GÖNGUTÚR UM HEIMAHAGA. 3 hluti, ÖMMUR

GÖNGUTÚR UM HEIMAHAGA. 3 hluti, ÖMMUR Þessi kafli í sögunni er eins og heilsubóta göngutúr um heim minninganna og æskuslóðir, það liggur ekkert á og

Fréttir

GÖNGUTÚR UM HEIMAHAGA. 3 hluti, ÖMMUR

Miðnætursól í Águst
Miðnætursól í Águst

Þessi kafli í sögunni er eins og heilsubóta göngutúr um heim minninganna og æskuslóðir, það liggur ekkert á og meiningin með svona göngutúrum er ekki heldur að flýta sér að komast frá punkti A til B.
Maður gengur hægt og rólega og stoppar annarslagið, hugsar og sér það sem er í rauninni HORFIÐ,..... já...hún/hann .....já alveg rétt....... þarna var þetta litla hús....ég man eftir þessu......

Þessi litli gutti sem fer með ykkur í þennan göngutúr um suðurbæinn er 0-5 ára og hann sér heiminn með augum barns þess tíma sem hann er fæddur í. 

Umhverfið og umgjörðin er hluti að suðurbænum á ljúfum sumardegi 1967. Það fylgir honum 55 ára sögurödd sem grípur inní annarslagið og minnist “framtíðar” sem þessi litli glókollur hefur ekki hugmynd um að hann eigi líka eftir að eiga.

Rétt eins og barnið í göngutúrnum sem sér leikmöguleika  og fantasíuheima út um allt og í öllu, þá sér þessi fullorðni sögumaður minningar í öllu, stoppar og grípur inní fyrir guttanum og segir.....

Þarna er steinninn sem ég henti í gegnum bílinn hans afa.....og þarna er annað grjót sem ég henti í hausinn á Brekkugutta sem mér þótti vænt um og meira að segja þegar blessað barnið er að pissa vekur þessi “leikfanga rani ” líka upp minningar og sögur um fáránlega atburði. 

Það eru yfir 100 persónur, hús og staðir sem þið þekkið í þessum minninga göngutúr og þetta er líka skrifað meðvitað á SIGLFIRSKU, þ.e.a.s sögumaður er ekki að eyða mörgum orðu í að útskýra hlutina, þeir sem kunna siglfirsku, skilja þetta, hinir verða bara að ná sér í orðabók eða biðja ömmu og afa að útskýra þetta og fá þá ástæðu til að tala saman og eiga góða samverustund.

En gjörið svo vel.....velkomin í göngutúr, takið þið bara í litla hönd guttans og látið hann sýna ykkur hans furðuheim og allar ömmurnar sínar í suðurbænum fyrir 50 árum sumarið 1967.

Nonni Björgvins 5-6 ára á skíðum með Pétri Bjarna frænda sínum, Siggi Tommi horfir öfundaraugum á skíðin hans bróður síns. I bakgrunninum er hús Láru ömmu og neðar til hægri rétt sést í húsið sem langafi Sigurður í Leyningi byggði við Suðurgötuna.


Lítill bláeyður glókollur lærir of snemma að ganga, ræðir við ömmu sína og fer á gúmmískóm í langan göngutrúr um suðurbæinn og heimsækir allar hinar ömmurnar sínar.

Skreið stutta stund á velþrifnum gólfum hjá mömmu og ömmu, leiddist þetta og einhver ólýsanlegur vilji og kraftur kom yfir mig og fékk mig til að vilja standa upp og ganga, til vinstri og hægri, fram og tilbaka og þegar það var líka orðið leiðinlegt þá vildi ég fara í göngutúra UPPÁVIÐ, uppá stóla og borð, uppá bókahillur og uppá skáp sem stóð inní geymslu, það var kókflaska þarna hátt uppi og mig langaði í innihaldið, en þetta var ekki kók, þetta var smurolía sem pabbi var að geyma til seinni nota. Drakk smá og ældi svo í fangið á mömmu.

Pabbi var skammaður, ekki ég...... amma Nunna sagði: Björgvin Jónson! VIÐ skulum EKKI vera að láta okkur detta það í hug að vera geyma OLÍUR í kókflöskum....á þessu heimili...ha... uss og svei....  og þið skuluð bara hafa það á hreinu að þegar Unnur Möller bætti við Jónsson eða Björgvinsson þegar hún talaði við man þá var henni sko dauðans alvara. Ef hún sagði bara Nonni minn....við skulum ekki...þá var allt í lagi en ef hún sagði Jón Ólafur þá var þetta slæmt en samt einhvernvegin alveg OK. 

Já,......... svona var þetta bara!

Pabbi: ehh.... en ég setti hana lengst upp.....hvernig komst hann þangað...ha.. hann er nýorðin eins árs.....ég bara skil þetta ekki.......

Það spurðist út um allan bæ að það væri snarbrjálað barn uppá Hverfisgötu og það var víst stundum erfitt að fá barnapíur þegar mamma/amma og dætur hennar yfirgáfu húsið saman einstöku sinnum til að skemmta sér saman á Hótel Höfn. 

En ég man að einhver af elstu dætrum hennar Gunnu Finna þorðu að koma og passa mig. Þær voru vanar, áttu snarbrjálaðan bróður, Friðfinnur kaupfélagstjóri var víst verri en ég.

Næstu gönguferðir voru frekar stuttar, bara í næstu hús, þegar ég var 2-3 ára og ég mátti bara fara þangað sem amma sá mig út um gluggann eða af svölunum. 

Mér til mikillar ánægju komst ég að því að heimurinn er “FULLUR AF ÖMMUM” í næsta húsi fyrir sunnan var Eiríksína amma mín (gift Birni bróður ömmu Mundínu frá Vatnsenda í Héðinsfirði) og í kjallaranum á sama húsi var Hansína amma mín (gift Svenna hennar Eyju ömmu) og í húsinu ofanvið var Bogga amma mín (móðir Ingvars Björns) og seinna þegar ég mátti fara aðeins lengra þá fann ég fleiri eins og t.d. ömmu Stínu á Túninu og Binnu Jóns á öðru Túni þarna rétt hjá og líka í húsinu beint fyrir neðan var góð kona, Lára, mamma Stebba heitins hennar Biddu Björns minnir mig.

