Ferðaþjónustan í upphafi árs
Alþjóðleg barátta um ferðamanninn
Við hverju ætli megi búast á næsta ári? Samkvæmt upplýsingum frá
ferðaskrifstofum sem flytja ferðamenn inn til landsins er gríðarleg
óvissa ríkjandi. Bókanir hópa eru svipaðar og á sama tíma á síðasta ári
en það á eftir að koma í ljós hvort erlendum ferðaskrifstofum tekst að
selja í ferðirnar. Það er líka mikil óvissa um þá ferðamenn sem koma á
eigin vegum með stuttum fyrirvara, en slíkt ferðamynstur hefur verið að
færast í aukana síðustu árin. Það er mjög mikill samdráttur í
hvataferðum þar sem fyrirtæki um allan heim halda að sér höndum í þeim
efnum og almenn fækkun fólks í viðskiptaerindum. Enn fremur verða mun
færri ráðstefnur á þessu ári en í fyrra og hefur það ekki aðeins með
efnahagsástandið að gera, það var fyrirséð. Það sem stjórnar eftirspurn
erlendra ferðamanna er fyrst og fremst efnahagsástandið í heimalandinu,
þótt fleira komi til. Gengisstaða krónunnar virðist ekki hafa
úrslitaáhrif á ákvörðun um ferðalagið til Íslands en hefur áhrif á
eyðsluna þegar til landsins er komið. Ísland er ekki áfangastaður sem
valinn er árlega eins og suðrænar strendur eru fyrir marga. Því hefur
staða gengisins ekki sömu áhrif. Þess vegna hafa samtökin fyrst og
fremst kallað á stöðugleika í gengismálum. Efnahagsástandið í okkar
helstu viðskiptalöndum er ekki beysið og því kvíða menn samdrætti í
ferðalögum. Það verður þó bitist um ferðamennina á alþjóðlegum mörkuðum
og þá er eins gott að Ísland verði ekki útundan vegna sparnaðar í
markaðssetningu, en framlög til landkynningar eru mjög góð fjárfesting
sem kemur margföld til baka. Þeir uppskera sem sá!
Mikilvægi ferðaþjónustunnar
Ég hef oft furðað mig á því að heyra fólk, jafnvel þingmenn og
framámenn í atvinnulífinu, telja upp atvinnugreinar án þess að minnast
einu orði á ferðaþjónustu. Hún er sífellt mikilvægari í bæði
gjaldeyrissköpun og atvinnusköpun um land allt. Það hefur orðið
gríðarlegur vöxtur í greininni síðustu árin, 60% aukning í komum
erlendra ferðamanna frá árinu 2000.
Samkvæmt nýjum
ferðaþjónustureikningum Hagstofunnar (Tourism Satellite Account) sem
birtust nýlega og ná til ársins 2006 kom í ljós að árið 2006 skilaði
ferðaþjónustan 19% allra gjaldeyristekna þjóðarinnar og var þó mikil
fjármálaþjónusta það árið, en því er ekki að heilsa nú. Heildarkaup á
ferðaþjónustu í landinu á sama tíma voru 135 milljarðar eða 11,5% af
landsframleiðslu sem er tvöfalt meira en það sem áliðnaðurinn skilaði
en augu stjórnvalda hafa beinst mikið að þeirri atvinnugrein síðustu
árin.
Við hjá Samtökum ferðaþjónustunnar höfum lengi haldið því fram að verðmæti ferðaþjónustunnar séu mun meiri en falist hefur í hefðbundnum upplýsingum Hagstofunnar fram að þessu og hefur það nú komið í ljós með þessum nýju ferðaþjónustureikningum þar sem bæði beinar og afleiddar tekjur eru taldar.
Það eru þrjár burðarstoðir í gjaldeyrissköpun á Íslandi - sjávarútvegur, ferðaþjónusta og stóriðja. Ísland verður ekki í bráð fjármálamiðstöð heimsins eins og hugur margra stóð til en það eru mýmörg önnur tækifæri fyrir menntaða Íslendinga, vísindafólk, sérfræðinga í orkuiðnaði, hönnuði og annað listafólk. Það er mikil þörf fyrir auknar gjaldeyristekjur á Íslandi núna og því þurfa stjórnvöld að huga vel að þörfum atvinnulífsins svo hámarka megi tekjurnar.
Það eru mikil tækifæri í íslenskri ferðaþjónustu þrátt fyrir tímabundna erfiðleika og mikla óvissu, það þarf að þróa nýja ferðamannastaði og gæta þess að leggja áherslu á að erlendir ferðamenn geti bæði kynnst lífi þjóðarinnar og notið náttúrunnar og menningu um leið og við bjóðum þeim góðan mat úr næsta umhverfi og góða þjónustu. Það eru líka mikil tækifæri fólgin í aukinni þjónustu við íslenska ferðamenn sem munu trúlega stórauka ferðir um eigið land nú þegar erlendur gjaldeyrir er orðinn mun dýrari en áður.
Við verðum að horfa með bjartsýni fram á veginn og muna að viðhorf okkar hafa áhrif á árangurinn. Vonast er til að gengi krónunnar styrkist á næstu mánuðum, verðbólgan hjaðni og vextir lækki og hægt verði að afnema gjaldeyrishöft sem eru óþolandi bremsa á atvinnulífið. Það þarf sérstaklega að huga að rekstrarumhverfi fyrirtækjanna við þessar aðstæður. Við þurfum á framsækni, bjartsýni, skapandi hugsun og frumkvöðlakrafti á öllum sviðum að halda - sama kraftinum og var hér í góðærinu og skapaði svokallaða útrás en þarf nú að beina í heilbrigðari farveg, heilbrigðari útrás.
Höfundur er framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar.
Athugasemdir