“Vildi að ég væri með typpi!” KENNARINN og VIRÐING.
sksiglo.is | Greinar | 05.12.2013 | 06:00 | Jón Hrólfur Baldursson | Lestrar 950 | Athugasemdir ( )
Innsend grein sem
Róbert Haraldsson sendi okkur.
“Vildi að ég væri með typpi!”
KENNARINN og
VIRÐING
“Strákar,
húfurnar af.... stúlkur úr úlpunum.....þið tveir niður með símana.....Siggi fætur af borðinu........viljið þið svo
lækka í ykkur, setjast og snúa fram, takið svo upp bækurnar svo ég geti byrjað kennslustundina.......og hvar eru Palli og Doddi?”
“Sýndu nú
smá virðingu Nonni minn”, sagði ég við pilt í 10.bekk þegar hann mætti of seint í kennslustund, gekk inn án þess að
banka, skellti hurðinni á eftir sér, danglaði í hausinn á bekkjarfélaga sínum, hlammaði sér í sætið sitt og ropaði.
“VIRÐING – hvað er það?” Svaraði Nonni um hæl.....
Ég gerði litla
rannsókn á síðasta skólaári í þremur bekkjum. Ég setti svala-fernu fyrir framan hurðina á kennslustofunni þegar
örfáar mínútur voru eftir af tímanum. Í öllum bekkjunum þremur var svala-fernan enn á gólfinu þegar ég fór
útúr kennslustofunni síðastur manna. Hún var ekki á nákvæmlega sama stað, því einhverjir höfðu rekið sig í
hana svo hún færðist úr stað. Stuttu seinna gerði ég svipaða könnun. Ég setti blað á gólfið og bað
mismunandi nemendur að taka upp blaðið og setja það í ruslatunnuna sem var skammt frá. Í tíu af tólf skiptum fékk ég
svör frá nemendum um að þetta væri ekki þeirra blað eða að þeir höfðu ekki sett blaðið þarna.
Einungis tveir nemendur tóku upp blaðið og settu það í ruslatunnuna án þess að segja eitthvað.
Kennarar þurfa daglega að
glíma við fjölbreytt verkefni. Að ná athygli og fá nemendur til að fylgjast með er líklega eitt það erfiðasta, ef ekki það
erfiðasta í kennslustofunni í dag. Skvaldur, frammí grip og truflanir af ýmsum toga er daglegt brauð í kennslustofunni. Endurtekningar til nemenda er
líka fyrirbæri sem kennari þarf oft að grípa til. Hvað hefur orðið af virðingunni fyrir fullorðnum? Hvað hefur orðið af virðingunni
gagnvart bekknum? Hvað hefur orðið af virðingunni gagnvart námi? Þessu er ekki auðsvarað og eflaust margt sem hefur haft áhrif á þróun
virðingar eða má ég segja virðingarleysis. Getur verið að foreldrar hafi áhrif á börnin sín eða jafnvel samfélagið.
Hugsaðu um kennarastarfið, hvar myndir þú merkja við virðingu þína gagnvart kennurum á “virðingar-skalanum” 1-10 ? Það er
mjög forvitnilegt að ræða við hinn almenna borgara í t.d. heita pottinum um kennarastarfið. Yfirleitt í byrjun er rætt um hvað kennarar hafa
það gott, öll fríin, hætta snemma á daginn og launin séu nú góð miðað við viðveru. Í lokinn hins vegar kemur alltaf
það sama frá fólki, “ég gæti aldrei verið kennari”. Þetta segir mér það, að
innst inni, þá ber samfélagið virðingu fyrir kennarastarfinu, þó margir eru ekki alveg til í að viðurkenna það opinberlega og
það endurspeglar oft viðhorf barnanna.
