Fiskveiðar og rómantík

Fiskveiðar og rómantík Andstæðingar fiskveiðistjórnunar- kerfisins hafa oft nefnt færeyska kerfið sem fyrirmynd enda drúpi smjör af hverju strái

Fréttir

Fiskveiðar og rómantík

Gunnar Þórðarson
Gunnar Þórðarson

Andstæðingar fiskveiðistjórnunar- kerfisins hafa oft nefnt færeyska kerfið sem fyrirmynd enda drúpi smjör af hverju strái sjávarútvegi Færeyinga. Viðtal við Hjalta Jáupsstovu, forstjóra færeysku hafrannsóknarstofnunarinnar, í Fiskifréttum 10. sept. sl., dregur hinsvegar upp aðra og verri mynd af ástandi fiskveiða hjá frændum okkar.  Þá mynd að veiðar Færeyinga séu óstöðugar með miklum aflatoppum og djúpum niðursveiflum.  Sölustarf sé erfitt  þar sem ekki sé hægt að gera langtímaáætlanir og tenging við markaðinn lítil eða engin.  Jafnframt er mikil offjárfesting í flotanum þar sem útgerðamenn reyna að nýta takmarkaða veiðidaga við ólympískar veiðar.
hermodur is 023.jpg
Stækka vélar og spil, þar sem ekki má stækka bátana sjálfa.  Hann segir að útgerðir flestra bátanna hafi farið í þrot og birt er tafla þar sem rekstarafkoma færeyska flotans frá 2004 til 2007 er sýnd, og fram kemur að tap flotans er umtalsvert, fyrir utan uppsjávarveiðar og frystitogara, en þeim veiðum er stýrt með kvótakerfi.

Það er þyngra en tárum tekur að lesa um reynslu frænda okkar af óstjórn fiskveiða en hér er ekki öll sagan sögð.  Þegar reglurnar voru settar var gert ráð fyrir hagræðingu í kerfinu þar sem þeir sem best stæðu sig við veiðar myndu kaupa veiðidaga af þeim sem síður stæðu sig, og þannig yrði hagræðing í kerfinu.  Slíkt hefur alls ekki gerst þar sem framboð af dögum er meira en eftirspurn og því enginn markaður fyrir veiðidaga.  Þetta á sérstaklega við um línubáta þar sem veiðar þeirra hafa ekki verið arðbærar.  Til viðbótar þessu segir Hjalti að ástand þorsk- og ufsastofns séu mjög slæmt vegna lélegrar nýliðunar og ofveiði. 

Það er margt líkt með ástandinu í Færeyjum nú og var á Íslandi 1984 þegar kvótakerfinu var komið á.  Gríðarleg offjárfesting hafði verið í íslenska flotanum og viðvarandi tap á útgerðinni.  Kvótakerfið var sett á til að snúa þeirri þróun við, auka hagkvæmni við veiðar og stuðla þannig að fiskveiðiarði sem myndi bæta lífskjör þjóðarinnar.  Kvótakerfið er því hagfræðilegt fyrirbæri og rétt að halda umræðu um líffræðilegan hluta fiskveiðastjórnunar utan við það.

Nauðsynlegt er að nýta fiskveiðiauðlindina með sjálfbærum hætti og gera sér grein fyrir að frjálsar veiðar stuðla að ofveiði og þar með óhagkvæmum veiðum.  Frjálsar veiðar stuðla einnig að offjárfestingu og koma þannig í veg fyrir að arður myndist af veiðunum.  Höfundur er mikill frelsisunnandi en gerir sér hinsvegar grein fyrir þessum annmörkum á frelsi þegar kemur að endurnýjanlegum auðlindum.  Í umræðu um fiskveiðistjórnun ættu menn að vera sammála um að þjóðarhagur ráði för en fiskveiðiarður er þar grundvallaratriði.  Umræðan ætti því frekar að snúast um hvort þeim arði sem við náum út úr fiskveiðum sé deilt með sanngjörnum hætti til þjóðarinnar, en ekki hvort við viljum fiskveiðiarð eða ekki.

