Á ferð og flugi í Phoenix

Á ferð og flugi í Phoenix   Í Phoenix AZ býr Bjarki Arnarson 35 ára gamall Siglfirðingur. Bjarki er sonur Arnar Pálssonar og Brynhildar

Fréttir

Á ferð og flugi í Phoenix

Bjarki Arnarson
Bjarki Arnarson
 

Í Phoenix AZ býr Bjarki Arnarson 35 ára gamall Siglfirðingur. Bjarki er sonur Arnar Pálssonar og Brynhildar Bjarkadóttur (Bibba Bjarka). Bjarki heitir í höfuðið á afa sínum Bjarka Árnasyni. Einum ástsælasta tólistarmanni Siglfirðinga.

 


 

 

 


Ég ólst upp á Siglufirði til sjö ára aldurs, þá fluttum við að Grindum við Hofsós.  Eftir grunnskóla fór ég í menntaskóla á Ísafirði og dvaldi þar í góðu yfirlæti hjá Stínu móðursystur minni og Hafsteini Sigurðssyni eiginmanni hennar. Þetta voru skemmtilegir tímar og ég á góðar minningar frá öllum þessum stöðum.  Ég reyni alltaf að koma heim til Íslands tvisvar á ári og dvel ávallt stutt í Reykjavík því hugurinn er hjá þessum stöðum úti á landi.

Ég hafði strax mikinn áhuga á flugi. Ég tók einkaflugmannspróf á Íslandi en langaði svo í frekara flugnám.  Ég lét svo verða af því árið 1999 eftir að hafa reynt fyrir mér sem togarasjómaður á Sigluvíkinni hjá Jónasi Sumarliða og á Þingeyrartogurunum Sléttanesi og Framnesi. Phoenix AZ varð fyrir valinu enda einn af betri stöðunum til að stunda flugnám. Alltaf sól og blíða.  Eftir að ég kláraði flugnámið hjá PanAm Aviation flugskólanum hóf ég vinnu hjá skólanum sem flugkennari og hef unnið þar síðan fyrir utan tvö ár sem ég starfaði sem flugmaður hjá Northwest flugfélaginu.  Ég kynntist eiginkonu minni Michell strax á fyrsta árinu mínu hér í Phoenix. Ég féll flatur fyrir þessari myndarlegu skrifstofu stúlku hjá PanAm. Við eigum einn son sem heitir Ethan Hreinn.

 


                              Bjarki Arnarson í flugstjórnarklefanum

 

Ég hef verið smátt og smátt að fikra mig upp stigann og er nú framkvæmdastjóri rekstrarsviðs PanAM flugskólans.  Ég hef umsjón með daglegu rekstri félagsins. Við rekum 65 kennsluvélar og erum með 120 flugkennara á okkar snærum. Mjög algengt er að farin séu 250 flug á dag. Það er því eins gott að allt skipulag sé í lagi. 

Uppistaðan af nemendum okkar eru kínverskir flugnemar frá þarlendum flugfélögum. Að jafnaði eru um 360-370 kínverskir nemar hverju sinni í flugskólanum.  Eitt að því sem er hluti af starfi mínu er að fara á tveggja mánaða fresti til Kína og velja flugnema hjá kínversku flugfélögunum. Ég dvel þá í eina viku og vel flugnema úr stórum hópi umsækjanda.  Þetta er mjög skemmtilegt og fjölbreytt starf og gaman að vinna með skemmtilegu fólki. Þrátt fyrir tíu ára búsetu hér vestan hafs þá er íslendingurinn mjög sterkur í mér. Ég hef þó aðlagast vel að lífinu hér enda geri ég ekki ráð fyrir að ég flytji heim til Íslands aftur.

 

 


Athugasemdir

12.apríl 2025

Sk Sigló ehf.

580 Siglufjörður
Netfang: sksiglo(hjá)sksiglo.is
Fylgið okkur á Facebook eða Twitter

Póstlisti

Skráðu netfangið þitt á póstlistan okkur.

Ábendingar

Ertu með ábendingu fyrir síðuna eða góða frétt? Sendu okkur þá póst og við könnum málið.

Sendu póst