 ÖMMU - göngutúrakort. Hluti af göngutúrnum í næsta nágrenni við Hverfisgötu 27

Það sem er svo furðulegt er að í mínum bláu barnaaugum litu þessar konur allar eins út, þær voru í svona litríkum og munstruðum nælonsloppum með rennilás að framan og ef maður kom of snemma voru þær stundum með slæðu og rúllur í hárinu, svo var AJAX lykt af þeim öllum líka.

Ég man ekki einu sinni hvað sumar af þeim hétu í rauninni, en börn vita svo sem ekkert alltaf hvað mamma/amma þeirra heitir, þær eru heilagar og heita einfaldlega mamma og amma.

Þegar ég er orðinn 5 ára sumarið 1967 þá er ég búinn að þróa þessa göngutúra betur og finna fleiri ömmur þegar ég loksins fékk leyfi hjá ömmu Nunnu til þess að stækka sjóndeildarhringinn.

En hann var samt takmarkaður við hennar sjóndeildarhring, sem var það sem HÚN gat séð 360 gráður út um gluggana heima hjá sér. Ef ég hvarf henni úr augnsýn annarlagið of lengi þá þekkti hún þessa rútínu og gat giskað hvar hún myndi sjá mig næst eða svo gat hún í neyð fengið fréttir í gegnum síma.

Tass og Rauter fréttastofurnar voru þegar starfandi á þessum tíma og amma Nunna og langamma Jóna Möller voru báðar í ábyrgðarstöðum þar, flestir voru þá komnir með eigin síma og eigin símanúmer. Bæjarlínan var dauð.

Lengi vel var eina símalínan í suðurbænum á Sigló heima hjá langömmu Jónu Möller og þaðan var hlaupið í hús með skilaboð.
Langamma Jóna vann í sjálfboðavinnu á skiptiborðinu á suðurbæjarlínunni dag og nótt og þetta starf virðist ganga í arf í ættinni.  Annars held ég þessi sími hafi verið þarna vegna vegna þess að langafi Christjan Ludvik Möller var lögreglustjóri og það þurfti stundum að ná í hann, ekki oft reyndar.

Þessir lengri göngutúrar gátu kannski byrjað svona og það tók mig stundum allan eftir miðdaginn að klára svona túr. Um hádegi var mamma að reyna að pína ofan í mig eitthvað hollt drullumall sem ég vildi ekki borða svo ég segi bara, mamma ég ætla bara að fara út að leika mér.

Þá segir hún kannski, ég skal gefa þér köku ef þú tekur bróðir þinn með.
Nei, hann er svo frekur og leiðinlegur segi ég hvasst......svo er hann svo feitur og stirður að hann getur ekki gengið svona langt eins og ég. Systir mín sagði ekki neitt, hún sat stillt og prúð við eldhúsborðið og klippti út dúkkulýsu kjóla úr bók. 

Svo þóttist ég fara út að leika í nýju gúmmískónum sem amma gaf mér í gær en svo læddist ég bara upp til ömmu.
Uss, ekki hafa hátt Nonni minn afi þinn er að fá sér hádegisblund. Komdu og fáðu þér pönnukökur með sykri.

Takk amma mín, ég ætla svo bara að tala aðeins við gullfiskana þína, þeir eru svo skemmtilegir.

Svo er ég voða stilltur og góður að ræða við gullfiskana og þeir sögu mér að þeim leiddist í þessu litla búri og svo ég fann þarna lítinn háf sem var mest notaður til að moka út mati sem flaut ofan á vatnsborðinu vegna þess að allir vildu mata þessa fiska og þeir voru allir spikfeitir með æðastíflur og aðra velmegunarsjúkdóma.

Byrjaði að háfa upp einn og einn fisk og labbaði raulandi “Litla sæta ljúfan góða..... með ljósa hárið......” á leiðinni inná salerni og svo sturtaði ég einum í einum niður í klósetið.

Þetta lag kom úr risa stóru “MEDIA-CENTER” sem var heil mubla út af fyrir sig með útvarpi sem náði popplögum úr Radíó Luxenburg á fimmtudögum kl.19.00, annars kom ekkert úr þessu útvarpi annað en djúp rödd Jóns Múla og hann sagði alltaf sömu leiðinlegu setninguna: “Útvarp Reykjavík, góðan daginn, nú verða sagðar hádegisfréttir”, en svo var plötuspilari, tveir innbyggðir hátalarar og stórt segulband með stórum spólum með fleiri tímum af dægurlögum frá 1940-1967 sem rúllaði allan sólahringinn og mér til mikillar furðu kann ég textana við lög sem ég hef ekki heyrt í 50 ár.

Eitthvað í þessum stíl var þessi Músík mubla sem var stanslaust í gangi heima hjá ömmu Nunnu  

Svíunum finnst það skrítið og fyndið að ég sé t.d. að syngja SVEN INGVARS á íslensku.

Nonni minn af hverju ertu alltaf að sturta niður á  inni á baði ? , er þér illt í maganum vinur ? heyri ég ömmu segja þegar ég mæti henni raulandi í ganginum með spriklandi feitan fisk númer 11 í háfinum. 

Þegar hún áttaði sig á því sem var að gerast brast hún út í Jón Ólafur Björgvinsson ertu virkilega......ha.... og hún náði vart andanum henni þótti svo vænt um þessa fiska, en svo róaði hún sig niður strax og sagði rólega. Jón Ólafur! VIÐ skulum ekki vera að drepa gullfiska hér á þessu heimili.........
Ég horfði á hana með grátinn í hálsinum og sagði: En amma ég er bara að sleppa þeim í hafið, fiskar eiga heima í hafinu amma........Þá bráðnaði hún alveg og klappaði mér á kollin og sagði bara:

Þú hugsar alltaf svo fallega elsku Nonni minn...............

en heyrðu það er komið svo fínt veður, farðu nú bara út í smá göngutúr.

Hún þurfti kannski að fá að vera ein smástund og reykja eins og eina sígarettu eftir þetta áfall með fiskana. Það var ekki hægt að fá áfallahjálp á þessum tíma og orðið var ekki einu sinni til heldur.

(Hvaðan og hvernig ætli þessir gullfiskar hafi komist norður í rassgat á þessum tíma og af hverju að vera að flytja inn fisk í fiskibæ....og geyma þá í búrum....fárárlegt bara, uss og svei....)