Varaformaður Landbúnaðar- og sjávarútvegsnefndar Alþingis hefur farið mikinn í umræðu um stjórnun fiskveiða undanfarið.  Þingmaðurinn segir í viðtali í Fiskifréttum, á sömu síðu og viðtalið við Hjalta er, að svo virðist sem Færeyingar séu á réttri leið í fiskveiðistjórnun.  Enda sé hvati til brottkasts og brask með aflaheimildir mun minna í þeirra kerfi.  Það sem Hjalti telur nauðsynlegt fyrir færeyskan sjávarútveg, að hæfustu útgerðaraðilarnir kaupi upp veiðidaga hjá hinum, kallar þingmaðurinn brask!  Það skildi þó ekki vera að ,,braskið" séu viðskipti sem eru nauðsynleg til að auka framleiðni og mynda fiskveiðiarð í greininni?

hermodur_is_030.jpg En Ólínu Þorvarðardóttir er lítið hugsað til arðsemi atvinnugreinarinnar í umræðu sinni um stjórnun fiskveiða.  Í grein sem birtist eftir hana í Viðskiptablaðinu 3. sept. s.l. fjallar hún um strandveiðar.  Þar kemur fram að eftir innleiðingu strandveiða iðuðu hafnir sjávarþorpa af lífi og fjöri og vélarhljóð fiskibáta bergmáluðu í sæbröttum fjöllum vestfirskra fjarða.  Stæltir sjómenn fleygðu spriklandi þorski upp á bryggjur, til mikillar ánægju fyrir fjölda áhorfenda.  Fiskur barst nú á hafnir þar sem ekki hafði sést sporður í langan tíma.  Hún bætir því svo við að:  ,,Það sé samdóma álit allra(feitletrun höfundar) sem til þekkja, að strandveiðarnar hafi orðið sjávarplássunum lyftistöng, enda færðist mikið líf í hafnir landsins í sumar"  Höfundur þessarar greinar er ósammála, en kannski þekkir hann ekkert til fiskveiða.  Skyldi það hafa hvarflað að Ólínu að júlí og ágúst eru helstu ferðamánuðir á Íslandi og það sé ferðamennskan en ekki strandveiðar sem allt þetta líf og fjör skapaði?

Niðurstaðan er sú að varaformaður sjávarútvegs og landbúnaðarnefndar telur færeyska kerfið vera á hárréttri leið, þrátt fyrir ofangreinda lýsingu forstjóra færeysku Hafrannsóknarstofnunarinnar sem hefur áralanga þekkingu og reynslu á sviði færeysks sjávarútvegs.  Enda virðist hún ekki líta á arðsemi sem markmið, heldur rómantík.  Strandveiðar eru einmitt gott dæmi um slíkt þar sem fyrir liggur að veiðarnar eru þjóðhagslega óhagkvæmar en þær gætu hinsvegar flokkast undir rómantík.

Það er alvarlegt mál þegar fólk í slíkri stöðu talar um mikilvægustu atvinnugrein þjóðarinnar af slíkri léttúð.  Arðsemi veiða er okkur Íslendingum lífsspursmál til að skapa lífsgæði hér á landi.  Við höfum ekki efni á að reka sjávarútveg sem rómantík og verðum að horfa til arðsemi.  Höfundur vill mæla með þremur K-um fyrir rómantíkina; kampavín, kertaljós og karl/kona.  En láta fiskveiðiauðlindina í friði og leyfa henni að þróast á hagrænan máta.

Gunnar Þórðarson

Höfundur er viðskiptafræðingur með meistarapróf í alþjóðaviðskiptum


 

Athugasemdir

05.desember 2024

Sk Sigló ehf.

580 Siglufjörður
Netfang: sksiglo(hjá)sksiglo.is
Fylgið okkur á Facebook eða Twitter

Póstlisti

Skráðu netfangið þitt á póstlistan okkur.

Ábendingar

Ertu með ábendingu fyrir síðuna eða góða frétt? Sendu okkur þá póst og við könnum málið.

Sendu póst