GÖNGUTÚR UM HEIMAHAGA. 4 hluti. Ljósmyndir (50 st) og LEIKIR

GÖNGUTÚR UM HEIMAHAGA. 4 hluti. Ljósmyndir (50 st) og LEIKIR Gamlar ljósmyndir eru minningafjársjóðir liðins tíma og þar erum við Siglfirðingar nú

Fréttir

GÖNGUTÚR UM HEIMAHAGA. 4 hluti. Ljósmyndir (50 st) og LEIKIR

Töffarar á Sigló. Ljósmyndari: óþekktur
Töffarar á Sigló. Ljósmyndari: óþekktur

Gamlar ljósmyndir eru minningafjársjóðir liðins tíma og þar erum við Siglfirðingar nú aldeilis velstæðir með Ljósmyndasafn Siglufjarðar sem hægt er að fletta í hér á siglo.is.

Í þessum 4 hluta minninga göngutúrsins er þemað ljósmyndir og ljósmyndaáhugi og LEIKIR barna og fullorðinna í gegnum tíðina.

Á þessum ljósmyndum og í þessum leikjum sést það sem mér finnst oft svo sérstakt og einstætt í rauninni fyrir Siglufjörð, en það er úrvalið og hugmyndflugið sem börnin í bænum hafa þegar kemur að því að finna sér eitthvað til dægrastyttingar í umhverfi sem er ekki með útboð stórborgar á þessu svið. Það er einnig einstætt að sjá svo marga árganga vera að leika sér saman þrátt fyrir yfir 10 ára aldursmun.....allir máttu vera með.

Hinn “siglfirski andi” sem ég hef svo oft nefnt í öðrum greinum hér sést líka í mannvirkjum og fólki, óháð samfélagsstöðu, sem vill skapa sjálfum sér og börnunum sínu hvíld og ánægju í þeim annars litla frítíma sem var til staðar í hörðum vinnandi hversdagsleikanum.

Þessi andi og vilji að leggja á sig ómælda sjálfboðavinnu fyrir íbúa bæjarins og þetta:

“Æ....við gerum þetta bara sjálf”.....ekkert verið að bíða eftir ölmusu eða styrkjum að sunnan.

Þetta er einstætt og merkilegt og þessi andi er til ennþá, þrátt fyrir þróun þar sem allt á að gerast í gegnum atvinnumennsku og sérfræðinga sem vita betur en aðrir.
Vissulega kom mikið af þessari hugmyndafræði með fólki sem flutti í bæinn frá öllum landsins og heimsins hornum. Fáir Siglfirðingar eru “orginal” og innfæddir síðan fleiri hundruð ár til baka, bærinn á bara 100 ára kaupstaðarafmæli næsta ár og  verður þá 2 árum yngri en Nanna Franklín. 

 
Ljósmyndari: sr. Bjarni Þorsteinsson
(Fjölskylda Odds Jóhannssonar bónda og hákarlaskipstjóra á Siglunesi við Siglufjörð. Aftari röð: Sæunn Oddsdóttir húsmóðir á Siglufirði, f. 1895, d. 1938, Oddur Oddsson trésmiður á Siglufirði og í Reykjavík, f. 1894, d. 1981, Jóhann fóstursonur. Fremri röð: Guðrún Ingibjörg Sigurðardóttir húsfreyja, f. 1860, d. 1915, Jón Oddsson bóndi á Siglunesi, f. 1903, d. 1994, Oddur Jónsson f. 1866, d. 1922, Ólöf Oddsdóttir húsfreyja í Lónkoti, f. 1896, d. 1976.) 
Séra Bjarni Þorsteinsson tók myndina árið 1905. Þessi ljósmynd er sem sagt 112 ára gömul.

Vinnuelja sumarsins og sú velmegun sem síldin skapaði sést þarna líka og möguleikarnir að á löngum vetrum gera annað, skemmta sér og skapa listir og líf sem skipti máli fyrir heilsu og vellíðan allra.

Ég sjálfur var svo heppinn að velmegun míns æskuheimilis kom frá hörkuvinnu í síldin og ég er vel meðvitaður um að svona velmegun var ekki til á öllum öðrum heimilum fjarðarins. 

Bara þegar það kemur að ljósmyndum frá minni barnæsku þá er til ótrúlega mikið af myndum, einfaldlega vegna þess að það voru til “myndavélar” og áhugi á ljósmyndun í fjölskyldunni.  Fyrir marga aðra á svipuðum aldri er þetta atriði ekkert sjálfsagt mál, vegna þess að þetta var dýrt hobbý og krafðist tæknikunnáttu/aðstöðu og efnahags sem allir ekki höfðu.

