Gunnar Smári Helgason

Gunnar Smári Helgason Gunnar Smári Helgason er kominn af uppfinningamönnum í föðurættina og smiðum í móðurættina og er lifandi goðsögn í heimi íslenskrar

Fréttir

Gunnar Smári Helgason

Gunnar Smári Helgason
Gunnar Smári Helgason

Gunnar Smári Helgason er kominn af uppfinningamönnum í föðurættina og smiðum í móðurættina og er lifandi goðsögn í heimi íslenskrar tónlistar. Fingraför hans má sjá á margri hljómplötunni sem tekin hefur verið upp og gefin út, allt frá 8. áttunda áratug síðustu aldar. Þar á meðal hafa verið kunnustu músíkantar þjóðarinnar. Bara einu sinni gafst hann upp á verki, þegar Fræbblarnir litu inn í Hljóðrita örskotsstund og tóku upp 18 grunna; hann skildi aldrei hvað þar var í gangi.

Einnig hefur Gunnar unnið að gerð auglýsinga, kvikmynda og sjónvarpsþátta, komið að talsetningu á teiknimyndum og hljóðblöndun í leikhúsum og á tónleikum, bæði klassískum og popptónleikum. Eitt skiptið er honum minnisstæðara en önnur, tónleikar sem haldnir voru og teknir upp á Melavellinum á sínum tíma og ekki náðist að gera hljóðprufur á undan. Þá svitnaði pilturinn.

Að auki tengist hann Eurovision, hefur þrisvar – 1990, 1991 og 1993 – farið utan til að sjá um að hljóðið væri í lagi, þegar að stóru stundinni kæmi.

Að fátt eitt sé nefnt.

Eftir að Gunnar fór að minnka við sig í upptökuvinnunni tók hann að snúa sér að öðru hugðarefni, er t.d. búinn að fylla bílskúrinn af alls konar vélsmíðadóti þessa dagana, er kominn þar með loftpressu, rennibekk, rafsuðuvélar tvær og ýmislegt fleira sem nýtist í járnsmíði. Nýverið setti hann saman 10 metra hátt mastur sem fór út í Hrísey, með fjórum loftnetum á. Þarna uppi var hann í 6 klukkustundir, hangandi í rigningu, við að standsetja það.

Við loftnets smíði

Svo er hann með stórt herbergi undir rafeindavinnustofu og hefur síðustu árin verið að gera við faghljóðtæki, sem eru notuð í atvinnurekstri. Þegar hann var í Menntaskólanum á Laugarvatni, 17 og 18 ára, var herbergið víst ein tóm víraflækja og hálfkaraðir útvarpssendar þar á víð og dreif, að sögn eins skólabróður hans. Og hann farinn að grúska í forritun.

Þetta er enginn venjulegur maður.

Gunnar Smári tekur sér ýmislegt fyrir hendur

Frá árinu 2006 hefur Gunnar búið á Siglufirði, ef undan eru skildir 5 mánuðir, og unir hag sínum vel, kominn út úr ati höfuðborgarinnar. Hann kveðst vera Aspergertýpa, ekki sólginn í mikið fjölmenni en hafi það af.

Búbbólína

„Ég fæddist á sjúkrahúsinu á Hvammstanga 20. júlí 1957,“ segir Gunnar, þegar hann er spurður um uppruna sinn. „Pabbi, Helgi Sæmundur Ólafsson, er fæddur á Siglufirði og ættaður úr Héðinsfirði, af Vatnsendaættinni, en ólst upp í Kothvammi við Hvammstanga, og mamma, Sólborg Dóra Eðvaldsdóttir, fæddist á Vatnsnesi og ólst þar upp. Ólafur afi var þingskrifari í mörg ár og faðir hans, langafi minn, alþingismaður um tíma. Og Eðvald afi var sjómaður og bátasmiður, setti saman vísur og var mjög jákvæður út í allt sem kallaðist list.