Þegar ég var setja á mig gúmískóna frammi í gangi voru Ellý og Vilhjálmur að syngja lag sem heitir "Hvers vegna" í musíkmaskínunni stóru.
"Ég vil að börnin fái að fæðast stærri......við fermingu það myndi....... "

En áður en “ fjallkonan ” á Hverfisgötunni sleppti augasteininum sínum út þá þurfti hún alltaf  fyrst að halda sína vanalegu 17 júní ræðu um alvarleika lífsins og allar hættur sem eiga heima þar.

Nonni Óli minn.....(Hét það líka stundum) VIÐ skulum passa okkur á bílunum..........og 

VIÐ skulum sko ekkert að vara að þvælast niður á bryggjum...... 

Svo kom langur listi af VIÐ skulum ekki......

Þetta er náttúrulega alveg ótrúlega dásamleg “sálfræði” í þessu “VIД sem hún notar, hún er einhvern veginn “samsek” í öllu sem ég geri og tekur á sig skuldina og étur sjálf “skömmina”  FYRIRFRAM  
ef að eitthvað skyldi nú gerast sem ekki var gott fyrir MIG. 

Sem gerðist alla daga. 

Kannski fór “Skömmin hans Jóns míns” ekki í sjóinn niðri á bryggju við Ísfirðingabrakkan.

Nei amma Nunna ÁT hana og það er kannski þess vegna sem hún fitnaði svona mikið á þessum árum ? Hver veit.

Eina skiptið sem hún virkilega var samsek var þegar ég var 14 ára og var byrjaður að fikta við reykingar og hún vissi það einhvern veginn, ég var ekki búin að fatta þá.... þetta að hún var með “fréttaritara” á öllum götuhornum bæjarins og svo báru þessar dömur saman bækur sínar við færibandið í Siglósíld á mánudögum kl. 07.00-16.00.
Hélt reyndar lengi vel að hún væri bara göldrótt........



Jón Ólafur......Við skulum ekki vara að fikta við reykingar.....það er ekki hollt fyrir unga drengi.
Þá gat ég ekki still mig og sagði: Alveg rétt hjá þér amma, en ert þú hætt að reykja ?

Stend út á Hverfisgötu og er að reyna að ákveða hvar ég eigi að byrja minn stóra ÖMMU og langömmu göngutúr. En ég þarf að pissa og í heimi barnsins er allt leikur og allt er leikfang, líka tippið á mér, svo ég þykist vera fullur karl sem ég sá niðri í bæ á Þorláksmessu um jólin í fyrra, öll eyrin var full af “fullum” körlum reyndar, akkúrat þennan dag, en þessi kall sem ég var leika núna, var að reyna að skrifa eitthvað fyndið í snjóinn með tippinu á sér á torginu þegar Palli Helga elskulegur íslenskukennarinn minn gekk framhjá (edrú) og sagði við þennan fulla karl:
Það eru minnst 3 stafsetningarvillur í þessu”. “ Sá fulli svaraði Halllltu kjafti

 Páll Helgason, besti kennari í heimi. Fékk mig til að trúa því að það væru nú til aðrar bókmenntir að lesa á mínu erfiða "hórmónatruflunartímabili" en Tígul-gosinn og Samúel. P.S. Myndin er ekkert svo gömul, það er Palli sem er svona gamall.

Ég sliga útum allt og pissa á húsið hennar ömmu og bílinn hans afa og á buxurnar mínar líka. Röfla eitthvað...halllltu kjafti.....drullusokkur......

En ég saklaust barnið hafi ekki græna grun um hvað þessi leikfanga “rani” ætti eftir að koma mér í mikil vandræði seinna á mínum gelgjuárum eða bara einu og hálfu ári seinna suður á Hafnartúni 6.

Um haustið rétt eftir að mamma hafði tekið slátur vorum við bræðurnir að leika okkur inná klósetti við að pissa í kross og “pissa kúlu” þ.e.a.s halda fyrir forhúðina og pissa síðan svo að það myndaðist stór blaðra og svo sleppti maður bara og pissið sprautaðist út um allt baðherbergi en það var allt í lagi, við þurftum aldrei að þrífa þarna.

Svo segi ég við bróðir minn: bíddu ekki pissa meira, svo fór ég fram í eldhús og náði í tvo slátursnærisspotta sem urðu afgangs hjá mömmu. Síðan batt ég fyrir forhúðin á bróður mínum og á mér sjálfum líka og þetta var svakalega gaman “smástund”, það mynduðust risastóra pissublöðrur.......æææ.... þetta er vont segir litli bróðir og byrjar að grenja og ég finn líka að þetta er að verða svolítið sárt og það var erfitt að hætta bara að pissa,

.... taktu spottann af argaði feita bollan og grét hástöfum.....en það er ekki hægt að losa blauta sláturspotta á tippum og þetta voru of góðir skátahnútar hjá mér.

Ertu að meiða bróður þinn?” Heyrði ég mömmu kalla framan úr eldhúsi þar sem hún sat með Hönnu systir sinni af efri hæðinn og drakk kaffi.

Ég hleyp síðan með buxurnar á hælunum fram í eldhús og hrópa: Mamma, mamma komdu með SKÆRI....komdu, komdu...flýttu þér........

Mamma hleypur inn á bað, þetta er neyðarástand, en hún veit ekki hvort hún á að gráta eða hlæja og Siggi Tommi grætur og öskrar: “Nonni gerði þetta(sem hann alltaf sagði, hvort sem ég gerði eitthvað eða ekki) um leið og hann sá mömmu sína.

Ég horfði snöggt á hann og lét hann skilja að ég myndi drepa hann seinna ef hann héldi ekki kjafti.

Mamma var fljót að klippa spottann af tippinu á Sigga og svo var komið að mér en þá hló hún og hristist svo mikið að mér leist ekkert á þetta.

Hættu að hlæja....nei...nei farðu varlega æpti ég þegar skærin nálguðust tippið á mér sem mér þrátt fyrir allt þótti vænt um....... en þetta hafðist að lokum og mamma þreif baðherbergið hlæjandi í fyrsta skiptið á ævinni.

Hugsið ykkur ef þetta hefði mistekist hjá henni....þá hefði ég kannski seinna þurft að útskýra fyrir stelpu sem hafði kannski séð önnur tippi þegar hún spurði:

Af hverju ertu umskorinn Nonni ?”

Og ég hefði neyðst til að svara: MAMMA mín gerði þetta....... ÓVART!

En nú vorum við á Hverfisgötunni að pæla í ömmuheimsóknartúr og  pissa á bíla og annað skemmtilegt og þessi bíll sem er flottur blár Fiat vekur líka minningar.

