Eru tímar frjálsra fjármagnsflutninga liðnir?

Eru tímar frjálsra fjármagnsflutninga liðnir? Það var með fullum vilja að ég sleppti orðinu „óheftra“ í fyrirsögninni hér að ofan. Ég gerði það vegna

Fréttir

Eru tímar frjálsra fjármagnsflutninga liðnir?

Gunnar Rögnvaldsson
Gunnar Rögnvaldsson
Það var með fullum vilja að ég sleppti orðinu „óheftra“ í fyrirsögninni hér að ofan. Ég gerði það vegna þess að ég hef sjálfur yfirleitt aðhyllst frjálsar og óheftar hreyfingar fjármagns og eigna. En eftir upphaf þessarar kreppu - og sem ég álít að sé einungis á fyrsta hluta ferli síns núna í ágúst árið 2009 - þá er ég kominn á þá skoðun að tímar algerlega óheftra hreyfinga fjármagns séu á enda runnir í heiminum og að við muni taka nýtt tímabil hafta: meðal annars gjaldeyrishafta.

Ástæðurnar fyrir því að ég er nú staddur í miðju vaði minna eigin skoðanaumskipta eru næstum augljósar. En það gladdi þó og hryggði jafnframt á sama tíma að lesa í „heimspressunni“ að ég er ekki einn um þessa skoðun. Þessi skoðun er líka farin að hljóma dálítið hátt í anddyrum hinna alþjóðlegu hallarbygginga stór-peninga heimsins. Hallir sem sumir á Íslandi kalla núna fyrir „alþjóðasamfélagið“.

Þann 30 júlí skrifaði prófessorinn Simon Johnson sem er fyrrverandi yfirhagfræðingur Alþjóða Gjaldeyrissjóðsins greinina: „rökin sem tala fyrir höftum á fjármagn framsett á ný“(The Case for Capital Controls, Again). Greinin birtist í New York Times og á bloggsíðu Simon Johnson sem ber nafnið Baseline Scenario. Í greininni kemur meðal annars eftirfarandi fram: Það sem er ennþá líklegra er því sem nú er hvíslað á milli manna í anddyrum fjármálavelda heimsin - „byrjið að velta fyrir ykkur leiðum til að þrengja þær gáttir sem fjármagn mun geta flætt um inn í löndin, eða/og leiðir sem munu þvinga fjármagn fjárfesta til að halda lengur kyrru fyrir í þeim löndum sem þeir fjárfesta sínum peningum. Til hins betra eða verra, þá erum við á leiðinni inn í veröld þar sem fjármagn mun ekki fljóta eins frjálslega á milli landamæra ríkja og áður. Leitið eftir upphafi þessarar nýju stefnu í löndum Asíu.“ Grein Simon Johnson má lesa hér: The Case for Capital Controls, Again

Ég fór nefnilega að velta fyrir mér hvar í kreppunni við værum stödd og hvernig hún muni þróast næstu þrjú árin. Ég er sannfærður um að við erum einungis stödd í forstofu kreppunnar. Allt hið samfélagslega versta á eftir að koma í þessu svo kallaða „alþjóðasamfélagi“. Þetta segi ég þrátt fyrir að þið á Íslandi séuð núna mörg hver stödd á bráðamóttöku sjúkrahúss íslenska hagkerfisins. Sjálfur er ég þar með ykkur andlega, því mér svíður mikið það sem er að gerast heima á Íslandi og svo hafa viðskipti mín við Ísland einnig helmingast á sama tíma. Svo kreppan ykkar er líka mín kreppa og það sama gildir um svo marga sem hafa átt viðskipti við Ísland. Það er líka dálítið erfitt að vera Íslendingur erlendis eins og er. Hausinn minn í plastpokanum undir hendinni fær of sjaldan frískt loft um þessar klessukeyrðu mundir. Bæði skammast ég mín fyrir þá íslensku einfeldninga sem héldu að þetta væri svona auðvelt. En ég skammast mín þó ennþá meira fyrir sitjandi ríkisstjórn Íslands. Að einfeldningarnir skyldu virkilega halda að það væri svona auðvelt að verða ríkur og feitur á heimsvísu í gegnum það sem þeir svo oft kölluðu „fjármögnun“, er ákaflega átakanlegt. Ef þetta væri svona einfalt mál þá værum við öll rík og feit á „heimsvísu“. Þetta með ríkidæmið er hinsvegar þúsund sinnum erfiðara en menn héldu. Það vantaði svo átakanlega virðingu fyrir markaðinum, fyrir hefðum, gömlum og góðum gildum, fyrir sjálfum keppinautunum og forskoti þeirra sem þekkja leikvöllinn sinn út og inn í krafti reynslu síðustu 300 ára.