Í ljósmyndasögunni sem byrjar 1839 í Frakklandi er þetta tæknilega erfitt og dýrt lengi vel, ég á ljósmynd í litlu boxi sem er frá ca 1840 – 50 sem er framkölluð á koparplötu með ýmsu eitri eins og t.d “kvikasilfur gufu.” Gerorg Eastman  stofnandi KODAK þróaði framköllun á glerplötur og rétt fyrir aldarmótin 1900 komu fyrstu filmurúllurnar og “ódýrar” myndavélar. En það er samt ekki fyrr en í byrjun 1960 sem “ALLIR” geta tekið myndir og haft efni á að gera þetta sjálfir.

Hér er mynd af 3 st KODAK myndavélum sem loksins gerðu þetta mögulegt, þið kannist örugglega við þessar vélar.....kannski fékkst þú eina svona í fermingargjöf.

Kodak myndavélar, Instamatic 25, 100 og 155

Þessar myndavélar eru úr mínu eigin myndavéla safni, 3 af ca 300 vélum og öðru “analog” dóti sem viðkemur ljósmyndun og hvernig myndir voru notaðar og hvernig maður sýndi ljósmyndir hér áður fyrr. Ég kaupi þetta á kílóaverði á flóamörkuðum og á netinu og eingin virðist hafa áhuga á þessu “nörderíi” nema ég Steingrímur og Baldvin Einarsson.
Er að drepast úr plássleysi í þessari 2 herbergja íbúð sem ég bý í. Veit stundum ekki hvað þetta er eða hvernig þetta var notað, en þá spjalla ég bara við Steingrím á netinu, sendi myndir og spyr. Hann veit allt og er sá tæknivæddasti eldriborgari sem ég þekki.

Hann segir sjálfur: 

ja....., ég byrjaði 10 ára að fikta við þetta og er enn að læra 72 árum seinna.  

Og hvaðan kemur svo þessi della, jú frá fjölskyldu og Steingrími, Júlla Júll, Bjarna Þorgeirs, Kristjáni L Möller og mörgum, mörgum fleirum sem kenndu Róbert Guðfinnssyni kúnstir í Æskó og Robbi kenndi síðan mér og mörgum öðrum seinna á sama stað þegar hann var “ÆSKULÝÐSFULLTRÚI” á síðustu öld.  

Þessi sami Robbi Guðfinns sem var og er með mikinn ljósmyndaáhuga, svo mikinn á sínum tíma að fjölskyldan fékk ekki að fara í bað vegna þess að Robbi var að framkalla í baðkarinu. Steina móðir hans sagði mér þetta í hitteðfyrra.
Hann og Steingrímur (SKSIGLÓ ehf) voru nýlega að gefa Síldarminjasafninu, Ljósmyndasafn Siglufjarðar sem er upprunalega lífsverk Steingríms Kristinssonar  sem og þessi heimasíða þar sem þessi orð eru skrifuð, siglo.is, hét upprunalega sksiglo.is.   

Sjá: SKSigló gefur Síldarminjasafninu Ljósmyndasafn Siglufjarðar 

Það skal tekið fram að allar myndir sem eru birtar hér úr ljósmyndasafninu eru birtar með leyfi og það er mikilvægt að minna fólk á að það er ekki leyfilegt að taka þessar myndir og birta án heimildar á t.d. Facebook. Hafið samband við síldarminjasafnið varðandi kaup eða birtingarleyfi á myndum.

Það er hægt að fletta og setja inn allskyns leitarorð og gjörsamlega tína sjálfum sér i minningum sem streyma til manns þegar maður skoðar þennan ljósmyndafjársjóð og það er svolítið skrítið að geta setið út í Svíþjóð og hreinlega "flytja heim" í huganum. Heim á Sigló...heim í gamlan tíma og minningar. Textinn við margar af myndunum koma líka úr ljósmyndasafninu, upplýsingar frá Steingrími og öðrum sem hafa sent inn upplýsingar og þið þurfið ekkert að senda mér upplýsingar um fólkið á myndunum, þetta er ekki þannig minningar og MYNDAKVÖLD. 

Það er af og frá að halda að þarna séu bara myndir af uppstilltu fólki á ljósmyndastofu Kristfinns Guðjónssonar (faðir Örlygs Síldarsafnsvarðar)
nei hann, Steingrímur og margir aðrir tóku líka ljósmyndir af öllu mögulegu út um allan bæ. Hversdagleika og venjulegu fólki.
Þær myndir sem ég hef valið er bara smá sýnishorn yfir það sem þarna er að finna, þemað í mínu úrvali er ljósmyndaáhugi og LEIKIR.

Og sumar af þessum myndum eru hreinasta SNILLD, eins og t.d þessi hér sem ég fann fyrir slysni. 

