Alfonsbrakkinn

Alfonsbrakkinn Það hefur líklega verið einhvern tíma á árabilinu 1982-4 að ég vaknaði eldsnemma einn morguninn við hávaða sem var annar og öðruvísi en

Fréttir

Alfonsbrakkinn

Leó R Ólafsson
Leó R Ólafsson
Það hefur líklega verið einhvern tíma á árabilinu 1982-4 að ég vaknaði eldsnemma einn morguninn við hávaða sem var annar og öðruvísi en stafar af morgunumferðinni sem fylgir nýjum vinnudegi. Það var ekki þessi niður sem barst venjulega inn um hálfopinn gluggann frá gangandi, hjólandi eða akandi sveitungum mínum sem halda nývaknaðir til vinnu sinnar þegar  grámyglulegur hvunndagurinn hefur tekið við af nóttinni og fest sig rækilega í sessi.


Á þessum tíma rak ég myndbandaleigu í litlu plássi að Aðalgötu 28 þar sem (brauðgerðar)meistari Jakob tekur núna m.a. inn hveitið og aðrar bökunarvörur. Og á þessum tíma verslaði Anna Lára þar við hliðina og hafði þá gert á annan áratug.

Eftir að ég hafði legið andvaka í nokkurn tíma og reynt að ráða í af hverju þessi undarlegu hljóð stöfuðu, varð forvitnin morgunletinni yfirsterkari svo ég fór á fætur og rölti út fyrir.
Einhverra hluta vegna greip ég Polaroid myndavél með mér sem hafði þá hvílt sig í nokkrar vikur uppi á ísskápnum, en í þeim grip hafði ég fjárfest nokkrum mánuðum áður hjá Gesti Fanndal.

Hljóðið sem hafði vakið mig barst greinilega frá ofanverðri Gránugötunni og mér virtist sem upptökin væru einhvers staðar sunnan við Ráðhúsið. Ég rölti því yfir torgið, en þegar ég kom fyrir hornið á því húsi sá ég hvers kyns var.

Diddi Hafliða var kominn vel á veg með að brjóta niður múrsteinsrauða bárujárnsbrakkann sem hafði staðið neðan við Egils-síld svo lengi sem ég mundi eftir mér.
En í honum hafði lögfræðingurinn, konsúllinn og síldarsaltandinn Alfons Jónsson (1898-1952) haft á sínum tíma aðstöðu vegna starfsemi sinnar og var hann gjarnan við hann kenndur. Þarna hafði verið veiðafærageymsla og íveruhús síldarstúlknanna, en einnig hafði búið þarna fólk sem ekki var endilega í síld og um nokkurra mánaða skeið var þetta læknabústaður.

En nú var komið að tímamótum og Alfonsbrakkinn yrði líkast ekki þarna á morgun, heldur aðeins sléttur malarflötur og minning um hús sem myndi síðan dofna með árunum og að endingu deyja út. Eða rétt eins og minningin um hið iðandi mannlíf, hrópin og köllin, grútinn og síldina sem einkenndi bæinn síldarsumrin miklu snemma á síðustu öld hefur dofnað í tímans rás.

Ég mundaði Polaroidvélina frá Gesti og tók nokkrar myndir.

Á heimleiðinni mætti ég bæjarstarfsmanninum Jóni fyrir framan Bíóið með sópinn á lofti. Ég smellti líka mynd af honum en hann sagði heldur fátt, en gaut til mín augunum rétt sem snöggvast og hristi höfuðið. Honum hefur eflaust fundist ég haga mér eitthvað undarlega þarna í morgunsárið.

Það var svo fyrir nokkru að ég rakst á myndirnar sem ég hafði tekið þennan morgun fyrir u.þ.b. aldarfjórðungi síðan og þetta stundarkorn rifjaðist upp.

Ekki verður sagt að þær beri aldurinn vel því talsvert hafa myndgæðin slaknað frá því sem var, en engu að síður hjálpa þær til við að rifja þær upp næstum gleymdar stundir sem aldrei munu koma aftur.


Leó R ólafsson


Athugasemdir

19.apríl 2025

Sk Sigló ehf.

580 Siglufjörður
Netfang: sksiglo(hjá)sksiglo.is
Fylgið okkur á Facebook eða Twitter

Póstlisti

Skráðu netfangið þitt á póstlistan okkur.

Ábendingar

Ertu með ábendingu fyrir síðuna eða góða frétt? Sendu okkur þá póst og við könnum málið.

Sendu póst