Fyrningarleið – hvað veit ég ?
Ég veit að til þess að búa til 1. milljón króna í verðmæti þarf frystitogari að veiða og vinna um 2,7 tonn af þorski.
Ég veit að þessi milljón skiptist milli áhafnar og útgerðar þannig að áhöfnin fær um 430 þús. krónur í sinn hlut en útgerðin 570 þús. krónur.
Ég veit að ef Ríkið innkallar veiðiheimildir og útgerðin þarf að leigja þær aftur t.d. á 100 kr. kílóið af þorski, og ef lög og kjarasamningar breytast ekki, þá fengi áhöfnin áfram 430 þús. krónur í sinn hlut en útgerðin fengi 300 þús. krónur í sinn hlut og Ríkið 270 þús. krónur í sinn hlut.
Ég veit að 300 þúsundin sem útgerðin fær í sinn hlut duga ekki fyrir útgerðarkostnað.
Ég veit að þetta gengur ekki upp.
Ég veit að ef lögum og samningum er breytt þannig að leigan af Ríkinu er tekin af óskiptu aflaverðmæti þá fengi áhöfnin 314 þús. krónur í sinn hlut, útgerðin 416 þús. krónur og Ríkið 270 þús krónur.
Ég veit að hvorki áhöfn né útgerð þola 27% lækkun á ráðstöfunartekjum.
Ég veit að þetta dæmi gengur heldur ekki upp.
Ég veit að bæjarfélagið mitt byggir á útgerð og stór hluti útsvarstekna þess kemur frá sjómönnum.
Ég veit að þjónustufyrirtæki í Fjallabyggð byggja beint og óbeint á tekjum sem verða til í sjávarútvegi.
Ég veit að launalækkun sjómanna þýðir samdrátt í þjónustu við bæjarbúa og minni framkvæmdir í sveitarfélaginu.
Ég veit að um 90% aflaheimilda eru á landsbyggðinni.
Ég veit að með fyrningarleið er verið að leggja birðar á íbúa landsbyggðarinnar.
Ég veit að ef fyrningarleið verður farinn er atvinnu- og afkomu útgerðar, sjómanna, þjónustufyrirtækja og byggðarlagsins alls stefnt í óvissu.
Ég veit að fyrningarleið er aðför að lífskjörum íbúa Fjallabyggðar.
Björn Valdimarsson.
Athugasemdir