 Það voru allir úti að leika nema ODDA, datt mér í hug þegar ég sá þessa skemmtilegu mynd. (kennd við Ingu á Eyrinni) Kynntist þessari yndislegu konu á sundæfingum hjá Sundfélagi Siglufjarðar SS.

En gildi og verðmæti gamalla ljósmynda er ótvírætt, fjölskylda sem missti allt sitt í húsbruna sagði mér að það væri svo sem hægt að kaupa allt nýtt aftur....

”en gömlu ljósmyndaalbúmin eru horfinn og gömlu VHS spólurnar líka, það er það sem við grátum yfir og söknum mest”.

Og við skulum byrja þessa myndasyrpu á því að kíkja niður á Æskulýðsheimili Siglufjarðar sem var eitt af fyrstu alvöru æskulýðsheimilum landsins stofnað (man ekki hvaða ár) rétt á eftir Tónabæ í Reykjavík. 

Þetta veit ég vegna þess að ég á vin sem heitir Árni Guðmundsson og hann er nú í forstöðu fyrir menntun á þessu svið við Háskóla Íslands og hann hefur skrifað bók um tómstundaheimili.

Við erum báðir meðlimir í “Sænsku mafíunni” sem eru íslendingar sem fóru í félagsmálanám hér í Gautaborg í áratugi til þess að sækja sér menntunar á svið viðburðastjórnunar og öllu sem við kemur félagsmálum, frístundum og tómstundum fólks á aldrinum 0-102 ára í borg og bæ.

  ÆSKÓ.  Æskulýðsheimili Siglufjarðar.
Á neðstu hæð var borðtennisherbergi, myrkrakompa og framköllun, á miðhæð samkomusalur, skrifstofa og eldhús, á efstu hæð Skátaheimili.  

(Ég var skáti á tímabili og meira að segja skátaforingi, en ég var svo slæm fyrirmynd að ég var rekin úr skátahreyfingunni, sem betur fer, segi samt stoltur við svíana  þegar þeir spyrja hvað ég gerði þegar ég var kallaður inní herskylduna, þá segi ég: Höfum engan her...en ég hef verið skáti.)

Þess skal til gamans getið að Robbi var alveg meiriháttar æskulýðsfulltrúi og var mjög svo tæknivæddur og tækni kunnugur á allan mögulegan hátt.  Fyrir utan ljósmyndun og framköllun sem hann kenndi okkur þá pantaði hann FM útvarpssenda sem við unglingarnir lóðuðum saman.
þetta var á stærð við eldspýtustokk og við vorum síðan með útvarpssendingar út um allan bæ á kvöldin sem hrein mótmæli við þeim dauða og djöful sem kom úr RÚV 1. Þó að það kæmi fyrir að í þáttunum óskalög sjómanna og óskalög sjúklinga kæmi kannski eitt og eitt nýtt popplag þegar það var ekki verið að spila "sirry byrri bim með karlakórnum Vísir,  þá var þetta ömurleg útvarpsrás fyrir alla yngri en 50 ára.

Já....Karlakórinn Vísir var víst einu sinni stærsta poppband Íslands í bókstaflegri meiningu.

Löggan var víst að reyna að finna okkur en við vorum aldrei á sama stað.

Robbi var líka fyrstur að koma með tölvuspil 1974 eða 75 en það var tölvuleikurinn PONG sem ATARI gaf út 1973.

 Man að mér þótti þessi tölvuleikur vera líkastur göldrum, þetta var svo gaman og það var mikið rifist um að komast að, en Robbi reddaði því og skipulagði biðlista kerfi með tímatöflu og það var síðan alltsaman fjölritað í skrítnu apparati út í eldhúsinu.

Steingrímur að skrifa upplýsingar á "ritvél" um myndir með einum putta og Júlli Júll er að skera ljósmyndir fyrir ljósmyndasýningu í Æskó.

P.s. Ljósmyndaklúbbur Fjallabyggðar verður bráðlega með páskasýningu í Bláa húsinu.

Nonni Björgvins í framköllunarherberginu í Æskó. Ljósmyndari er Jökull Gunnarsson vinur minn, við eyddum mörgum mörgum tímum þarna. Jökull var miklu betri ljósmyndari en ég og miklu betri skátaforingi líka.

Sumir voru ekki háir í loftinu þegar þeir byrjuðu að framkalla.

Hebbi málari að mála auglýsingatexta á Ljósmyndastofu Kristfinns Guðjónssonar sem var á horninu á Eyrargötu og Grundargötu og Kristfinnur gefur sér tíma til að mynda starfsfólkið sitt.

