22-23.000 störf hafi tapast frá hausti 2008
pressan.is/pressupennar/Lesa_Birki_Jon/22-23.000-storf-hafi-tapast-fra-hausti-2008- | Greinar | 15.03.2011 | 04:09 | Robert | Lestrar 262 | Athugasemdir ( )
Um 13.000 einstaklingar eru án atvinnu á Íslandi í dag. Þúsundir hafa
flutt úr landi og þannig má færa rök fyrir því að 22-23.000 störf hafi
tapast frá hausti 2008. Afleiðingarnar eru þær að frá þeim tíma hafa
yfir 60 milljarðar farið í greiðslur atvinnuleysisbóta. Hér er um mikið
samfélagsmein að ræða og því forgangsmál að stjórnvöld snúi þessari
þróun við. En er eitthvað sem bendir til þess að forgangur
ríkisstjórnarinnar sé sá að fjölga störfum í landinu? Ef horft er yfir
sviðið þá blasir við aðgerðarleysi, eyðilegging skattkerfisins og brot á
stöðugleikasáttmálanum við aðila vinnumarkaðarins. Þetta er meðal þess
sem núverandi ríkisstjórn hefur „afrekað“ í atvinnumálum á sl. 2 árum.
5000 einstaklingar án atvinnu í meira en eitt ár
Langtímaatvinnuleysi
er nýtt samfélagslegt vandamál sem blasir við okkur. Af 13.000 sem ekki
hafa atvinnu í dag hafa um 5.000 einstaklingar ekki haft atvinnu í
meira en eitt ár. Kannanir frá öðrum löndum sýna að hætt er við að þessi
þjóðfélagshópur muni að litlu leyti snúa aftur inn á vinnumarkaðinn. Sú
einangrun sem atvinnuleysi um langa hríð fylgir hefur því gríðarlega
neikvæð áhrif á viðkomandi einstaklinga. Nauðsynlegt er að hugsa
vinnumarkaðsúrræðin upp á nýtt í samvinnu við aðila vinnumarkaðarins og
þeirra sem reynsluna hafa að hafa ekki atvinnu. Hér duga engin
vettlingatök.
Atvinnumál eru í forgangi hjá Framsókn
Stjórnvöld
þurfa jafnframt að girða sig í brók og hefja sókn í atvinnumálum. Það
er fullreynt að þessi ríkisstjórn muni nokkurn tímann standa fyrir slíku
átaki. Á komandi flokksþingi Framsóknarflokksins verða atvinnumálin í
brennidepli. Innan flokksins fer nú fram vinna þar sem sóknarfæri
íslensk atvinnulífs eru skilgreind. Þannig mun Framsóknarflokkurinn koma
enn á ný fram með tillögur í efnahags- og atvinnumálum.
Framsóknarflokkurinn er því reiðubúin að taka við keflinu þegar
ríkisstjórnin hefur formlega lýst yfir uppgjöf gagnvart því verkefni sem
er að koma Íslandi sem fyrst út úr þessari efnahagslægð. Vonandi mun
það gerast fyrr en síðar.
Athugasemdir