Ég er stoltur Íslendingur

Ég er stoltur Íslendingur Ég hef alla tíð verið stoltur af því að vera Íslendingur. Ég hef horft hreykinn í augu útlendinga og sagt þeim að ég sé

Fréttir

Ég er stoltur Íslendingur

Óli Björn Kárason
Óli Björn Kárason

Ég hef alla tíð verið stoltur af því að vera Íslendingur. Ég hef horft hreykinn í augu útlendinga og sagt þeim að ég sé Íslendingur. Stoltið er mér í blóð borið og ég hef efni á því, líkt og allir aðrir Íslendingar, að vera stoltur af uppruna mínum.

Ég er stoltur af því að vera afkomandi fólks, sem braust frá fátækt til bjargálna og gerði mér kleift að búa í einu mesta þjóðfélagi velsældar sem heimssagan kann að greina frá. Velsæld sem gerði mér og mínum kleift að leita mér menntunar á erlendri grundu. Ég er stoltur af því hvernig afar mínir og ömmur neituðu að gefast upp gegn ótrúlegum mótvindi og tryggðu sjálfstæði þjóðarinnar. Ég er hreykinn af því hvernig foreldrar mínir nýttu þau tækifæri og byggðu upp sterkt þjóðfélag velferðar og frjálsræðis sem gaf mér og minni kynslóð áður óþekkt tækifæri.

Mín arfleið til minna barna og afkomenda verður aldrei sú að hafa veðsett framtíð þeirra.

Við Íslendingar eigum söguna, - ótrúlega sögu - og við megum aldrei svíkja arfleifð okkar. Þess vegna getum við aldrei samþykkt fyrirliggjandi samninga um Icesave. Slíkt eru svik við þá sem lögðu grunninn, með ótrúlegum dugnaði og óeigingirni, að velsæld okkar, en það sem verst er þá eru samningarnir svik við komandi kynslóðir, sem ekkert hafa til sakar unnið.

Sá grunur læðist að mér að þeir góðu menn, sem skipuðu samninganefnd um Icesave-deiluna, hafi gleymt því hvernig fámenn þjóð braust til velferðar með óbilandi bjartsýni og trú á framtíðina. Þeir gleymdu sögunni og gleymdu því að Íslendingar hafa alltaf þurft að berjast fyrir rétti sínum gagnvart öðrum þjóðum. Undirlægjuháttur var aldrei til í orðabók þeirra sem byggðu upp íslenskt þjóðfélag, enda værum við ekki fullvalda þjóð, ef svo hefði verið.

Þeir þingmenn, sem eru stoltir af því að vera Íslendingar, geta aldrei samþykkt fyrirliggjandi samkomulag um Icesave. Slíkt væri svik við söguna og framtíð þjóðarinnar.


Athugasemdir

05.desember 2024

Sk Sigló ehf.

580 Siglufjörður
Netfang: sksiglo(hjá)sksiglo.is
Fylgið okkur á Facebook eða Twitter

Póstlisti

Skráðu netfangið þitt á póstlistan okkur.

Ábendingar

Ertu með ábendingu fyrir síðuna eða góða frétt? Sendu okkur þá póst og við könnum málið.

Sendu póst