Máttur ljósmynda getur verið stór, það eru til ljósmyndir sem hafa breytt heiminum eins og t.d sú sterka stríðsfréttamynd af lítilli illa brenndri stúlku í Víetnam stríðinu sem kemur hlaupandi á vegi með fullt af hermönnum og í bakgrunninum sést rjúkandi þorpið hennar sem Ameríkarnir voru nýbúnir að bomba með nepal sprengjum. Ég vara ykkur við, þetta er hræðileg ljósmynd en hún breytti hugafari fólks um allan heim um hvað þetta stríð fjallaði og hverjir þjáðust mest.
 sjá: news pictures that changed the world

Það getur líka verið skrítið hvernig maður bregst við í kroppnum þegar maður minnist einhvers eða sér mynd sem vekur upp sterkar tilfinningar eins og gleði, sorg og söknuð. Mér brá svolítið í gær þegar ég var að kíkja á gamlar slidesmyndir og annað sem pabbi hafi skannað inn úr sínu safni, ég hafi síðan tekið þessar myndir og lagað og lagfært í tölvuprógrammi og síðan voru þær settar upp í stafrænt fjölskyldualbúm á ICloud þar sem allir í fjölskyldunni geta séð þessar myndir og haft þessar minningar í vasanum alla daga.
Margir muna eflaust eftir að hafa haft löng slidesmyndakvöld með foreldrum sínum, núna getur maður haft slidsemyndakvöld með Appel Tv-inu sínu þegar maður vill án þess að þurfa að raða römmum og setja upp tjald.

Mér brá svo mikið af því að ég finn allt í einu mynd frá jólum á Hverfisgötu 27 og þar sé ég afa Nonna með Ronson kveikjara í hendinni sem hann fékk í jólagjöf fyrir hálfri öld, kveikjarann sem ég lánaði og síða notaði til að kveikja í jólapappír og jólakössum niðri í geymslu.

 Ljósmyndari: Salbjörg Jónsdóttir, myndin er líklega tekin á Kodak Instamatic 100 eða 155
Jól á Hverfisgötu 27, 1965 eða 1966, það sést í kollinn á kveikjaraþjófinum í bakgrunninum 

Lánaði” rosalega fínan silfurlitaðan Ronsson kveikjara sem afi Nonni fékk í jólagjöf, læddist út og fór niður í geymsluna undir tröppunum og kveikti í stórum haug af  pappakössum og jólapappír sem fylltu hálfa geymsluna.

Stóð svo þarna í eldhafi og reyk, stjarfur af hræðslu og gáttaður á því hvað maður gat gert með þessum flotta Ronsson kveikjara þegar faðir minn og afi hentu sér í sparfötunum inn í reyk og sót og mér var kastað út og ég lenti mjúkt í snjóskafli fyrir utan hurðina. Lá ekki lengi þar því amma Nunna kom og tók blessaðan drenginn sinn í fangið og við fylgdust með þegar feðgarnir slökktu eldinn og komu svo út öskureiðir í ónýtum sparfötum. 
Afi ætlaði eitthvað að fara að skamma drenginn sem hélt ennþá á kveikjaranum flotta, en hún Unnur Möller hélt nú annað og hvessti augun á afa og sagði: “Jón Ólafur, hverskonar fíflagangur er þetta eiginlega að lána barninu kveikjara” , svo strunsaði hún bara framhjá þessum sótugu feðgum og fór með mig inn, þreif mig allan hátt og lágt og gaf mér heitt súkkulaði með rjóma.
 
Ég þurfti sko enga áfallahjálp, ég hafði ömmu Nunnu.

Þessi saga var með í Þrettándagspistill 2016 

VETRARLEIKIR


 Snjóboltastríð á Suðurgötunni.

 Hoppað af Símstöðinni/pósthúsinu/loftskeytastöðin sem er verið að byggja við Aðalgötuna.

 Stokkið niður af Mjölhúsinu og lýsistanka  sem var mjög hár, fæ stundum martraðir þegar ég hugsa til þess að þarna undir snjónum við tankann var bárujárns girðing og fullt af brotajárni. 
"Það þurfti líka alltaf einhvergir að vera tilbúnir að grafa mann upp, því maður hvarf gjörsamlega og sat fastur við lendingu eins og maður hafi orðið undir snjóflóði."

 leikur á ísjökum

 Ísjakar og kæjakar við Öldubrjótinn.
(Þessi frotti rauði kæjaki sem er þarna hafa þessir norðurbæjarguttar örugglega stolið frá okkur í suðurbænum)

 Safnað í brennur, farið í brennustríð, ljósin og ártalið í skálinni og skíðað með kyndla. Þarna við ártalið var líka "skíðalyfta" (Vír) með upplýstri brekku. Ljósabrautin.

