Sjónvarp "allra" landsmanna og kosningavakan 2014

Sjónvarp "allra" landsmanna og kosningavakan 2014 Ég hefi oft efast um að ríkissjónvarpið, RUV sé af þulum þess ekki meðvitað að Reykjavík og nágrenni er

Fréttir

Sjónvarp "allra" landsmanna og kosningavakan 2014

Ég hefi oft efast um að ríkissjónvarpið, RUV sé af þulum þess ekki meðvitað að Reykjavík og nágrenni er ekki nafli alheimsins og að það séu til fleiri staðir á landinu okkar en áðurnefnt svæði.
Tilefni þessa skrifa minna eru að mér fannst nýafstaðið kosningasjónvarp R.U.V. ákaflega lélegt.

Ég gæti talið upp nokkrar ástæður vegna þess mats míns. 
En ætla að nefna: Hver var tilgangur stjórnanda að kalla saman forustumenn flokkana í Reykjavík strax eftir að fyrstu tölur þaðan loksins bárust ? Ætluðust þeir virkilega til að þeir spekingar gætu talað um þá niðurstöðu af einhverju viti ? Það kom greinilega í ljós, jafnvel eftir næstu tölur frá talningarmönnum Reykjavíkur að umræðan var ekki til annars en að brosa og hrista höfuðið jafnhliða, tölurnar gáfu ákaflega litla vísbendingu um það sem svo varð raunin. 
Eftir þriðju tölur þaðan hefði verið raunhæft að ræða við þessa herra. Á meðan var þessum tíma eytt í óþarfa, það hefði mátt kynna önnur úrslit betur svo ekki sé talað um tölur frá smæstu sveitarfélögunum sem RÚV sleppti í sumum tilfellum amk. fram að 01:30 eftir miðnættið. 

Þeir hjá RUV eyddu löngum tíma í fyrrverandi borgarstjóra með löngu og algjörlega óþörfu viðtali á sama tíma og talnaflóð hafði borist frá mörgum sveitarfélögum en ekki var hirt um að birta. 
Jón Gnarr er dáður leikari, það hefur hann fyrir löngu sannað bæði í leikþáttum sjónvarpsmiðla og í borgarstjórn. 
Ég dái Jón Gnarr sem leikara, sérstaklega hinni frábæru frammistöðu hans í Næturvaktinni og þeim  þáttum öllum þar á eftir, en þarna í kosningasjónvarpi átti hann ekki heima, allir þekktu það sem reynt var að segja í þessu "viðtali".

Ég skrapp yfir á netmiðlana eftir að hafa gefist upp á RUV, það voru www.mbl  og www.visir.is 
Ekki veit ég hvaðan þeir fengu sínar upplýsingar, en fljótt á litið virtist mér efnið þar vera afritað frá hinum takmörkuðu upplýsingum sem finna mátti á vef RUV svo að ég gafst upp og fór að sofa.

Svo var eitt sem stjórnendur RUV kosningasjónvarps og fleiri fjölmiðlar virðast ekki hafa vitað, það var að Samfylkingin bauð EKKI fram í Fjallabyggð, þar voru Jafnaðarmenn í framboði, óformlegir fyrrverandi (og núverandi) meðlimir Samfylkingarinnar, Vinstri grænna og fleiri sem komu sér saman um að fara í framboð undir nafninu Jafnaðarmenn. 
Ekki á flokkspólitískum forsendum heldur í von um að geta gert byggðalagi sínu gagn með framboðinu. Svo var mér að minnsta kosti sagt og fullyrt og lesa mátti einnig um í bæklingum þeirra.

Þessi kosningadagskrá RUV fannst mér vera lélegasta kosningasjónvarp sem ég hefi fylgst með á tímabili síðustu 40 ára. Þrátt fyrir hinar gífurlegu tæknilegu framfarir. Bilun á vef þeirra var ófyrirsjáanlegt eins og öll mannanna verk og ástæðulaust að skammast yfir því, en ég saknaði þess að hafa ekki getað farið yfir á Stöð 2 og séð þar kosningasjónvarp eins og undanfarin kosningatímabil.

Ég nefndi hér í upphafi að ég hefði oft efast um að þulum RÚV séu meðvitaðir að RUV í Reykjavík sé ekki bara fyrir Reykvíkinga heldur hlusti og horfi flestir landsmenn á dagskrárnar, sérstaklega fréttirnar. 
En oft bregður því við til dæmis, að þegar kemur að veðurfregnum þá spyr fréttaþulurinn veðurþulinn að því hvort ekki fari að hætta að rigna. Ekki telur fréttaþulurinn ástæðu til að spyrja hvort ekki fari að hætta að rigna í Reykjavík, nei það hlýtur að hafa rignt allstaðar annarsstaðar fyrst að það rigndi í Reykjavík ???? Svona er einnig algengt á Stöð 2 - Sumir veðurþulirnir leiðrétta þetta með því að nefna veðurástand annarsstaðar á landinu, en sleppa því þó stundum í svari sínu og segja "Nei það má búast við áframhaldandi rigningu" 
Mörg álíka dæmi hafa komið upp hjá fréttamiðlum, alltof oft. Þetta finnst sumum örugglega vera tittlingaskítur, en svona er þetta þó.

Í framhaldi af þessum skrifum mínum væri athugandi fyrir smærri sveitarfélög á landinu að taka sig saman um að koma upp Landsbyggðar kosningasjónvarpi þegar næst verður kosið til bæjastjórna og lofa fólkinu á RUV að vera í friði með sín áhugamál, fáráðlega niðurröðun á efnisvali og enn fáráðlegri viðtölum.  

Að lokum. Við í Fjallabyggð erum það heppin að hér er staðsett lifandi útvarpsstöð sem og heldur einnig úti netmiðli útvarpinu tengt. 
Þessir áhugasömu aðilar ættu að kanna hvort ekki væri hægt að komast að samkomulagi við kjörstjórn fyrir næstu bæjarstjórnarkosningar að koma á samstarfi þar á milli og birta "nýjar tölur og úrslit, tölur með stuttu millibili á Úrvarp Trölla og www.trolli.is. 
Þá  þyrftum við ekki að bíða eftir sérhagsmunastefnu R.U.V. hvað talningarupplýsingar varðar og þær upplýsingar yrðu þá frá hinum raunverulega "nafla alheimsins," mönnum og málefnum sem við þekkjum.

Steingrímur Kristinsson 210234-4549
80 ára gamall kjósandi frá Siglufirði, sem kaus engan lista (
setti hvergi X framan við bókstaf) en setti þó númer framan við nöfn sem hann þekkti og treysti.

Hér er vefur sem Steingrímur heldur úti  : sk21.is 
Og hér má nálgast greinina á heimasíðu höfundar.  


Athugasemdir

21.nóvember 2024

Sk Sigló ehf.

580 Siglufjörður
Netfang: sksiglo(hjá)sksiglo.is
Fylgið okkur á Facebook eða Twitter

Póstlisti

Skráðu netfangið þitt á póstlistan okkur.

Ábendingar

Ertu með ábendingu fyrir síðuna eða góða frétt? Sendu okkur þá póst og við könnum málið.

Sendu póst