Pabbi er rafvirkjameistari þannig að ég kynntist mjög ungur flestu sem tengist rafmagni og tækni. Hann var mjög virkur í leikfélaginu á staðnum, var þar ljósamaður í fjölda ára, fann upp hluti til að leysa málin ef þurfti, og var að auki organisti í kirkjunni á Hvammstanga í tæp 40 ár, og mamma söng í kórnum og ég líka þegar ég fór að stálpast. Þannig að segja má að ég hafi alist upp við blöndu af músík og tækni.

Horfir yfir bernskustöðvar forfeðra sinna að Stöpum á Vatnsnesi

Nú, ég fór hefðbundna skólagöngu til að byrja með, var þarna í barnaskólanum og tók landspróf á Reykjum, var á áætlun alveg þar. En það var nú ýmislegt annað sem þurfti að gera en að stunda námið, við vorum með skólahljómsveit og settum upp og rákum ólöglega útvarpsstöð, sem náðist þarna eitthvað um kring, og fleira. Þannig að krókurinn beygðist snemma.

Eftir landspróf frá Reykjaskóla fór ég í Menntaskólann að Laugarvatni og þá fór svona að halla undan fæti hvað uppfræðsluna snerti, því félagslífið tók yfirhöndina þar, ég sá um hljóðfærasafn sem skólinn átti, var kallaður hljóðfæravörður, og námið varð útundan. Og það endaði með því að ég hætti þar eftir tvo vetur. Þar var náttúrulega rekin útvarpsstöð líka, kolólögleg, Búbbólína. Ég man að seinni veturinn minn þarna kom ég með lampasendi, sem ég hafði eiginlega mestar áhyggjur af að væri of sterkur, þetta var á miðbylgju. Og við strengdum loftnet milli húsa. Ég sendi nokkra stráka á bíl til þess að keyra aðeins í kring til að athuga hvort það væri ekki öruggt að þetta næðist bara rétt út fyrir skólann, því annars áttum við á hættu að vera stoppaðir. Svo líður og bíður og okkur er farið að lengja eftir ökuþórunum. Að lokum koma þeir til baka og segja að þetta sé fínt, þetta náist bara þarna rétt út fyrir. Seinna kom í ljós að sendirinn náði til Selfoss!. Svo þremur árum seinna hitti ég einn náunga á förnum vegi sem sagði mér að þeir hefðu hlustað á stöðina á Selfossi. Þá höfðu guttarnir sem sendir höfðu verið af stað til að athuga styrkinn gefist upp einhvers staðar miðja vegu milli Laugarvatns og Selfoss og snúið við, þeir nenntu einfaldlega ekki að keyra lengur. Þannig að svona var þetta um veturinn. Og skólameistarinn, Kristinn Kristmundsson, var svo almennilegur að láta sem hann vissi ekki af þessu. Einu sinni kom hann að máli við okkur og sagði að hann væri alveg til í að halda áfram að vita ekkert um þetta ef við hættum á miðnætti, því stundum vildi dagskráin dragast aðeins hjá okkur, stundum til tvö, þrjú á nóttunni, og þá neituðu stelpurnar í Héraðsskólanum víst að fara að sofa, vildu það ekki fyrr en þetta væri búið hjá okkur. Svo að við virtum það. Þetta var afskaplega sanngjarn og góður skólastjóri, fannst mér.