 Ljósmyndari: Guðný Ósk Friðriksdóttir, Ljósadýrðin í Hólshyrnunni er frá skíðalyftunni sem var staðsett fram á Hóli, síðar var hún flutt í Skarðið, "vegna snjóflóðahættu."

Þessi skíðalyfta var nú reyndar sett upp TVISVAR fram á Hóli og ég sem skíðaáhugamaður eins og svo margir margir aðrir tók ég þátt í að hjálpa til við að t.d. grafa fyrir og bera dót í undirstöður fyrir möstrin. Fyrst var lyftan of sunnarlega og þá fóru efstu möstrin á KAF í snjó og svo var hún sett of norðarlega og fór að lokum í stóru snjóflóði, stóru stál möstrin lytu út eins og mjúkur lakkrís í flækju eftir þetta flóð.

Þegar hún var flutt með mikilli fyrirhöfn norðar vorum við félagar aftur þarna í sömu erindagjörðum á fallegum vordegi þegar snjóa hafi létt nokkuð, sól og blíða og við berir að ofan.
Í einni pásunni erum við að fíflast eitthvað og mönum einn ÓNEFNDAN skólafélaga út í að hlaupa nakin á stígvélum upp að efsta mastri og niður aftur, hann átti víst að fá eina brennivínsflösku fyrir þetta. (við vorum reyndar bara 15 vetra)

En á miðri leið mætti hann MÖMMU sinni, ................sem var þarna á gönguskíðum í vorblíðunni.

 Ljósmyndari: Haraldur Sigurðsson. Skíðaskáli Nýja félagsins og var hann norðan og ofan við Steinaflati, en seinna sameinaðist Nýja og Gamla félagið í Skíðafélagið Skíðaborg Siglufirði, SSS.
Óskar Sveinsson teiknaði húsið, og var byggt af sjálfboðaliðum þ.m. Helga Sveinssyni og fl. Talið er að húsið hafi fokið og eyðilagst af þeim sökum.

SUMARLEIKIR OG LEIKFIMI !

 Þessi ljósmynd er dásamleg og hún sýnir virkilega hversu gott ljósmyndaraauga hann Kristfinnur var með. Minnir mig á heræfingarmyndir frá Austur-þýskalandi.
Helgi Sveins stjórnar sínum leikfimisher á 17 júní hátíð við barnaskólann.

En þetta hernaðarleikfimisform er auðvitað ættað frá Svíþjóð eins og allt annað sem er hollt fyrir almenning sem veit ekki sitt eigið besta.

Þetta er sprottið úr hugmyndafræði sem er almennt kölluð LING-gymnastik, smá fræðslu innskott bara.
Sjá meira hér: Pehr Henrik Ling (1776–1839)

 Hoppað í sundlaug.......ímynda mér að þetta sé kannski REGÍNA Guðlaugsdóttir sem var mér mikil fyrirmynd sem leikfimiskennari og sundþjálfari. Ótrúleg og dásamleg kona. Skrifaði ritgerð í háskólanum hér í Gautaborg þar sem ég minnist hennar, Palla Helga og Sigurjóns Erlends sem stærstu fyrirmyndir mínar á sviði kennslu og þjálfunar.

 
Gamla útisundlaugin suður við Langeyri, ég hef "baðað" þarna sjálfur í rústunum eftir þessa laug einhvern tímann þegar við vorum að leika okkur við gömlu nótabátana sem stóðu á hvolfi suður á Langeyri.

"Þeir voru seinna notaðir í ÁRAMÓTABRENNUR, Örlygur grét um öll áramót í fleiri ár."

 Fullorðið fólk að leika sér í reiptog á Malarvellinum á sjómannadaginn eða á 17 júní. Hlíðarvegurinn og "Bretatúnið" í bakgrunninum.

BRYGGJULEIKIR

 Margar kynslóðir Siglfirska sjónmanna hafa byrjað sinn starfsferil sem bryggjudorgarar.

 Man þann tíma þegar við guttarnir fórum niður á Ríkisbryggju og veiddum þorsk og ufsa í hjólbörur og svo fórum við í PAUL bræðsluna og seldum aflann og fengu aur til að kaupa okkur Thoraís á Bíóbarnum.

 Sjókaðallinn frægi. Það voru líka kaðlar á tönkunum þarna í bakgrunninum.

 Löndunarkraninn frægi sem sjókaðallinn hékk í og "Drullupramminn" Bjössa Þórðar og Johansens liggur við bryggju.