Þetta er agalegt, ég veit, en það eru minningar og sögur  í öllu......tippum, bílum....grjóti og ég sagði einu sinni við blóm sem ég fann á Torginu.....kannast við svipinn á þér.....hverra blóma ert þú ??

Þegar ég stóð þarna við bílinn hans afa Nonna og renndi upp buxnaklaufinni þá mundi ég eftir að þegar ég var 3 ára þá kastaði ég grjóti í gegnum þennan bíl.

Var fúll út í afa vegna þess að hann vildi ekki fara með mig í bíltúr, hann þóttist vera að fara að vinna niðri í Hrímnir hf sem hann átti í góðu samstarfi við Þórð á Nesi.
Ég tók upp stein og ætlaði að láta afa fá það óþvegið fyrir þennan dónaskap en hitti hann ekki sem betur fer. Steininn strauk hans stóra nef og fór í gegnum bílinn vegna þess að báðar framrúðurnar voru opnar.

Já, HRÍMNIR var líka hraðfrystihús, þar voru seinna margar fjölskyldur með frystihólf á leigu.

Mundi líka eftir því að sumarið áður þegar ég var 4 ára þá “lánaði” ég þennan bláa bíl og fór einn í smá bíltúr niður brekkuna en guði sé lof einhvern veginn þá tókst mér að stýra þessum stóra bíl “UPP” í bakkann og ofan á stórt grjót þar sem hann festist og stöðvaðist snögglega, ég náði náttúrulega ekki niður á bremsuna og sá ekki neitt heldur í gegnum stórt stýrið.

Ef ég hefði beygt í hina áttina þá hefði ég endað á húsinu hennar Binnnu ömmu minnar Jóns og kannski eyðilagt Candýslagerinn í búrinu hjá henni eða stórslasað son hennar hann Gunnar Trausta sem var út í kofa fyrir ofan húsið og var á fullu að búa til sprengjur úr gömlum flugeldum sem hann hafði stolið einhversstaðar niðri á eyrinni daginn áður.

Man að ég flúði í fangið á ömmu þegar afi ætlaði eitthvað að fara að skamma mig fyrir þetta og þá sagði AMMA NUNNA sko bara, með mig í fanginu: Jón Ólafur og þá var hún ekki að meina mig....VIÐ skulu sko ekkert að vera að leggja bílum í þessari götu.........ólæstum....

Það var alveg hárrétt hjá ömmu Nunnu og það var líka rétt hjá henni að það var komið alveg svakalega fallegt veður, sólinn og sunnan golan sem er að eina af viti sem kemur að sunnan hafði ýtt þoku og rigningu morgunsins út úr fjarðarkjaftinum, það var vissulega blautt ennþá og það runnu silfurlitaðir litlir lækir sem glitruðu í sólskyninu niður fjall og malargötur.

Ég ætla upp í fjárhús og tala við lömbin sem eiga engar mömmur hugsa ég og í leiðinni þá kem ég við hjá Stínu ömmu minni á Túninu og fæ hjá henni smákökur og mjólk og kannski eina tvær auka kökur í vasann fyrir lömbin.

Þetta furðulega hús stendur þarna á miðju túni, það er stendur ekki við neina götu og það er enginn vegur að þessu húsi.......furðulegt og það eru margar skrítnar götur þarna í sjónmáli, enda bara upp í miðju fjalli og byrja svo aftur einhverstaðar annar staðar upp á brekku eða norður í bæ............hver hugsaði þetta eiginlega.....hverskonar vitleysa er þetta eiginlega.

Var skortur á götunöfnum eða var þetta eitthvað sem tilheyrði glæsilegum framtíðarplönum sem var búið að framkvæma á eyrinni fyrir löngu, löngu síðan. Hmm.....skrítið.

Geng í blautu grasinu á túninu og fæ mér hundasúru að bíta í og ég sé að Stína og dóttir hennar eru fyrir utan húsið. Mér fannst þær alltaf svo sætar þegar þær gengu þétt saman um bæinn, dóttirin leiddi aldraða móður sína eða leiddi Stína hana vegna þess að dóttirin var með sterk og þykk gleraugu? Veit það ekki.....en ég var með það á hreinu að þetta væru góðar konur.

Sæll Nonni minn ertu bara kominn.....hvað er að frétta af ömmu þinni vinur? 
Og svo sagði ég Stínu og dóttur hennar sömu fréttarulluna um ekki neitt sem ég átti eftir að segja öllu ömmum og langömmu sem ég átti eftir að hitta í þessum göngutúr.

Amma er baka og þrífa......afi er þreyttur og er að leggja sig.....og pabbi líka.....mamma er að passa bróðir minn........systir mín á nýja dúkkulýsukjólabók........ “

Fékk mjólk og smákökur, lék mér smástund við dóttur Stínu og köttinn hennar, kvaddi og þakkaði fyrir mig og gekk upp bratt túnið fyrir ofan húsið í átt að fjárhúsunum, datt í blautu grasinu og rúllaði niður, byrjaði uppá nýtt og festist svo í gaddavír í girðingunni, reif smá gat á buxurnar, en þetta hafðist og svo gekk ég ofan við einn af þessum aflöngu kindakofum til þess að heilsa uppá heimalingana.
 Hér sjást fleiri hús og garðar úr syðri hluta ömmu heimsóknar göngutúrsinns. í hvíta húsinu með græna þakið sem sést á miðri myndinni bjó líka "amma" mín.....hún var móðir Frímanns heitins og Ragga bifvélavirkja minnir mig. 

Á þessari mynd er húsið langömmu Jónu er horfið, það stóð þarna á grasblettinum fyrir neðan brúna húsið hans Hafþórs Rósmundar og Guðnýjar Páls.

Heimalingarnir móðurlausu könnuðust við þennan glókoll sem var með jafn hvítan koll og þeir en þeir voru svolítið varir um sig, þessi strákur átti það til að lokka þá til sín með smákökum og grípa síðan í eyrun á þeim og segja hátt eins og stórbóndi úr Fljótunum:

Sneitt af vinstra og skorið af hægra” sem var eyrnamarkið mitt þegar ég var bóndi með stóran hóp af búfénaði í minni umsjá.

Það voru engar aðrar kindur þarna, þær voru í sumarbúðum út í bæ, borðuðu blóm og runna í görðum og héldu sín eigin jól í kirkjugarðinum sem hefnd fyrir að við skyldum hafa borðað börnin þeirra á okkar jólum.

