Að byggja upp ímynd.
sksiglo.is | Greinar | 16.07.2010 | 19:04 | Robert | Lestrar 1441 | Athugasemdir ( )
Á undanförnu höfum við hjá Rauðku ehf lagt mikla vinnu og fjármuni í að taka þátt í nýsköpun í ferðamennsku á Siglufirði. Við höfum litið á verk okkar sem hluta af umbreytinga verkefni. Færa samfélagið úr því að vera alfarið háð fiskveiðum og vinnslu yfir í að hafa fleiri stoðir undir atvinnulífinu. Sagan hefur kennt okkur að ekki er gott að vera alfarið háð því sem sjórinn gefur af sér.
Siglufjörður hefur ekki verið í alfaraleið. Það að þurfa að keyra erfiðan veg til Siglufjarðar og sama veg til baka hefur ekki heillað ferðaskrifstofur né hinn almenna ferðamann. Með tilkomu Héðinsfjarðargangna þá koma upp tækifæri til breytinga á ímynd og afstöðu ferðafólks til Siglufjarðar.
Snyrtilegt umhverfi, góð þjónusta og jákvætt viðmót er góð söluvara sem þeir sem standa að ferðamennsku eiga að tileinka sér. Athygli er ódýrasta auglýsingin. Orðsporið fer víða.
Þetta hefur Rauðka ehf haft að leiðarljósi. Við höfum lagt mikla áherslu á að umhverfið í kringum athafnasvæði okkar sé snyrtilegt. Þjónustan góð og okkar fólk standi sig í framkomu við gesti okkar.
Við höfum lagt mikla áherslu á að gera eingöngu þær kröfur til sveitasjóðs sem ættu að vera eðlilegar skyldur hans við atvinnulíf og samfélag.
Á vormánuðum þegar nálgaðist opnun á Hannes Boy Cafe náðist samkomulag við sveitafélagið um að kamar á tjaldstæðinu yrði fluttur til. Kamar þessi stendur við hliðina á okkar nýja og glæsilega veitingahúsi. Garðyrkju og umhverfisfulltrúa var falin umsjón um framkvæmd verksins, Nú þegar langt er liðið á sumar hefur ekkert bólað á flutningi á kamrinum. Skýringin er víst sú að um innbyrðis átök í hinu flókna stjórnkerfi Fjallabyggðar sé um að kenna. Óljóst sé hver hefur yfirráð yfir kamrinum.
Ferðamannatíminn á Siglufirði er ekki nema tveir til þrír mánuðir. Flestir ferðamenn sem heimsækja Siglufjörð koma og gista á tjaldsvæðinu. Það er því undarleg sjón að sjá gröfur í fullri vinnu í kringum og á tjaldsvæðið á miðjum ferðamannatímanum. Þó að framkvæmdatími sé stuttur vegna veðráttu þá er þetta full langt gengið.
Það bendir allt til að sú bæjarstjórn sem tók við í vor og hinn nýi bæjarstjóri þeirra sjái ekki framtíðina með sömu augum og við sem stöndum að Rauðku ehf. Ný bæjarstjórn virðist ekki sjá það sem sitt hlutverk að taka þátt í umbreytingunum og að breyta ímynd Siglufjarðar.
Róbert Guðfinnsson
Athugasemdir