„Afturhaldið“ svarar...

„Afturhaldið“ svarar... Róbert Guðfinnsson góðvinur minn svaraði grein minni um kvótakerfið hér á sksiglo.is, sem ég skrifaði skömmu eftir að hafa lesið

Fréttir

„Afturhaldið“ svarar...

Guðjón Marinó Ólafsson.
Guðjón Marinó Ólafsson.
Róbert Guðfinnsson góðvinur minn svaraði grein minni um kvótakerfið hér á sksiglo.is, sem ég skrifaði skömmu eftir að hafa lesið grein í Viðskiptablaðinu þar sem vitnað var í útgerðarmann í Vestmannaeyjum.
Ég skoðaði tvær fullyrðingar sem löngum hefur verið haldið á lofti af útgerðarmönnum og póltískum fulltrúum þeirra, af þessu leiddi að kvótakerfið væri einhvers konar „hornsteinn“ landsbyggðarinnar. Í kjölfarið hrakti ég þær og færði rök fyrir því hvers vegna kvótakerfið væri í raun aðför að landsbyggðinni en ekki haldreipi hennar líkt og útgerðarmaðurinn úr Eyjum vildi meina.
Þetta var tvíþætt nálgun: Í fyrsta lagi, að því hefði verið haldið að fólki að útgerðarmenn íslenskir væru svo góðir rekstrarmenn. Skuldir sjávarútvegsins eru um 500 miljarðar og landsframleiðsla er um 1500 miljarðar. Þetta þýðir að skuldir sjávarútvegsins eru um 33% af landsframleiðslu. Til að setja þetta í samhengi við greinina sjálfa: Heildar útflutningsverðmæti sjávarafurða (fob: verð vörunnar komið um borð í flutningsfar í útflutningslandi) samkvæmt bráðabirgðatölum Hagstofunnar fyrir 2008 var 171 miljarður. Það sér hver heilvitamaður, svo ég grípi nú til uppáhalds frasa framkvæmdastjóra LÍÚ, að þetta dæmi gengur ekki upp.  Róbert veit vel eins og ég að heil atvinnugrein sem er í þessari stöðu er ekki vel rekin, breytir þá einu hvaða mælikvarði er notaður. Vissulega eru til vel rekin fyrirtæki innan um, en heildarstaða greinarinnar er því miður ekki góð.
Í öðru lagi, þá benti ég á að kvótakerfið hafi gert hina nauðsynlegu hagræðingu mögulega. Ég tek þó ekki nema undir það til hálfs að kvótakerfið hafi stuðlað að hagræðingu. Við þurfum vissulega færri sem skapa sömu verðmæti, sem er jákvætt. Gjaldið fyrir hagræðinguna var aftur á móti mjög dýru verði goldið, samanber lántökurnar hér að ofan. Gagnrýni mín beinist aftur á móti fyrst og fremst að því hvernig byrðunum var dreift við þá hagræðingu, sem þó átti sér stað. Það var einfaldlega þannig að sumum var gert hærra undir höfði en öðrum og það var bæði rangt og siðlaust. Við þetta stend ég heilshugar enda sjá allir sem vilja sjá afleiðingar þessarar stefnu. Í framhaldi þessa er hollt að rifja upp að það er þjóðin sem á kvótann, ekki útgerðarmenn og því var það ekki nema sanngjarnt og réttlátt að byrðunum, sem eðlilega hlutust af hagræðingunni, væri dreift með jafnari og sanngjarnari hætti. Það er svo sem ekki við kvótaeigendur að sakast í þessum efnum þeir spiluðu bara með, en „böðlarnir“, stjórnmálamenn og varðhundar kerfisins, það eru þeir sem draga á til ábyrgðar.
Róbert lýsir mér sem handbendi afturhaldsaflanna og niðurrifsmanni þegar hann segir orðrétt: „Ég kann því illa að vera kallaður “Böðull“ af handbendi afturhaldsafla sem á sama tíma hafa stundað niðurrif og komið sér áfram í stjórnmálum með neikvæðri umræðu og nagi en skilja ekki einu sinni eftir sig fótspor í sandi.“ Orðatiltækið „hver er sannleikanum sárreiðastur“ kemur óhjákvæmilega upp í huga eftir að hafa lesið þetta. Ég reyndar minnist þess reyndar ekki að hafa kallað Róbert böðul, en kjósi hann að líta svo á, þá er lítið sem ég get gert við því. Ef það er að vera „afturhald“ að vera á móti óréttlátu og illa reknu kerfi þá skal ég fúslega gangast við þeirri nafnbót. Ef það að hafa verið á móti græðgivæðingunni og flokkskírteina-kapítalisma Íhaldsins og Framsóknar er afturhaldsstefna, skal ég stoltur gangast við þeirri nafnbót. En niðurrifsmaður er ég ekki enda ekkert gert á hlut neins í þessum efnum. Hins vegar hef ég gagnrýnt framsalsheimildina í lögunum og mun halda áfram að gera. Sú staðhæfing Róberts að ég sé handbendi einhvers er ekki svara verð enda hef ég frá því að fékk málið verið fullkomlega fær um að „rífa kjaft“ á mínum eigin forsendum, og það sem meira er hugsað sjálfstætt. Ég kann meira að segja þá list að greina á milli manna og málefna, sem er eitthvað sem Róbert ætti að temja sér.
Þau rök sem ég leiddi fram standast fyllilega skoðun og þrátt fyrir tilraunir Róberts góðvinar míns til að gera lítið úr menntun minni og beita því sem kallað er á máli rökfræðinnar ad hominem rökum. Þegar slíkri röksemdafærslu er beitt þá er reynt að gera lítið úr viðkomandi persónu, hann sakaður um fávisku, annarlegar hvatir, vera handbendi einhvers o.s.frv., en það látið vera að svara efnisatriðum málsins. Því miður er vinur minn Róbert sekur um slíkt. Í framhaldi af þessu má spyrja hvorir aðiljanna hafi stundað meira niðurrif og þar með markað dýpri og síður heillavænlegri spor í sögu þessarar þjóðar, útgerðarmenn og varðhundar flokksskírteina-kapítalismans eða þeir sem varað hafa við afleiðingunum af stefnu stjórnvalda? Ég óttast ekki þann dóm.

Guðjón M. Ólafsson.

(Höfundur kemur frá sjávarþorpi þar sem sumum var ríflega skammtað en öðrum engu)



Athugasemdir

18.apríl 2025

Sk Sigló ehf.

580 Siglufjörður
Netfang: sksiglo(hjá)sksiglo.is
Fylgið okkur á Facebook eða Twitter

Póstlisti

Skráðu netfangið þitt á póstlistan okkur.

Ábendingar

Ertu með ábendingu fyrir síðuna eða góða frétt? Sendu okkur þá póst og við könnum málið.

Sendu póst