En þarna sem sagt fann ég að menntaskólanámið átti ekki við mig, svo að ég fór aftur til Hvammstanga og var að hugsa um að gerast rafvirki eins og pabbi og fara iðnskólaleiðina kannski frekar, en minnir að hafi verið einn vetur heima til að velta þessu aðeins fyrir mér.“

Lengi lifir útvarpsdraumurinn, Gunnar Smári að undirbúa dagskrá á útvarpstöðinni FM.Trölla.is

Ragnar Björnsson gerði útslagið

„Svo gerist það sem átti eftir að hafa mikil áhrif á líf mitt,“ heldur Gunnar áfram. „Eðvald, móðurafi minn, var fræðimaður, hafði komið að stofnun Fræðafélags Vestur-Húnavatnssýslu, vil ég meina, og í kringum páskana þarna var haldin vorvaka í félagsheimilinu á Hvammstanga. Það var fjölmargt í boði, myndlist og fleira, en það sem fram fór á sviðinu, var með einhverju hljóði, það var tekið upp til heimildar. Pabbi sá um það. Og svo þegar ég fór að koma þarna inn aftur, eftir að hafa verið í burtu, þá fór ég að vera með honum í því. Síðan voru þessar spólur geymdar. Ég held að núna sé búið að koma þessu öllu á stafrænt form og setja á einhverja vefsíðu, sem ég kann ekki að nefna frekar. Í þetta sinn var meðal gesta Ragnar Björnsson, sem þá var dómorganisti og ættaður þarna af svæðinu. Hann leikur píanókonsert á flygil sem nýbúið var að kaupa. Listamönnunum fannst stundum óþægilegt að verið væri að taka slíkt upp og iðulega þurfti að fá sérstakt leyfi fyrir því. Og það var eins í þetta skiptið. Hann var spurður að því fyrirfram hvort í lagi væri að taka þetta upp á segulband og þótt hann væri ekkert sérlega hrifinn að hugmyndinni lét hann það gott heita, ef við lofuðum því að við myndum þurrka þetta út í hans viðurvist ef hann yrði ekki ánægður með útkomuna, einhverra hluta vegna. Daginn eftir kemur hann heim til að hlusta á þetta og dæma um það hvort mætti varðveita. Hann hlustar á þetta í heyrnartólum og dettur hvorki af honum né drýpur. Svo bað hann um að fá að heyra þetta aftur. Og þá hugsaði ég: „Já, ókei, hann er að stúdera spilamennskuna sína.“ En það var nú annað, því svo tekur hann af sér heyrnartólin og segir: „Heyrðu, af hverju ferðu ekki bara út í þetta?“ „Ha, hvað?“ spyr ég. „Upptökur,“ segir hann. Og hann fer að tala um það að hann sé miklu ánægðari með þessa upptöku en margar sem hann hafi heyrt í útvarpinu og svona og fannst þessi eitthvað merkileg, sem ég skil reyndar ekki enn.

Svo leiðir eitt af öðru, að Hljóðriti í Hafnarfirði auglýsir eftir nemum til að verða upptökumenn. Og ég sæki um. Til vara ætlaði ég í Iðnskólann og það var búið að gera allt klárt fyrir það ef hitt myndi bregðast. En ég fæ þarna inni sem nemi, og byrjaði 15. september 1978. Og eftir það varð ekki aftur snúið. Fyrstu kennarar mínir voru Jónas R. Jónsson og Tony Cook.“

í Hljóðrita að undirbúa plötuna Örugglega

Gunnari sóttist námið vel, fór fljótt að vinna sem fullgildur upptökumaður og starfaði sem yfirupptökumaður Hljóðrita um nokkurt skeið.

Hann var fastur starfsmaður í Stúdío Sýrlandi á árunum 1991 og 1992.

Um það leyti fór hann til Litháen á vegum Skífunnar. „Já, þá var verið að taka upp plötu með Diddú og græjurnar bjöguðu en tæknimenn þar fundu ekki út af hverju. Þá var ég sendur til að finna út úr því, og í ljós kom að þarlendir tæknimenn höfðu skipt út rússneskum upptökutækjum fyrir ensk tæki, enda múrinn nýfallinn, og kunnu einfaldlega ekki nógu vel á mixerinn. Það tók hálfan dag að finna út úr því, en ég varð að vera í viku þarna úti – vegna flugbókana.“

Hann var ríkisstarfsmaður hjá Þjóðleikhúsinu í 50 daga og 50 nætur í árslok 1994.

