau einkasal til að fá næði.


Tengdamóðir Karenar með barnabörnin í stóru brúðkaupsveislunni

Þess má geta að 360 manna brúðkaup er mjög lítið á Pakistanskan mælikvarða og þegar systir Kashif gifti sig voru brúðkaupsgestir um 1000 manns.


Konur og karlar eru í sitthvorum salnum og lokað á milli

Þar sem Birgir er bæjarverkstjóri í Fjallabyggð skoðaði hann ýmis mannvirki á svæðinu eins og járnbrautateina þar sem verkamenn voru að störfum og ræddi við þá, ekki voru vinnubrögðin eins og hann á að venjast hjá starfsmönnum bæjarins.


Hér skoðar fjölskyldan aðbúnað verkamanna 

Síðan heimsóttu þau skólabyggingu í nágrenninu sem er einkarekin af konu. Skólastofurnar voru ólíkar því sem við þekkjum, berir múrsteinar, trébekkir og svartar krítartöflur voru það eina sem námfúsum nemendum var boðið uppá.


Skólastofan sem fjölskyldan heimsótti                                                                                 

Einnig fannst honum merkilegt hvað rafmagnið var tekið oft af í tíma og ótíma, rafall í garði fjölskyldunnar gerði það að verkum að hún fann ekki mikið fyrir því. Vatnið var mjög gott hjá þeim enda hafði verið grafin óvanalega djúpur brunnur fyrir þau og vatnið hreint en ekki var hangið í sturtunni þarna eins og við eigum að venjast.


Hér er Pálína að elda við allt aðrar aðstæður en hún á að venjast hér heima. Eldað var í bakgarðinum fyrir fjölda gesta en það er mjög gott eldhús inni í húsi fjölskyldunnar

Birgi þóttu einnig merkileg hin opnu skolpræsi. Komu miklar þrumur og eldingar þarna einn daginn og rigndi gífurlega í kjölfarið. Leið þá ekki á löngu að skólpræsin fylltust og flóðu útfyrir yfir þröngar göturnar. Blandaðist þá allt saman í eina eðju sem fólk arkaði yfir.


Verið að versla brúðkaupsdressin, eins og sjá má er mikið úrval en þarna eru karlmenn alltaf í afgreiðslu.

Atvinnuleysi þarna er mikið, allt af því um 80 – 90 % og fólk hafði mikinn tíma fyrir hvert annað. Eins og áður sagði er almenningur þarna ljúft og kurteist fólk sem vildi allt fyrir hina vestrænu gesti gera, en aldrei fengu þau að fara ein um nágrennið og var gætt vel og vandlega af tengdafjölskyldu Karenar.


Setið að spjalli í fallegum húsagarði fjölskyldunnar

Á meðan á dvöl þeirra stóð lést virtur læknir og mannvinur í bænum af völdum bílslyss að morgni dags. Var almenningur harmi sleginn. Birgi var boðið með karlmönnunum í fjölskyldunni að taka þátt í jarðaförinni seinni part sama dags. Voru það um 10 þúsund karlmenn sem fylgdu honum til grafar og var þetta einstök lífsreynsla fyrir hann.


Karen og litla mamma eins og hún er kölluð er systir tengdamömmu Karenar. Yndisleg kona sem öllum finnst vænt um.

Þegar að heimferð kom kvaddi þessi yndislega fjölskylda siglfirsku vini sína af miklum innileik og ekki tók verra við þegar á flugvöllinn kom. Eftir 6 vegabréfs skoðanir á flugvellinum voru þau tekin út úr röðinni og leist ekki á blikuna. Þeim til mikillar undrunar var þeim boðið að fara á business class og fengu þvílíkt dekur að þau tímdu ekki að leggja sig þrátt fyrir þreytu á leiðinni til að njóta íburðarins.


Komið var við Í Dubai

Karen og Kashif urðu eftir til að njóta samverunnar við fjölskyldu hans lengur og hafa meðal annars farið að skoða hið fagra Kashmir hérað í Pakistan. Koma þau heim núna í apríl þar sem hversdagslífið tekur við. Kashif starfar í Aðal Bakaríi, líkar það mjög vel og líður honum sérlega vel á Íslandi þrátt fyrir hina miklu fjarlægð við heimalandið. 


Karen og Kashif

Texti: Kristín Sigurjónsdóttir
Myndir: Úr einkasafni Karenar og fjölskyldu 


Athugasemdir

21.desember 2024

Sk Sigló ehf.

580 Siglufjörður
Netfang: sksiglo(hjá)sksiglo.is
Fylgið okkur á Facebook eða Twitter

Póstlisti

Skráðu netfangið þitt á póstlistan okkur.

Ábendingar

Ertu með ábendingu fyrir síðuna eða góða frétt? Sendu okkur þá póst og við könnum málið.

Sendu póst