LEIKSKÁLAR

 Ljósmyndari: Kristfinnur Guðjónsson. Leikskálar Siglufirði. Kvenfélagið Von byggði sem barnaheimili og var það eingöngu opið á sumrin, líklega þegar síldarvertíðin var í fullum gangi og konur fóru í síldarsöltun. Árið 1973 eyðilagðist húsið í snjóflóði.

Ég var 11 ára gamall þegar þetta snjóflóð féll og þetta flóð tók ekki bara með sér "æsku minnar drauma hús" heldur líka hænsahúsið hans Óskars, og við guttarnir vorum settir í það þarfa verk að tína upp stórslasaðar hænur í strigapoka sem hlupu blóðugar í hvítum snjónum út um allt tún.

 Og auðvitað tók Steingrímur myndir af mér þegar við vorum að safna upp slösuðum hænum.

Man einnig eftir því að ég og nokkrur önnur glæpabörn sem vorum geymd þarna tókum einn daginn öll bíldekkin sem voru til þarna sem leikföng og létum þau rúlla niður stíginn samtímis og beint á rautt stórt hlið sem var þarna niðurfrá og brutum það í spað og flúðum síðan allir eins og stríðsfangar suður að Steinaflötum, fóstrunum til mikillar armæðu og vandræða.

 Danssýning á pallinum sunnan við Leiksskála. Heiðar Ástvalds er líklega þessi í miðjunni og hann er að stjórna þessari danssýningu.

 leikskálarútan við bifreiðastöðina á Torginu.

"Nú erum við á leiðinni heim.....volley.... volley ...veyj..

og mamma bíður á torginu........

....volley.... volley ...veyj.."

 ljósmynd: Steingrímur Kristinsson. Barnagarðarútan

 Og svona voru fullorðin börn bæjarins flutt til og frá vinnu.

LEIKFÉLAG

 Afi Pétur Bald og Þuríður hans Hafliða Guðmunds kennara á góðri stund á leikæfingu í sjómannaheimilinu.

 Gamla Sjómannaheimilið sem var á milli "Pokahallarinnar" og Prentsmiðju Siglufjarðar við Suðurgötuna. Þar var leikfélagið með æfingaraðstöðu og minni leiksýningar.

 Sviðið í Sjómannaheimilinu ?? var eiginlega altari eða er þetta HERHÚSIÐ ? líklega..... en það var greinilega fín sviðsmynd fyrir Íslandsklukkuna hans laxness, Jesús horfir á og er eins og negldur við vegginn, þetta var svo spennandi leikrit.


Nýja Bíó og leikir sóttir úr kvikmyndum.

 Í bíóhúsinu voru allar stærri leiksýningar haldnar. Ég veit ekki hvað er verið að gera við takið á þessari gömlu mynd. kannski verið að sleppa út hænum og moka út hænsnaskít, en mér var einu sinni sagt að þarna á loftinu í bíóinu hefði gamli Thorsarinn verið með hænsnabú yfir hausnum á kvikmyndahúsagestunum sínum.

En það er sagt að þessi ótrúlegi skörungur og framfaramaður hefði í rauninni verið læknir, en honum fannst það svo leiðinlegt að hann var bara í allskonar bissness með sonum sínum út um allan bæ í áratugi. 
P.s. Þetta var lengi stærsta kvikmyndahús Íslands (tók yfir 300 manns í sæti) allt fram að þeim tíma sem Stjörnubíó var byggt í Reykjavík.

Allir sem ólust upp á Sigló muna hvað það var gaman að fara í bíó, það voru minnst 3 sýningar á viku og sérstakar barnasýningar á sunnudögum. Þar var stappað í gólfið og hrópað á Tarzan og Roj Rogers: “Passaðu þig, hann er með byssu á bakvið þig..........”

Dásamleg upplifun að fá 25 kr seðil hjá mömmu og pabba og fara í barnabíó kl 15.00 eftir góða sunnudagssteik í hádeginu og smá hvíld eftir barna samkomuna í ZÍON.
Eftir bíó fór maður kannski á stúkufund eða bara í ÆSKÓ.

 Bíóbarinn

Mér barst merkilegt fróðleikskorn um myndina af Nýja Bíó frá meistara Steingrími Kristinssyni:

"Myndina tók Óli Tór af húsinu skömmu eftir að kviknað hafði í húsinu sunnudaginn 28. Júní árið 1936 – Myndin sýnir húsið eftir þann bruna Myndin sem hér fylgir er af filmuramma sem ég fann fyrir tilviljun mörgum árum síðar (1948-9) þegar ég var að þrífa sýningarvélina sem var í notkun þetta örlagaríka kvöld.