Árið 1995 var hann ráðinn tæknistjóri Bylgjunnar og var gerður að hljóðmeistara Íslenska Útvarpsfélagsins á árunum 1996, 1997 og 1998, en þá setti hann upp eigið hljóðver í Hafnarfirði, Hljóðsmárann ehf., sem var formlega stofnaður í árslok 1999.

Í árslok 1997 fór Gunnar að íhuga trúmál meira en áður, og gekk til liðs við Hvítasunnuhreyfinguna skömmu seinna, með því að taka niðurdýfingarskírn í Fíladelfíu 8. mars 1998, en hafði fram að því verið í Þjóðkirkjunni. Hann er fyrir löngu snúinn til baka, heim í gömlu kirkjudeildina.

Gunnar stóð m.a. fyrir því að samkomur Fíladelfíu eru vistaðar á Internetinu, og var í hópi þeirra manna sem komu á beinum útsendingum frá Fíladelfíu á Lindinni FM102.9 alla sunnudaga.

Skilti sem Gunnar Smári smíðaði fyrir útvarpstöðina FM. Trölla.is

Starfsemin í Hafnarfirði lagðist niður árið 2002, en Hljóðsmárinn starfaði um skeið í tengslum við Lindina sem er kristilegt útvarp, og framleiðir kristilegt efni fyrir sjónvarp, útvarp og til útgáfu. Gunnar var tæknistjóri þar í eitt ár.

Í júní 2002 var hann ráðinn í hlutastarf sem kennari við Tónlistarskóla FÍH, og sem umsjónarmaður Hljóðvers FÍH.

Í kringum 1000 hljómplötur

Gunnar hefur oft verið kallaður Hljóðmaður Íslands. Þegar hann er spurður út í fjölda þeirra hljómplatnanna sem hann hafi komið að segir hann að hann sé ekki með töluna á hreinu.

„Það er svolítið erfitt að telja, því það er skilgreiningaratriði hvenær maður hefur tekið upp plötu og hvenær ekki. Vegna þess að maður gerir kannski bara brot af vinnunni. Ef ég tek að mér að mastera einungis, þá fæ ég hljóðblandað efni frá einhverjum öðrum og ég er bara að fínisera það til. Stundum tek ég bara upp söng og ekkert annað. Þannig að þetta er dálítið matsatriði hvenær maður tekur upp plötu. En ég tel að plötur þar sem mitt handbragð hefur skipt einhverju máli, þar sem ég hef komið nálægt upptökunni, séu öðru hvor megin við 1000.“

Við undirbúning tónleika í Hörpu

Einnig bera merki hans kvikmyndirnar Okkar á milli, Með allt á hreinu, Hrafninn flýgur, Í skugga hrafnsins, Reykjavík 200 ára, Gullsandur, Eins og skepnan deyr, Bödeln og Skökan (Sænska sjónvarpið), Hin helgu vé, og Skýjahöllin, sjónvarpsþættirnir Á tali hjá Hemma Gunn, Eurovision-forkeppnir í nokkur ár, Óskastund, Þegar það gerist, og Reykjavík í öðru ljósi, og söngleikirnir Gæjar og Píur (Þjóðleikhúsið), Litla Hryllingsbúðin (Gamla Bíó), Blóðbræður, og Á Köldum Klaka (Borgarleikhúsið). Og að talsetningum hefur hann líka komið (Fuglastríðið, Tommi og Jenni (mála bæinn rauðan), Prinsessan og durtarnir, o.fl.).

Þá sá Gunnar um hljóð á Arnarhóli á 200 ára afmæli Reykjavíkur 1986 og einnig á Kristnihátíð á Þingvöllum árið 2000.