Kindur eru lúmskar og óáreiðanleg kvikindi, annars var fullt af kindakofum út um alla bæ og allskyns spendýr, fuglar og annað var notað sem gæludýr.

Má þar nefna að ég hef séð ljósmynd af belju á Aðalgötunni sem borðaði sígarettur og man að Robbi Palla á Höfninni var með refi í búri í garðinum og Örlygur Kristfinns gekk út um allan bæ með tamin krumma á öxlinni.

Svo voru þarna stroku kettir sem flúðu vistina í útlenskum síldarbátum vegna sjóveiki og vildu heldur búa í brökkum og skúrum í landi og stunduðu þar kynlífssvall og fjölguðu sér eins og kanínur og átu fallegar dúfur bæjarins líka.......uss og svei...segi ég bara......

Nú er ég orðinn leiður á því að tosa í eyrun á munaðarlausum lömbum og er búinn að ákveða mig í að skreppa til Rósu ömmu minnar (mamma Jonna Vilbergs skíðakappa) í brekkunni þarna rétt hjá. 

En á leiðinni þangað stíg ég í kindaskítahaug og á ryðgaðan nagla á spýtu sem ég sá ekki þarna í leðjunni.

Æpi af sársauka, en fer ekki að grenja.....til hvers, það var enginn þarna til að hugga mig. 

Dett í læk sem rennur þarna í þessari götu sem er líkari skíðabrekku en götu.

Maður verður að passa sig á þessum stað, ég er hættulega nálægt vissum brjáluðum Brekkuguttum, þarna á horninu á skíðabrekkunni
(Skriðustígur ? , ha, hét þetta ekki Brekkugata) og Hávegi bjuggu fullt af strákum og ég var pínu hræddur við þennan Tomma Kára, þótt hann væri árinu yngri en ég, grimmur gaur, en sem betur fer sá ég hann hvergi og eldri bræður hans voru yfirleitt ekkert að angra smábörn eins og mig.

Litli bróðir Tomma hann, Baldi Lóu  ( það vara nú bara réttlátt að Lóa eignaðist loksins son, finnst að Kári átti alla hina 4 einn ) ...........lá úti í barnavagni og hraut hátt.

Kem haltur og blautur til Rósu sem situr fyrir neðan húsið í blíðunni og hún er að prjóna nýja skíðapeysu á hann Jonna sinn þegar hún sér mig koma.

Eftir kossa og venjulegar kveðjur og fréttarullu um ekki neitt fer Rósa amma mín inn og sækir stóran “Mackintoss” bauk og leyfir mér að velja 2 bita, ég vel alltaf gulltúkall og þetta græna með kókos innaní súkkulaði.  

Þessi kona var ALLTAF svo ótrúlega góð við mig, það var alveg eins að hún ætti mig sjálf.
Að ég væri ömmustrákurinn hennar í alvöru.

Ég veit “LOKSINS” núna hvers vegna mér leið svona hjá þessari yndislegu konu..... get varla skrifað þetta.........pása.....og tár.......þetta er ennþá svo hrikalega sárt.

Enginn ár eða áratugir  geta læknað þessa sorg, hún er of stór, of þung einhvernvegin.

Sonur hennar var jafnaldra og BESTI vinur föður míns og drengurinn hennar drukknaði í sundlauginni í hörmulegu slysi aðeins 14 ára gamall. Þvílíkur harmleikur....og pabbi svo ungur......  og svo margir aðrir fengu marblett á sálina sem enginn sá.....þetta var svo erfitt og sárt að að það er/var ekki hægt að tala um þetta við nokkurn mann.

En þessi marblettur sem pabbi bar með sér þögull, sást og við bættist stór skurður og blæðandi sár á sálina þegar að systursonur minn lést í álíka hörmulegu slysi 15 ára gamall. 

Sá ungi maður var nú reyndar miklu miklu meira “litli bróðir” minn en systursonur og þarna fékk ég minn eigin marblett á sálina og...... systir mín.....guð....já...og svo margir aðrir. Úff.....

Ég æfði sund í 10-11 ár, skildi aldrei af hverju pabbi gat ekki verið stoltur og glaður þegar ég kom heim með medalíur og hann kom aldrei að horfa á mig keppa.....jú einu sinni, mamma þvingaði hann að koma á Norðurlandsmeistaramót einu sinni, sá hann í stúkunni smá stund og svo var hann horfinn. 

Skil hann alveg núna og ég fyrirgef honum þetta, veit að bara orðið “sund” eða “sundlaug” vöktu angist og pínu hjá honum og ég píndi hann í yfir 10 ár.

Rósa kyssti mig bless og ég gekk niður þessa hættulegu brekku, sé á hægri hönd að Hemmi Einars er með svona “beisli” eins og stundum voru sett á óþæg börn sem voru óvitar og nýbyrjuð að ganga og hann var bundin við snúrustaur með stuttu bandi eins og hestur í haga. Stoppa smá stund og dáist af stórum flottum vörubíl sem pabbi hans eða afi átti.

Ég var að hugsa um gefa Hemma smáköku en lömbin sem voru líka lokuð inní öðrum haga voru búinn að fá allar kökurnar mínar svo ég vinkaði bara. Á tröppunum hjá ömmu sinni hinum megin á sama götuhorni sat Bebba Arnas verðandi bekkjasystir mín prúð með tíkaspena í hárinu og söng vögguvísur fyrir dúkkuna sína. Í litlum garði með risastórum grenitrjám fyrir neðan sama hús var Alli litli bróðir hennar Bebbu að sparka í plast fótbolta og þegar hann sér mig hrópar hann eitthvað sem ég skil ekki: "Nommmmi, volta kumpa ad spalpa futball........Staktu út úr þér snuðið Alli segi ég og svo þegar ég skil hann svara ég:

Nei, get ekki.........meiddur, ..........steig á nagla.........

Kíkti til norðurs og sé að mamma Ragga Ragg og Stínu sem passaði mig stundum var ekki heima og Raggi var á sjó með pabba sínum, var búinn að vera á sjó síðan hann hætti með bleyju.
Í hvítu fallegu bárujárnshúsi þar fyrir ofan bjó yndisleg kona sem átti mjög fallegan garð með litlum burstabæ í og þar lék ég mér stundum þegar ég var stórbóndi.
Það er einkennilegt að í minningunni voru margir fallegir garðar með mikið af stórum trjám einmitt  við þessa brekku.
 
