Er verið að mismuna aðildarfélögum innan KSÍ?

Er verið að mismuna aðildarfélögum innan KSÍ? Sem formaður og þjálfari hjá knattspyrnufélagi Siglufjarðar, tel ég mig knúinn að senda frá mér örlítinn

Fréttir

Er verið að mismuna aðildarfélögum innan KSÍ?

Róbert Haraldsson
Róbert Haraldsson
Sem formaður og þjálfari hjá knattspyrnufélagi Siglufjarðar, tel ég mig knúinn að senda frá mér örlítinn pistil um vinnubrögð KSÍ og þann mismun sem gerður er á milli aðildafélaga.


Nú er landskeppninni í yngri flokkum að ljúka og mikil spenna og eftirvænting að spila í úrslitum. Ferðalög landbyggðarliðanna hafa verið mikil og sérstaklega hér á norður og austurlandi þar sem þessir landshlutir eru settir saman í elstu flokkunum. Þetta er það sem félögin á þessu svæði þurfa að búa við til að fá fleiri leiki og nægilegan fjölda liða í riðlakeppnina. Ekkert útá það að setja.

Svo kemur að úrslitum yngri flokkanna. Hverjir fá að halda þær keppnir? Eftir hverju er farið þegar lið fá til sín úrslitakeppnir? Hver eru vinnubrögð KSÍ í þessum málum? Er ekki tekið mark á þeim gífurlega mun ferðalaga hjá landsbyggðarliðum og liðum frá höfuðborgasvæðinu.

Við hjá Knattspyrnufélagi Siglufjarðar skiljum ekki vinnubrögðin hjá KSÍ og þrátt fyrir ítrekaðar fyrirspurnir þá fáum við stutt og „snubbótt“ svör frá knattspyrnuforystunni sem á engan hátt gefa okkur svör í þessum málefnum.

Svona til gamans þá tók ég saman tvö félög sem eiga að mætast n.k. föstudag í úrslitakeppni 3. flokks karla. KS er með þrjá flokka í úrslitum þetta árið (3.kvk-3.kk-4.kvk). Grótta er með tvo flokka í úrslitum (3.kk og 3.kvk). Grótta fær að spila á sínum heimavelli með liðin sín bæði.

Gróttu-liðið í 3.fl. karla eru búnir að ferðast um 3-400 km í sumar, 3.flokkur KS eru búnir að ferðast yfir 4000 km. KS sendir sín þrjú lið í úrslitakeppnir um 2500 km leið til að taka þátt í úrslitakeppninni á meðan Gróttu iðkendur í tveim liðum skokka niður á heimavöllinn sinn. Það kostar KS yfir 400 þúsund að taka þátt í úrslitakeppnunum þremur. Er þetta sanngjarnt? Er verið að mismuna aðildarfélögum? Hvernig væri að skoða þessi mál nánar.

Ég er alls ekki að skjóta eitthvað á Gróttu, heldur tek það félag hér inn í sem dæmi vegna þess að við þurfum að senda tvo flokka í úrslitakeppni á Seltjarnarnes. Ég óskaði sérstaklega eftir því við KSÍ, í bréfi fyrr í sumar að fá að halda úrslitakeppni á Siglufirði eða Ólafsfirði, þegar það var nokkuð ljóst að flokkarnir okkar væru á leið í úrslit. Ég taldi það nokkuð augljóst og sanngjarnt að við myndum fá a.m.k. eina keppnina hingað. Enn, ekki fengum við úrslitakeppni og ekki fengum við skýr svör hvers vegna ekki.

Ég er nokkuð viss um að fleiri félög út á landi eru mér sammála, en þora hreinlega ekki að tjá sig um málið. KSÍ er knattspyrnuforystan í landinu og á ekki að mismuna aðildarfélögum. KSÍ á sjá til þess að allir séu jafnir þegar kemur að útdeilingu ýmissa verkefna sem er sparnaður fyrir félögin. Ferðakostnaður yngri flokka hjá KS veltur á milljónum, hver er ferðakostnaður yngri flokka hjá félögum á höfuðborgarsvæðinu? Það er jafnlangt fyrir KS að ferðast til Reykjavíkur eins og fyrir Reykjavíkurlið að ferðast til Siglufjarðar, þó að sumir haldi öðru fram.

Nóg um þetta í bili. Ég vona bara að þessi mál verði endurskoðuð í nánustu framtíð. Litlu félögin út á landi eiga þetta ekki skilið og vonandi að forystumenn félaga á höfuðborgarsvæðinu hafi skilning á þessu öllu saman.

Það verður að jafna hlut félaganna og KSÍ þarf að vera í forystu við að sjá til þess að liðum er ekki mismunað. Öll félög í landinu eiga að standa á jafnréttisgrundvelli þegar kemur að þessum málaflokki svo að þau standi á jafnréttisgrundvelli þegar liðin mætast á knattspyrnuvellinum.

Með fótboltakveðju,

Róbert H, formaður og þjálfari hjá Knattspyrnufélagi Siglufjarðar.


Athugasemdir

04.desember 2024

Sk Sigló ehf.

580 Siglufjörður
Netfang: sksiglo(hjá)sksiglo.is
Fylgið okkur á Facebook eða Twitter

Póstlisti

Skráðu netfangið þitt á póstlistan okkur.

Ábendingar

Ertu með ábendingu fyrir síðuna eða góða frétt? Sendu okkur þá póst og við könnum málið.

Sendu póst