Og ekki má gleyma hljóðblöndun á öllum tónleikum Sinfóníuhljómsveitar Íslands í Laugardalshöll í seinni tíð, fyrir daga Hörpu, þ.á.m. Vínartónleikum, José Carreras, Baldri (Jóns Leifs), Kristjáns Jóhannssonar o.fl.

Gunnar Smári að mixa Rolling Stones tónleika í Hörpu

Gunnar hefur mixað jólatónleika Björgvins Halldórssonar í Laugardalshöll alveg frá byrjun og mixaði líka útsendingu jólatónleika Fíladelfíu í mörg ár og hefur verið að fara einstaka sinnum í Hof á Akureyri í svipuðum erindagjörðum, en hefur minnkað þetta töluvert frá því sem áður var.

„Ég hef bara einu sinni gefist upp á að taka upp hljómplötu,“ segir hann. „Sú var með Fræbblunum, Viltu nammi, væna? Þá pöntuðu þeir fjóra tíma í Hljóðrita og tóku upp 18 grunna. Og Valgarður Guðjónsson hefur haft eftir mér að ég hafi sagt: „Viljið þið koma þessum mönnum út úr stúdíóinu.“ Þó að ég muni nú ekki glöggt eftir því sjálfur hef ég enga ástæðu til að ætla að þetta sé ranglega hermt. Pönkið skildi ég ekki fyrr en mörgum árum síðar. Svo vann ég líka eina plötu með Kjúforjú. Ég átti aðeins auðveldara með það.

Hefur húmorinn í góðu lagi

Ég mixaði líka Melarokk, það voru tónleikar sem voru haldnir á Melavellinum í Vesturbæ Reykjavíkur á laugardegi 28. ágúst 1982. Fyrir hljóðmann var þetta alveg skelfilegt. Það var engin almennileg hljóðkerfaleiga komin þá, og því hrúgað saman hljóðkerfi úr öllu mögulegu; það átti meira að segja eftir að búa til eina snúru þegar tónleikarnir voru afstaðnir. En einhvern veginn hafðist þetta nú. Það voru margar hljómsveitir en engar hljóðprufur, heldur bara stillt upp og byrjað. Þetta voru yfirleitt svona tvö lög á hljómsveit. Og þegar langt var komið á seinna lagið, þá var maður loksins byrjaður að ná tökum á sándinu, en þá kom næsta hljómsveit og maður þurfti að byrja upp á nýtt í glímunni. En þetta var eftirminnilegt og mikil reynsla.“

Sjálfur fór hann að læra á bassa fyrir nokkrum árum, sem og á trommur og á píanó, og grípur í þessi hljóðfæri af og til, ef sá er gállinn á honum.

Trölli og Viska

„Útvarpsdraumurinn hafði alltaf fylgt mér,“ segir Gunnar. „Alveg frá því ég fór að nota lóðbolta dreymdi mig um að búa til útvarpssendi. Pabbi var oft að gera við talstöðvar þannig að hann þekkti til slíkra fjarskiptatækja innvortis og hjálpaði mér af stað. Eftir allt þetta skólaútvarp, eftir að ég var kominn til Siglufjarðar, nefndi ég við menn rétt fyrir eitt Síldarævintýrið hvort við ættum ekki að starfrækja útvarp fyrir og á meðan hátíðin stæði. Og það varð úr. Við fengum útvarpsleyfi í eina viku. Þetta var svo endurtekið í tvö eða þrjú ár, en svo ákvað ég taka alfarið við keflinu og stækkaði þetta og víkkaði. Nafnið Trölli kom bara út af Tröllaskaganum.“


Við uppsetningu á 10 metra loftnetsmastri í Hrísey. Gunnar Smári smíðaði allt sjálfur og sá um uppsetningu með aðstoð Þorgeirs Jónssonar og vöskum meðlimum í björgunarsveitinni á jörðu niðri.