En Tóri keypti nýjar og fullkomnari sýningarvélar árið 1946 og var búinn að selja gömlu vélarnar til Raufarhafnar og ég (12-13 ár) látinn taka þær í sundur, yfirfara og þrífa þær og mála síðan. Í rammahaldaranum, þar sem ljósop sýningarvélarinnar var, datt út þessi litli bútur sem sést á meðfylgjandi mynd. 
Bíó- myndina “Quo Vadis” sem spannaði valdatíð Neró keisara, illsku hans og ólifnað.

Myndin sem gerð var árið 1924 og var ekki hljóðmynd, heldur kom upp á milli atriða á sýningartjaldinu svartur flötur með hvítum texta sem lýsti tali persóna og lýsingu á atburðarás. Atriðið sem verið var að lýsa með textanum á meðfylgjandi mynd voru köllin sem komu frá fólkinu sem lagt hafði eld að borginni, “RÓM” sem sagan segir að hafi nánast brunnið til kaldra kola.

„Död over Nero! Död over Brandstifteren!“

Og þá kviknað í filmunni sem olli brunanum, þessi litli filmubútur var það eina brennanlega sem eftir varð í sýningarklefanum, fastur inni í viðkomandi ramma."


Steingrímur segir einnig að:
"Pabbi byrjaði hjá Tóra og Nýja Bíó sem krakki, hóf að sýna 14-15 ára og stundaði það til dauðadags. Ég lærði að sýna 11-12 ára á gömlu vélarnar og síðan á þær nýju árið 1947 og ég hætti að sýna 50 árum síðar, eftir að ég, fjölskylda mín sem áttum Nýja Bíó í 13 ár og alvöru bíósýningum var lokið á Siglufirði, þegar við seldum húsið Nýja Bíó á Siglufirði sem Tóri lét byggja og tók í notkun árið 1924."

 Hinrik Thorarensen barnalæknir, byggði húsið Nýja Bíó 1924 og rak það í upphafi.

Smá syndarjátning frá mér um glæpamennsku:  Ég og einn séður æskufélagi sem er virðulegur heiðarlegur maður í dag fundum uppá aðferð til að geta farið oft og ódýrara í Bíó. Við keyptum fullt af “bleikum barnasýningarmiðum” og lögðum þá í klór og fengum þá hvíta miða sem giltu á allar fullorðinssýningar hjá Oddi og Guðrúnu.

 KOFA OG KÆJAKABYGGINGA LEIKIR 

 Þarna eru krakkarnir búnir að byggja heilt "RAÐHÚS" en það er sumar svo kæjakarnir eru út í fjöru, þið eruð búinn að fá að sjá kajakamynd svo þið fáið ekki fleiri.
P.s. Það var nú reyndar frekar óvanalegt með kajakatúra á verturnar.
(En það bjuggu reyndar margir eskimóar í Norðurbænum sem lá á annarri breiddargráðu á þessum árum.)

Dagar og björt sumarkvöld hurfu í barnæsku minni og margra annarra í þessa smíðaleiki og heimstyrjaldir uppi í fjalli þar sem hart var barist á milli t.d. Villó, Húna og Brekkugutta. Við vorum samt alltaf vinir þegar við hittumst á Eyrinni sem var hlutlaust land eins og Sviss.

HEIMALEIKIR og sjónvarp

 Árni Geir, Siggi Tómi (hann hét það líka stundum) og Siggi Freyrs að spila FIFA PRO 1972 fótboltaspil á gulu "sommernælonteppi" í stofunni heima á Hafnartúni 6.

Maður gat brennt sig illa þegar maður spilaði knattspyrnu, handbolta eða íshokkí á þessu teppi.

Man að það var mikið spiluð allskyns spil og farið í leiki, þegar svart/hvíta sjónvarpið kom 1969 minnir mig minkaði þetta eitthvað en ekki mikið. 
Ég og bróðir minn héldum áfram að pissa í kross og þá sérstaklega í auglýsingapásunum þegar var verið að sýna franska draugaþætti sem hétu "Bel fy gor"  Vorum svo hrikalega myrkfælnir, leiddumst inná klósett og pissuðum bróðurlega í kross í fleiri ár.

DANS-LEIKUR

 Dansleikur á Hótel Höfn 70 og eitthvað, hljómsveitin Gautar leikur fyrir dansi. Þessi sem er svo glaður með hendurnar  uppí loftið var að gifta sig um daginn, hann er frændi minn og er kallaður Friggi Guggu.

Á þessum 5-6 ára tímabili sem ég stundaði dansleiki á Sigló og víða um sveitir norðurlands  var ég með vaxtarverki og ógurlegar hormóna truflanir og ekki bætti úr skák þegar Bakkus bauð upp í dans á flöskuböllum á hótel Höfn og talandi um dans þá á ég Dansskóla Heiðars Ástvalds mikið að þakka.