Labbaði lengra niður og til vinstri  og læddist síðasta spölinn að rifsberjarunnunum hennar Bjarkar ömmu minnar (konunar hans Tomma Hallgríms) og var að fara að stela mér einu grænu rifsberi þegar ég heyri Björk segja:

Ég sé þig alveg Nonni minn, þú mátt alveg fá þér rifsber en þau eru ekki góð svona græn, komdu frekar inní garð, ég skal gefa þér límonaði og tekex með alvöru rifsberjasultu.

Ásta Júlía Guðmundsdóttir systir Tomma Hallgríms á góðri stund á Höfninni  og Björk Hallgrímsson ung í vinnunni.

Ég kíki í gegnum runnana og sé að þessi glæsilega "norska" kona situr í sólstól og hún er að lesa bók og leggur hana frá sér á borð og gengur inní húsið á meðan ég fer góðan spöl á stuttum fótum meðfram girðingunni til þess að komast inn í þennan fallega garð. 

Hér áður fyrr las fólk oft svona bækur, þetta eru svona hylki með blaðsíðum og orðum í.

Björk vissi að þrátt fyrir að hún legði þetta hylki frá sér smástund að þá myndi innihaldið og sögurnar ekkert breytast á meðan og svo kom ekkert svona PLING, KLING óhljóð úr þessu heldur á meðan Björk gaf sér tíma að tala við blessað barnið.

Þessi amma mín var sú eina sem ekki var í svona nælonslopp með rennilás, var alltaf eitthvað sem vel tilhöfð alla daga ársins, man ekki hvort hún átti eigin börn.......bíðið aðeins ætla að skreppa aðeins betur inní þessa minningu......................

Nei, en ég er ekki viss, .....eða átti hún eina dóttur sem var miklu eldri ég ég ? En samt man ég óljóst eftir að hún hafi stundum haft strák að láni sem var kallaður “Guðmundur Mömmurass” en hann átti heima í stóru húsi sunnarlega á Suðurgötunni.

Drekk VALLAS og borða tekex með heimatilbúnu rifsberjahlaupi á meðan ég segi Björk fréttir, þakka kurteisilega, kveð með kossi og geng út á Lindargötuna, ef þetta hefði verið sumarið eftir þá hefði ég gengið bara 10 metra heim til Möggu ömmu minnar (mamma Sigga Benna og Sigurbjargar og fl.) sem bjó í litlu húsi á horninu við Suðurgötuna. 

Henni kynntist ég sumarið eftir á nýja sjúkrahúsinu þegar ég var skorinn upp vegna kviðslits, Ólafur læknir svæfði mig með “ETER grímu” sem var haldið fast yfir andlitið á mér og ég get ekki gleymt laukbragðinu og lyktinni, fékk martraðir og pissaði undir fram að fermingu út af þessari viðbjóðslegu aðferð.  Þoli ekki sjúkrahús lykt, vill bara hlaupa út og láta mig hverfa.

Var síðan settur inná stofu með Möggu og fleirum eldri konum. Ég og Magga horfðum saman út um gluggann á krana með stóra kúlu brjóta gamla spítalann í spað. Hrikalega gaman, ég ætla að fá mér svona krana þegar ég verð stór.

Magga las líka fyrir mig sögur allan daginn. Yndisleg amma.



En nú var hún Magga mín ekki með í myndinni í dag svo ég gekk fram á bakkann á Suðurgötunni í áttina heim til langömmu Jónu, mátti ekki fara niður fyrir bakkann en stalst smá, ætlaði að ná mér í njóla sem ég ætlaði að nota sem sverð í sjórægingastríði á leiðinni til langömmu.

Það var svo hallt á bakkabrúnni og ég missti takið á helv...njólanum rúllaði niður hálfan bakkann en eins og einn af víkingatöffurunum hans Laxness í Gerplu náði ég taki á hvönn sem óx í þessum hvannaskógi og ég hékk þar og gaf ekki frá mér eitt einasta hljóð, gat ekki kallað á hjálp því þá myndi amma Nunna frétta að ég hefði farið niður fyrir bakka og kannski halda að ég hefði stolist niður á bryggju líka.

Nei best að harka þetta af sér og reyna að skríða upp óséður, nýtt gat á buxurnar og á olnbogann á peysunni. Það blæddi bara pínu. Fann svona “lakkrísblóm” á leiðinni upp og saug það sem sárabætur og huggun fyrir þetta óhapp.

Fer yfir götuna til Binnu ömmu sem er líka úti í garði að fást við rabbabara og kartöflurækt sunnavið húsið. Fæ Candýs að launum fyrir fréttir og geng síðan slefandi sykurleðju niður á maga og passa mig á því að kyngja ekki spottanum sem candýsinn hangir á.

Ljósmyndari:Steingrímur Kristinsson. Söltun á Hafliðaplani. Bryndís Jónsdóttir (Binna Jóns.) Sólveig Júlíusdóttir og Hansína Jónatansdóttir.

Geng suður götuna og vinka ömmu Láru til hægri og svo Völlu gömlu ömmu minni í litla húsinu á horninu. 

Húsið hennar langömmu Jónu er bæði lítið og skrítið, það stendur við Hafnargötu en það er gengið inn frá Suðurgötunni.
Í ganginum eru bæði bússur og bakpoki, aha....en gaman Maggi á Ásnum vinur minn er í heimsókn.
Hann óð oft yfir á fjörunni og kom við hjá langömmu og skipti um skóbúnað, fór í bæinn og verslaði og kom svo afturn í kaffi og mola.

Og þau eru einmitt bæði með mola í munnvikinu þegar ég opna hurðina inní þetta pínu litla eldhús og sötra kaffið úr undirkálum frá fínu máfastelli sem langamma notaði bara við hátíðleg tækifæri annars.
Langamma tók mig í fangið og kyssti mig mikið og lengi, langar gráar fléttur sem hún vanalega setti upp í fuglahreiður slógust í vangann á mér, en það fannst mér bara gott.

Maggi vinur minn bjó fyrir handan á ásnum eða réttara sagt fyrir neðan ásinn í stóru húsi með fallegum garði og þar voru sýnihorn af blómum og trjám frá öllum heimsins hornum.
Maggi gaf mér 5 kr og sagði, keyptu þér eitthvað gott í mjólkurbúðinni LJÚFURINN

Langamma Jóna Möller við litla húsið sitt sem stóð við Hafnargötu 4, en það var gengið inn frá Suðurgötunni.

