Saumar og málar lífsins liti

Saumar og málar lífsins liti Kolbrún Ingibjörg Símonardóttir eða Kolla Sím nefnd í daglegu tali fæddist þann 21. desember árið 1945 þegar sól var lægst á

Fréttir

Saumar og málar lífsins liti

Kolbrún Ingibjörg Símonardóttir
Kolbrún Ingibjörg Símonardóttir

Kolbrún Ingibjörg Símonardóttir eða Kolla Sím nefnd í daglegu tali fæddist þann 21. desember árið 1945 þegar sól var lægst á lofti að Stórholti í Fljótum og fagnar því sjötugs afmæli í ár.

Hún flutti ung að árum ásamt fjölskyldu sinni að Nýrækt í Fljótum þar sem hún sleit barnskónum við leik og störf. Aðeins 13 ára fór hún til Siglufjarðar að salta síld ásamt systur sinni og höfðust þær við í síldarbragga ásamt örðum síldarstúlkum. Var unglingsstúlkunum um og ó skemmtanarlífið á götum bæjarins þegar bátar voru í landi og allt iðaði af mannlífi í síldarbænum Siglufirði.
Flutti hún síðan ásamt fjölskyldu sinni búferlum úr Fljótum til Siglufjarðar 15 ára að aldri og hefur hún búið hér síðan. 

Skólaganga Kollu spannaði yfir þrjú og hálft ár eins og algengt var á þessum tíma í sveitum landsins. Telur hún að þessi stutta skólaganga hafi ekki heft sig í lífinu þó svo að hún hafi vissulega óskað þess að hafa fengið kost á frekari menntun.


Kolla ásamt manni sínum Jóhanni og yngsta syninum Jóhanni Inga

Þegar Kolla hafði flutt til Siglufjarðar hóf hún að starfa við almenna verkamannavinnu og síldarsöltun. Stofnaði hún einnig Efnalaugina Lind árið 1992 ásamt vinkonu sinni Rögnu Hannesdóttur.

Nítján ára gömul kynntist hún fyrri eiginmanni sínum Ólafi K. Björnssyni og hófu þau búskap. Eignuðust þau saman fimm börn, þau Björn Stefán sem nú er látinn, Ingibjörgu, Hólmfríði, Hrafnhildi og Ólaf Símon. Seinni eiginmaður Kollu er Jóhann Jónsson og eiga þau saman soninn Jóhann Inga.


Þjóðbúningateppi sem Kolla hannaði og saumaði handa ömmustelpunni og nöfnu Kolbrúnu Ernu í stúdentagjöf

Frá unga aldri hefur Kolla verið listræn og hefur teiknað, málað, saumað, skorið út í við, unnið gler og ritað ljóð. Á seinni árum hefur hún einnig tekið mikinn fjölda ljósmynda og þegar hún varð fimmtug fór hún í bútasaum og varð alveg forfallin bútasaumskona. Kolla er mikið náttúrubarn og hefur alla tíð heillast af litum náttúrunnar og notast við það í öllum sínum listformum.


Bútasaumsteppi s
em Kolla hannaði og saumaði eftir ljósmynd sem tekin var af gluggum í Hörpunni. Varð einum menntamanni það á orði er hann sá verkið að svona gætu einungis verkfræðingar reiknað út og unnið

Bútasaumur er ævafornt form að saumi sem spratt frá nauðsyn þess að nýta búta og endurnota efni til þess að mynda stærri fleti í fatnað, ábreiður, tjöld, segl og ýmislegt annað fyrir heimilið og daglegra nota. Kolla hefur saumað mikinn fjölda verka úr efnisbútum, þar má upp telja rúmteppi, barnateppi, dúka, diskamottur, gardínur og veggteppi. Hún hefur hannað allt sjálf, raðað saman litum að mikilli listfengni og segir sögur af lífinu og tilverunni í gegnum bútasauminn. 


Teikning eftir Kollu af rótarhnyðju sem hún gerði með pennastöng

Ekki hefur lífið alltaf farið mjúkum höndum um þessa sterku konu. Hafa áföllin breytt allri hannar lífsýn og sér hún lífið og tilveruna í öðru ljósi en ella . Lífsmottóið hennar er "lífið er lotterí og ég tek þátt í því" 

Árið 2010 ákvað Kolla að taka þátt fjallgöngu og fór ásamt nokkrum öðrum Dalaleið hér yfir fjallið og reyndist gangan henni frekar þung, en upp fór Kolla. Hún leitaði síðan til læknis þegar hún jafnaði sig ekki og kom þá í ljós að það sem hafði oft þjakaði hana í gegnum tíðina var meðfæddur hjartagalli. Fór hún í kjölfarið í opna hjartaaðgerð þar sem gerð var ósæðalokuskipting. Þessi aðgerð er stærsta hjartaaðgerð sem gerð er hérlendis. Sögðu læknar við hana að aðgerðinni lokinni að hún fengi 12 ár plús í bónusvinning lífsins. Einsetti Kolla sér að nýta þennan lífsins vinning út í ystu æsar þrátt fyrir að það fyrsta sem hún heyrði er hún vaknaði úr svæfingunni var að Eyjafjallajökull væri farinn að gjósa.

Bútasaumsmynd sem Kolla saumaði handa Herði Jóhannssyni þegar hann útskrifaðist sem doktor í tölvunarfræðum frá MIT tækniháskólinn í Boston. Myndin er af skólanum og tók Kolla hana sjálf er hún var stödd í Boston.

                            Frummyndin sem Kolla saumaði eftir af MIT tækniháskólanum í Boston

Þann 17. júní í tilefni af 70 ára afmælinu sínu ætlar Kolla að halda sína fyrstu einkasýningu en hún hefur tekið þátt í nokkrum samsýningum bæði hérlendis og erlendis. Til að mynda átti hún verk á stórri bútasaumssýningu í Birmingham í fyrrasumar og var það framlag Íslands í óhefðbundnum bútasaum. Einnig átti hún verk á norrænni farandsýningu fyrir nokkrum árum en sú sýning fór um öll Norðurlöndin.

Sýningin nefnist Ljósbrot úr lífi konu og opnar hún þann 17. júní kl. 15.00 í Bláa Húsinu við Rauðkutorg og stendur yfir til 6. júlí.
Sjá einnig facebooksíðuHandverk og hönnun Kollu Sím


Kolla Sím er líflegur og skemmtilegur persónuleiki 

Texti: Kristín Sigurjónsdóttir
Myndir: Kristín Sigurjónsdóttir og úr einkasafni Kollu 

 


Athugasemdir

21.nóvember 2024

Sk Sigló ehf.

580 Siglufjörður
Netfang: sksiglo(hjá)sksiglo.is
Fylgið okkur á Facebook eða Twitter

Póstlisti

Skráðu netfangið þitt á póstlistan okkur.

Ábendingar

Ertu með ábendingu fyrir síðuna eða góða frétt? Sendu okkur þá póst og við könnum málið.

Sendu póst