Þarna varð maður að dansa skottís við ömmu sína og tjútta við mömmu og dansa diskó við stelpur á öllum aldri. Það var svo gaman að dansa að ég fór oftast edrú heim, takk fyrir það Heiðar Ástvaldsson.

 Heiðar Ástvaldsson Danskennari.

Þetta voru skrítnir tímar þar sem 16 ára börn máttu fara á böll og kaupa límonaði í könnu á barnum til að blanda í áfengið sem var í flösku undir borði.

En einhvern veginn komst maður heill út úr þessu eilífa gelgjuskeiði, þökk sé góðu fólki í þessum fallega firði sem tók í eyrað á manni þegar maður gekk of langt. 

Minn aðal "danspartner" til fjölda ára var hún Alla Sigga vinkona mín, (  Aðalheiður Eysteinsdóttir, listakona og snillingur ) þegar við vorum bæði í skóla fyrir sunnan og hún bjó þá hjá ÖMMU FRÍÐU í kjallaraíbúð við hverfisgötuna í Reykjavík þá var ekki langt fyrir okkur að labba upp í Brautarholt í Dansskóla Heiðars Ásvalds, þar sem við 17 og 18 ára gömul skráðum okkur í samkvæmisdansnámskeið, hrikalega gaman þrátt fyrir að öll hin pörin voru 60 plús. 

Það var mikil fengur fyrir Fjallabyggð þegar að Alla Sigga keypti gamla Alþýðuhúsið þar sem ég og hún fórum í dansskóla  á hverju ári frá því að við vorum 6 ára gömul. Man að þegar ég var að hjálpa Öllu að mála húsið þá töluðum við um að hún yrði bara að hafa svona risastóra spegla á einum vegg eins og voru í Brautarholtinu hjá Heiðari. Sumarið eftir dönsuðum við og "bömpuðum"  heila nótt fyrir framan speglavegg með diskókúlu í sambandi við 70 ára afmæli Abbýar móður hennar. 

And I love to dance.......but my baby..... 
 Danshópur sem ég var einu sinni með í 1977 eða 1978. Myndin er tekin í tískuvöruversluninni Álfhól sem var styrktaraðili fyrir þennan hóp.
Ljósmyndari: Líklega, Karl Eskil Pálsson eða Róbert Guðfinnsson


Mér finnst það passa að enda þennan 4 hluta minninga göngutúrsins á þessu skemmtilega lagi sem ég náði þó að læra þann stutta tíma sem mér var leyft að vera með í skátunum.....það er að koma VOR á Sigló, alla vegana eru komnir upp krókusar í garðinum hjá Ásdísi Gunnlaugs á Laugarvegi 22 en það er nú reyndar enginn venjulegur garður eða hús og þaðan koma margar "hættulegar minningar" frá leik við æskuvin minn hann Jóa Budda og fl.

......... eða bíddu nú aðeins......er þetta kannski gamalt kommúnistalag sem Óskar Gariballdar kenndi mér eða var það Jói Möller ömmubróðir minn sem kenndi mér að syngja þetta á kratafundi í Borgarkaffi ?????

Erfitt þegar minnið svíkur mann svona.........

Vertu til
er vorið kallar á þig,
vertu til
að leggja hönd á plóg.
Komdu út
því að sólskinið vill sjá þig
sveifla haka
og rækta nýjan skóg,
sveifla haka
og rækta nýjan skóg.

Tryggvi Þorsteinsson / Rússneskt þjóðlag 

Lifið heil 
Nonni Björgvins

Texti: Jón Ólafur Björgvinsson
Myndir: JÓB, og aðrar myndir eru birtar með leyfi frá Steingrími Kristinnsyni, Ljósmyndasafni Siglufjarðar, Salbjörgu Jónsdóttur , fjölskyldu og fleirum.
P.s. Ég tók mér það bessaleyfi að " laga og tjúnna aðeins upp " flestar af myndunum svo að þær  geri sig betur við birtingu á skjá. 

GÖNGUTÚR UM HEIMAHAGA / Stövtåg i hembyggden 1.hluti

GÖNGUTÚR UM HEIMAHAGA. 2 hluti, KONUR

GÖNGUTÚR UM HEIMAHAGA. 3 hluti, ÖMMUR


Athugasemdir

21.janúar 2025

Sk Sigló ehf.

580 Siglufjörður
Netfang: sksiglo(hjá)sksiglo.is
Fylgið okkur á Facebook eða Twitter

Póstlisti

Skráðu netfangið þitt á póstlistan okkur.

Ábendingar

Ertu með ábendingu fyrir síðuna eða góða frétt? Sendu okkur þá póst og við könnum málið.

Sendu póst