Örlygur Kristfinnsson sem er mesti snillingur sem þessi fjörður hefur nokkurn tímann átt, á þetta hús núna og hann býr þarna á sumrin, hann er hættur að vera safnvörður í síldarminjasafninu og er í staðinn byrjaður að safna húsum út um allan bæ.

Í hitteðfyrra sumar var Selma systurdóttir mín að vinna hjá honum í safninu og það var hringt að sunnan og spurt eftir Örlygi og þá sagði Selma frænkukrúttið mitt á alvöru Siglfirsku:

“Nei hann Örlygur er nýfarinn YFRUM en hann kemur nú örugglega bráðlega að HANDAN !

Get ég tekið skilaboð ?”

Það er alveg hægt að miskilja þetta......ef maður er fífl að sunnan.

Örlygur var voða góður við hana Selmu mína, hún sagði mér það, en hann var nú ekki eins góður við mig þegar ég var að vinna þarna sem fyrsti ferðamálafulltrúi bæjarins sumarið 1996.

Þá fannst honum að ég og mín starfsemi passaði ekki inní ímynd safnsins og hann setti mig bara inní litla kompu eða réttara sagt “skjalaskáp” innan við síldarkóngaskrifstofuna.
Þetta var svo lítið að að það var ekki hægt að skipta um skoðun þarna inni. En þetta var gaman samt.

Vildi ekki vera að trufla Magga og langömmu svo ég læddist inní “stássstofuna” og þar á vegg hékk þessi stóri gamli ótengdi frægi “löggusími” og ég var að leika löggu og svaraði: Lögreglan góðan daginn........

ha.... hvað segirðu er búið að drepa hann,...... ja hérna....en heyrðu það er svo mikil ÓFÆRÐ að við komumst ekki inneftir fyrr en eftir viku........

Svo lagði ég bara á......eins og dóni og fór að gera eitthvað annað eins og börn gera svo oft.

Ég átti annan afa sem var líka lögga. Pétur Bald afi minn var sumarlögga 2-3 sumur (og svo margt annað, meira um það seinna)og ég hef séð afa á gamalli ljósmynd hjá Steingrími þar sem hann stendur glæsilegur og glaðlegur í einkennisbúningi og hallar sér bílstjóramegin að opinni hurð á löggubílnum.

Afi Pétur var svo sem enginn kraftakarl, en hann gat talað við fólk í öllu mögulegu ástandi og það er nú sá eiginleiki sem er mikilvægastur í löggæslustarfinu.

 Pétur Bald afi minn og sumarlögga.

AFI.......Varst þú að keyra þennan lögreglubíl ?

Já svaraði hann stoltur.

En afi, þú hefur aldrei haft bílpróf........

Þeir spurðu mig aldrei svaraði afi og hló á sinn einstaka hátt.

Finn ekki þessa ljósmynd.... kannski er hún ekki til....kannski dreymi mig þetta bara .....

Ég er líka lögga í aukavinnu, skrítið hvernig sumt virðið erfast og fara í hringi, líklega er þarna aðdáun af fyrirmyndum sem voru góðar, maður vill líkjast þeim.

Ég hef haft Héraðslögreglu réttindi frá ríkislögreglunni hér í Svíþjóð í 10 ár, á einkennisbúning með öllum græjum inní skápnum þar sem straujboltinn býr. Vinn við löggæslu á knattspyrnuleikjum, hljómleikjum, útihátíðum og fleira skemmtilegt og næ mér í aukaaur til þess að koma heim til Sigló á sumrin. Hef ekki farið neitt annað síðustu 7 árinn.

Slasaðist um helgina, fór úr axlalið, sit heima og skrifa þessa minningarsögu vegna þessa að þegar ég var að vinna á næturklúbbi í Kungälv sem er um 50.000 manna bæjarfélag hér rétt hjá þar sem ég bý varð 19 ára ljúfur drengur sem ég þekki vel, skyndilega alveg snældu vitlaus þegar fyrrverandi kærasta birtist óvænt á sama stað. Ég og félagi minn þurftum að gíma við hann og setja hann í handjárn.

 Sorglegt alltsaman...... kannski drakk hann of mikið og kannski duttu pillur og duft í glasið hjá honum líka...........

Reynd lögga með grátt jólasveinaskegg kom og fór með hann og setti hann í steininn yfir nóttina, drengurinn grét alla leiðina í bílnum, silfurbakurinn sagði líka að kannski verður þetta atvik til þess að hann hugsar sitt ráð um hvernig áfengi og annað breytir hans annars góða karakter.

Áfengi er versta og stærsta eiturlyfið í heiminum, eyðileggur líf ungmenna og leggur heilu fjölskyldurnar í rúst daglega allan ársins hring.

(Elsku mamma....ekki hafa áhyggjur, það er allt i lagi með mig, bara smá aumur,  mér er bara illt þegar ég skrifa orð með a-s-d-f-e-r og T- inn eru verst....
og svo gerist þetta svo ekki oft heldur, KNÚS....... og þúsund kossar)

Nú er ég aftur kominn út á Suðurgötuna og stefni upp götuna, vinka ömmu Nunnu sem stendur á svölunum á Hverfisgötun 27.

Það má nú alls ekki gleyma þessari yndislegu ÖMMU (Helgu Bald) sem sést í þarna lengst til hægri, hún og hennar ást kom seinna þegar Steinunn systir pabba byggði hús við hliðina á ömmu Nunnu.
Þær stofnuðu strax hlutafélagið ÖMMUBÖRN ehf.
(frá vinstri: Siggi Tommi, Siggi Freyrs, Nonni, Helga Freyrs og bakvið stendur Villi frændi, "Vilmundur Sigurðsson" sonur Salbjargar yngstu systur pabba.

Vinka ömmu Pálínu saumakonu sem átti heima í ennþá minna húsi en langamma hinumegin við götuna. Kíki aðeins niður í garðinn hjá Júllu ömmu en það eru enginn börn að leika sér í garðinum hennar núna. Var reyndar aðallega að gá hvort ég sæi nokkuð sæta litla stelpu sem hét Dísa Birgis, ég var svolítið skotinn í henni og “Júlla amma mín” var líka amma hennar.

Annars var ég oft þar í heimsókn með Bóba Þóris æskuvini mínum, syni Þóris sem var sonur Björns á dýpkunarprammanum og Júllu.