Í upphafi langaði hann einfaldlega að útvarpa góðri tónlist sem ekki væri með neinu tilgangslausu blaðri á milli laga. Síðar bættist við dagskrárgerð. Trölli er núna hugsaður eins og leiksvið fyrir þau sem vilja og geta gert útvarpsefni. „Ég er ekki sjálfur að fara að gera þætti, heldur leyfi öðrum að spreyta sig, mér finnst mjög gaman að búa til undirstöðuna. Trölli náðist fyrst bara í Siglufirði, en svo fékk ég leyfi til að hafa sendi í Ólafsfirði, og um svipað leyti í Hrísey, fyrir norðanverðan Eyjafjörð, í austri og vestri, og svo næst hann á einstaka stað í Fljótum, í góðum tækjum, og á Hvammstanga.“

Gunnar Smári hékk uppi í mastrinu í um 6 klukkustundir til að festa upp loftnetsmastrið fyrir Trölla í Hrísey

Við þetta má bæta, að Trölli tekur að sér að gera auglýsingar fyrir viðskiptavini.

Í dag vinnur Gunnar annars mest við vefforritun og líður þá aldrei betur en með góða tónlist í eyrum.

Fyrir mörgum árum bjó hann til gagnagrunn og samskiptakerfi fyrir tónlistarskóla. og eru alls 12 skólar í landinu eru að nota það núna og þar af tveir þeir stærstu í Reykjavík. Það nefnist Viska.is.  

Að smíða útvarpsendi

„Mér finnst sveitastjórnarmenn algjörlega blindir gagnvart mikilvægi tónlistarnáms á Íslandi,“ segir hann. “Forsvarsmenn tónlistarskólanna eru stundum að fá einkennilegar fyrirspurnir, eins og t.d. beiðnir um úrtök þar sem fram á að koma hversu margar stúlkur luku miðprófi í söng eða framhaldsprófi, hvenær þær byrjuðu, hvað þær eru búnar að vera lengi í námi o.s.frv. Og þegar skólaritararnir sem sitja sveittir við það að reyna að útvega þessar upplýsingar spyrja til hvers þetta sé, er svarið það, að bæjaryfirvöld vilji vita í hvað peningarnir séu að fara. Og þá spyr ég: Hvar eru próf í badminton? Fótbolta? Handbolta? Körfubolta? Það er hægt að byggja íþróttahallir endalaust, án þess að spyrja nokkurs eftir á, en þegar tónlistin er annars vegar er verið að eltast við svona vitleysu. Alla vega er þetta litið hornauga í Reykjavík, það veit ég. Þannig að ég auglýsi hér með eftir einhverjum sem er til í að rita BA- eða meistaraprófsritgerð um mikilvægi tónlistarnáms hjá ungu fólki í dag. Mér finnst það vera eitthvað sem bráðvantar.

Síðustu 2-3 árin hef ég gengið með þá hugmynd að hljóðvæða söfn, setja inn hljóðmyndir til að skapa viðeigandi andrúmsloft í söfnum með því að koma fyrir nokkuð mörgum hljóðgjöfum á völdum stöðum í hverju safni. Þannig mætti t.d. hugsa sér að við hvern bryggjupolla í Síldarminjasafninu væri sjávargutl – hljóðritað hér á Siglufirði – ekki bara eitt hljóð frá mörgum hljóðgjöfum, heldur sérstakt hljóð á hverjum stað í safninu.  Þetta hefur hingað til verið mjög kostnaðarsamt, en ég er núna að vinna að hugmynd sem gerir þetta gerlegt með góðu móti.  Eins mætti hugsa sér að hafa t.d. fuglahljóð sem kæmu öðru hverju úr loftinu, vinnuhljóð úr bryggjuskúrum o.s.frv.  Þetta gæti virkað í alls konar söfnum eins og vélasöfnum o.fl.“