Í mínum huga munu þeir 3/4 hlutar kreppuplöntunnar sem ennþá eiga eftir að blómstra, verða svakalega litríkir og reisulegir. Til að byrja með munum við fá óheyrilegan verðhjöðnunarþrýsting sem menn munu standa á öndinni yfir. Þetta mun gera stjórnmálamenn ennþá meira örvæntingarfyllri en þeir eru nú þegar. Þeir munu því hella enn meira úr skálum hins opinbera yfir hin kulnandi bál eignagrilla hjöðnunarhagkerfanna. Þeir munu hella og hella úr bensínskálum hins opinbera. Nú eru margar ríkisstjórnir komnar í banka-björgunarpakka númer tvö, en það mun líka koma pakki númer þrjú. Þar á eftir koma svo pakkar númer fjögur og fimm þ.e. þegar atvinnuleysið er allsstaðar komið upp í tveggjastafa tölu. Á pakka númer fimm munu björgunaraðgerðirnar fyrst fara að bera tilætlaðan „samfélagslegan“árangur. Vandamálið verður svo það að stjórnmálamenn munu ekki geta stöðvað árangurinn. Eldurinn í eignagrilli hagkerfanna mun taka svo mikið við sér að hann mun blossa upp. Þetta mun gerast eftir um það bil tvö ár. Þá mun verðbólgan sem blossar upp kalla á miklar stýrivaxtahækkanir í mörgum löndum. Ríkin sem þá verða orðin svo skuldum vafin, sökum stjórnmálalegra bensínkaupa í grillbúð hagkerfanna, munu þurfa að kalla á slökkviliðið. Fullt útkall verðbólgu-slökkviliðsins mun hefjast. Stýrivaxtastigi slökkviliðsins mun þurfa að þjóta mjög hratt og hátt upp til að geta slökkt eldinn. En það er bara eitt stórt vandamál hér. Stigi slökkviliðsins mun ekki ná nógu hátt. Það verður ekki hægt að reisa hann nógu hátt til að geta sprautað vatni yfir verðbólgueldinn. Til þess eru ríkin orðin svo stórskuldug vegna bensínkaupa undanfarinna þriggja ára að þau munu ekki sjálf þola þá miklu stýrivaxtahækkun sem nauðsynleg er til að slökkva eldinn. Ef stýrivextirnir verða hækkaðir nægilega mikið til að komast fyrir eldsupptökin þá mun vaxtabyrði stórskuldsettu ríkjanna gera þau gjaldþrota á skömmum tíma. Hvað verður þá til ráða? Jú það er hér sem gjaldeyrishöft og höft á ótakmarkaða fjármagnsflutninga munu verða sett á út um allt. Þetta mun verða framtíðin og höftin munu verða kölluð „best practice“ á fjármálamörkuðum.

Þetta er nefnilega dálítið mikið satt og rétt, þetta með „best practice“ á fjármálamörkuðum. Margir hafa gert sér ljóst að mjög mörg „ný-markaðslönd“ - og reyndar mörg svokölluð „þróuð-lönd“ - munu ekki til lengdar þola að „alþjóðlegt“fjármagn komi og fari eins og flóð og fjara. Reynið að setja ykkur í spor þeirra hagkerfa sem eru að rísa til velmegnar og velferðar. Þegar það fréttist að hagkerfi þeirra séu komin dálítið vel á veg til að vaxa upp úr bernskuskónum, þá fara nasavængir fjármagns „alþjóðasamfélags“ að titra og vilja „komast inn“áður en eignaverð hækka of mikið. Fjármagn flýtur inn og oft hefst þá myndun bólu. Þessi bóla í eignaverði mun svo stækka og þenjast út. En af því að fjármagn „alþjóðasamfélagsins“ er „intelligent eða gáfað“þá mun það ná að pakka saman og flýja áður en bólan springur alveg. Þetta gengur ekki til lengdar, það sjá allir. Það gengur ekki að skilja eftir sig brunarústir út um allt. Þessvegna munu koma höft sem stöðva svona óheft flóð og fjöru fjármagns. Það verða settir upp varnargarðar til verndar. Þeir verða þó ekki svo stórir að þeir stöðvi strauminn alveg. En þeir munu líklega hindra flóð og þurrkví.

Þetta hefur einmitt líka gerst inni í miðju myntsvæði Evrópusambandsins. Þar hafa líka átt sér stað stórfelld flóð og þurrkví svæða á sjálfu myntsvæðinu. Þvert ofaní það sem haldið var fram af mörgum evruáhugamönnum. Eftir sitja svo sum ríki með brennt gat í botni grillsins og í botni kassa ríkissjóða margra landa. Það er sem sagt síst af öllu nein vernd í myntbandalaginu. Eiginlega þvert á móti. Myntbandalagið gerir þetta vandamál ennþá verra viðureignar. Það benti m.a Anders Dam bankastjóri Jyske Bank okkur á þegar hann þrumaði svo skemmtilega yfir hausamótum evruáhugamanns númer eitt hér í Danmörku: fyrrverandi forsætisráðherra Danmerkur herra Anders Fogh Rasmussen. Sjá má myndbandið frá þessari „vitnaleiðslu“ í danska þinginu hér: Anders Dam kritiserer regeringen til euro-høring

Ég vona svo sannarlega að ég hafi rangt fyrir mér hvað varðar lengd og dýpt kreppunnar. En sjálfur er ég sannfærður um að svo er ekki. Það eru nefnilega lítil takmörk fyrir hverju örvæntingarfullir stjórnmálamenn munu taka uppá til að veiða atkvæði og til að þvinga málum sínum ofaní „þjóðina“. Við höfum orðið vitni að svona örvæntingu á Íslandi undanfarnar margar vikur. Um tilkomu aukinna hafta á flutningi fjármagns á milli landa þarf hinsvegar enginn að efast, þetta blasir við. Svo hætt er við að rökin um „ónýta krónu“ muni snúast upp í andhverfu sína í höndum þeirra sem selja logar evrur á Íslandi þessa dagana.


Athugasemdir

05.desember 2024

Sk Sigló ehf.

580 Siglufjörður
Netfang: sksiglo(hjá)sksiglo.is
Fylgið okkur á Facebook eða Twitter

Póstlisti

Skráðu netfangið þitt á póstlistan okkur.

Ábendingar

Ertu með ábendingu fyrir síðuna eða góða frétt? Sendu okkur þá póst og við könnum málið.

Sendu póst