Þau systkinin Gunna Gíja, Bóbi og Hemmi heitinn voru fædd jafnþétt og við á árunum 1960-63. Þau áttu um tíma heima í húsinu sem sem langafi Sigurður í Leyningi byggði beint fyrir neðan húsið afa og ömmu.

(Baldvin Einarson í BECO ljósmyndum og frú eiga þetta hús í dag og það var mikil fengur fyrir fjörðinn að fá þau hingað, stofnuðu hér Saga fotografika sjá einnig stutt myndband frá N4: MYNDAVÉLASAFN Á SIGLUFURÐI )

Þau fluttu síðan í eitt af snjóflóðahúsunum svokölluð á Suðurgötunni og fengu á sig 2 flóð. Man eftir mynd af mér og Bóba að moka snjó í fötu inni í stofu eftir eitt af þessum snjóflóðum.

Þau fluttu seinna til Vestmannaeyja og misstu annað hús í eldgosinu 1973. Ótrúlegt........

Ljósmyndari:Steingrímur Kristinsson. 
Snjóflóð sem féll á tvö íbúðarhús við Suðurgötu 76 og 78

Í litlu gulu húsi með grænu taki næst fyrir ofan Júllu ömmu bjó yndislega góð kona, hún var í rauninni amma Bigga, Helga og Balda Ingimar vörubílastjóra og ég lánaði hana stundum sem aukaömmu þegar þeir bræður voru úti að leika sér annarstaðar.

Gunna í Leyningi amma mín knúsaði mig og gaf mér kalda mjólk og nýbakaðar kleinur, hún talaði mjög hratt og mikið..... alltaf, skildi ekki allt.......eitthvað um hvað hann Rabbi Erlends sonur hennar var duglegur að berja húðir.......hann talaði líka hratt og ég skildi hann bara þegar hann söng dægurlög á skólaskemmtunum í Nýja Bíó hjá Oddi Thors.

Stóð þarna á horninu á Suðurgötu og Hverfisgötu og var að spá í hvort ég ætti að kíkja á heimalingana sem voru í garðinum hjá Leifa gamla og hans indælu frú, sem var amma mín sem ég ekki man nafnið á,........en svo mundi ég eftir 5 kallinum í vasanum frá Magga á Ásnum og fór til Vinu í mjólkurbúðinni hinum megin á sama götuhorni. Já hún hét VINA og hún var líka næstum amma mín, var kannski bara of ung fyrir það.

Keypti snúð með súkkulaði og kvaddi.

Mjólkurbúðin við gatnamótin laugarvegur/Suðurgata/Hverfisgata. Hvíta húsið til hægri er húsið hennar ömmu Gunnu í Leyningi.

Geng upp Hverfisgötuna og er orðið svolítið lúinn og svo er ég eitthvað svo saddur líka, Gunni Jör í Jörgensen húsinu kallaði á mig og vildi spila fótbolta við mig þarna á litlu túni fyrir ofan húsið......ég sagði að mér væri illt í maganum og ég yrði að flýta mér heim til ömmu að kúka.

Ef ég hefði verið í betra formi þá hefi ég kíkt til konunnar hans Ása frænda sem var bróðir Mundínu ömmu minnar og fengið mér heitt súkkulaði og jafnvel eitthvað gott líka hjá konunni hans Jóhannesar Löggu og svo hefði ég líklega ef ég hefði haft einhverja matarlyst, komið við hjá Boggu, Hansínu og Eiríksínu en ég fann að mér var líka illt í fætinum eftir nagla helv...uppi í fjárhúsum.

Eiríksína amma mín sat út á tröppum og var að lesa MJÖLNIR úti í sólinni en ég hrópaði bara þegar hún sá mig :

Hæ Eyja amma......ég er að flýta mér.....þarf að kúka.........

Hljóp haltur og skítugur upp fyrir haus og í ónýtum fötum upp tröppurnar hjá ÖMMU NUNNU og byrjaði að há gráta um leið og ég opnaði dyrnar og argaði:

AMMA AMMA........ ÉG STEIG Á NAGLA.


Þegar ég var að skrifa þennan texta var ég að hlusta á Best of: Ellý og Vilhjálmur á Spotify, lét þetta bara rúlla einsog  segulbandið sem rúllaði 24/7 heima hjá ömmu.

Lagið sem ég var að raula þegar ég var að kála gullfiskunum “litla sæta ljúfan góða” söng Vilhjálmur inná plötu með hljómsveit Ingimars Eydal sumarið 1965.

Lagið er auðvitað SÆNSKT og heitir “Fröken fräcken” lag og texti er eftir Thore Skoglund.
SVEN INGVARS gerði þetta lag frægt 1964 og allir svíar kunna þennan texta enn í dag.

Litla sæta ljúfan góða……. með ljósa hárið….. á Youtube hér:

Lag: litla sæta ljúfan góða  

P.s. Mér og ömmu fannst líka gaman að syngja RAMÓNA saman, textinn er svo ótrúlega mikið HÚN, hann byrjar svona:

Bernskunnar vortími ljúfi leið,     
alltof fljótt frá mér    
en ég fagra á,    
minning sem lifir æ hrein og heit............ 

 

og ég saka hennar oft svo ógurlega, er orðinn eitthvað svo........viðkvæmur............., það rennur vökvi úr augunum oft þegar ég heyri þetta lag. Skrítið.......

 Lifið heil 
Nonni Björgvins

Texti: Jón Ólafur Björgvinsson
Myndir: JÓB, og aðrar myndir eru birtar með leyfi frá Steingrími Kristinnsyni, Ljósmyndasafni Siglufjarðar, Salbjörgu Jónsdóttur  og fjölskyldu.

GÖNGUTÚR UM HEIMAHAGA. 4 hluti. Ljósmyndir (50 st) og LEIKIR

GÖNGUTÚR UM HEIMAHAGA. 2 hluti, KONUR

GÖNGUTÚR UM HEIMAHAGA / Stövtåg i hembyggden 1.hluti


Athugasemdir

21.desember 2024

Sk Sigló ehf.

580 Siglufjörður
Netfang: sksiglo(hjá)sksiglo.is
Fylgið okkur á Facebook eða Twitter

Póstlisti

Skráðu netfangið þitt á póstlistan okkur.

Ábendingar

Ertu með ábendingu fyrir síðuna eða góða frétt? Sendu okkur þá póst og við könnum málið.

Sendu póst