Við gerð útvarpsauglýsingar fyrir SR-Bygg á Siglufirði

Konur og börn og framtíðin

„Eftir að ég fór í Hljóðrita og upp úr því tók stúdíóvinnan mann alveg. Allt annað var á eftir því í röðinni. Eins og gefur að skilja passaði þetta illa við fjölskyldulífið. Það getur engin kona endalaust búið við slíkt, allra síst með lítil börn, og ég hafði engan þroska til að átta mig á því að maður þyrfti að sinna fjölskyldunni til jafns við hitt, ef ekki meira, þannig að fyrra hjónabandið fór, í góðu að vísu; þetta einfaldlega gekk ekki upp. Og seinna hjónabandið endaði af landfræðilegum ástæðum, því við vorum þá komin norður á Siglufjörð, en konan vildi flytja til Reykjavíkur, aðallega vegna atvinnu sinnar. Hún var hjúkrunarfræðingur og eftir bankahrunið fór að kvarnast mikið úr starfi hennar á Siglufirði þannig að hún var farin að skjótast til Noregs til starfa. Við höfðum flutt norður í lok ágústmánaðar 2006. Ég hafði staðið í veikindum árin á undan og var farinn að vinna mikið heima fyrir. Ég gerði heiðarlega tilraun til að flytja suður aftur, fékk starf sem deildarstjóri hljóðdeildar á RÚV, var þar í fimm mánuði en gafst þá upp á höfuðborginni og fór norður aftur. Ekki löngu eftir það skildu leiðir okkar.

Sigurður Ægisson rekur garnirnar úr Gunnari Smára fyrir þetta viðtal

Þegar ég flutti til Siglufjarðar var eitt af því fyrsta sem ég tók eftir að klukkan á kirkjuturninum var oftast bandvitlaus, en ég er mikill áhugamaður um að klukkur séu réttar. Eitt sinn hitti ég einn af sóknarnefndarmönnum og spurði hver sæi um klukkuna. „Viltu taka það að þér?,“ var svarið, og ég samþykkti það á staðnum. Ég var því ráðinn kirkjuvörður og meðhjálpari við Siglufjarðarkirkju, og átti þar mjög gefandi og oft skemmtilega tíma til ársins 2012, þegar ég reyndi að flytja aftur suður, en hef reyndar séð um klukkuna æ síðan.

Reyndar kom ég líka aðeins að gjörningnum þar í sumar, þegar kveðið var úr kirkjuturninum.

Hér má sjá viðtalið sem Sigurður Ægisson tók við Gunnar og var birt í Morgunblaðinu þann 28. nóvember 2016

Þegar ég er spurður út í það hvernig ég hafi það svara ég því til að ég hafi oftast verið miklu verri. Ég á sex börn með þremur konum. Þau eru: Sigrún Birna, bóndi á Vatnsnesi, Helgi Hrafn, Pírati og fyrrum alþingismaður, Arndís Anna, lögfræðingur hjá Rauða Krossi Íslands, Lísa Margrét, sem stefnir á læknanám, Dagrún Birta, nemi á listabraut MTR og Sara María, skiptinemi í Japan. Barnabörnin eru orðin fimm. Ég er því afskaplega hamingjusamur í dag, á mjög góðum stað í lífinu, er kominn í nýja sambúð með yndislegri konu, Kristínu Sigurjónsdóttur ljósmyndara, og sé ekkert nema bjarta tíma framundan.“

Gunnar Smári og Kristín Sigurjónsdóttir

Texti: Sigurður Ægisson
Myndir: Kristín Sigurjónsdóttir og úr einkasafni 

Grein tekin af vef : Siglfirðings.is


Athugasemdir

21.desember 2024

Sk Sigló ehf.

580 Siglufjörður
Netfang: sksiglo(hjá)sksiglo.is
Fylgið okkur á Facebook eða Twitter

Póstlisti

Skráðu netfangið þitt á póstlistan okkur.

Ábendingar

Ertu með ábendingu fyrir síðuna eða góða frétt? Sendu okkur þá póst og við könnum málið.

Sendu póst