Oft er sagt að þú
getur ekki gefið einhverjum öðrum eitthvað sem þú átt ekki sjálf/ur. Hvað með kynslóðina sem er núna að ala upp börnin
okkar (foreldrar og kennarar), á hún til nægilega mikla virðingu til að geta gefið hana áfram eða er virðingarleysi samfélagsins orðið
svo mikið að erfitt er að snúa þeirri þróun við. Er hraðinn í nútímasamfélagi að koma í veg fyrir að
einstaklingar geti gefið sér tíma til að finna út hver hann er í raun og veru, fyrir hvað stendur hann, hver eru gildi hans eða jafnvel, hvernig vill hann
vera? Er uppeldi orðið úrelt hugtak?
Nú er til fjöldinn allur
af skóla-og uppeldisstefnum sem hvetja til frjálsræði. Leyfum börnum að njóta sín, leyfum börnum að finna þörfina
hjá sjálfum sér, leyfum börnum að finna muninn á réttu og röngu. Unga fólkið í
dag vill hafa reglur, þeim líður illa ef það er of mikið frjálsræði því þá vita þau ekki
alveg hvaða stefnu þau eiga að taka. Sumir reyna alltaf að ganga eins langt og mögulegt er, helst aðeins lengra! Á þetta bara við um unga
fólkið? Erum við ekki öll að ganga eins langt og við getum í lífinu? Er það slæmt? Það er slæmt ef við gerum
það á kostnað annarra og virðing breytist í virðingarleysi.
Þegar ég lít um
öxl og velti fyrir mér hvernig kennari öðlast virðingu, þá eru nokkur áhugaverð atriði sem koma upp í huga mér. Að vera
strangur, vera með aga, skýrar reglur, standa fast á sínu, vera sanngjarn og samkvæmur sjálfum sér. Fær þá kennari virðingu nemenda
sinna? “Þau bera ekki virðingu fyrir þér, þau eru bara hrædd við þig” sagði einn samstarfs kennari við mig eitt
sinn, þegar virðing og virðingarleysi nemenda bar á góma. Hafði hún rétt fyrir sér? Önnur samstarfskona kom eitt sinn alveg á
háa séinu úr tíma og gólaði yfir kennarahópinn: “ÉG VILDI AÐ ÉG VÆRI MEÐ TYPPI”. Er móðureðlið
í kvenkyns kennurum of ríkjandi þegar kemur að því að vera strangur við nemendur? Eru þær “of góðar”
við nemendur sína sem ganga þá á lagið og misnota góðmennsku kennarans með virðingarleysi? Eiga “stífar” kennslukonur
auðveldara með að halda aga heldur en “góðar” kennslukonur eða er það öfugt? Hvar eru pabbarnir þegar kemur að uppeldinu heima fyrir?
Hefur það eitthvað að segja í þessu samhengi? Hverjir sjá um kennsluna að mestu leiti í leikskólum, grunnskólum
og framhaldsskólum? Því miður þá styttist í að karlkynskennarar endi eins og blessaður Geirfuglinn. Þetta þýðir
að börn fá genin frá báðum kynjum, en lærðu hegðunina og viðhorf frá einu kyninu. Hér verðum við karlmenn að taka okkur
taki og leggja okkar að mörkum. Ef ekki í skólaumhverfinu, þá í það minnsta, heima fyrir.
Er ekki tími til kominn að
allir taki nú höndum saman og aðstoði börnin okkar og unglinga til að verða góðar manneskjur. Hjálpum þeim með
því að temja okkur sjálf notkun á hugtökunum virðing-viðhorf-viðmót-vinnubrögð á réttan
hátt.
Það eru fjölmörg
spurningamerki í þessari grein minni og vonandi hef ég fengið þig lesandi góður til að staldra aðeins við og velta fyrir þér hve
mikilvægt það er fyrir okkur, þessa fullorðnu, að snúa þessari þróun við og fara að bera virðingu fyrir öllu í kringum
okkur, hvort sem það tengist fólki, hlutum eða öðru.........annars eru komandi kynslóðir í ekkert sérstaklega góðum
málum.
Góðar stundir.
Róbert Haraldsson,
grunnskólakennari og foreldri.
Athugasemdir