Að tryggja sig gegn hagsæld
tilveran-i-esb.blog.is/blog/tilveran-i-esb/#entry-982637 | Greinar | 13.03.2010 | 03:06 | Robert | Lestrar 376 | Athugasemdir ( )
Þetta átti bara að verða örstutt vangavelta, en svo varð
ekki. Það er hægt að tryggja sig gegn því að verða fyrir hagsæld.
Auðveldasta leiðin til að komast hjá hagsæld í dag virðist vera sú að
ganga bara beint í myntbandalag Evrópusambandsins. Þetta er lærdómurinn
af málum myntbandalags Evrópusambandsins.
Fyrir nokkrum árum horfði ég á sænskan sjónvarpsþátt. Hann fjallaði
um þann klofning sem varð í sænska samfélaginu þegar vindar
jafnaðarmennsku blésu hvað harðast í því þjóðfélagi - og þegar sænskir
jafnaðarmenn lögðu stóran hluta gamla bændasamfélags Svíþjóðar í rúst
með nýjum áætlunarbúskap og nýju samfélagsskipulagi. Margir áttu um sárt
að binda mjög lengi. Um 500 smábýli voru leyst upp á hverjum degi.
Rætt
var við fyrrverandi nemendur í skóla nokkrum í einu af fátækari hverfum
Stokkhólms. Þeir lýstu skólagöngu sinni á þessum tímum á átakanlegan
hátt. Það sem skapaði samstöðu og samheldni meðal nemenda í skólanum var
sú hefndarlega "samhygð" að sýna ekki betri árangur en sá lélegasti gat
sýnt í bekknum. Þeir tóku sig af sínum á þennan hátt. Þarna datt mér
eftirfarandi í hug: þetta er kjörin leið til að tryggja sig gegn hagsæld
(e. hedge against prosperity). Síðan þetta var er Svíþjóð
dálítið breytt. En margir þessara nemenda urðu þó neðanveltu í því
sænska samfélagi sem varð seinna meir.
Í dag
virðist svipað vera í gangi í myntbandalagi Evrópusambandsins. Þýskaland
er skammað fyrir að vera samkeppnishæft. Skömm Þýskalands felst í því
að Portúgal, Ítalía, Írland, Grikkland og Spánn eru orðin ósamkeppnishæf
lönd innan þess myntbandalags sem þau eru í með Þýskalandi. Þetta,
segja menn, gerðist vegna þess að Þýskaland lagði sig fram. Þetta
gerðist líka vegna þess að þau lönd sem eru ekki eins og Þýskaland, gátu
ekki lengur lagfært samkeppnisaðstöðu sína með því að breyta
verðmiðanum á sjálfum sér. Breyta honum með gengisbreytingu á sinni
eigin mynt, eins og þau svo oft gerðu áður en þau köstuðu gömlu myntinni
fyrir borð.
Þau hafa því enga sjálfstæða
mynt og ekkert gengi gagnvart Þýskalandi lengur. Svo aðstoðaði
seðlabanki myntsvæðisins við að magna upp vandamálin með því að ausa
peningum á neikvæðum raunstýrivöxtum yfir þau lönd sem pössuðu ekki við
kjarnaverðbólguna í kjarnalöndum myntbandalagsins. Miklar bólur urðu til
á vakt þessa seðlabanka Evrópusambandsins.
Það
var þetta sem sölumenn myntbandalagsins sögðu okkur upphaflega að ætti
að lagast með tilkomu þessa sameiginlega gjaldmiðils. Hann, nýi
gjaldmiðillinn, átti að jafna út efnahagslegu ójafnvægi, innri spennu og
mismun í samkeppnisaðstöðu á milli landanna. Þessi útgáfa af
sannleiknaum gildir ekki lengur í ESB. Þar er allt á hvínandi hvolfi
núna. Vandamálin geisa innbyrðis í myntbandalaginu eins og flugeldur í
lokaðri tunnu. Mennirnir eru að verða sótsvartir ofaní tunnunni. Svartir
af reiði.
Tunnuverksmiðjan á Siglufirði brann
þegar ég var polli, hún logaði í þrjá daga. Tunnur loga yfirleitt vel
og lengi. Nægur var því tíminn til að ná góðri mynd. Því stærri
verksmiðja, því lengur logar, nema náttúrlega ef um púðurtunnuverksmiðju
sé að ræða.
Í reiðinni og vandræðunum þeysast
þessir menn nú um á sínum pennum og prikum og gleyma alveg öllu því sem
þeir voru búnir að segja og skrifa undanfarin mörg ár. Nú er verið að
reyna að finna smugu. Sama hversu lítil hún er, það vantar smá smugu til
að svindla á öllu því sem þeir sögðu um forsendur þessa blessaða
myntbandalags Evrópusambandsins. Þeir segja að þýska þjóðin skilji ekki
vandamálin og sýni enga samúð. Þeir segja að Grikkland skilji heldur
ekki neitt og geri of lítið sem aukið gæti skilning manna hinum megin í
myntbandalaginu.
Við þurfum að leyfa Þjóðverjum
að vera Þjóðverjar, Svíum að vera Svíar og Grikkjum að vera Grikkir.
Það hentar öllum best. Það er óðs manns æði að ætla að reyna að breyta
og mublera um á heimilum heilla þjóðfélaga: FT | FT
Athugasemdir