Er verðtryggingin verri en verðbólgan?

Er verðtryggingin verri en verðbólgan? Þessi fyrirsögn kemur mér í hug nú þegar mikið er rætt um nauðsyn þess að afnema verðtryggingu lána. Heldur fer

Fréttir

Er verðtryggingin verri en verðbólgan?

Víglund Þorsteinsson
Víglund Þorsteinsson

Þessi fyrirsögn kemur mér í hug nú þegar mikið er rætt um nauðsyn þess að afnema verðtryggingu lána.

Heldur fer þó minna fyrir hinu sem efst ætti að vera á baugi að ráðast að sjálfu meininu verðbólgunni. Nú er svo komið að uppsöfnuð verðbólga hér á landi frá ársbyrjun 2008 til septemberloka 2009 stefnir í tæplega 25%. Ekki verð ég var við að neinn hafi þar áhyggjur af.

Hér hlaupa menn heldur undan og grípa til lýðskrums eins og þess að afnema skuli verðtryggingu til að lækna meinið.

Hvað skyldu menn vilja í staðinn? Neikvæða vexti? Láta verðbólguna eyða sparifénu eins og á áttunda áratug síðustu aldar? Í þessu lýðskrumi eru engar lausnir fram boðnar, hér syngja menn yfirboðssöngva hver með sínu nefi og kenna verðtryggingunni allar ófarir en kjósa að gleyma verðbólgunni sem er meinið sem fjarlægja þarf.

Við verðum að halda því til haga hér að það er verðbólgan en ekki verðtryggingin sem er sjálft „axarskaftið“ í þessum efnum.

Verðtryggð lán eru þau lán sem jafna best endurgreiðslubyrði allra þeirra lánaforma sem við þekkjum og dreifa best.

Ekkert annað form gefur betri dreifiningu en hún nema þá að undirliggjandi sé sú hugsun að taka að nýju til við neikvæða vexti og leyfa verðbólgunni að lækka skuldirnar að raungildi.

Sú leið er þó skammgóður vermir fyrir fólk því á endanum munum við sjálf greiða slíkt til baka við lægri eftirlaun lífeyrissjóða og almennt vegna þess að slík aðferð leiðir til lakari lífskjara í framtíðinni vegna óvandaðra fjárfestinga og lakari arðsemi þeirra eins og raun varð hér á árum áður.

Það er vel skiljanlegt að fólk sé haldið örvæntingu og ótta við framtíðina hér á landi í dag. Sérstaklega vegna þess að hér er alvarlegur skortur á því að leiðtogar stígi fram til að tala kjark í okkur og bjóða fram raunhæfar lausnir til að sigrast á okkar vandamálum og er ekki seinna að vænna í þeim efnum að aðilar vinnumarkaðarins láti á það reyna hvort slíka sé að finna í núverandi ríkisstjórn.

Í sumar sem leið var gerður hér á vettvangi atvinnulífsins og stjórnmálanna margnefndur sáttmáli um endurreisn og stöðugleika, sá sáttmáli var einskonar efnisyfirlit um þau verkefni sem öllum var ljóst að þyrfti að vinna til endurreisnar hér á landi en bauð ekki upp á neinar útfærðar leiðir.

Sú vinna er öll óunnin og verður ekki lengur við það búið að ekki sé hafist handa. Fyrir frekara aðgerðaleysi eru engar afsakanir. Ekki verður betur séð en að þessu aðgerðaleysi valdi vandamál á stjórnarheimilinu vegna mála eins og orkuiðnaðarins og síðast en ekki síst sem er grafalvarlegt úrræðaleysi og hugmyndafátækt ríkisstjórnarinnar.

Því eru þessar línur settar á blað undir fyrirsögninni hér að ofan að minna á að upphaf endurreisnarinnar og undirbygging stöðugleikans verður að vera að ráðast að þeirri verðbólgu sem nú geisar með tilheyrandi kaupmáttarrýrnun og þyngingu á greiðslubyrði skuldara þessa lands. Ekkert annað en að snúa verðbólguna niður mun duga hér.

Upphaf þeirrar vegferðar er að Seðlabanki Íslands í samstarfi við aðila vinnumarkaðarins og íslenska lífeyrissjóði nái tökum á íslensku krónunni svo takast megi að styrkja hana öllum okkur til hagsbóta og lækka vexti nafnvexti sem raunvexti.

Í annarri grein sem ég mun biðja fyrir hér á AMX síðar í vikunni ætla ég að draga fram nokkarar lykilstærðir í þessum efnum og setja fram einfaldar hugmyndir að þeirri vegferð.


Athugasemdir

05.desember 2024

Sk Sigló ehf.

580 Siglufjörður
Netfang: sksiglo(hjá)sksiglo.is
Fylgið okkur á Facebook eða Twitter

Póstlisti

Skráðu netfangið þitt á póstlistan okkur.

Ábendingar

Ertu með ábendingu fyrir síðuna eða góða frétt? Sendu okkur þá póst og við könnum málið.

Sendu póst